fimmtudagur, 26. maí 2011

Upptaka sparifjár launamanna á almennum vinnumarkaði

Ég hef oft bent á þá gríðarlegu mismunum sem stjórnmálamenn gera á opinberum launamönnum og launamönnum á almennum markaði. Stefnan virðist vera sú að launamenn á almennum vinnumarkaði séu annars flokks þjóðfélagsþegnar. Þetta kemur víða fram núna ný verið í frumvarpi Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, um aðgerðir í ríkisfjármálum um sérstaka vaxtaniðurgreiðslu vegna skuldavanda heimila. Þar sem senda á tæplega 2 MIA reikning til lífeyrisþega á almennum vinnumarkaði.

Samskonar tillögur komu nýlega fram hjá nokkrum þingmönnum þar sem þeir leggja til að raunvextir verði lækkaðir á gildandi lánum með handafli og beinlínis nefnt að tiltekin vaxtaprósenta sé á við 20% lækkun höfuðstóls skuldarinnar. Ég hef margoft bent á það í pistlum að skuldir hverfa ekki heldur aðeins færast til. Þingmennirnir leggja til að ellilífeyrir launamanna á almennum vinnumarkaði verði lækkaður um milljarðatugi á hverju ári. Þetta er eignupptaka á sparifé launamanna á almennum vinnumarkaði.

Í nýlegri umsögn Viðskiptaráðs er bent á að í 9. grein skattabandormsins sem fjallar um skattlagningu lífeyrisssjóða sé um grófa tvísköttun að ræða. Þetta er nýr skattur sem er ekki í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við gerð þá kjarasamninga sem verið var að afgreiða í gær. Skatturinn er í mótsögn við þau markmið að standa vörð um getu sjóðanna til útgreiðslu.

2 ummæli:

Sverrir sagði...

Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hefðu orðið stoltir af þessu handbragði ríkisstjórnarinnar. Þeir fóstbræður skömmtuðu sér ríflega af eftirlaunum og fríðindum upp úr vösum launafólks.

Ríkisstjórn svokallaðra jafnaðarmanna rennur í slóðina og heggur í sama knérunn og fyrrnefndir afglapar.

Rúnar Bachmann sagði...

Líeyrissjóðirnir geta ekki verið skattgreiðendur, vegna þess að þeir eiga ekki það fé sem þeir varðveita. Inneignir í lífeyrissjóðum eru eign þeirra sem þar hafa lagt inn, hvort sem er í sameign eða séreign. Áform um skattlagningu á lífeyrissjóði er ódulbúið rán á sparifé þeirra sem eru nægjanlega skattpíndir nú þegar. Stendur til að seilast með sama hætti í sparifé í bönkum, eða undir koddana hjá þeim sem eingum treysta fyrir geymslu þess ? Eða ef til vill í hlutdeild í húseignum þeirra sem kjósa að vaðveita fjármuni sína í þeim ?
Rúnar Bachmann