laugardagur, 10. mars 2012

Baráttan um völdin

Ég skrifaði þessa grein fyrir norskt blað og hún birtist þar nú um helgina.

Ráðandi öfl í samfélögum berjast ætíð gegn því að þjóðin taki ákvarðanir í þjóðaratkvæðagreiðslum. Hin ráðandi stétt vill ekki glata völdum til almennings í beinu lýðræði. Íslenskt samfélag hefur endurtekið lamast af innbyrðis deilum og stjórnkerfi landsins er í fjötrum sérhagsmuna. Umræðan einkennist af fámenni þjóðarinnar, skyldleika og persónulegum vinaböndum.

Árangurlaust hafa verið gerðar tilraunir allt frá lýðveldisstofnun árið 1944 til þess fá nýja stjórnarskrá. Lýðveldisstjórnarskráin er í samræmi við stjórnarskrá konungsríkisins Íslands frá árinu 1920 endurspeglar konungsríkið Danmörku eins og það var í byrjun síðustu aldar. Í skjóli þessa hefur þróast mikið ráðherraræði á Íslandi stutt af háttsettum embættismönnum tengdum sérhagsmunahópum. Aðallega úr landbúnaði og sjávarútvegi. Alþingi samþykkti í kjölfar Hrunsins að kröfu almennings í búsáhaldabyltingunni að samið yrði frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Margir vonuðust til þess að eitt af hinu góða sem hlytist af Hruninu væri að íslendingar gætu talað saman á heiðarlegan og opinskáan hátt.

Samþykkt var að kalla saman 1.000 einstaklinga úr samfélaginu með slembiúrtaki á þjóðfund. Þjóðfundurinn dró saman áherslu atriði sem íslenskur almenningur vildi fá inn í nýja stjórnarskrá. Niðurstöður þjóðfundarins voru síðan sendar stjórnlaganefnd skipaðir af 7 sérfræðingum. Hún vann gott starf og skilaði inn 600 bls. skýrslu með tveim stjórnarskrártillögum. Þá var efnt til almennra kosninga um Stjórnlagaþing þar sem 25 manns áttu að sitja, 530 einstaklinga gáfu kost á sér. Valdastéttin fór hamförum gegn kosningunum og latti fólk til þess að mæta, en þrátt fyrir það mættu um 36% þjóðarinnar á kjörstað og kusu 25 einstaklinga þeir komu víða að úr samfélaginu og viðurkennt að mjög vel hefði tekist til.

Þessi hópur skipaði stjórnlagaráð sem vann í 4 mánuði í samstarfi við þjóðina á opnum fundum og í gegnum netið. Farið var yfir framkomnar tillögur og ráðið skilaði af sér frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Stefnt er að því að samfara því þegar kosið verði um nýjan forseta í júní næstk. verði drög að nýrri stjórnarskrá borin undir þjóðina. Sú niðurstaða á síðan að fara fyrir Alþingi og ný stjórnarskrá verður borinn undir þjóðina samfara alþingiskosningum sem eiga að fram í maí 2013.

Í nýrri stjórnarskrá er lagt til að færa valdið til þjóðarinnar. Núverandi kosningakerfi er þannig uppbyggt að það tryggir stöðu núverandi stjórnmálaflokka og liðlega helmingur alþingismanna þarf aldrei að óttast næstu kosningar. Þeir eru í öruggum sætum, sem úthlutað er af flokkskrifstofum valdaflokkanna. Í nýrri stjórnarskrá er lagt er til að þessu verði breytt. Alræði ráðherra og embættismanna þeirra er minnkað og þingræðið styrkt.

Almenningur hefur barist gegn því hvernig stjórnmálamenn stóðu að framsali auðlinda hafsins til útgerðarmanna. Í auðlindaákvæði nýju stjórnarskrárfrumvarpi segir svo: „Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum“.

Þetta orðalag er í samræmi við í samræmi við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem hún gaf um kvótakerfið á Íslandi 2007. Í rökstuðningi mannréttindanefndarinnar er vitnað til 1. greinar íslenskra laga um stjórn fiskveiða nr. 38/1990, er segir: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar“.

Upplýst og gagnrýnin umræða er forsenda góðra ákvarðana. Umræðuefni meðal þjóðarinnar þessa dagana snýst um hversu lítið okkur miði. Í umræðunni virðist skipta litlu hversu vel unnar og rökfastar framlagðar tillögur eru. Í dag berst valdastéttin af fullri hörku gegn því að stjórnarskrártillagan verði borinn undir þjóðina. Hún vill engu breyta og hræðist að þjóðin samþykki drögin sem fyrir liggja. Margir sem hafa gefið upp alla von um þjóðfélagslegar úrbætur eru að fara af landi brott og lýsa því yfir að þeir vilji ekki búa í svona samfélagi.

Það þarf að skapa 20 þús. ný störf á næstu 2 árum og auka verðmætasköpun ef minnka á atvinnuleysið. Það verður ekki gert í landbúnaði og fiskvinnslu. Byggja þarf upp öflugan vinnumarkað hér á landi reistir á þeirri hreinu orku sem eru í auðlindum Íslands svo vel menntað fólk sækist eftir störfum heima en leiti ekki til annarra landa. Ef þetta tekst ekki blasir við langvarandi kyrrstaða með slökum kaupmætti og miklu atvinnuleysi.

Það er mikil samkeppni eftir vel menntuðu og hæfu starfsfólki og einfalt að flytja sig milli landa. Þjóðin verður að taka völdin í sínar hendur af hinum ráðandi öflum Stjórnmálamenn komast upp með að setja gjaldeyrismúra, en þeim tekst ekki að múra fólk inni, það brýtur af sér fjötrana.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll
þú segir að "Almenningur hefur barist gegn því hvernig stjórnmálamenn stóðu að framsali auðlinda hafsins til útgerðarmanna"
Ekki minnist ég þessa. Hingað til hefur helmingur þjóðarinnar kosið Framsókn og sjálfstæðisflokk sem hafa fest þetta kerfi í sessi. Hvernig væri að verkalýðsforingjar eins og þú færi nú að segja þjóðinni sannleikann. T.d. hversu mikið skilar sér til baka í íslenskt samfélag af þeim fiski sem er seldur erlendis. Flott að tala um 70milljarða loðnukvóta en kemur það til Íslands eða endar það á bankareikning í Sviss?

Guðmundur sagði...

Verð að viðurkenna að ég átt amig ekki á þessari aths.
Eins og fram kemur í greininni þá hefur staðið undirbúningur að endurnýjun stjórnarskrár um alllangan tíma t.d. á þjóðfundnum, skoðanakönnunum sama hefur komið fram í samþykktum fjölmennrar funda almenning og launamanna að menn vilji láta endurskoða það framsla sem gert var sínum tíma og tryggja betur eign þjóðarinna á þessari auðlynd. Þetta er engin lygi, þetta hefur verið áberandi í allri umræðu. Þar hafa einnig verið kjósendur þessara tveggja flokka sem minnst er á.

Hvað varðar hversu mikið skilar sér inn í íslenska hagkerfið af sölu á íslenskum fiskafurðum erlendis þá er ekki minnst á það í pistlinum.