miðvikudagur, 23. október 2013

Fólkið með "patentlausnirnar"


Viðbrögð Framsóknarmanna við fylgishruni og mikilli gagnrýni koma manni ekki á óvart. Það lá alltaf fyrir að Framsókn myndi kenna öðrum um, þegar ljóst yrði að þeir gætu ekki efnt loforðin um allar patentlausnirnar, sem þeir höfðu á hraðbergi þegar þeir voru í stjórnarandstöðu og héldu á lofti í síðustu kosningabaráttu.

En þeir verða eitthvað svo óskaplega litlir þegar þeir fara að saka fólk um að vera ósanngjarnt og óvægið í þeirra garð.

Í því sambandi má minna á mörg þeirra gífuryrða sem þeir viðhöfðu um stjórn Jóhönnu og reyndar alla sem drógu í efa að „patentlausnir“ þeirra gætu gengið upp.

Eða við getum einnig rifjað upp ummæli núverandi ráðherra þegar þeir voru í stjórnarandstöðu í ræðustól og jusu aur yfir Jóhönnu þegar hún vék af þingi í nokkra daga.

Ég var ásamt 25 einstaklingum svo ósvífinn að „láta“ 13.000 manns kjósa mig á Stjórnlagaþing (sem er líklega fjórfaldur atkvæðafjöldi meðalþingmanns). Þessi 25 manna hópur afskaplegra velgerðra og velviljandi einstaklinga, samdi með góðri aðstoð þjóðarinnar frumvarpsdrög að nýrri Stjórnarskrá. Frumvarpsdrög sem voru í mörgu í samræmi við það sem Framsóknarflokkurinn hafði áður sett fram í kosningabaráttu sinni.

Það er óþarfi að fara yfir þau gífuryrði sem okkur var gert að sitja undir af hálfu þingmanna Framsóknar og nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, en þau voru lágkúra af verstu sort. Þau eru á sveimi á netinu og á facebook vilji menn skoða þau.

Eða eigum við kannski að rifja upp þau ummæli sem sami þingmannahópur hafði um okkur sem vildum ljúka viðræðum við ESB og leggja þá niðurstöðu undir þjóðina. Þá var okkur gert af hálfu þessa sómafólks (eða hitt þá heldur) að sitja undir því að vera landráðamenn, nasistar eða eitthvað því um líkt.

Eða eigum við að rifja upp ummæli sama þingmannahóps þegar við hin vildum verja velferðarkerfið, þar var okkur líkt við kommúnista, ekki mátti það minna vera en að bera okkur saman við afkastamikla fjöldamorðingja.

Eða eigum við að rifja upp hvernig þessi sami þingmannahópur hanteraði afgerandi niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem tæp 70% samþykktu frumvarpsdrög Stjórnlagaráðs og þar að auki samþykktu 80% sérstaklega ákvæði um meðferð auðlinda þjóðarinnar og aukið lýðræði.

Þar dugði þessum ofurgæðingum ekkert minna en að eigna sér öll atkvæði þeirra sem ekki mættu á kjörstað og þeirra sem skiluðu auðu. Aðferðarfræði sem engum í nokkru lýðræðisríki myndi detta í hug að nota.

Eða eigum við að rifja upp ummæli þessara þingmanna sem þeir viðhöfðu um það fólk sem vildi betrumbæta þá samninga sem Árni Matthiesen þáverandi fjármálaráðherra gerði árið 2008 um Icesave og Bjarni Ben hélt skýnandi ræðu um í nóvember það ár um að þetta yrðum við að samþykkja og hvers vegna.

En þegar búið var að gera mun betri samninga fór þessi þingmannahópur í ræðustól Alþingis og hélt því fram að þeir sem ekki væru þeim sammála, það væri ógæfufólk sem vildi gera landið gjaldþrota og láta íslenska skattgreiðendur greiða skuldir sem okkur kæmu ekki við.

Þessar skuldir voru minni en það gjaldþrot sem núverandi stjórnarflokkar komu yfir á skattgreiðendur þegar þeir keyrðu Seðlabankann í þrot, og þar til viðbótar losuðu þeir Ísland ekki við eina einustu af þeim krónum sem skattgreiðendur verður gert að greiða vegna Icesave, því fór fjarri að við hefðum kosið það í burtu það var og er blekking. 

Einungis á Íslandi eru svona vinnubrögð látinn viðgangast. Enda er Ísland að dragast aftur úr nágrannalöndum okkar. Langt aftur úr, en samt fara núverandi stjórnar þingmenn um heimsbyggðina og lýsa því yfir að það logi eldar í Evrópu og þeir séu að skapa sérstakt efnahagsundur á Íslandi, hvorki meir en minna.   

Eða eigum við að rifja upp málþófið og ruddaháttinn sem þessi þingmannahópur beitti nánast hvern einasta dag á Alþingi allt síðasta kjörtímabil. Athafnir sem aldrei hafa sést á lýðræðissamkomu í ríki, sem vill rísa undir því að ástunda eðlilega stjórnarhætti.

En það eru einnig aðrir sem ættu að hugsa sinn gang vel og vandlega, það eru spjallþáttakóngarnir. Það eru ekki síst þeir sem áttu þátt í því að hefja fólkið með „patentlausnirnar“ til skýjanna allt síðasta kjörtímabil.

Og nú hrópa spjallþáttakóngarnir að stjórnarandstaðan sé svo veik, hún er leiðinleg af því hún er ekki með gífuryrði og þá er ekkert gaman. Það er að þeirra mati aðaltilgangur spjall- og fréttaþátta að það sé gaman, skítt með hvort eitthvað vit sé í því sem fólk segir og þaðan af síður hvaða afleiðingar það hefur að bera út á öldum viðurkenndra ljósvakamiðla boðskap sem getur ekki leitt til annars en enn frekari vandræða í samfélaginu.

Það á nefnilega að þeirra mati að vera svo gaman á Alþingi og það gerist að þeirra mati þegar þar séu duglegir stjórnmálamenn, sem tekst að snúa sem rösklegast út úr fyrir öllum öðrum og afvegaleiða umræðuna. Það eru sko duglegir stjórnmálamenn.

Við getum fyrst og síðast þakkað þessum súpermönnum spjallþáttanna hvaða einstaklingar drógu inn á Alþingi.  

En það sem þeir ástunduðu í Silfrum og Bítinu er í raun ekkert annað en óendanlegur fantaskapur gagnvart fólki sem glímir við mikil vandræði. Það er ljótt að henda til fólks í vanda bjarghringjum sem ekki hafa fengið skoðun og viðurkenningu og vekja með því hjá þessu örmagna fólki óraunsæjar væntingar, sem ekki er hægt að standa við.

Nú ætlast fólk í vanda að sjálfsögðu til þess að handhafar „patentlausnanna“ standi við sitt. En þá rísa þessir litlu kallar upp vælandi og fullyrða að allir séu svo vondir við þá og segja „Það eru sko þessir vondu kallar sem standa í veginum fyrir því að við getum beitt okkar „patentlausnunum“.

Manni er flökurt að horfa á þetta lið.

Og hér er uppskriftin að vinnubrögðum stjórnarandstöðunnar síðasta kjörtímabíl, en núna eiga allir að vera vinir og góðir við stjórnvöld, annað er svo ósanngjarnt.

Davíð Oddsson :“Þó ég segi sjálfur frá stóð ég mig ekki illa í stjórnarandstöðu í borginni áður en ég varð borgarstjóri. Ég þótti jafnvel ósvífinn og kosningabaráttan sem stóð 1980 til 1982 var mjög hörð. Ég gerði öll mál tortryggileg og fylgdi þeirri reglu veiðimannsins að maður má ekki kasta einungis flugu sem manni finnst falleg því að maður veit aldrei hvaða flugu laxinn tekur. Ég tók því öll mál, jafnvel þó ég væri í hjarta mínu samþykkur þeim, og hjólaði í þau því að ég leit á stjórnarandstöðu sem stjórnarandstöðu. Skyndilega fengu ákveðin mál byr og styrktu stöðu okkar. Dæm i um þetta var upptaka skrefagjalds á síma, sem í raun og veru heyrði ekkert undir borgina en ég gerði að alvöru borgarmáli. Meirihlutinn tók alla vitleysuna á sig.“

Í hlutverki leiðtogans, Ásdís Halla Bragadóttir (2000)
 

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Athyglisvert að þú býðst til að nefna fjöldan allan af gífuryrðum, en nefnir samt ekki eitt einasta.

Var erfitt að finna dæmi?

Nafnlaus sagði...

Þetta er aldeilis dæmigert innlegg. Guðmundur telur nefnilega upp í nánast hverri einusti setningu í þessum frábæra pistli gífuryrði og skítkast stjórnarandstöðunnar á síðasta kjörtímabili.

Nafnlaus sagði...

Frábær pistill Guðmundur, frábær!

Sönnun þess að við eigum skynsama og réttsýna menn á klakanum.
Takk fyrir.

Haukur Kristinsson, Grkklandi

Guðmundur sagði...

Augljóst er að nafnlaus #13:40 langar til þess að komast í útúrsnúningakeppni. Ég sagði þetta en meinti allt annað. Svo þetta er bara útúrsnúningur. Strax þýðir næsta kjörtímabil. Ég sleit öllu viðræðunefndum og sagði þeim í Brussel að íslendingar vildu ekki fara í ESB, en það þýddi ekki að viðræðunum væri lokið. Ég hef alltaf sagt að það þyrfti svigrúm til þess að framkvæma það sem við lofuðum en það þarf bara meira svigrúm

Nafnlaus sagði...

Það er rétt, þú nefnir nokkur dæmi.
"Þá var okkur gert af hálfu þessa sómafólks (eða hitt þá heldur) að sitja undir því að vera landráðamenn, nasistar eða eitthvað því um líkt."

Viltu ekki upplýsa hver úr þessum þingmanna hóði kallaði ykkur landráðamenn og nasista?

Væri það nú ekki lágmarkið?

"Eða við getum einnig rifjað upp ummæli núverandi ráðherra þegar þeir voru í stjórnarandstöðu í ræðustól og jusu aur yfir Jóhönnu þegar hún vék af þingi í nokkra daga."

Hvaða ráðherra jós aur yfir Jóhönnu fyrir að vera frá í nokkra daga?

Er ekki lágmarkið að þú upplýsir hver það var, og hver aurinn var?

"Það er óþarfi að fara yfir þau gífuryrði sem okkur var gert að sitja undir af hálfu þingmanna Framsóknar og nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, en þau voru lágkúra af verstu sort."

Nei, það er einmitt ekki óþarfi ef menn skrifa svona pistil.

Afvherju kemur þú ekki með dæmi um þessi gífuryrði, og hver sagði þau?

Er það ekki bara sjálfsagt mál?

"Eða eigum við að rifja upp ummæli sama þingmannahóps þegar við hin vildum verja velferðarkerfið, þar var okkur líkt við kommúnista, ekki mátti það minna vera en að bera okkur saman við afkastamikla fjöldamorðingja."

Já, rifjum það endilega upp, hver ú þessum þingmannahópi kallaði þá kommúnista og fjöldamorðingja sem vildu verja velferðarkerfið?

Er ekki bara sjálfsagt að þú upplýsir það?

"Eða eigum við að rifja upp hvernig þessi sami þingmannahópur hanteraði afgerandi niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem tæp 70% samþykktu frumvarpsdrög Stjórnalgaráðs"

Já, gerum það.
Voru ekki nánast allar umsagnir sérfræðinga, sama hvaðan þær komu á þá leið að þetta væri ótækt frumvarp?
Og var það ekki líka niðurstaða þjóðaratkvæðis að hún var algerlega þversum á sjálfa sig þar sem hún í einu orði samþykkti frumvarpið, en í næsta vildi gera breytingar á ákvæði um kirkjuna'

"Eða eigum við að rifja upp ummæli þessara þingmanna sem þeir viðhöfðu um það fólk sem vildi betrumbæta þá samninga sem Árni Matthiesen þáverandi fjármálaráðherra gerði árið 2008"

Já, gerðu það.
Var eitthvað ósæmilegt í þeim ummælum sem ekki þolir birtingu?

"Eða eigum við að rifja upp málþófið og ruddaháttinn sem þessi þingmannahópur beitti nánast hvern einasta dag á Alþingi allt síðasta kjörtímabil. Athafnir sem aldrei hafa sést á lýðræðissamkomu í ríki, sem vill rísa undir því að ástunda eðlilega stjórnarhætti."

Já, rifjaðu það upp, þó ekki væri nema til að afsanna bullið um að aldrei hafi annaði eins sést, því Jóhanna á íslandsmetið í málþófi á Alþingi.

Þetta eru nefnilega endalausar upptalningar á hinu og þessu sem mætti rifja upp, en samt er ekkert rifjað upp.

Bara gefið í skyn að það væri hægt.

Hvers vegna ferðu ekki bara alla leið og segir okkur hver sagði hvað svo kjósendur geti forðast svona sóða í framtíðinni?

tilraunaskynsemi sagði...

Gott hjá þér Guðmundur,horfði oft á Alþingisútsetningu,og blöskraði stjórnarandstaðan á þeim tíma

Guðmundur sagði...

Án þess að ég ælti að fara í útúrsnúningakeppni, þá hefur farið víða myndbandið þar sem núverandi utanríkisráðherra úthúðar Jóhönnu fyrir að hafa skroppið frá, það voru reyndar fleiri sem tóku þátt í þeirri umræðu. Þau er mýmörg dæmin um hvernig þingmenn, sérstaklega Framsóknar, hafa líkt þeim sem vilja ljúka viðræðum við ESB væru landráðamenn og þar hafa flogið oftar en ekki samlíkingar um að ESB sé samskonar samveldi og Hitler vildi koma á

Guðmundur sagði...

http://www.youtube.com/watch?v=dweS9CKOpMg&feature=share