sunnudagur, 29. nóvember 2009

Er ekki búið að stinga þessum Hr Oddsson inn?

„Hvernig fóruð þið að þessu?“ „Hvað í ósköpunum voruð þið að gera?“ Þetta eru algengar spurningar þjóðverja þegar þeir heyra að maður er íslendingur. Þjóðverjum hefur alltaf verið hlýtt til íslendinga, við verum eins og litla sæta krúttið lengst upp í norðrinu. Þjóðverjar eru langfjölmennastir ferðamanna sem til Íslands koma.

Þýskir bankar hafa alltaf verið langöflugastir við að lána íslendingum og hafa fjármagnað margt af því sem við höfum verið að framkvæma í gegnum árin. Samkvæmt trúverðugum heimildum þá töpuðu þýskir bankar á Hruninu okkar um allt að 3000 milljörðum króna. „Hvernig í ósköpunum datt bankastjórnunum okkar að lána 300 þús. manna þjóð alla þessa peninga?“ og hann svaraði sér sjálfur strax á eftir; „Engum þeirra hefði dottið í hug að lána 300 þús. manna þorpi hér þessa peninga, ekki einu sinni helminginn.“

„Hvað með Seðlabankastjórnina ykkar, þennan Hr. Oddsson?“ „Gengur hann virkilega enn laus?“ „Er ekki búið að setja hann inn?“ „Eruð þið ekki með Fjármálaeftirlit?“ „Eruð þið ekki með bindiskyldu?“ „Er það virkilega rétt að það er ekki búið að setja neinn mann enn í fangelsi?“

"Hvernig datt mönnum í hug að afnema bindiskylduna og Seðlabankinn að lána bönkunum stórar upphæðir þrátt fyrir að allir vissu hvert stefndi." Það er greinilegt að þýskir fjölmiðlar hafa fjallað ítarlega um okkar mál. Enda eru þýskir fjölmiðlar þekktir við vandaða og ítarlega fréttamennsku.

Þjóðverjarnir tala eins og við höfum sært þá inn að hjartarótum. Þeir skilja ekki svona háttalag. Þeir eru svo skipulagðir og passasamir.

Berlín er vinalega og spennandi borg. Gríðarleg gerjun í menningarlífi. En það er gríðarlega margt sem er eftir að gera. Austrið var í rústum, húsin meir og minna ónýt, samgöngumannvirki einskis virði.

Hér er mikið um framkvæmdir, en það er ekki gert eins heima. Þjóðverjar leggja vel niður fyrir sér hvað þeir ætla að gera og hvernig verði farið að því. Það getur tekið þá allt upp í 20 ár að leggja af stað með verkefni. En þá er líka allt klárt. Allt frá fyrstu skóflustungu upp í síðustu afborgun að fjármögnun. Allt.

Þjóðverjar ættu eiginlega að lána okkur svona eitt sett af stjórnmálamönnum. Þá væri kannski meira af rökréttum aðgerðum og minna af innihaldslausum öskurræðum.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

300 milljarða?

Guðmundur sagði...

Þetta á að vera 3000 MIA, takk fyrir ábendinguna. Sumir hafa reyndar sagt þetta sé nær 5000 MIA

Nafnlaus sagði...

"Getum við svarað þjóðverjum? Skiljum við þetta sjálf til fullls? Tel daganna eftir niðurstöðun alþingsnefndarinnar sem hefur dregist úr hömlum.."
Kv HP