þriðjudagur, 24. nóvember 2009

Hið gjörspillta samfélag

Maður kemst ekki hjá að velta því fyrir hvort stjórnendur í íslensku efnahags- og viðskiptalífi séu eitthvað öðruvísi eða lakar menntaðir en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Sama á við íslenska stjórnmálamenn. Það er svo margt hér á landi sem er allt öðru vísi.

Allt fjármálakerfi Ísland hrundi til grunna, það gerðist ekki annarstaðar. Engin treystir íslenskum stjórnmálamönnum og íslenska ríkinu. Nágrannaríki okkar neita að eiga samskipti við okkur nema í gegnum AGS.

Flest íslensk fyrirtæki eru kominn í þrot, skuldsett út í hafsauga og í gjörgæslu. Þó svo þau gangi prýðilega og séu með gott og vel menntað starfsfólk. Íslenskur sjávarútvegur, sem þarf að fara stutt á auðug mið, er að hruni kominn vegna skulda. Hvað er í gangi?

Siðferði þessara manna einkenndist af siðferði þjófa. Þetta fólk er langflest menntað í íslenskum háskólum. Hverslags kennsla fer þar fram í siðferði? Ég hef nýverið setið fyrirlestra tveggja núv. og fyrrv. háskólarektora. Þeim var tíðrætt um þetta og sögðu að gerendur í íslensku viðskiptalífi og stjórnmálmenn við mótun efnhagstefnu væru allir fyrrv. nemendur þeirra og þetta lægi á þungt á þeim. Traust er eins og meydómur, það tapast aðeins einu sinni. Það vill engin lána okkur nema gegn mjög háum vöxtum og sérstöku áhættuálagi.

Siðferði íslenskra stjórnmálamanna endurspeglast svo vel í því að þeir héldu að okkur áliti erlends fyrirtækis um að hér á landi væri ekki til spilling. Þetta gerðu þeir þrátt fyrir að fyrirtækið og fjöldi annarra bentu á að þetta álit væri ekki marktækt og gæfi alranga mynd af Íslandi, sakir þess að hér væru ekki þau lög og reglur sem mælt væri eftir. Fyrrv. ráðherrar héldu því blákalt fram að þeir sem ekki skyldu velgegni íslensks efnahagslífs ættu að fara í endurmenntun.

Fyrrv. forsætisráðherra og Seðlabankastjóri sem leiddi bankann í gjaldþrot ásamt helstu samstarfsmönnum þvertaka fyrir að nokkuð hafi farið úrskeiðis undir þeirra stjórn og þeir séu beittir pólitískum ofsóknum og hraktir úr starfi??!! Nú er komið fram að við höfum búið í spilltasta samfélagi í vestrænum heimi, jafnvel þó víðar væri leitað.

Ofurskuldsett fyrirtækin hækka vörur og álagningu upp úr öllu valdi til þess að ná inn fyrir skuldum og vöxtum. Siðferði þessara stjórnenda menntuðum í íslenskum háskólum byggist á því að það sé hlutverk eigandans að hrifsa til sín allt fjármagn sem finnanlegt er innan veggja fyrirtækjanna og nýta allar mögulegar leiðir til skuldsetningar. Láta viðskiptavinina borga brúsann. Allt verðlag hér á landi er langt fyrir ofan það sem við þekkjum annarsstaðar, þessir menn hafa búið okkur okursamfélag og finnst eðlilegt að þeir sitja einir að arðinum.

Þrátt fyrir þessa stöðu er okkur gert að hlusta á upphrópanir (ekki yfirvegaðar ræður) fyrrverandi stjórnarþingmanna og ráðherra um að ekkert sé að hér, nema sú ríkisstjórn sem nú er við völd og svo allir útlendingarnir sem séu okkur svo andsnúnir. Þetta fólk setti landið á hausinn fóru fyrir þeirri efnahags- og peningastjórnum sem leiddi okkur í þessa stöðu.

Við búum við lítið hagkerfi, örmynt sem einstaklingar sem hafa aðgang að fjármagni spila á. Það blasir við að öll stærri fyrirtæki verða að flytja höfuðstöðvar sínar erlendis og taka upp Evru. Einhliða upptaka erlenda gjaldmiðils er ekki raunhæfur kostur og því eru aðildarviðræður við ESB eina leiðin til aukins trúverðugleika og trausts og þá verða íslenskir stjórnmálamenn að fara að haga sér eins og kollegar þeirra í nágrannalöndum okkar.

Við gætum haft það fínt og spjarað okkur prýðilega. Við eigum gott atvinnulíf, ef við bara losnum við þá stjórnahætti og þau viðhorf sem innleitt var hér undanfarna tvo áratugi. Og þá gætum við komið á Stjórnlagaþingi og endurskoðað stjórnarskránna, en þingmenn hafa komið í veg fyrir þá endurskoðun árum saman til þess eins að missa ekki þau völd sem þeir hafa hrifsað til sín á íslensku samfélagi.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já. Það þarf kerfibreytingar en hverjar? Ein væri að ganga í ESB og von að við siðumst við það. Annað væri að lækka laun alþingismanna og tryggja að þeir sætu ekki á þingi í meira en t.d. 8 ár samfellt. Hroki auðvaldsins er það þriðja, en hann fer nú væntanlega þverrandi.

Nafnlaus sagði...

Sælir Guðmundur. Þér er tíðrætt um siðferði stjórnmálamanna, er það eitthvað verra enn hjá okkur hinum? Ég held ekki, fólk gerir það sem því finnst best fyrir það sjálft. Ég verð vitni að því að fólk leggur bílum þar sem því hentar, ef það er á nógum og öflugum bílum ferð það bara yfir gangstéttar og graseyjar. Allt einsog því hentar. Einsog þú veist fer siðferði ekki eftir mentun. Við kjósum þettað fólk og þau eru bara fólk einsog við. Enn við eigum að hætta að gera það og heimta að það fara að vinna fyrir okkur. Mér finnst að fólk sem er enn að versla við þau fyrirtæki sem hafa skift um kennitölur, eða þau þar sem spiltir stjórnendur eru við völd sýna að fóli er alveg sama. Kv Simmi

Nafnlaus sagði...

Fantagóður og skýr texti að venju

Jenný Stefanía sagði...

Takk fyrir góðan pistil

Nafnlaus sagði...

Hverjum er treystandi fyrir peningum? Hefði haldið að það mat hefði eitthvað breyst undanfarið.

Var það ekki sterkefnað fólk sem var að svíkja milljarðana út úr bönkunum?

Mér sýnist við vera búin að festa tvær stéttir í sessi. Þá sem hafa vit á peningum og eiga þess vegna mikið af svoleiðis og þá sem hafa ekkert vit á þeim og eiga þess vegna enga.

Hvor stéttin ætli það sé sem setur reglurnar?
Kv KHH

Nafnlaus sagði...

35% kjósenda vil FLokkinn aftur.
Líklega er því eina leiðin að fela útlendingum stjórn Íslands að miklu leyti í gegnum EU

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir góðan pistil!
Því miður get ég ekki séð að neitt sé að breytast enda lítill/enginn vilji á alþingi til breytinga.

Nafnlaus sagði...

Ég er sammála þessu erindi þínu. Hér þarf að leiða fram nýja hugsun. T.d. varðandi hugmyndafræði fyrirtækjanna. Erlendis lýðst mönnum ekki að ástunda kennitöluflakk og þeir sem tæma fyrirtæki eins og þú lýsir eru fyrirlitnir, ekki veitt viðskiptaverðlaun eins og hér var gert. Eða hvers konar viðskipti stundaði útrásarflokkurinn, eins og Davíð sagði í frægri ræðu.

Hins vegar tel ég að hluti af endurreisninni sé að virða það sem er vel en ekki brjóta það niður. Eitt af því er Stjórnarskráin. Hún er góð. Henni var ætlað, eins og öðrum stjórnarskrám 19. aldar að losa um átthagafjötra, tryggja verslunarfrelsi og tilvist óháðs löggjafarþings. Með loðmullulegum lausnum á stjórnarskrártexta er ekkert unnið. Ekki þarf annað en skoða stjórnarskrá ráðstjórnarríkja eða harðstjórnarríkja til að sjá það. Þar er öllu heitið. Ekkert fæst.

Sennilega er andstaðan við stjórnarskrána gamall misskilningur úr sjálfstæðisbaráttunni. Réttindaskráin sé ,,úr konungshendi" eins og séra Matthías orti. En hvað skal þá gera má einhver spyrja?

Ég hef trú á því að breytt hugarfar og hert eftirlit geti gert margt. Við munum ekki um langt skeið láta sömu gullgæsina slá okkur ryk í augu.

Kv. Arnór Snæbjörnsson