þriðjudagur, 10. nóvember 2009

Vindhögg

Vinnubrögð Ragnars stjórnarmanns VR eru ótrúlega ómerkileg og ekki síður er maður undrandi á fjölmiðlum, sem vilja láta taka sig alvarlega skuli láta Ragnar ítrekað leiða sig í gönur með vindhöggum hans.

Umrætt minnisblað var í fjölmiðlum fyrr á þessu ári. Það er ritað af framkv.stj. SA og er innanhúsblað SA eins og kemur fram í hausnum og auk þess í skýringum Vilhjálms í fjölmiðlum á sínum tíma og hefur ekkert með ASÍ að gera. Reyndar stendur ekkert merkilegt í þessu minnisblaði, allavega ekki það sem Ragnar vill lesa úr því.

Í mínu umhverfi er ekki nokkur maður sem tekur mark á upphrópunum Ragnars. En það er leiðinlegt að vita til þess að hann er með góðri aðstoð tiltekinna fjölmiðla að grafa undan starfi samtaka launamanna og í raun að veitast að stöðu þeirra sem minnst mega sín.

Það liggur einnig fyrir að stéttarfélög með um 90% félagsmanna aðildarfélaga ASÍ vildu frekar freista þess að ná framlengingu samninga við SA, frekar en SA myndi segja upp samningum eins og margítrekað kom fram í fréttum fyrr á þessu ári, en virðist hafa farið fram hjá sumum fréttamönnum, þótt ótrúlegt sé. Þar á meðal er það stéttarfélag sem Ragnar er stjórnarmaður. Eins og kom fram á ársfundi ASÍ þá eru félagsmenn annarra stéttarfélaga en VR, orðnir langþreyttir á að Ragnar sé ítrekað að gera öðrum stéttarfélögum upp skoðanir og spinna svo út frá því.

Einnig þykir mönnum harla einkennilegt að Ragnar skuli ekki koma sínum athugasemdum á framfæri á sameiginlegum fundum innan ASÍ og forvitnast þar um skoðanir annarra og skiptast þar á sjónarmiðum, en þar sést Ragnar ekki í ræðustól. Frekar er valinn sú leið að ata félaga sína auri í fjölmiðlum og gera þeim upp skoðanir og allir sem ekki séu honum sammála eru að hans mati viljalaus verkfæri í höndum forseta ASÍ. Sérstök ástæða er minna á að báðir forsetar ASÍ eru í forystu VR. Þannig að Ragnar er í stöðugu sambandi við forsetana, og hefur þar stöðu langt umfram flesta aðra launamenn í landinu.

Á fundum innan ASÍ um þessi mál kom engin andstaða fram af hálfu VR. Þetta kom einnig fram í fréttum. Haldin var formannafundur aðildarfélaga innan ASÍ í byrjun febrúar þar sem aðildarfélögin voru beðinn að kanna afstöðu félagsmanna sinna í málinu. Félögin héldu fjölmarga félagsfundi og skiluðu svo niðurstöðum inn á annan formannafund ASÍ mánuði síðar, einnig það félag sem Ragnar er stjórnarmaður. Allt þetta kom fram í fréttum.

Það er barnalegur spuni sem Ragnar gefur sér í yfirlýsingu sinni um að verkalýðshreyfinginn hefði náð samningum strax um umtalsvert meiri launahækkanir, en fengust með þeirri niðurstöðu sem náðist. Þekkt er að ritstjóri Eyjunnar þekkir afar vel til hvernig mál ganga fyrir sig í Samtökum atvinnulífsins, því vaknar sú spurning hvað það sé í raun sem vaki fyrir Eyjunni með fréttaflutning af þessu tagi. Alla vega eru það ekki hagsmunir launamanna.

13 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur,
Ég tel að Ragnar sé að tala röddu hins þögla meirihluta.
Ég tel að almenningur í landinu sé búin að missa trúna á verkalýðsfélög og þá sérstaklega ASÍ með Gylfa í broddi fylkingar.
Lífeyrisjóðir OKKAR er sér kapituli út af fyrir sig þar sem skammarlegt er að vinnuveitendur skuli sitja í stjórn og braska með fé launamanna og í raun ævisparnað okkar.
Frumuðurinn á Akranesi og Baldur á Húsavík er menn sem við þurfum til að hrista upp í þessu staðnaða kerfi.
Sorglegt að sjá að þú sem ég bar mikla virðingu fyrir skulir fylkja þér með þessum hætti að baki Gylfa.
Tek þetta upp við þig næst þegar ég sé þig í pottinum í Grafarvoginum.
Í hugum hinna þöglu er engin munur í dag á milli stjórnmálamanna/flokka eða félags vinnuveitenda eða launamanna hins vegar.
Sorgleg staðreynd að ykkur skuli hafa tekist að koma málum þannig fyrir.

Nafnlaus sagði...

ASÍ hefur gjörsamlega glatað öllu trausti almennings.

Guðmundur sagði...

Það er kostulegt að lesa þessa athugasemd. Þú villt semsagt að menn komist upp með hreinar og klárar lygar í fjölmiðlum.

Nú er ég búinn að halda mjög fjölmenna félagsfundi allt þetta ár og búinn hitta á þessum fundum upp undir 800 félagsmenn á þessu ári, þetta hefur margoft komið fram. Þar er mikil eindregni og samhugur Ertu að halda því fram að allir þessir menn séu út á þekju?

Ertu að ætlast til þess að við í forystu Rafiðnaðarsambandsins göngum gegn félagslegum samþykktum, vegna þess að einn maður í allt öðru stéttarfélagi heldur öðru fram, atriðum sem eru byggð á útúrsnúningum? Maður sem er algjörlega einagnraður í sínu félagi.

Aðalsteinn og Vilhjálmur á Akranesi hafa sett fram sínar skoðanir en njóta greinilega ekki fylgis í Starfsgreinasambandi, öll hin félögin eru annarrar skoðunnar. Ertu að ætlast til þess að forysta Starfsgreinasambandsins gangi gegn samþykktum 95% félagsmanna?

Ertu að ætlast til þess að forseti ASÍ geri eitthvað allt annað en samþykkt er samhljóða á ársfundi?

Hverslags málflutningur er þetta?

Ertu félagsmaður í stéttarfélagi? Komstu sjónarmiðum fram í þínu stéttarfélagi?

Þú þorir ekki að koma fram undir nafni, en ætlar að ráðast að fólki þegar það er að reyna að slappa af í sundlaugunum. Biðst eindregið undan þessari boðuðu árás, hún er svo fjarri öllu.

Nafnlaus sagði...

Stattu þig Guðmundur Ragnar, Aðalsteinn og Vilhjálmur eru verstu lýðskrumarar sem fram hafa komið í íslenskri verkalýðshreyfingu. Engir hafa skaðað hagsmuni verkalýðsins meira en þessir menn.
Þeir eiga mjög fáa skoðanabræður.
Aðalsteinn var felldur í Starfsgreinasambandinu vegna þess að félagsmenn þar voru algjörlega búnir að gefast upp á honum.

Nafnlaus sagði...

Sælir Guðmundur og nafnlaus #1.

Þótt margt megi betur fara varðandi ASÍ og verkalýðsfélög, er Ragnar að gelta hátt út af smámáli.

Eins og mér sýnist staðan hafa verið er á þá leiðina að SA stefndi í að segja upp samningum, eða fresta launahækkunum (þarna var fresturinn með engri lokadagsetningu). Samninganefnd ASÍ sá sér leik á borði og bauð SA að fresta hækkunum til 1 júní/júlí (man ekki hvort það var). Augljóslega til að koma til móts við SA, og að setja inn einhverja dagsetningu.

Ég sé ekki betur en að þetta hafi verið þokkalegur leikur í samningagerðinni, þ.e. að fresturinn hafi einhverja dagsetningu.

Mér sýnist Ragnar og fleiri séu að leita logandi ljósi núna til að koma höggi á aðra verkalýðsmenn, því þeir eiga eitthvað sökótt við þá. Ég vil meina að þeir eigi að nota sér betri aðstæður en þessar til árása sinna (þ.e. að hafa betri/verðugri mál til að gelta yfir).

Ég tel mig tilheyra hinum "þögla meirihluta" og finnst Ragnar skjóta sig í fótinn með þessu útspili.

kv, H.B.

Nafnlaus sagði...

Ég er einn af félagsmönnum Rafiðnaðarsambandsins og mótmæli kröftuglega því sem sá fyrsti segir hér.

Guðmundur og forysta Rafiðnaðarsambandsins hafa stðaið sig fullkomlega í því að kynna hvaða möguleikar voru í stöðunni og við völdum úr. Guðmundur fór með það inn á fundi ASÍ, þar voru allir utan þriggja manna sammála. Gylfi fór einfaldlega eftir því sem meirihlutinn vildi. Hvaða bull er þetta?

Tek 100% undir það að Ragnar, Vilhjálmur og Aðalsteinn eiga ekkert með að vera að skipta sér af stefnu okkar og vera endalaust með einhverjar órökstuddar dylgjur og í fjölmiðlum um skoðanir annarra verkalýðsfélaga.

Nafnlaus sagði...

Bara láta vita af því að ég er algjörlega sammála því sem fram kemur í pistlinum og síðustu athugasemdum. Það er klár heilablokkering hjá þessum fyrsta
Félagsmaður

Nafnlaus sagði...

Það er klárt að Ragnar er á miklum villigötum og er ómerkilegur bullari. Það heyrist svo vel þegar hann ræðir um lífeyrissjóðina.

Nafnlaus sagði...

Tek undir hvert orð Guðmundur. Hárrét greining á þessum rugludalli

Nafnlaus sagði...

Rugludallafélagið er komið á skrið sýnist mér. Allavega ættu Ragnar og félagar að stofna Rugludallafélag og rugla saman og láta okkur hin í friði.
Ég skrifa nafnlaus eins og Ragnar sem aldrei þorir að standa fyrir máli sínu nema með jámönnum sínum.
Kveðja, einn foxillur

Nafnlaus sagði...

Að mínu mati á Íslenskt verkafólk sér enga málsvara. Verkalýðshreyfingin dó með Guðmundi Jaka.

Hörður Tómasson.

Guðmundur sagði...

Það er náttúruklega út í hött að segja svona Hörður. Þreytt klisja og engin rök.

Það er allt önnur veröld núna og íslensk verkalýðshreyfing hefur aldrei verið jafnsterk og haft jafnumfangsmikla og víðtæka starfsemi.

Ef við lítum t.d. á starfsmenntakerfið sem verkalýðshreyfingin hefur byggt upp og rekur, sjúkrasjóðskerfið, starfsendurhæfingarkerfið og þannig mætti lengi telja.

Verkalýðshreyfinga náði mjög takmörkuðum árangri í vexti kaupmáttar á meðan þau vinnubrögð voru notuð sem tíðkuðast hér á árum áður. Fleiri þúsunda launahækkun en lítil kaupmáttaraukning.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur,

Hvet þig áfram í þessari umræðu.

Skil ekki, og hef aldrei gert, þennan málflutning Ragnars Þórs - finnst illa gert af fjölmiðlum að vera að draga mann greyið fram (eins og Egill Helga hefur gert marg oft). Ragnari er enginn greiði gerður með því að láta hann þilja upp ósannindi um lífeyrissjóði og verkalýðsfélög. Nær væri að stjórnendur þessara spjallþátta settu sig aðeins inn í málin og kynnu að spyrja.

Ekki gef ég heldur mikið fyrir þennan formann af Akranesi (af sama meiði og Ragnar Þór - drottningarviðtal með sleggjudómum).

En eftir stendur að fjölmiðlar draga fram þessa menn of leyfa þeim að koma með fullyrðingar sem spjallastjórnendur hafa ekki þekkingu eða vit á að spyrja út í. Og svo þurfið þið að svara fyrir bullið í þessum mönnum.

Þetta gengur ekki.

Ég svara undir nafni ólýkt því sem sumir vafasamir ritarar hér þora ekki.

Kveðja,
Hlöðver Örn Ólason