miðvikudagur, 4. nóvember 2009

Hverjir mega hafa skoðanir?

Það er með hreinum ólíkindum að hlusta á stjórnarþingmenn þessa dagana þegar þeir eru vælandi í fjölmiðlum um að það séu þeir sem einir hafi leyfi til þess að hafa skoðanir, þeir hafi verið kjörnir til þess, ekki aðrir. Hvað verkalýðsforystan sé að vaða upp á dekk. Hverslags dót er þetta fólk? Málið snýst ekki um það, það snýst um að þeir tuskist til þess að fara að gerðum samningum og standi við sitt.

Ég skrifaði í fyrstu pistlunum hér á þessu Bloggi haustið 2007, að mér finnist kostulegt að heyra Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn kvarta ítrekað undan því að hagsmunahópar væru að skipta sér að stjórnvaldinu. „Við eru kjörnir fulltrúar fólksins og valdið liggur hjá okkur“ var endurtekið viðkvæði þáverandi stjórnarþingmanna.

Ég benti á að þetta segði til um að þáverandi stjórnaþingmenn væru orðnir of heimaríkir. Búnir að hafa völdin of lengi. Þeir væru til viðtals við kjósendur vikuna fyrir kjördag, en viðtalstíma lyki um leið og kjörklefum væri lokað og væri lokað næstu 4 ár. Þó svo að fram kæmi eftir kosningar að þeir væru að gera eitthvað allt annað, en þeir hefðu lofað og um væri samið. Undir þetta tóku þá VG- og Samfylkingarmenn.

Stéttarfélög eru samtök hópa úr ákveðnum starfstéttum sem taka sig saman og mynda samtök um að gæta hagsmuna sinna. Þetta fólk leggur pening í pott sem notaður er til þess að ráða fólk til þess að gæta hagsmuna hópsins og vinna þeim framgang. Þeir sem valdir er til þessara starfa eru kosnir.

Það hefur verið samdóma álit íslendinga, sem kemur m.a. fram í stjórnarskrá, að það séu fleiri en stjórnmálamenn sem megi hafa skoðanir, t.d. sé almenning heimilt að hafa skoðanir. Það sé líka heimilt að stofna samtök utan um hagsmuni og skoðanir án afskipta stjórnmálamanna. Samkvæmt landslögum er stéttarfélögum heimilt að gera samninga m.a. við stjórnvöld. Almenningur er kjósendur og um leið félagsmenn stéttarfélaga, hann er líka sjóðsfélagar í lífeyrissjóðum og á þá fjármuni sem þar eru.

Samkvæmt venjulegum samskiptareglum þá er venjulega ætlast til þess að menn og stjórnmálamenn standi við gerða samninga og uppgefnar skoðanir.

Oft er sagt að maðurinn (þá sérstaklega stjórnmálamaðurinn) hafi ekkert langtímaminni, og afar slappt skammtímaminni. Forseti ASÍ hefur fengið harkalega útreið í fjölmiðlum og þá sérstaklega frá núverandi stjórnarþingmönnum. Í því sambandi vill ég minna þá að það sem stendur hér ofar.

Mig langar einnig til þess að minna á nokkur eftirtalin atriði sem forysta launamanna, allra samtaka launamanna ekki bara ASÍ, gerðu samning við núverandi stjórnaflokka í sumar.

Þar var rætt um ákveðin skatthlutföll og hámark skattálagningar. Forseti ASÍ hefur verið fyrirskipað af aðildarfélögum sambandsins að mótmæla harðlega þeim hugmyndum sem fram komu í fjárlögum þessa hausts. Þar átti að innheimta mun hærri skatta en um hafði verið samið. ASÍ hefur einnig mótmælt því að það virtist vera svo að stjórnvöld ætluðu sér ekki að standa við ákvæði síðustu kjarasamninga um tengingu persónuafsláttar við verðlag og væntanlega hækkun persónuafsláttar um næstu áramót.

Forysta ASÍ er ekki á móti auðlindaskatti og setti reyndar fyrst allra fram kröfur um auðlindaskatt.

Það var SA, ekki ASÍ sem setti sig á móti hugmyndum stjórnvalda um það fyrirkomulag auðlinda- og orkuskatts sem fram kemur í fjárlögum.

Í ályktunum ASÍ eru og hafa verið ákvæði um uppbyggingu sprota- og tæknifyrirtækja. Þar er einnig að finna gagnrýni á það háttalag stjórnmálamanna undanfarin ár að lofa stóriðju í nánast hverjum firði án þess að huga að orkuöflun. Þar hafa stjórnmálamenn verið að vekja væntingar hjá fólki, sem ekki er í einhverjum tilfellum að standa við. Stjórnmálamenn verða að axla sjálfir þá ábyrgð og hafa manndóm í sér að mæta reiði þess fólks sem þeir eru að svíkja.

ASÍ vill að stjórn kvótakerfisins verði endurskoðað og setti fram aðrar hugmyndir þar um en SA. ASÍ hefur alfarið hafnaði þeim hugmyndum sem LÍÚ hefur sett fram.

Ég vill fyrir hönd þeirra samtaka sem ég er í forsvari fyrir taka það fram að við áskiljum okkur sama rétt og stjórnmálamenn, það er að hafa skoðanir og koma þeim á framfæri ekki bara þegar stjórnmálamönnum þóknast að hlusta á fólk dagana fyrir kjördag.

Við áskiljum okkur einnig þann rétt að krefjast þess að stjórnvöld standi við gerða samninga.

Við upplifum það nefnilega á hverjum degi að stjórnvöld krefjast þess að við stöndum við okkar samninga og virðum friðarskyldu.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Eitt er víst að Davíð og skoðanabræður hans meiga ekki hafa skoðanir!!!

Nafnlaus sagði...

Hverjir mega hafa skoðanir? er spurt.
Ja allavega ekki ég, það er nokkuð ljóst. Því mínar skoðanir eru bara þurrkaðar út. En kanski er vandamálið bara, að ég hef ekki "réttar" skoðanir.
Kær kveðja.
Hörður Tómasson.