Það er óhjákvæmilegt að velta fyrir sér hvort grimmd mannsins eigi sér einhver takmörk, þegar farið er um hverfi gyðinga í Berlín. Sögurnar frá árunum þegar nasistar eru að ná völdunum í Þýskalandi eru svo yfirgengilega skelfilegar. Ekki einungis gagnvart gyðingum, heldur einnig gegn kommúnistum og samkynhneigðum og reyndar öllum þeim sem ekki fylgdu þeim að málum.
Minnismerki frá þessum tímum eru og verða öllum nauðsynleg, til þess að sýna okkur fram á og halda við minningunni um hvernig mannskepnan getur hagað sér. Hún segir svo margt sagan um gömlu hjónin sem áttu kanarífuglana. Nasistar þrengdu sífellt meir að gyðingum, bönnuðu þeim í fyrstu að eiga ullarföt. Síðan kom bann við pelsum og öðrum skjólfatnaði. Bann við viðskiptum þeirra og þeir útilokaðir frá heimi listanna.
Allt miðaði að því að gera gyðingum lífið óbærilegt. Bókabrennan mikla þar sem nasistar brenndu allar bækur þar sem í einhverju var hægt að finna eitthvað annað en það sem var nasistum þóknanlegt. Svo kom bannið við að gyðingar mættu eiga gæludýr. Gömlu hjónin áttu tvo kanarífugla, sem þeim þótti ákaflega vænt um og létu hjá liggja að farga þeim.
Nasistar komust að þessu og eiginmaðurinn var sóttur ásamt fuglunum. Gamla konan spurðist örvæntingafull fyrir um manninn sinn og fékk engin svör fyrstu dagana, en að viku liðinni þá fékk hún símtal þar sem henni var tilkynnt að hún gæti sótt ösku manns síns og fuglanna, en við afhendingu þyrfti hún að inna af hendi greiðslu sem samsvaraði góðum mánaðarlaunum.
Hagfræði nasistaríkisins gekk í raun aldrei upp og var hrein endaleysa, reist á græðgi og þjófnaði frá þeim ríkjum sem þeir yfirtóku. Þar hrifsaði valdastéttin til sín það sem henni þótti sér samboðið, væri einhver með múður var hann settur í fangelsi eða naut þeirrar mannúðar að þurfa ekki að vera barinn og sveltur til bana í fangelsi heldur var einfaldlega skotinn á staðnum.
Hér má vísa til örlaga íslendingsins sem var túlkur á útvarpsstöð nasista. Á hverjum degi eftir að stríðið var komið af stað var útvarpað á flestum tungumálum, þar á meðal íslensku, fréttum sem Göbbel og hans fólk sömdu um velgengni nasista í stríðinu. Einn daginn lauk íslendingurinn sínum lestri á því að segja; „Nú er ekki fleira í fréttum í dag, en ég kem á morgun og les fyrir ykkur sama bullið.“ Um kvöldið var hann sóttur af gestapó og fötluð kona hans og sonur sáu hann ekki framar.
Í sjálfu sér má segja að hagfræði sovéts kommúnista hafi verið reist á sömu stoðum, þegar hún var kominn í hendurnar á samskonar fólki og rak nasistaríkið. Engin sjáanlegur munur á þeim mannlegu gæðum sem þar fengu að njóta sín. Reyndar sér maður nákvæmlega sömu mannlegu eiginleika þar sem rétturinn og sannleikurinn verður eign þeirra sem hafa hrifsað hann til sín, ef horft er á myndir þar fjallað er um mafíurnar í Bandaríkjunum og svo maður tali nú ekki um McCarthyismann.
Nú ef maður fer aðeins nær okkar tíma, þá er ekki langur vegur á milli þessara hagkerfa og hagfræði hrifsunar óhamdrar markaðshyggju sovéts nýfrjálshyggjunnar og hvað það leiddi yfir okkur íslendinga. Þar sem öfl græðginnar áttu að leiða til jöfnunar og þegar bitarnir væru orðnir of stórir hjá þeim sem völdin höfðu, átti ofgnóttin að hrynja af borðunum niður til almúgans. Svo vitnað sé til Regans og Thatcher. Valdaklíkan kom sér strax í þá stöðu að geta hrifsað til sín bestu bitana og reikningurinn liggur í pósthólfi þeirra sem minna mega sín. Sagan endurtekur sig.
Sé litið yfir sögu hagkerfanna þá standa velferðakerfi norðurlandanna upp úr. Þar ríkir öryggi og friður, og Norðurlöndun eru með sveigjanlegasta og samkeppnishæfasta vinnumarkaðinn og þau eru með stærstu hagkerfum heimsins, eða í 8 sæti.
Flestir vilja stefna á sömu mið, ef litið er til þeirrar stefnu sem virðist ríkja meðal forysturíkja ESB eins og t.d. Þýskalands undir forystu hægri miðjumannsins mannsins Angelu Merkel. En málsvarar markaðshyggjunnar og valdahyggjunnar heima, finna því allt til foráttu.
Ég var hér ári eftir hrun múrsins á ráðstefnu evrópskra byggingarmanna. Þar héldu austan mennirnir fagnaðarræður nú væru þeir búnir að opna fyrir kapitalismann og töldu að nú yrði ekki langt til þess að þeir næðu kjörum okkur í vestrinu. Þá stóð upp fulltrúi Breta og fór yfir þau gæði sem frú Thatcher hafð skenkt breskum launamönnum. Salinn setti hljóðan í langan tíma á eftir þeirri ræðu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli