fimmtudagur, 26. nóvember 2009

Flett ofan af ormagryfjunni

Gunnar Andersen sagði á ársfundi Fjármálaeftirlitsins í dag að rannsóknir mála bendi til þess að auk óeðlilegra viðskiptahátta hafi alvarleg lögbrot verið framin innan íslenskra banka. Brotin kunni brotin að varða við hegningarlög, bæði hér á landi og í öðrum löndum.

Frávik frá góðum starfsháttum hafa komið í ljós við skoðun á nýju bönkunum. Þetta tengist áhættustýringu og stjórnunarháttum. Gunnar Andersen segir þetta ósiði sem hafi fylgt þeim frá því fyrir hrun.

Er einhver undrandi? Upphaf hörmunganna má rekja til kvótakerfisins og einkavæðingar bankanna. Kvótakóngar keyptu, innmúraðar og innvígðar klíkur réðu ferðinni. Það er svo einkennilegt að heyra málsvara þessara afla lýsa í dag eftir opnu og gagnsæju samfélagi. Svo einkennilegt að hlusta á málflutning þingmanna fyrrverandi stórnarflokka þessa dagana afstöðu þeirra til þeirrar hörmungar sem efnahags- og peningastjórn leiddi yfir heimili þessa lands.

Firring, græðgi og agaleysi hefur öðlast sérstöðu í okkar menningarheimi. Þjáningar eru orðin neysluvara. Hvar eru mörkin? Verðum við skeytingalaus fyrir óförum annarra? Erum við farinn að samsama okkur við pólitískan boðskap Túskildingsóperunnar um starfsmannaleiguna 2P og Vin litla mannsins Group, sem breyta þjáningum fólks í peninga.

Allt er til sölu, aðgangur að börnum og stúlkum til kynferðislegs ofbeldis. Fasteignir eða tilfinningar fólks. Er engin munur er á því að ræna banka og kaupa banka?

Nú get ég, segja ungpólitíkusar, sem röðuðu sér á listana í vor. Sjálfumglaðir ungkarlar, sem ekki höfðu tíma aflögu til þess að ljúka langskólanámi. Þeir birtast í spjallþáttum, þar sem þeir ræða um spuna sinn, sem er í raun ekkert annað en óraunsær raunveruleikafarsi og á að heita fréttir síðustu viku.

Þeir fylgja hinni niðurnjörvaðri og tilfinningarlausri veröld flokkspólitíkur og telja sig þurfa að segja okkur fyrir um hvernig við eigum að meðtaka boðskap spunafréttanna. Ákafir telja þeir okkur í trú um að þeir séu kjörnir til að leiða lýðinn og vissir í sinni sök bruna þeir beina braut spunans og sjálfumgleðinnar.

Aggressív fréttamennska er nauðsyn nútímaþjóðfélagi, en hún er vandasöm og krefst þekkingar. Hún snýst ekki um sársauka einkalífs eða um niðurlægingu. Hún er ekki spuni, hún á að taka á þeim sem hafa glatað mörkum siðferðis og horfið á braut græðginnar og hrifsunar.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Við Íslendingar (aðrir en innmúraðir) verðum að rísa upp gegn þessu bandalagi klíkuskapar og sérhagsmuna. Það vita allir hvar upptökin eiga heima, það vita allir hvaða flokkur það er sem er búinn að gegnum sýra samfélagið með sjúkdómi sínum, en engin segir neitt og ég kem fram undir dulnefni af ótta við að skapa mér og mínum óvild í þessu sjúka klíku-samfélagi. Viljum við Íslendingar hafa þetta svona, eigum við að sætta okkur við það að það séu tvær stéttir í samfélaginu, önnur svona smá-stétt sem er lengst af með framkvæmdavaldið, löggjafarvaldið og hálft dómsvaldið í höndum sér og getur lifað í refsileysi og hagað sér eins og hún eigi landið? Viljum við hafa þetta svona, viljið þið sem eruð að verja spillingarFLokkinn hafa þetta svona? Lengi vel var það ein fjölskylda sem réði landinu, nú er það klíkubandalag sem myndaðist út frá þessari fjölskyldu með erfðaprinsinn í forgrunni. Þvílíkt og annað eins bananalýðveldi. Ég er sannfærður að ef vel bærir erlendir aðilar myndu skoða sögu okkar kæmust þeir að því að hér ríkti eins konar einræði, einræði spilltra klíkubræðra Sjálfstæðisflokksins.
Þið sem styðjið hressilega við bakið á klíkuklúbbnum í Sjálfstæðisflokknum, viljið þið virkilega hafa þetta svona?

Kveðja
Valsol

Nafnlaus sagði...

Heiðarlegir Sjálfstæðismenn, við vitum að þið eruð þarna úti, viljið þið drattast til að taka til í flokknum ykkar áður en það verður of seint. Núna er tækifærið,ekki missa af því.

Nafnlaus sagði...

Kerfið er orðið svo spillt vegna þess að engir fengu að komast að kjötkötlunum nema spila sama leikinn. Kvennalistinn fór sömu leið. Samfó og Vg virðast spila sama leik og xD og xF. Er það ekki kerfið sem er ónýtt?

Þarf ekki að skipta út þremur efstu lögum embættismannakerfis, öllum þingmönnum sem sátu á Alþingi í bankahruni og byrja fersk?

Þjóðin fylgist með í ofboði og veit ekki sitt rjúkandi ráð!!!

Og sífellt fleiri Sjálfstæðismenn hlaupa til baka í fangið á flokknum! Þetta er eins og að horfa upp á Rússa halda á kröfuspöldum með andliti Lenin á! Aftur til fortíðast. Fólk er orðið svo hrætt og vill inní hlýju afneitunar aftur!