Vegna umræðunnar um skattamál þessa dagana langar mig til þess að rifja upp pistil frá 2007 þar sem ég fjallaði aðeins um skattastefnur fyrri ríkisstjórna. Þær héldu því fast að okkur launamönnum að það hafi verið frábæru starfi ríkisstjórna undanfarinna ára hversu gott allir hefðu það. Hið eina sem verkalýðshreyfingin hefði áorkað hafi stutt verðstöðvun á árinu 1990, kölluð Þjóðarsátt. Svo vitnað sé til hins mikla hugsuðar og gúru Flokksins Hannesar Hólmsteins.
Þessu til áréttingar voru fengnir hingað þekktir frjálshyggjumenn sem kynntir voru sem sérfræðingar í skattamálum fyrir kosningarnar 2006, þar á meðal Prescott nóbelsverðlaunahafi sem er þekktur frjálshyggjumaður og hann var kynntur sem sérfræðingur í skattamálum af þáverandi forsætisráðherra Geir Haarde. Því fór reyndar fjarri að Prescott hefði fengið verðlaunin fyrir þekkingu sína í lækkun skatta, það var fyrir stærðfræðilegt líkan af hagsveiflum. Prescott skrifaði eina fræðigrein um samband skatta og vinnutíma og hún var harkalega gagnrýnd. Sérfræðingar frjálshyggjunnar sögðu að íslendingar skiluðu ekki nægilega löngum vinnudegi??!!
Á það má benda að prófessorar við Harvard og MIT hafa rannsakað mismunandi vinnutíma í vestrænum þjóðfélögum og kannað skýringargildi annarra þátta en skatta. Niðurstöður eru að skattar skýri aðeins lítinn hluta af breytilegu vinnumagni þjóða, það er styrkur og skýr stefna launþegahreyfinga sem skipti þar öllu máli ásamt umfangi velferðarríkja og tekjuskipting.
Ef litið er til fullyrðinga frjálshyggjumanna þá ættu Íslendingar að vinna mun minna en Bandaríkjamenn, við greiðum hærri skatta. Við vinnum hins vegar meir, sé miðað er við atvinnuþátttöku og meðalvinnutíma. Norðurlandabúar ættu að vinna minna en aðrir í Evrópu, en atvinnuþátttaka þeirra er mun meiri en hjá öðrum Evrópumönnum og meiri en í Bandaríkjunum.
Einstaklingur í Bandaríkjunum vinnur að meðaltali 25,1 vinnustundir á viku en í Þýskalandi er meðaltalið 18,6 vinnustundir. Bandaríkjamaðurinn vinnur að meðaltali 46,2 vikur á ári en Frakkinn 40 vikur. Gögn, sem byggja á athugunum á vinnutilhögum, benda til þess að skattar útskýri aðeins lítinn hluta þessa munar. Harvardmenn setja fram vel rökstuddar kenningar um að sterk verkalýðshreyfing á evrópskum vinnumarkaði séu meginástæða þessa munar á milli Bandaríkjanna og Evrópu, með kröfunni um “Styttri vinnutími, vinna fyrir alla”.
Í byrjun áttunda áratugarins voru vinnustundir álíka margar í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu. Nú eru þær næstum 50 prósentum færri í Evrópu en Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn vinna nú álíka mikið og árið 1970 en Evrópubúar vinna mun minna. Fræðimenn og stefnumótendur hafa upp á síðkastið beint sjónum að fækkun vinnustunda í Evrópu.
Hér skipta máli áhrif verkalýðsfélaga í kjölfar áfalla innan atvinnugreina eins og þeirra sem áttu sér stað í Bandaríkjunum og Evrópu á 8. og 9. áratugnum. Ef framboð á vinnuafli fer upp á við eykur slíkt vinnustundir. Þar sem samdáttur er í hagkerfi þar sem verkalýðsfélög eru til staðar, hefur slíkt leitt til fækkunar vinnustunda. Við sama áfall í hagkerfi án verkalýðsfélaga aukast vinnustundir.
Einnig var boðinn hingað velkominn af Flokknum "Houdini hagfræðinnar" Arthur Laffer, sem er heimsþekktur fyrir "Voodoo Economics" um hvernig við græddum öll á því að skattar á fyrirtæki og fjárfesta verði lækkaðir. Þegar Ronald Reagan beitti þessari stefnu í Bandaríkjunum upp úr 1980 leiddi það til þess að allur afrakstur hagvaxtarins rann til tekjuhæsta hópsins og fjárfesta, verkafólk sat uppi með kauplækkun og lengdi vinnutíma sinn í kjölfarið til að vinna gegn kjaraskerðingunni og hefur enn ekki komist út úr þeim skaða sem þetta leiddi til.
Laffer bendir á að ef skattprósenta á tekjur einstaklinga væri 0% fengi ríkissjóður vitanlega engar tekjur, sama væri upp á teningnum ef skattprósentan væri 100% af tekjum. Laffer kúrfan er þar á milli er eins og U á hvolfi.
Það veit enginn hvar við erum stödd á Laffer-kúrfunni. Hvað gerist þegar skattprósentan er hækkuð og fer yfir það gildi sem gefur ríkissjóði hæstar tekjur þannig að tekjur lækka við frekari hækkun prósentunnar? Viss störf munu leggjast af, sum flytjast til annarra landa og önnur hverfa undir yfirborðið og fólk fer að koma sér hjá því að greiða skatta. Ekki er hægt að meta hvar hámarkið er á kúrfunni og það er háð efnahagsástandi og skattlagningu í öðrum löndum.
En við vitum um árangur Flokksins hann lækkaði skatta á þá hæst launuðu, en hækkaði þá þeim sem minna máttu sín með því að frysta skerðingarmörk bótakerfisins. Og óku þeir þjóðarksútunni án millimetra bremsufars fram af hengifluginu og þúsundir íslenskra heimila eru gjaldþrota.
11 ummæli:
Fékk aulahroll þegar stjórnandi kastljóssins talaði um Laffer galdrakarl eins og um væir að ræða einhver algild vísindi. Segir allt sem segja þarf um þann þátt.
Annars góður pistill hjá þér eins og alltaf.
Ég mæli með grein frá OECD eftir Magnus Blomström um erlendar fjárfestingar og hvaða umhverfi er helst leitast eftir. Síðasta efnisgreinin er sérstaklega athyglisverð.
Greinin finnst hér :http://www.oecd.org/dataoecd/55/1/2487874.pdf
Kveðja
Magnús Bjarnason
Skattar fara að mestu í gegnum ríkið, og lenda aftur í samfélaginu í formi þjónustu, samgangna, bóta o.s.frv. Ríkið er stærsti vinnuveitandinn.
Eftirfarandi slóð sýnir í hvað skattar okkar fara á nokkuð einfaldan hátt.
Fjárlög 2009
http://datamarket.net/is/thjonusta/gagnagraejur/daemi/fjarlog/
Hægt er að smella á súlurnar til að sjá einstaka liði.
Skýr og málalengingalaus grein og þetta er það sem alþýða fólks vill lesa. Ekkert holtaþokuvæl og bull og þvæla um ekki neitt. Takk fyrir Guðmundur nú og ævinlega. Þú ert okkar maður, alþýðu þessa lands. Ég vil helst fá þig í forsetastól ASÍ sem fyrst.
Fín grein hjá þér. Mjög góð.
Dapurlega einfeldnisleg umræða í Kastljósi í gær um skatta. Rugl fáfróðra frjálshyggjuhagfræðinga og fákunnandi sjónvarpskonu.
Bullið um Laffer kúrvuna er álíka merkilegt og "fræðimennska" Hannesar Hólmsteins.
Sem sagt, andlegt sorp.
Já það er svo áberandi hvernig Kastljósfólkið tekur því sem Frjálshyggjan segir sem trúarbrögðum og ekki þurfi að ræða það frekar.
Úlfur
Skýr eins og venjulega - takk
KÞG
Ofurbloggarinn með enn eina toppgreinina.
Meira meira takk KG
Enn hvernig lýst þér á þessar hugmyndir Guðmundur: Hægt að leiðrétta öll húsnæðislán í gegnum Íbúðalánasjóð
Sigurjón Örn Þórsson, stjórnmálafræðingur og framkvæmdastjóri Kringlunnar, sagði að með að flytja húsnæðislán úr gömlu bönkunum yfir í Íbúðalánasjóð verði til nýtt eigið fé sem nýtist til að leiðrétta öll lán, einnig þau sem fyrir voru í sjóðnum. Rangt sé að slík aðgerð sé of dýr fyrir skattgreiðendur því kröfuhafar gömlu bankanna greiði fyrir hana. Hann sagðist hafa kynnt tillöguna fyrir endurskoðendum sem telji alls ekki erfitt að selja kröfuhöfunum hana.
Sigurjón mat lánasafn sjóðsins á 550 milljarða króna en bankanna á 700 milljarða. Þar sem sjóðurinn hafi ekki orðið fyrir kerfishruni, líkt og bankarnir, hafi hann ekki svigrúm til að lækka höfuðstól lána um 20%. Með samræmdum aðgerðum væri tryggt jafnræði milli lántakenda.
Þá spyr ég :A) þarf kerfishrun til að eigandi láns hafi svigrúm til að færa höfuðstól lána niður um verðbólgu?
B) Hvar myndast nýja eigið féð?
C) Hvernig verður til nýtt eigið fé við það að breyta um eiganda lána?
D) Ef kröfuhafar gömlu bankanna greiða fyrir leiðréttingu lána ef þau verða flutt í Íls hvers vegna er ekki hægt að færa þau niður meðan þau eru í bönkunum
E) HVAR MYNDAST NÝTT EIGIÐ FÉ?
Kveðja Simmi
Sæll Simmi
Þessi hugmynd fyrrverandi aðstoðarmanns Árna Magnússonar er ein af þessum töfralausnum sem hafa allt til að bera nema það að ganga upp.
Það er auðvitað ekki þannig að hægt sé að búa til eigið fé hjá Íbúðalánasjóði með því að færa kröfur úr bönkunum til sjóðsins.
Það sem einfaldlega gerist í efnahagsreikningi ÍLS er að eignir aukast sem nemur fjárhæðinni sem færð var yfir til sjóðsins þar sem sjóðurinn á þá kröfu á að þeir sem skulduðu bönkunum greiði nú til ÍLS.
Á móti hækka skuldir ÍLS þar sem sjóðurinn þarf að greiða bönkunum fyrir þær eignir sem sjóðurinn fékk. Við þessa aðgerð breytist eigið fé ekki neitt.
Það sem síðan gerist í framhaldinu er að ríkissjóður þarf líklega að leggja sjóðnum til meira eigið fé þar sem efnahagsreikningur sjóðsins var að stækka og sjóðurinn verður að hafa a.m.k. 8% eigið fé.
Það er alveg ótrúlegt hvað margir halda að við það að bankarnir tapa miklum fjármunum vegna lána sem ekki er hægt að innheimta gefi þeim aukið svigrúm til að færa niður kröfur.
Það er einfaldlega þannig að ef við skuldum bankanum sína milljónina hvor og ég er gjaldþrota en þú ert í góðum málum þá afskrifar bankinn 50% af samanlögðum kröfunum.
Bankinn nær því inn með því að rukka þig um 100% en fær ekkert frá mér. Ákveði bankinn að færa skuldir okkar beggja niður um 50% þá fær bankinn 500.000 frá þér en áfram ekkert frá mér því að ég er jafn gjaldþrota. Afskrift bankans verður því ekki 50% heldur 75%!
En svo að ég svari beinu spurningunum:
A)Kerfishrun er engin forsenda þess að hægt sé að færa niður höfuðstól vegna verðbólgu. Til þess að það sé hægt þarf að fjármagna það. Það að bankar eigi mikið af kröfum sem ekki eru innheimtanlegar að fullu hjálpa ekki til við að færa niður innheimtanlegar kröfur. Ef það á að gera það verður það ekki gert nema annað tveggja:
a. Að í ljós komi að dómstólar telji að lánasamningur haldi ekki t.d. vegna ólögmætra skilmála eins og margir halda fram með gengistryggðu lánin eða að dómstólar telji að um forsendubrest sé að ræða eins og oft er haldi fram í umræðunni. Að mínu viti geta engir aðrir en dómstólar skorið úr um það.
b. Einhver fjármagni niðurfærsluna og þá eru ekki margir sem koma til greina. Það yrði þá ríkissjóður og mögulega lífeyrissjóðirnir.
B)Eigið fé er mismunur á eignum og skuldum. Við yfirflutning á lánasafni til ÍLS yrði þá stuðst við verðmat ásafninu. Eigna og skuldahlið efnahagsreiknings ÍLS myndi síðan hækka um sömu upphæð og ekkert nýtt eigið fé myndaðist. Í framhaldinu yrði ríkissjóður mögulega að greiða inn í ÍLS aukið eigið fé þar sem það verður að vera a.m.k. 8% af efnahagsreikningnum.
C)Það verður einfaldlega ekki til neitt eigið fé við það að breyta um eiganda lána.
D)Eina leiðin til að fá kröfuhöfum gömlu bankanna til að greiða fyrir „leiðréttingu lána“ er að greiða þeim minna fyrir kröfurnar en áætlað er að innheimtist af þeim. Þannig skapa menn svigrúm til að hægt sé að gefa eftir innheimtanleg lán.
Til þess að það sé hægt verður annað hvort að fá kröfuhafana til þess að gefa eftir hluta eigna sinna í frjálsum samningum eða stela frá þeim. Líklega frýs fyrr í helvíti en að kröfuhafarnir gefi eftir eignir sínar.
Vonandi erum við það siðað samfélag að við ætlum þá ekki hina leiðina. Þessi leið er jafn ófær hvort heldur sem er innan bankanna eða ÍLS.
E)Eins og áður er rakið þá verður ekki til neitt eigið fé við svona bókhaldstilfærslur.
Vona að þetta svari spurningunum.
Bestu kveðjur, Guðmundur
Þakka fyrir gott svar. Enn svo er það mín skoðun að þú eigir að vera áfram formaður RSÍ, enn allsekki verða forseti ASÍ, þú hefur meira vægi í þessari stöðu sem þú ert í. Mættir ekki segja sem þarf að segja Kv Simmi
Skrifa ummæli