sunnudagur, 31. janúar 2010

Afstöðuleysi kjósenda

Hingað til hafa íslenskir stjórnmálamenn ekki þurft að óttast atkvæðamissi. En það eru kjósendur sem eiga að setja stjórnmálamönnum ramma, annars virka lýðræðið ekki sem skyldi. Hvernig verður tekið á skýrslu rannsóknarnefndar? Verður það með hinum fyrirséðu og venjubundnu flokkspólitísku hönskum? Ef það verður niðurstaðan, er íslensk þjóð að samþykkja spillinguna og losa stjórnmálamenn undan ábyrgð.

Það hafa átt sér stað landráð í skjóli afskiptaleysis stjórnvalda, reyndar má að nokkru segja að undirlagi þeirra. Það hlaut að koma að Hruninu það var bara spurning hvenær. Ójafnvægi og óheilbrigt ástand hefur ríkt um allangt skeið. Nú hefur verið flett hefur verið ofan af hverri ormagryfjunni á fætur annarri. Klíkuskapur með gjörspilltu kerfi hefur ríkt hér, sem hefur snúist um að tryggja völd og samtryggingu. Umboðsmaður Alþingis benti á að lagasetningu Alþingis sé verulega ábótavant, allt að þriðjungur laga sem Alþingi setji stangist á við stjórnarskrá eða gildandi lög.

Athafnir embættismanna og ráðherra hafa leitt til þess að tugþúsundir íslendinga hafa tapað ævisparnað sínum og sitja uppi með gríðarlegar skuldir. Þetta fólk hefur ekkert unnið til saka. Fjárglæframenn nýttu sér svigrúm sem slök íslensk reglugerð og eftirlit gaf þeim til þess að skuldsetja þjóðina. Embættismenn og ráðherrar vildu hafa þetta svona og auglýstu Ísland með dyggri aðstoð forseta lýðsveldisins sem fjármálaparadís. Þjóðinni hefur margoft ofboðið, en samt endurkaus hún sömu menn til valda og haldið var áfram ennlengra á vit markaðshyggjunnar frá jöfnuði og heiðarleika.

Helstu rök gegn því að ganga til liðs við það efnahagsumhverfi sem nágrannaríki okkar hafa byggt upp með góðum árangri, hefur verið sú að það sé svo gott að hafa okkar eigin gjaldmiðil því þá getum við varið atvinnulífið fyrir atvinnuleysi. Það hefur oft komið fram að hlutverk þessa gjaldmiðils er það eitt í augum stjórnenda íslenskra efnahagsmála af hafa af launamönnum umsamdar launahækkanir og halda þeim í ríki ofurvaxta og ofurverðlags fákeppninnar.

Með því var verið viðhalda óstöðugleikaleikanum og þá um leið að verðtrygging verði hér áfram og raka auð í hendur fárra. Þessi efnahagsstefna hefur í raun einungis aukið sveiflurnar í efnahagslífinu og innifelur láglaunastefnu. Íslenskt efnahagslíf er fyrir allnokkru vaxið langt upp yfir örkrónuna.

laugardagur, 30. janúar 2010

Erum kominn á leiðarenda

Hvers vegna er Ísland í mun verri stöðu en aðrar þjóðir? Hvers vegna fer þolinmæði annarra þjóða gagnvart okkur þverrandi? Hvers vegna hafa ráðandi stjórnmálamenn undanfarinna áratuga alltaf haft allt á hornum sér gagnvart erlendu samstarfi? Nema það snúist einvörðungu um atriði sem eru Íslandi til hagsbóta, án skuldbindinga gagnvart öðrum.

Smuguhugsunarháttur íslenskra stjórnmálamanna og einangrunarstefna markast af því að við séum allt öðruvísi og aðrar þjóðir eigi að taka tillit til þess. Nú blasir við að við komumst ekki lengra þessa braut. Þess er krafist að við stöndum við alþjóðlegar skuldbindingar og á það bent að við höfum með hátterni okkar valdið öðrum um 6 milljarða tapi. Við höfum eitt um efni fram og í óarðbæra hluti.

Það er við íslenskt ríkisvald og eftirlitsstofnanir að sakast hvernig fór. Þau tóku mikla hægri beygju og fóru í ferðalag til aukinnar frjálshyggju með íslenskt efnahagslíf. Íslenskir kjósendur samþykktu það með því að endurkjósa þau stjórnvöld nokkrum sinnum. Nú blasa afleiðingarnar við. Vinaþjóðir hafa á undanförnum árum ítrekað bent fyrrverandi íslenskum ráðherrum og Seðlabankastjórn hvert stefni. Viðbrögð ráðamanna okkar eru þekkt og á því byggjast viðhorf ráðamanna vinaþjóða gagnvart okkur. Það byggist ekki af einhverri illgirni eða vilja til ofbeldis gagnvart litlu ríki. Íslendingar komu sér í þessa stöðu og kjósa sig ekki frá þessum óförum, les maður í erlendum blöðum.

Spilling hefur vaxið gríðarlega í skjóli þeirrar stjórnarstefnu sem hér hefur verið viðhöfð. Markaðsvæðingin breytti starfi stjórnmálaflokka og einstakra þingmanna. Þetta kom t.d. afskaplega glögglega fram á svörum þingmanns Sjálfstæðismanna, útgerðarmanns að vestan, og svo ekki síður í svörum formanns flokksins þegar hann var inntur eftir áliti á hátterni þingmannsins. Formaður eins stærsta stjórnmálaflokks Íslands, sem hefur verið við völd á Íslandi meir og minna undanfarna áratugi, lýsir því yfir að honum finnist í lagi að menn brjóti landslög, svo framarlega að þeir dæmi sig sjálfir og ákvarði hver refsing eigi að vera. Formaðurinn lýsir því yfir við land og þjóð að dómsstigið sé í raun óþarft, allavega hvað varðar útvalda vildarvini hans.

Nú liggur fyrir að innan skamms verður birt skýrsla rannsóknarnefndar. Sé litið til ummæla skýrsluhöfunda má ætla að þar muni koma fram mjög alvarleg afglöp nokkurra núverandi og fyrrverandi stjórnmálamanna. Skýrslan verður áfellisdómur á vinnubrögð og athafnir ráðandi manna hér á landi. Staðfesting á því sem vinaþjóðir okkar hafa bent á. Það sé við íslendinga sjálfa að sakast hvernig komið sé fyrir land og þjóð.

Af orðum og athöfnum formanns Sjálfstæðisflokksins, þingmanna flokksins og fyrrverandi ráðherra virðist það vera ætlun þeirra að með öllum tiltækum ráðum að virða niðurstöður nefndarinnar að vettugi, dæma sig sjálfir og ákvarða sjálfir hvort nokkrar refsingar verði. Þetta staðfestist ekki síður í skrifum sem birtast á síðum Morgunblaðsins, m.a. hjá núverandi ritstjóra blaðsins, fyrrverandi Seðlabankastjóra sem keyrði bankann kyrfilega í þrot og efnahags- og peningastefnu Íslands um leið.

Allir sérfræðingar atvinnulífsins benda á að við séum nú í brotpunkti og það sé okkar að ákvarða hvort við ætlum að sökkva enn dýpra og búa okkur enn lengri efnahagslega ánauð, eða hvort ætlum við taka markvist á og hefja göngu upp á við. Við verðum að hefja siðbót og erum einfaldlega neydd til þess að skipta um stjórnendur og þvinga íslenska stjórnmálamenn til þess að taka upp breytt vinnubrögð og viðhorf. Íslenska ríkið stendur á brauðfótum. Við verðum að fara að hugsa saman, heildstætt. Við þurfum ekki sérfræðinga til þess að úthugsa fleiri bellibrögð og undanskot frá skyldum alþjóðasamfélagsins.

Nú þarf að rækta jöfnuð og hugsa skýrt. Víkja öllu moldvirðinu frá sem stjórnmálmenn þyrla upp til þess að villa okkur sýn. Standa vörð um samfélagsleg gildi og rækta þau. Hvert viljum við stefna, hver eru markmið okkar.

Hvað þarf til þess að leysa þessi verkefni. Skoða hversu vel er verið að gera það sem við þurfum/verðum að gera. Hvernig við komum í veg fyrir að þessar ófarir endurtaki sig.

föstudagur, 29. janúar 2010

Heildarhagsmunir

Undanfarna daga hefur komið æ betur fram hversu mikinn skaða búið er að vinna gagnvart íslensku samfélagi með því að koma í veg fyrir að Icesave málið yrði klárað. Stjórnarandstaðan hefur einungis unnið einu markmiði, skapa glundroða og enn eru þeir að. Ávinningurinn þeirra er sá einn að það er búið að vekja óraunsæjar væntingar meðal þjóðarinnar.

Ábyrgð fjögurra stjórnarþingmanna á núverandi stöðu er ekki minni. Það blasir við að allur þessi glundroði hefur leitt til þess eins að skaða stöðu íslensks samfélags. Búið er að semja nokkrum sinnum og fyrir liggur að íslenskir ráðherrar undirgengust ábyrgð á haustdögum 2008. Þar með var dómstólaleið ófær. Fyrir liggur að litlu er hægt að breyta í samningum við Breta og Hollendinga.

Harla einkennilegt að heyra menn eins og t.d. forsetann og Ögmund fagna lágu gengi lágu gengi krónunnar og lækkandi kaupmætti launamanna. Fagna því að Ísland stefni í að verða sérstakt láglaunasvæði hér í Norður-Evrópu til langframa.

Kaupmáttur hefur í dag fallið um 25%, um 9 – 10 þús manns eru atvinnulaus og það mun vaxa áfram næstu mánuði, líklega fara upp í 15 þús. manns. Það blasir við þjóðinni nýr 120 milljarða vaxtareikningur. Allt málþófið hefur leitt til þess að allar björgunaraðgerðir heimilanna hafa frestast og glutrast niður í glundroðamálflutningnum. Takk fyrir mig og mína fjölskyldu, Bjarni Ben, Sigmundur Davíð og fylgisveinar.

Hagvöxtur er eina leiðin úr þeirri stöðu sem Ísland er í. Framangreind vinnubrögð stjórnarandstöðu, fjögurra stjórnarþingmanna og forsetans, hafa aukið fall Íslands töluvert umfram það sem nauðsynlegt var. Því þarf mun meira að koma til ef takast á að ná svipuðum lífskjörum aftur og við höfðum.

Ef það tækist að ná 2% árlegum hagvexti til ársins 2020, verða lífskjör orðin svipuð og þau voru 2008. En atvinnuleysi verður enn svipað og það er nú og velferðarkerfið verður umtalsvert laskað.

Ef hagvöxtur verður 3,5% fram til 2020 verða lífskjör svipuð og 2008, en atvinnuleysi verður um það bil helmingi minna en það er í dag, eða um 5%, sem er samt töluvert lakara en það var 2008 og verðferðarkerfið verður í sömu stöðu og það er í dag.

Það þarf 5% hagvöxt til ársins 2020 til þess að losna við atvinnuleysið bæta lífskjör og ná velferðakerfinu úr því falli sem það hefur verið undanfarin 2 ár.

Ef gengið hefði verið frá Icesave vorið 2009 þá hefðum við þurft 3,5% hagvöxt í stað 5% til þess að ná viðunandi stöðu árið 2020. Fjölgun starfa er eina leiðin til þess að auka hagvöxt. Það þarf að skapa um 30 þús. störf á næstu árum. Ef það á að vera hægt þarf atvinnulífinu að standa til boða nægt lánsfé á ásættanlegum kjörum.

Það samfélag sem viljum hafa er dýrt í rekstri. Það verður ekki gengið lengra í að auka skatta. En augljóslega verður að ná jöfnuði í opinberum rekstri. Fyrir lok þessa árs verður að minnka rekstrarkostnað hins opinbera ekki bara verulega, heldur umtalsvert. Það kallar á að skapa verði enn fleiri störf hjá fyrirtækjunum.

Við komumst ekki hjá því að skipta um gjaldmiðil og skapa stöðugt umhverfi og ná vöxtum umtalsvert niður. Ef það á að takast verðum við að auka traust á íslensku samfélagi, og ekki síður meðal okkur sjálfra. Stjórnmálamenn eru búnir að einangra sig. Upphrópunarmenn eru fastir gestir í fréttaþáttum með innistæðulausar töfralausnir. Lýðskrum er í hávegum haft og virðing fyrir reglum og lögum er á því plani, að það sem ekki er bannað er framkvæmt.

Nú virðist stjórnarandstaðan ætla að beita sér gegn nauðsynlegu uppgjöri í samfélaginu með því að fresta enn frekar birtingu Rannsóknaskýrslunnar og gert verði upp við þá sem unnið hafa til saka.

Stjórnmálamenn eru uppteknir af nærhugsunum og vörslu sérhagsmuna í hinum flokkspólitísku boxum sínum. Einungis sameiginlegt átak með heildarhagsmuni að leiðarljósi geta komið okkur af stað upp á við.

miðvikudagur, 27. janúar 2010

Sprotafyritækin

Á undanförnum 2 árum hafa verið stofnuð með stuðningi Nýsköpunarstofnunar um 80 ný sprotafyrirtæki og þau eru í dag með um 400 manns í vinnu. Ég heyrði til forsvarsmanna tveggja fyrirtækjanna á fundi um atvinnumál í gær sem Dofri Hermannsson stóð fyrir, þar sem þeir lýstu því hvernig þetta hefði gengið fyrir sig.

Þegar þeir fóru til bankanna fyrir Hrun tóku Bankamenn á móti þeim sem einhverjum hálfvitum og spurðu; „Hvers vegna ertu að setja peningana í svona bulláhættu. Láttu okkur fá peningana þína og þú færð a.m.k. 15% ávöxtun og tekur enga áhættu. Peningasjóðirnir hjá okkur eru 100% öruggir.“

En þeir fóru frekar og fengu aðstöðu með sína viðskiptahugmynd í Nýsköpunarmiðstöð, settu sína fjármuni og vina sinna í hugmyndina og unnu hjá sjálfum sér á litlu launum til að byrja með. Báðir aðilar eru með starfandi fyrirtæki, annar þeirra er í dag með hratt vaxandi fyrirtæki og var með nálægt 200 millj. kr. útflutning á síðasta ári.

Nú blasir við okkur að á sama tíma og bankarnir reyndu allt sem hægt var til þess að soga til sín fjármuni og beitti saklaust fólk blekkingum um 100% öryggi. Bankamenn vissu betur, þeir voru vísvitandi að stefna landinu fram af bjargbrúninni og hrifsa til sín fjármuni saklaus fólks senm var að reyna að koma undir sig fótunum. Í dag taka fjármagnsfyrirtæki allt öðruvísi á móti fólki með viðskiptahugmynd. Það er sest niður með fólki og viðskiptahugmyndin skoðuð af jákvæðni og rætt við sprotahugmyndamenn eins og eðlilegt fólk.

Á árunum fyrir Hrun komust fá fyrirtæki af stað vegna þess hverju þau mættu hjá fjármálastofnunum. Íslensk fyrirtæki stríða við svo miklar sveiflur í sínum rekstri að þau eru undirseld þeirri stefnu sem stjórnvöld hafa fylgt að bíða eftir næstu innspýtingu sem hafa verið mannaflsfrekar framkvæmdir. Ef ekki verður staðið rétt að næstu "uppsveifla", má búast við hún gæti orðið styttri en oft áður og timburmennirnir enn harkalegri. Sumt af því sem stjórnmálamenn ræða um lítur út eins og "síðasti smókurinn" áður en við hættum alveg.

Er okkar björg fólgin í því að verða með svo skert mannorð að við fáum ekki lán erlendis frá? Í þeirri stöðu að verða að fara að huga að alvöru lausnum, sem eru að setja niður stöðugan gjaldmiðil, viðráðanlega vexti, þannig að við gætum skapað verðmæti eins og annað fólk með því að gera hlutina aðeins betur en næsti maður. Það er nefnilega undirstaða viðskiptahugmyndar og eðlilegrar uppbyggingar atvinnulífs ásamt hugmyndum sem skapa 3 – 20 mnns atvinnu þar sem unnið er að því að skapa verðmæti.

mánudagur, 25. janúar 2010

Frestun skýrslunnar

Sífellt fleiri halda því blákalt fram að nokkrir af fyrrverandi ráðherrum og þingmönnum, ásamt nokkrum af núverandi ráðherra og þingmanna, Seðlabankastjórn og Fjármálaeftirlits fara mjög illa út úr því sem fram komi í væntanlegri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þetta eigi ekki bara við fyrrverandi og núverandi stjórnarflokka, heldur þá alla fjórflokkana.

Vaxandi fjöldi skýrir út hið gríðarlega, og í mörgu óskiljanlega, moldviðri sem þyrlað hafi verið upp í kringum Icesave, stafi einungis af því að þingmönnum hrjósi hugur við hvað muni gerast þegar skýrslan verði birt. Stefnulaus umræða, rakalausar upphrópanir, misvísandi ummæli sérvalinna og tilkallaðra lögmanna og „sérfræðinga“, allt beri það eitt með sér, stefnuleysi og ráðaleysi stjórnmálamanna. Allt með ráðum gert til þess að fæla fólk frá því að vera að fylgjast með fréttum.

Hvar í veröldinni væri sama ástand og hér? Af hverju eru ekki einhverjir komnir bak við lás og slá? Hvernig stendur á því að öll næstefstu stjórnunarlögin í FLgroup, Eimskip, Exista, bönkunum og stóru fyrirtækjunum eru að loka aðkomu að hverju málinu á fætur öðru. Forstjórarnir fara en hinir sitja áfram. Af hverju eru þessi leyndarhjúpur í kringum Landsbankann? Talið er víst að öll stóru pólitísku leyndarmálinn séu þar.

Enginn efast eitt augnablik að næstefstu stjórnunarlögin hafi ráðið för í þessum fyrirtækjum og þau hafi vitað hvernig farið var með uppskiptingar fyrirtækjanna og undanskot fjármuna? En okkur er gert að horfa upp á að þessir aðilar sitja þar með yfirstrikanapenna sína og þurrka út eigin afglöp og ætla sér að sitja áfram við í óbreytta stöðu.

Eigi þessi skýrsla að vera innlegg í rannsókn þess hvað gerðist í raun og veru, þá er mjög slæmt að það skuli dragast að henni sé skilað. Það er erfitt að skýra þennan frest öðruvísi en svo, að hann sé tilkominn vegna varnarviðbragða þeirra sem eru í skýrslunni.

Flestir töldu frestun þjóðaratkvæðagreiðslu til 6. mars tilkomna vegna þess að þá myndi gefast andrými frá birtingu skýrslunnar og nauðsynlegrar umræðu fyrir kosningar. Það er ekki gott að nú skuli stefna að koma henni út síðustu dagana fyrir atkvæðagreiðsluna. Verður atkvæðagreiðslunni þá frestað líka? Eða er þetta skipulagt með þeim hætti að deyfa eigi athygli almennings með því að fresta birtingu skýrslunnar að frestuðum kosningadegi? Allir frestir gera það að verkum að tortryggni vex og nauðsynleg uppbygging hefjist.

Ég er einn hinna fjölmörgu sem tel að uppgjör sé fram undan, setti fram þá kenningu fyrir tæpu ári. Stjórnarrof og kosningar. Stjórnlagaþing og ný stjórnarskrá. Ég trúi því líka að hinn stóri þögli meirihluti, sem hefur haft hægt um sig, á meðan tiltölulega litlir öfgahópar hafa tekið þátt í darraðadansi stjórnmálamanna og hinum stýrðu fjölmiðlum, muni rísa upp með meiri krafti en áður hefur sést hér á landi ef stjórnmálamenn víki ekki og sópað verði úr hornunum.

Þá munum við sjá marga ábyrga borgara standa fremsta í flokki á Austurvelli og stúta rúðum á Alþingi.

sunnudagur, 24. janúar 2010

Mæling spillingar

Í fyrri pistlum sérstaklega á árinu 2007 og eins 2008 benti ég alloft á hversu innistæðulitlar þær væru ítrekaðar yfirlýsingar þingmanna Sjálfstæðismanna um að hér á landi fyndist ekki spilling og þann málflutning studdu með tilvitnunum í erlenda könnun. Þrátt fyrir að fyrir liggi að hér á landi væru ekki til lög sem þessi könnun nýtti sem mælitæki.

T.d. eins og ég benti á 31. ág. 2008. og sagði m.a. :
Samkvæmt árlegri úttekt stofnunarinnar Transparency International þrífst hvergi minni spilling í heiminum en á Íslandi. Á skalanum 1 til 10, þar sem 10 merkir engin opinber spilling, mælist Ísland með 9,7. Niðurstaða stofnunarinnar byggir könnunum með spurningum um misnotkun á opinberu valdi í eigin þágu og mútuþægni opinberra starfsmanna.

Um er að ræða 16 spurningar og er Ísland aðeins í 6 spurningum. Allar spurningarnar utan einnar snúast um mútur. Ísland getur ekki annað en skorað hátt í svona könnun vegna þess að umræðan um spillingu hér snýst um fyrirgreiðslu stjórnmálamanna í formi pólitískra ráðninga, einkavinavæðingar, opinbers stuðnings til stjórnmálaflokka og kosningasmala sinna (sem þeir settu á launaskrá hins opinbera í vor) og svo sjálfra sín í formi eftirlauna.

Til þess að tryggja stöðu sína þá hafa íslenskir stjórnmálamenn gætt þess að embættismannakerfið verði ekki of sterkt og þeim vikið sem verða í vegi þeirra. Þeir sem kanna spillingu í löndum og bera þau svo saman hafa bent á að það sé ekki hægt að gera svona kannanir á Íslandi, þar sem stjórnmálamenn hafi gætt þess að fáar reglur séu til á Íslandi um störf stjórnmálamanna.

Afstaða þingmanna Sjálfstæðisflokksins undanfarna daga segir í raun allt, auk þess að þeir skuli hiklaust vitna í framangreinda könnun og halda því fram á grundvelli hennar að það sé engin spilling á Íslandi og engin ástæða til þess að gera neitt!!

Það hlýtur einnig að mörgum umhugsunarefni hvernig tilteknir fjölmiðlar birta fréttir um þessa könnun og meðhöndla niðurstöður hennar sem staðreyndir. sjá hér

Sé litið til ummæla þingmanna um spillingu má vitna til kenningar Altúngu að allt sé í allrabesta lagi, vegna þess að það geti bara ekki verið öðruvísi. Þess vegna er það vitanlega bjánalegt að vera að barma sér.

laugardagur, 23. janúar 2010

Samningsstaðan

Stjórnarandstaðan hefur valdið íslensku þjóðinni gríðarlegum skaða. Ekki bara með þeirri efnahagstjórn sem beitt var þegar þeir voru í ríkisstjórn, heldur ekki síður með þeim málflutning sem þeir hafa ástundað síðasta ár.

Í skjóli þeirra komst siðblinda í viðskiptalífinu til valda. Þá voru útrásarvíkingarnir strákarnir okkar og allt sem þeir sögðu var kokgleypt. Þáverandi ráðherrar klappstýrur útrásarinnar fóru um heiminn og boðuðu fagnaðarerindi hins íslenska efnahagsundurs. Hið fullkomna frelsi, sem var beitt til þess að fáir hrifsuðu til sín allt sem hönd á festi og skattar á hinum lægst launuðu voru hækkaðir, svo hægt væri að standa undir kostnaði af skattlækkunum þeirra sem mest höfðu.

Ef takast á að draga Breta og Hollendinga að samningaborðinu á ný, verður að vera tryggt að slíkir samningar haldi og þingmenn skelli sér ekki í annan sirkus eins og í sumar og setji inn í samninginn einhliða forsendur teknar úr óskalistum. Ríkisstjórn Geirs Haarde gekk frá samkomulagi og núverandi ríkistjórn gekk frá öðru og betra samkomulagi og það samkomulag var svo endurbætt. Allt staðfest af meirihluta Alþingis á hverjum tíma.

Þetta blasir við öllum sem þekkja eitthvað til samningagerðar. T.d. er klárt að samningamenn Breta og Hollendinga hefðu tekið með allt öðrum hætti á málinu ef íslendingar hefðu hafnað allri ábyrgð á innistæðum og þá hefðu þeir líklega dregið upp á borðið alla upphæðina, ekki bara 20 þús. evrumarkið.

Til allra þessara samþykkta og skjala og fleiri atriða, hafa Bretar og Hollendingar og reyndar norðurlandaþjóðirnar vísað til í umræðum um þessi mál. Er nema von að álit íslendinga út á við hafi hrunið?

Í yfirlýsingu Geirs Haarde forsætisráðherra 8. október 2008 í kjölfar þess að Bretar tryggðu innistæður kom m.a. fram : "Ríkisstjórnin ítrekar að ríkissjóður mun styðja Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta við öflun nægjanlegs fjár." Í samkomulagi milli Íslands og Hollands um Icesave 11. október 2008 stendur m.a. : "Samkomulagið kveður á um að íslenska ríkið muni bæta hverjum og einum hollenskum innstæðueiganda innstæður að hámarksfjárhæð 20.887 evrur. Hollenska ríkisstjórnin mun veita Íslandi lán til að standa undir þessum greiðslum og hollenski seðlabankinn mun annast afgreiðslu krafna innstæðueigenda."

Ríkisstjórn Geirs Haarde sendi frá sér fréttatilkynningu þar sem kom m.a. fram að lánið muni bera 6,7 prósenta vexti, reiknað frá útgáfudegi lánsins, og verða endurgreitt á 10 árum. Falli skuldin í gjalddaga munu vextirnir aukast um 0,3 prósentustig í 7 prósent. Ekkert þarf að greiða af láninu fyrstu 3 árin og þar er vísað til Memory of Understanding, undirritað af Baldri Guðlaugssyni einum helsta efnahagsráðgjafa ríkisstjórnar Geirs.

Í þingsályktun um samninga um ábyrgð ríkissjóðs sem Bjarni Ben form. Sjálfstæðisflokksins kynnti og sjálfstæðismenn ásamt öðrum samþykktu á Alþingi 5. desember 2008 stendur m.a. "Aðilar komu sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins.“

Sjálfstæðismenn stóðu einnig fyrir þingsályktun gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem var samþykkt á Alþingi 5. desember. Viljayfirlýsing um áform íslenskra stjórnvalda: "Ísland hefur heitið því að virða skuldbindingar á grundvelli innstæðutryggingakerfisins gagnvart öllum tryggðum innlánshöfum."

Að auki má nefna samþykktir Alþingis um Icesave 28. ágúst og 31. desember. Í báðum er samþykkt að greiða lágmarksinnstæðu. Fyrri lögin voru staðfest af forseta Íslands en þau síðari, breytingalögin, verða borin undir þjóðaratkvæði 6. mars.

Hefur stjórnarandstaðan velt fyrir sér hver samningsstaða íslendinga er í raun? Niðurstaðan er sú að stjórnmálamenn eru búnir að koma Íslandi í ömurlega stöðu. Sjálfstæðismenn þegar þeir voru í ríkisstjórn heimiluðu Landsbankamönnum að setja upp Icesave. Þeir sinntu ekki aðvörunum um hvert stefndi og gripu ekki til neinna aðgerða. Þeir undirrita viljayfirlýsingu þar sem fram kemur viðurkenning á ábyrgð Íslands. Þeir ganga frá samningsdrögum.

Næsta ríkisstjórn Samfylkingar og VG geri annan betri en sá fyrri og hann er samþykktur. Þeir gera endurbætur á samningnum og sá samningur er samþykktur.

Forseti ákveður að setja þann samning í þjóðaratkvæðagreiðslu og sé litið stöðunnar þá eigum við úr tveim tvo mjög slæmum kostum að velja samþykkja samninginn, eða fella hann og vonast til þess að nýr samningur verði gerður, en samningstaða okkar er mjög slök, afspyrnu slök.

Afleiðingar alls þessa er að allann tímann hefur atvinnulífið verið að verzlast upp og lánakjör þjóðarinnar hafa snarversnað og álit hennar komið í svaðið.

Engin vill standa skil á Icesave, en við almenningur verður að horfast í augu við þá staðreynd að stjórnmálamenn hafa verið staðnir af gríðarlegum afglöpun og afleikjum Þar standa langfremstir í flokki Sjálfstæðismenn , þeir hafa komið okkur í þá ömurlegu stöðu að hafa einungis um þessa tvo vondu kosti að velja.

Og eins og Bjarni Ben og Sigmundur Davíð viðurkenndu loks í sjónvarpinu nýverið; sá kostur er ekki í stöðunni að við getum sagt okkur frá málinu. Og svo er fólk sem segist ætla að styðja þessa menn.

Nú á að setja inn nokkra stráka fyrir heiftúðug ólæti á þingpöllum. Af hverju er ekki einn einasti stjórnmálamaður eða embættismaður komin á bak við lás og slá?

Fréttamat og spjallþættir

Ég hef oft fjallað hér á þessari síðu um spjallþáttastjórnendur og bent á að þau viðhorf sem komi fram í þáttum þeirra, endurspegli í raun einungis viðhorf þess sem stjórnar þættinum. Hann leiti eftir staðfestingu á sínum eigin skoðunum með vali á viðmælendum. Oft kemur það svo fram að ef viðmælandi er með skoðanir, sem eru andstæðar skoðunum spjalþáttastjórandanum, að stjórnandinn fer að rífast við viðmælanda sinn. Þetta er t.d. svo áberandi hjá Heimi í morgunþætti Bylgjunar.

Þetta blasir allavega við mér við í þeim málaflokkum sem ég hef staðgóða þekkingu á. Þar á ég við starfsemi stéttarfélaga og lífeyrissjóða. Kjarasamninga ásamt samskiptum launamanna og fyrirtækja. T.d. er ákaflega áberandi hjá spjallþáttastjórnendum sem hafa kosið að standa utan stéttarfélaga og vera sjálfstæðir verktakar, þeir leita ákaft eftir viðmælendum sem hallmæla stéttarfélögum og sækjast eftir staðfestingu á því hvers vegna þeir vilji ekki vera félagsmenn. Þetta er t.d. ákaflega áberandi í morgun- og eftirmiðdagsþáttum Bylgjunnar.

Í Speglinum, sem að mínu mati er einn af bestu þáttum íslensks útvarps, ber samt nokkuð á þessu hjá tilteknum stjórnendum. Þá sérstaklega hvað varðar viðhorf til lífeyrissjóða og skuldsetningu einstaklinga.

Stundum er ekki hægt annað en að draga þá ályktun að viðkomandi spjallþáttastjórnandi hafi lent illa í 2007 skuldsetningarævintýrum og sé að leita eftir afsökun á eigin mistökum og koma fram hefndum. Um þetta er vitanlega ekkert að segja, menn hafa sínar skoðanir og koma þeim á framfæri.

En það verður aftur á móti alvarlegt þegar fréttamenn taka það sem fram kemur í spjallþætti og höndla það sem staðreyndir, eins og gerðist nýlega hvað varðar fasteignakaup þar sem fréttin var frá upphafi til enda var tengd við þingmenn tiltekins stjórnmálaflokks. Það kom reyndar fram í fréttinni að hún væri marklaust bull en samt hélt fréttmaður áfram og fréttastjórnandi gerði engar athugasemdir fyrr en í ljós kom að almenning hafði ofboðið.

Hér ég við fréttir sjónvarps í fyrradag þar sem vitnað var til umfjöllunar Spegilsins um það hvernig staðið væri að sölu fasteigna úr eignarsýslufélögum bankanna. Um leið og fólki í kröggum er boðið upp á svokallaða 110% leið eru eignir sem bankarnir taka upp í skuld seldar, oft langt undir fasteignamati. Fréttastofa RÚV setti fram frétt í gær sem innihélt nýtt met í afsökunarbeiðnum, sjá hér.

föstudagur, 22. janúar 2010

Loftslagsvandinn


Lofthjúpurinn er þunnt lag af lofti umhverfis jörðina. Lofttegundir má finna upp í 500-600 km hæð, en þéttleiki loftsins vex hratt þegar nær dregur jörðu. Um 99% alls lofts er í innan við 30 km hæð. Þrátt fyrir að lofthjúpurinn sé mjög þunnur samanborið við þvermál jarðarinnar er hann samt nægur til að verja lífverur fyrir skaðlegum geislum og loftsteinum utan úr geimnum.

Loftslagsvandinn krefst víðtækra aðgerða, magn gróðurhúsaloftegunda sem losað er um heim allan ræður úrslitum um hlýnun jarðar í framtíðinni. Við eigum bara eina jörð, höfum ekki aðra til vara. Með sjálfbærni hvað varðar lofslagshjúpinn, er átt við að ganga þurfi þannig frá málum að jarðarbúar get verið hér endalaust, fá stöðugleika. Við þurfum að skilja og þekkja þau takmörk sem við búum við. Ef allir á jarðarbúar lifðu eins og íbúar Bandaríkjanna þá þyrftum við 5 jarðir til þess að komast af sé litið til framtíðar. Ef jarðarbúar lifðu eins og íbúar ESB þá þyrftum við 3 jarðir.

Vaxandi fjöldi Kínverja gerir nú sömu kröfur um lífsgæði og íbúar á vesturhvelinu búa við. Indverjar eru einnig á sömu leið. Ef allar fjölskyldur þessara landa fengju sér ísskápa og flatskjái myndu kolefnislosun margfaldast á jörðinni, séu þeir framleiddir áfram með sömu tækni og gert er í dag ásamt raforku til þeirra. Nú eru Kínverjar komnir í þá stöðu í efnahagskerfi heimsins að ekki verður gengið framhjá þeim. Bandaríkin eru mikið undir þá komnir með sínar ofboðslegu skuldir og verða að taka tillit til krafna Kínverja. Þar er að finna hluta þess hversu skammt loftslagsráðstefnan í Kaupmannahöfn náði

Ef ná á sjálfbærni í þessu pínulitla rými sem lofthjúpur jaðrar er, verður ekki nægilegt að við minnkun akstur og drögum úr framleiðslu rafmagns með brennanlegum orkugjöfum. Það verður ekki gert nema til komi gríðarleg tæknibylting og bylting í mörgum þáttum sem við teljum eðlilegt lífsmynstur í dag.

Byltingin þarf að vera mun umfangsmeiri en sú þjóðfélags- og tæknibylting sem en kom í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar með rafeindabyltingunni. Það er nú svo sé litið til mannkynssögunnar þá hafa allar tækninýjungar sem skipta máli komið fram þegar mannskepnan hefur verið að hugsa út tæki og tól til þess að auka afköst við að slátra óvinum.

Von kviknaði hjá mörgum efnahagshrunið yrði til þess að jarðabúar myndu taka höndum saman um endurskoðun á öllum grunnþáttum, tækniþekkingin er til. En það virðist ekki ætla að rætast. Nú eru menn farnir að spá jafnvel styrjöldum út af vatninu og orkugjöfum. Kannski það sé það sem þurfi til þess að þvinga fram þær úrbætur sem verða að koma til.

Ísland hefur allt til að bera að geta orðið grænt samfélag, ekki bara á nokkrum sviðum heldur allt samfélagið og við eigum að stíga það skref fyrst allra þjóðfélaga. Það skrefi skiptir heildina ekki miklu en gæti haft mikil áhrif.

fimmtudagur, 21. janúar 2010

Þjóðaratkvæðagreiðslan

Íslensk stjórnvöld hafa margoft undirgengist IceSave-skuldbindingarnar. Þetta fyrirheit var hluti af skriflegri viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans. Það var og er forsenda stuðnings AGS og Norðurlandanna. Það er kannski ástæða til þess að minna á að ekkert land vildi ræða við íslendinga í aðdraganda Hrunsins og fyrst á eftir því um fyrirgreiðslu.

Það var ekki fyrr en það lá fyrir að íslensk stjórn höfðu lýst því yfir að það yrði breytt um stefnu tekinn upp ábyrgari stjórn á efnahagsvandanum. Það gerðu einnig forsvarsmenn lífeyrissjóðanna þegar stjórnvöld fóru fram á að allar erlendar eignir lífeyrissjóðanna yrðu fluttar heim nokkru fyrir Hrun, en var hafnað á sömu forsendum.

Núverandi ríkisstjórnin féllst loks á þetta, en hún reyndist ekki hafa meirihluta Alþingis að baki sér fyrr en fimmtán mánuðum eftir hrun, og síðan grípur forseti Íslands inn í atburðarrásina. Nú er málið strand, og við blasir fullkomið hrun atvinnulífs.

Strandi IceSave-málið í þjóðaratkvæðagreiðslunni munu Norðurlöndin örugglega hætta fjárstuðningi sínum við Ísland, enda verða úrslitin túlkuð svo að Íslendingar ætli ekki að standa við skuldbindingar önnur lönd þó svo þær liggi fyrir. AGS mun draga sig út úr málinu.

Samkvæmt nýjustu fréttum þá er ekkert lát er á hækkunum á skuldatryggingaálagi ríkissjóðs og mælist það núna 554 punktar. Álagið á ríkisjóð hefur hækkað um 143 punkta á síðustu fjórum vikum. Þar af hækkaði það um 18 punkta frá því í gær. Þetta er í sérstöku boði forsetans og stjórnarandstöðu.

Líkur á þjóðargjaldþroti hafa aukist og nema nú rúmlega 31%. Þegar þessar líkur voru lægstar á seinni hluta síðasta árs námu þær rúmum 20%. Eftir að forsetinn ákvað að senda Icesave málið í þjóðaratkvæði rauk skuldatryggingaálagið upp á við en það hafði stöðugt farið lækkandi á seinnihluta síðasta árs. Náði það á tímabili niður í rúma 340 punkta. Hækkunin á því síðan þá nemur því um 70%.

Skuldatryggingaálag á ríkissjóð í 554 punktum samsvarar því að reiða þurfi fram rúmlega 5,5 % af nafnverði skuldabréfs til að tryggja eiganda þess gegn greiðslufalli næstu 5 árin.

Þjóðin getur gripið í taumana, nema hún kjósi heldur að steypa sér fram af hengifluginu.

þriðjudagur, 19. janúar 2010

Ekkert að gerast

Var á löngum fundi í Karphúsinu gær með forsvarsmönnum atvinnulífs, sveitarfélaga, stjórnvalda, ráðuneyta og þingflokka. Þar voru m.a. forsvarsmenn orkuveitufyrirtækjanna, álveranna.

Samkvæmt málflutning forsvarsmanna stóru fyrirtækjanna og orkuveitnanna er allt stopp og allir bíða eftir niðurstöðu Icesave. Lánhæfismat íslenska ríkisins ákvarðar þau vaxtakjör sem íslenskum fyrirtækjum standa til boða. Þegar það er í ruslinu þá eru í raun engin lán í boði nema þá á óásættanlegum kjörum, nema þá í gegnum AGS og sumir virðast ætla nú að af þakka þá leið.

Þetta leiðir til þess að lánshæfismat ríkisins er komið á það stig að lífeyrissjóðirnir geta ekki keypt af ríkinu skuldabréf. Það væri samkvæmt þessu öruggara að kaup ríkisbréf frá Zimbabwe. Þær litlu framkvæmdir sem voru í gangi eru að stöðvast og verið er að leggja á hilluna undirbúningsvinnu á stærri framkvæmdum.

Við blasir ekkert annað enn meira hrun og vaxandi atvinnuleysi. Þetta geta íslendingar þakkað óábyrgum málflutning stjórnarandstöðunnar með dyggri aðstoð fjórmenninganna í VG síðasta ár og svo útspili forsetans. Fullkomið getuleysi þessa fólks til þess að horfast í augu við vandan og takast á við hann. Hvað var flokksráð VG að gera á Akureyri um helgina?

Á sautjánda þúsund eru utan vinnu hér á landi. Þær framkvæmdir sem gætu farið í gang á þessu ári eru stopp sakir þess að ráðherrar geta ekki komið sér saman um hvernig eigi að flytja orku suður Reykjanes, sama á við um Icesave. Ekki er minnst á þessi mál í niðurstöðum flokksráðs. Kutarnir eru brýndir í andstöðunni við ESB, sem flestir úr atvinnulífinu telja einu leiðina til þess að byggja atvinnulífið upp aftur og koma í veg fyrir að Ísland verði láglaunasvæði.
En flokksráð VG talar ekkert um atvinnumálin.

sunnudagur, 17. janúar 2010

Erum að tapa

Það er að renna upp fyrir mörgum hversu mikinn skaða stjórnmálamenn okkar hafa valdið íslensku þjóðinni, sakir þess að þeim tókst ekki að leiða Icesave umræðuna til lykta síðasta vor. Nú blasir við öllum hið mikla lýðskrum og hvernig það hefur leitt marga inn á rangar slóðir um hvað málið snúist í raun. Því hefur verið haldið fram af mönnum, sem vilja láta taka sig alvarlega, að við gætum sagt okkur alfarið frá málinu með því að fá þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir sem hæst hrópuðu og viðhöfðu stærstu svartholsspárnar hafa nú tekið U-beygju og vilja ekki kannast við málflutning sinn. Það eru reyndar þeir sem sem skópu það ástand á Íslandi sem leiddi yfir okkur í þetta ástand.

Ég veit að það er óvinsælt og snertir suma svo harkalega að mér hafa verið sendar líflátshótanir og fleira ógeð í nafnlausu formi, en ég ætla enn einu sinni að vitna til þeirrar umræðu og viðhorfa, sem koma fram í viðtölum við félaga mína niður í Evrópu. Svona enn einu sinni þá eru þetta ekki mínar skoðanir, heldur það sem maður verður var við í umræðunni annarsstaðar en hér heima.

Samhliða hinni öfgakenndu umræðu hefur álit á Íslandi minnkað gríðarlega á Norðurlöndum og í norður Evrópu. Það er beint framhald af því falli sem hófst þegar íslendingar fóru mikinn og glannalega í þessum löndum og gáfu öllum aðvörunarorðum langt nef og hæddust af þarlendum ráðamönnum.

Hin pólitíska umræða hér á landi hefur sett okkur í þá ömurlegu stöðu, að Ísland er að verða sýnigluggi fyrir öfgakennda hópa í Evrópu lengst til hægri og lengst til vinstri. Áberandi er hversu margir þeirra sem taka til varna fyrir Ísland koma úr þessum hópum. Það leiðir til þess að við töpum fylgismönnum úr hinum stóru miðjuhópum. Þó við heyrum í íslenskum fréttatímum um sífellt fleiri erlenda stuðningsmenn, má leiða að því haldbær rök að við erum samt að glata stuðningi meðal almennings í Evrópu.

Þessu til stuðnings spyr ég þig lesandi góður; Með hvaða fyrirvörum tekur þú það sem stendur t.d. í Staksteinum þessa dagana? Eða það sem einhver þekktur últra vinstri maður nýtir til þess að rökstyðja sitt mál? Ertu viss um að það sé einhverjum málstað til stuðnings að fá stuðning þaðan?

Niður í Evrópu eru áberandi öfgakenndir frjálshyggjumenn að nýta okkur sem front í baráttu við að ryðja regluverkum í burtu og auka enn frekar frjálshyggjuna. Og svo öfgakenndir vinstri menn sem setja Ísland sem front fyrir náttúruverndarstefnu og baráttu við ofríki stórvelda.

Við höfum glatað hratt samúð hinna stóru miðjuhópa í norður Evrópu. Í greinum og umræðu um Ísland ber mikið á eftirfarandi atriðum. Það var samið við Ísland, en þeir heimtuðu meira og þá var samið við þá aftur og þeir heimtuðu bara enn meira. Minnt er á að Íslendingar hafi alltaf verið sérhlífnir og vilji týna bestu bitana en ekki bera byrðarnar.

Minnt er á að íslendingar hafa verið áberandi í þeim hópum sem vilja nýta sér almenna bótakerfið og menntakerfið á norðurlöndum án þess að eiga þar nokkurn rétt. Þegar ég heyri þessi orð félaga minna rifjast upp útvarpsviðtal við þekkta íslenska útvarpskonu, sem sagði það hreint út að hún hefði farið til Danmerkur til þess að hvíla sig og fór afar ljótum orðum um danskt þjóðfélag, því hún komst ekki beint inn á danskar atvinnuleysisbætur og þurfti að fara að vinna til þess öðlast rétt. Þetta fannst henni ósvífni. Má ég lesandi góður minna á ummæli og viðhorf okkar hér heima gagnvart Pólverjum og öðrum "útlendingum", sem hafa verið staðnir af því að vilja vera hér á fullum bótum, eða fá þær sendar til Póllands.

Bent er á að Íslendingar séu hópur flúði frá Noregi til þess að komast hjá því að axla samfélagslegar byrðar og skrifuðu miklar bækur þar sem þeir hrósa sér fyrir þetta hátterni. Saga Íslands hefur alla tíð einkennst af sérhyggju þeirra og tillitsleysi gagnvart öðrum. Þeir hafa það sem af þessari öld gengið þvert á allar viðskipta- og bankareglur. Og nú vilja þeir enn eina ferðina enn fá sérmeðferð og krefjast þess að skattborgarar í öðrum ríkjum borgi. Þessir peninga koma ekki af himnum ofan einhver verði að greiða tap innistæðueigenda. Samt aka íslendingar um á dýrustu bílum í Evrópu, eru að byggja stærsta óperuhús á Norðurlöndum. Uppselt er í allar skíða- og golfferðir. Allir veitingastaðir fullir út úr dyrum.

Það eitt að engin er kominn bak við lás og slá er að skaða álit íslendinga verulega. Ætla íslendingar virkilega að halda áfram eins og ekkert hafi gerst? Staðreyndin er nefnilega sú að samúðarþráðurinn gagnvart okkur er styttri en við vildum kannski hafa hann, og þar er við að sakast háttalag íslendinga sjálfra. Margir norðurlandamenn enda umræður sínar um okkur á setningum eitthvað í þá veruna, að það eigi bara að láta íslendinga eiga sig. Þeir megi endilega fella þessi lög, en þeir kjósi sig ekki frá vandanum. Þeim fari fækkandi sem vilja eiga við þá viðskipti og þeir verða bara að sitja uppi með þá stöðu sem þeir komu sér sjálfir í og bjarga sér sjálfir.

Það er sama hvernig litið er á stöðuna við verðum að taka upp breytt vinnubrögð, annars sökkvum við enn dýpra.

fimmtudagur, 14. janúar 2010

Málskotsrétturinn

Töluverð umræða fer fram um málskotsrétt forsetans og eins hvernig hann beiti honum. Það er mín skoðun að málskotsréttinn eigi að varðbeita, en það verði að setja honum mun skýra skorður. Svanur Kristjánsson prófessor í stjórnmálafræði hefur oft fjallað um þetta mál, m.a. í Speglinum nýverið. Þar sagði hann m.a. Það er hafið yfir vafa að forseti Íslands hefur vald til að neita að undirrita lög frá Alþingi. Ekki þarf annað en að lesa í þingtíðindum þær ítarlegu umræður sem fóru fram á Alþingi um setningu stjórnarskrárinnar í aðdraganda stjórnarskrárinnar.

Upphaflega voru lögin þannig úr garði gerð af hendi stjórnarskrárnefndar þingsins ef forseti neitaði að skrifa undir þá tækju lögin ekki gildi, sem er lögfræðilega rétt. Ef það þarf undirskrift forseta og lögin taki þá gildi, er rökrétt að lögin taki ekki gildi ef forsetinn neitar að skrifa undir, en þau taka samt gildi eftir gallaðri stjórnarskrá okkar.

26. grein er angi af mjög frjórri pólitískri hugsun og segir að fullveldisrétturinn er hjá þjóðinni. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, hafði áður en kom til afgreiðslu fjölmiðlalaganna 2004 sett sér mælikvarða um það hvenær réttlætanlegt væri að neita að skrifa undir lög. Í fyrsta lagi yrði að vera um að ræða mál sem varðaði þjóðina miklu. Í öðru lagi þyrfti að vera til staðar gjá milli þingvilja og þjóðarvilja og í þriðja lagi væru ekki önnur úrræði fyrir hendi til lausnar.

Það var rökrétt að forsetinn neitaði að verða við áskorun um að hafna svokölluðum öryrkjalögum sem fjölluðu um skerðingu lífeyris öryrkja vegna þess að því máli var unnt að skjóta til dómstóla. Það gerðu öryrkjar og höfðu sigur. Þegar forsetinn neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin var það rökrétt miðað við þá mælikvarða sem hann hafði sett. Málið hafi verið mikilvægt og varðað grundvallarréttindi eins og tjáningar- og atvinnufrelsi.

Síðasta ákvörðun forsetans er að fara inn á mál er snertir fjárreiður ríkisins. Það er óþekkt að lög um ríkisábyrgð á láni, sem er partur af fjárstjórnarvaldi þingsins, fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Kjarni málsins er að engin dæmi eru um þetta í sjálfstæðu ríki þar sem er fulltrúastofnun, þingið, sem að fer með fjárstjórnarvaldið og ber ábyrgð á fjárreiðum ríkisins. Alþingi er búið að ræða þetta í þaula, þetta eru lög númer tvö sem Alþingi hefur samþykkt um málið og samþykkti einnig þau fyrri ásamt því að forsetinn staðfesti þau.

Það er ekki hægt að draga í efa að þetta er lögleg ákvörðun, en hún er ekki málefnaleg. Vegna þess að hún er ekki byggð á yfirveguðu mati. Það á ekki að beita þessu valdi til þess að brjóta niður stofnanir ríkisins. Við þurfum ekki á því að halda núna. Ísland hefur með þessari ákvörðun verið gert stjórnlaust. Forsetinn er búinn að svipta Alþingi og ríkisstjórnina fjárstjórnarvaldi.

Ef talað er um að skipa eigi aðra samninganefnd er rökrétt að Ólafur Ragnar fari fyrir þeirri samninganefnd, svo það sé ljóst frá upphafi að þeir samningar sem eru gerðir séu honum þóknanlegir. Um hvað eiga þessir samningamenn ríkisins að semja við Hollendinga og Breta? Þeir vita það nú að það skiptir engu máli hvað er samið um við Íslendinga og Alþingi hefur staðfest. Hvert á að vera næsta skref yfir synjunarvaldi forsetans? Á að neita að skrifa undir fjárlögin? Eiga þau að fara í almenna þjóðaratkvæðagreiðslu?

Eitt af meinsemdum íslensks lýðræðis er að valdsmenn umgangast ekki vald sitt af hófsemd og auðmýkt og líta ekki á lagaumhverfið þannig; Við ætlum að gera allt sem ekki er bannað. Ef það stendur ekki í stjórnarskránni að það sé bannað að beita málskotsréttinum um fjárreiður ríkisins að þá ætla ég að gera það. Og síðan er það annarra að sjá um þann vanda sem verður til eftir þær ákvarðanir sem að ég hef tekið.

Það er greinilegt eftir að það sem stjórnmálamenn hafa boðið almenning upp undafarið ár, að það er þörf á að byggja upp íslenska stjórnmálaflokka og endurreisa traust á þeim. Sama á við um Alþingi, stjórnvaldið og stjórnsýslunni. Upphafsreitur þessa er stjórnlagaþing og ný stjórnarskrá.

miðvikudagur, 13. janúar 2010

Spegillinn í gær - örfáar leiðréttingar

Í Speglinum í gær þ. 12. jan. fjallaði Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir um nokkur áhugaverð atriði í sambandi við hið norræna módel og hvernig Ísland nálgist það og gerði það að venju ákaflega vel.

En án þess að ég ætli að fara út efnislega umræðu, voru nokkur atriði sem ég hnaut um í því sem hún sagði. Hún sagði að ASÍ og SA stjórnuðu lífeyrissjóðunum. Það er ekki allkostar rétt. ASÍ hefur t.d. enga aðkomu að almennu sjóðunum. Stjórnarmenn menn í almennu sjóðina eru kosnir af þeim hópum sem standa að viðkomandi lífeyrissjóð, ASÍ kemur þar hvergi nærri. SA aftur á móti tilnefnir helming stjórnarmanna í þessa sjóði. Það er ársfundur viðkomandi lífeyrissjóðs sem ákvarðar starfsreglur og fjárfestingarstefnu hvers sjóðs.

Það eru allnokkrir lífeyrissjóðir sem standa utan þessa „ASÍ/SA“ kerfis, þar eru stærstir lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna og sjóðirnir sem bankarnir reka.

Haustið 2008 áður en bankarnir hrundu þá sótti ríkistjórnin fast að lífeyrissjóðunum um að þeir kæmu heim með allar erlendar eignir sínar, um 550 MIA kr. Þessu var hafnað af hálfu stjórna almennu lífeyrissjóðanna nema að ríkistjórnin uppfyllti ákveðnar tryggingar og tæki til í efnahags- og peningastjórn, eins var algjörlega hafnað að koma heim með allar eignirnar. Ef farið hefði verið að kröfum þáverandi ríkisstjórnar hefðu tapast líklega 300 MIA af eignum lífeyrissjóðanna inn í hít hins gjaldþrota Seðlabanka.

Einnig má benda á í sambandi við ummæli Sigurbjargar, að það er ekki rétt að lífeyrisskerfin á hinum norðurlandanna koma alfarið í gegnum skattkerfið, það var þannig, en er ekki lengur. Á undaförnum árum hafa hin norðurlöndin, utan Noregs með sinn olíusjóð, gengið mjög rösklega fram í því að koma á svipuðu uppsöfnunarkerfi og við höfum verið að byggja upp hér síðan 1970.

Það kerfi kemur til viðbótar við lágmarksgreiðslur frá almenna tryggingarkerfinu, eins og er hér. Í því sambandi má minna á að íslenskir stjórnmálamenn hafa svikist um að standa við það sem upphaflega var lagt upp með. Það er að það sem úr lífeyrissjóðum komi, sé til viðbótar við hinn almenna lífeyri. Í stað þess hafa stjórnmálamenn látið lífeyrir standa kyrran í krónum talið á meðan tekjutrygging hefur verið aukinn.

Sem er ákaflega óréttlátt, og hefur ítrekað, en árangurslaust, verið harðlega mótmælt. Það er verið að hegna þeim sem sýna forsjá og fara að lögum og greiða í lífeyrissjóð. Sjóðsfélagar verða í raun að greiða 100% skatt af þeirri upphæð sem viðkomandi fær úr sínum lífeyrissparnaði, sem nemur tekjutryggingunni. Ef viðkomandi kæmi sínum sparnaði fyrir utan lífeyriskerfis, þyrfti hann ekki að greiða jafnháan skatt af sínum sparnaði.

Hvað varðar atvinnuleysistryggingasjóð er rétt að minna á að á hinum norðurlöndunum fá allir ákveðið lágmarksgjald, ef þeir uppfylla skilyrði kerfisins, eins og hér. Á engu stigi hefur verið rætt um að breyta því ef atvinnulífið kæmi aftur að atvinnuleysistryggingarerfinu hér, eins skilja mátti á Sigurbjörgu.

Það sem hér hefur verið gagnrýnt er að í hinu mikla atvinnuleysi sem upp er komið þá ræður núverandi stjórnkerfi og afgreiðslukerfi við svona mikinn fjölda, t.d. eru allmörg dæmi um að sá sem verður atvinnulaus fær enga þjónustu vikum jafnvel mánuðum saman vegna þess að núverandi kerfi annar því ekki. Úr þessu hafa aðilar vinnumarkaðs vilja bæta með aukinni aðkomu. Það voru viðbrögð stjórnsýslunnar sem komu þessum röngu viðbrögðum um ætlaða mismunum, af stað sem Sigurbjörg er að vísa til.

Til viðbótar við það sem Sigurbjörg talaði um kerfið á hinum norðurlöndunum greiða allmargir í A-kassa viðkomandi síns starfsgeira hluta af félagsgjaldi, oft tvöfalt, sem rennur í A-kassa viðkomandi starfsgreinar. Gegn því nýtur viðkomandi ákveðinnar tekjutryggingar í tiltekinn tíma.

Það hefur alloft verið rætt hér á landi, m.a. innan Rafiðnaðarsambandsins, að koma á sambærilegu kerfi, en alltaf verið horfið frá því einmitt vegna reynslunnar af framangreindu háttalagi íslenskra ríkisstjórna, hvað varðar tekjutrygginguna í lífeyriskerfinu. Menn hafa óttast að íslenskir stjórnmálamenn myndu þá lækka grunntryggingar í almenna atvinnuleysistryggingasjóðnum, sem næmi framlagi úr sameiginlegum sjóði viðkomandi starfsgreinar.

Sigurbjörg svaraði mér í góðum pistli á blogginu sínu hér á Eyjunni

þriðjudagur, 12. janúar 2010

Hverjir eru landráðamenn?

Það verður að segjast eins og það er, það er ákaflega einkennilegt og reyndar óásættanlegt hvernig tiltekin öfl beita öllum brögðum í bókinni í tilraunum í að stjórna umræðunni hér á landi. Þau hafa komist upp með það í gegnum undanfarna áratugi að stjórna eina prentmiðlinum. Reyndu síðan að setja lög til þess að stöðva útkomu annarra prentmiðla nema þeir uppfylltu harla einkennilegar reglur sem samdar voru á skrifborði eins manns.

Þessi öfl komu sér fyrir í öllum valdastólum og lögðu undir sig embættismannakerfið. Þessir einstaklingar settu fréttamenn í þá stöðu að ef þeir spyrðu ekki réttra spurninga fengju þeir ekki viðtöl og þar með var starfsframi þeirra búinn. Ef menn ætluðu sér einhvern pólitískan frama urðu þeir að fylgja í einu og öllu því sem handhafar valdaklíkunnar vildu. Svo var komið hjá okkur að ráðherraræðið var orðið algjört og jafnvel stjórnarþingmenn kvörtuðu undan því að þeir væru verkefnalausir á Alþingi, þingið væri orðin viljalaus afgreiðslustofnun. Ráðherrar mættu í þingið með tilbúin frumvörp sem keyrð voru í gegn umræðulaust.

Eftir Hrun sætti almenningur sig ekki við að þessir menn væru lengur við völd og þess var krafist að ríkisstjórn þeirra færi frá, auk þess að þeir vikju úr Seðlabanka og Fjármálaeftirliti. Þessu var lýst af valdaklíkunni sem pólitískum ofsóknum!! Bíddu aðeins við : Efnahags- og bankakerfi landsins var hrunið til grunna undir stjórn þessara afla auk þess var Seðlabankinn gjaldþrota. Viðbrögð þeirra staðfestir í raun hversu mikil siðblinda þessara einstaklinga var orðinn.

Allt frá upphafi Hrunsins hafa þessir menn hamast við að telja þjóðinni í trú um að vandinn sé ekki heimatilbúinn, heldur séu þetta vandamál sem óvinveittir fjárglæframenn ásamt erlendum aðilum og þjóðum hafi leitt yfir Ísland. Ég verð stundum svo illilega var við þessu viðbrögð.

T.d. birti ég í gær hér á síðunni tvo leiðara úr stærstu blöðum Svíþjóðar. Þar sem leiðarahöfundar fara yfir nálgun Íslendinga og undrast hana. Íslendingar neiti að greiða skuldir sínar, en setji um leið fram beiðnir/kröfur um meiri lán. Leiðarahöfundar efast um að sænsk þjóð sé tilbúinn til þess að taka þátt í þeim óábyrga leik sem íslendingar stilli upp. Eins og kom fram í aths. dálkum eru viðbrögð margra að telja að leiðarahöfundar séu óvinveittir Íslendum og gefið skyn að ég sé landráðamaður.

Eru þessi leiðarahöfundar að gera nokkuð annað en að fara yfir ósköp eðlilegt sjónarmið? Maður getur heldur ekki annað en undrast þau viðbrögð að ef einhver bendir á, að allar leikreglur segi að við verðum að standa við skuldbindingar okkar, þá er maður umsvifalaust dæmdur sem landráðmaður sem ekki standi í fæturna, gegn erlendu ofurvaldi.

Sé staða Íslands borinn saman við stöðu nágrannalanda okkar þá blasir við hverjir það voru sem skópu þetta ástand. Þeir hinir sömu sem ekki vilja ræða það. Það eru þessir einstaklingar sem standa mun nær því að vera landráðamenn og óvinir íslenskrar þjóðar, ásamt því að það blasir við okkur öllum að það eru þessir sem ekki standa í fæturna undir eigin gjörðum.


Grímur Atlason er með greinargott yfirlit um þá þróun sem átt hefur sér stað hér á landi og segir m.a. :
Menn gátu stofnað banka hér og hvar um allt. Sett var upp regluverk sem átti m.a. að verja innistæðueigendur en þetta regluverk virkaði ekki. Er það á ábyrgð Íslendinga? Vandamálið var ekki búið til af Íslendingum það var búið til af Evrópusambandinu. Við gerðum ekkert annað en að taka það upp eins og átti að taka það upp. Við höfum framfylgt því eins og átti að framfylgja því alla tíð síðan.

Sakleysingjarnir á Íslandi bera enga ábyrgð. Samningamennirnir lyppast bara niður – enda ber fas þeirra allt ugglaust merki um djúpa vanþekkingu á málefninu. Það væri dásamlegt ef satt reyndist og saklausu, harðduglegu bankamennirnir á Íslandi hefðu bara verið grátt leiknir af innistæðutryggingakerfi Evrópusambandsins. Vissulega var regluverkið gallað en hvers vegna eru þá svona fáar þjóðir í sömu stöðu og Ísland ef það er bara regluverkinu að kenna? Þetta er það sem raunverulega gerðist á Íslandi:

1. Íslensk stjórnvöld gáfu vinum sínum tvo ríkisbanka. Þau settu sér leikreglur um einkavæðingu sem þau breyttu í miðjum klíðum svo fjárglæframenn frá Pétursborg gætu eignast annan bankann og auralaus fyrrverandi seðlabankastjóri og viðskiptaráðherra og vinir hans gætu fengið hinn.

2. Seðlabanki Íslands, hvar sat uppgjafa forsætisráðherra með lögfræðipróf, dró úr bindisskyldunni. Það var einmitt hann sem gaf vinum sínum annan bankann og lækkaði síðan bindisskylduna sem hjálpaði til við stofnun Icesave-reikninganna.

3. Viðvörunarbjöllurnar hringdu um allt. Fjármálaeftirlitið á Íslandi svaf værum blundi og helsti ráðgjafi fyrrverandi forsætisráðherrans talaði um íslenska efnahagsundrið.

4. Á sama tíma og ódýrt lánsfé streymdi um fjármagnsmarkaði heimsins ákváðu íslensk stjórnvöld að bæta í. Ráðist var í mestu framkvæmdir Íslandssögunnar og íbúðalánakerfið opnað upp á gátt. Afleiðingarnar voru sambærilegar því þegar innihald olíubíls er sprautað á eld.

5. Árið 2006 þegar lausafjárkreppan dundi yfir var svar Íslendinga að stofna útibú erlendis. Bindisskyldan hjálpaði til og reynsluleysi þessara efnahagslegu gervitungla, sem fengu bankana gefins, fór að hafa veruleg áhrif.

6. Á árunum 2002 til 2008 gagnrýndu margir aðgerðir stjórnvalda og brjálæði útrásarvina hennar. Erlendum sérfræðingum var svarað á þann veg að þeir væru bara öfundsjúkir. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði m.a. annars þessa öfundarmenn Íslands þurfa á endurmenntun að halda.

7. Í aðdraganda hrunsins fóru ráðamenn Íslands út um allan heim og reyndu að róa órólega fjárfesta og tjáðu þeim að íslensk stjórnvöld ábyrgðust innistæður í íslenskum bönkum.

8. Þegar allt síðan hrundi fengu íslenskir sparifjáreigendur allt sitt sem var í íslenskum bönkum staðsettum á íslenskri grundu. Fólk sem átti peninga í tilteknum hlutabréfasjóðum fékk allt að 80% innistæðna sinna (allir). Skipti þá engu hvort hlutabréfasjóðurinn hafði verið notaður í allt aðra hluti en leyfilegt var.

Ábyrgð Íslendinga er ekki aðeins lagalegs eðlis hún er siðferðilegs eðlis. Við verðum að horfast í augu við gerðir þeirra sem við treystum til að stjórna þessu landi. Orðstír okkar sem þjóðar er að veði.

mánudagur, 11. janúar 2010

Svíar um stöðu Íslands

Almenningur á Íslandi verður að gera sér grein fyrir, að ef Icesavelögin verða felld í þjóðaratkvæði verður litið svo á víðast hvar að Ísland sem land svíkist undan skuldbindingum sínum og að íslendingum sé í engu treystandi. Þetta segja leiðarahöfundar Expressen og Dagens Nyheter.

Ef íslenska þjóðin ákveður að fella samninginn við Breta og Hollendinga. Af hverju eiga svíar þá að lána þjóð sem ekki stendur við alþjóðlegar skuldbindingar og borgar ekki skuldir sínar 120 milljarða króna. Segir Expressen í leiðaranum Island Krisland

Ef Ísland vill ekki standa við skuldbindingar sínar, er spurning hverjir vilji yfir höfuð eiga viðskipti við land sem hleypur frá skuldum sínum. Leiðari Dagens Nyheter

sunnudagur, 10. janúar 2010

Verður Ísland láglaunasvæði?

Þótt margt hafi breyst til batnaðar í starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja þurfum við enn að burðast með íslensku krónuna, hina örsmáu og óstöðugu mynt. Íslenskt atvinnulíf starfar í alþjóðlegu umhverfi og við verðum að víkja frá einangrunarstefnunni. Miklar gengissveiflur kalla á hærri vexti en eru í nágrannalöndum okkar. Ef íslensk fyrirtæki eigi að vera samkeppnishæf verði þau að hafa tryggan og greiðan aðgang að erlendu lánsfjármagni og búið við stöðugleika svo hægt sé að gera langtímaáætlanir.

Nú blasir við okkur sú ískalda staðreynd hversu veik stjórnsýslan hefur verið. Ríkistjórnir undanfarinna áratuga brugðust rangt við og fylgdu hugmyndum frjálshyggjunnar um að markaðurinn myndi leiðrétta sig. Upp úr aldamótunum var markvisst hafinn vinna við að afnema regluverkið undir yfirskini frelsis og haldið áfram fram á síðasta dag fyrir hrun. Eftir stóð Seðlabankinn gjaldþrota og stórkostleg eignatilfærsla hafði átt sér stað.

Vandamálið var ekki síst að það var nánast ómögulegt að fá krónur að láni til þess að fara út í framkvæmdir. Vaxtastig á krónulánum var alltof hátt. Lánin voru mjög óhagstæð og hafa í raun verið lengi. Lán í erlendri mynt eru mun ódýrari heldur en krónulánin og því tóku fyrirtækin g einstaklingar erlendar myntir að láni frekar en krónur. Vaxtastigið á þeim lánum var miklu hagstæðara. Eitt af helstu vandamálum Íslendinga er krónan. Hún er alltof dýr og hreinlega ónothæf þegar kemur að fjármögnun stórra framkvæmda.

Launamenn stoppa við þegar fjármálaráðherra lýsir kostum krónunnar með því að hún tryggi óvenju lágan launakostnað sem hlutfall af tekjum hjá útflutningsfyrirtækjum. Hann er með þessu að segja að lág laun fyrir fólkið í landinu séu eftirsóknarverð. Þessi stefna mun draga mjög úr samkeppnishæfni landsins og stórskaða lífskjör í landinu.

Það er brýnt að annar gjaldmiðill verði tekinn upp í landinu, sé horft til framtíðar, eins og verkalýðshreyfingin og forsvarsmenn allra helstu fyrirtækja hafa bent á. Ísland á miklar auðlindir og mun ná vopnum sínum. Það eru allar forsendur fyrir því að það sé hægt að á skömmum tíma. Ef ekki verður gripið til réttra aðgerða verður Ísland láglaunasvæði við hlið hinna norðurlandanna sem eru með lægri vexti, hærri laun, mun lægra verðlag og mun betra öryggisnet. Það kallar á fólksflótta.

Fjórflokkalýðræðið er ekki að endurspegla þann vilja sem maður skynjar á kaffistofum, samtakamátt um að vinna okkur frá því samfélagi sem fjórflokkarnir hafa myndað hér. Það verður ekki undan því vikist sama úr hvaða átt litið er á þróun mála, að velta því fyrir sér hvort stjórnmálamenn séu á allt annarri vegferð en atvinnulífið, svo uppteknir í sínum átakastjórnmálum og að sverja af sér beina aðild að því að skapa það umhverfi sem olli Hruninu.

laugardagur, 9. janúar 2010

Sundrungaröflin ráða för

Allt frá því að stjórn sjálfstæðismanna féll eftir Hrunið, hafa þeir farið mikinn á Alþingi. Það er nákvæmlega sama hvað stjórnarflokkarnir hafa lagt fram, sjálfstæðismenn fara fram gegn öllu af mikilli heift. Alloft hafa rök þeirra verið harla grunn, jafnvel barnaleg og mótsagnakennd. En þeim virðist vera nákvæmlega sama þó engin samfella sé í málflutning þeirra og þeir fari jafnvel ítrekað fram gegn eigin tillögum.

Öllum brögðum í bókinni er beitt til þess að skapa glundroða og deilum. Það er athyglisvert að þingmenn sjálfstæðismanna og starfsmenn flokksins virðast vera á ferðalagi í fullkominni andstöðu við áhrifamenn innan flokksins úr atvinnulífinu, sem hefur verið rótarfesta flokksins.

Þjóðaratkvæðagreiðsla hrópuðu sjálfstæðismenn á Alþingi fyrir skemmstu og tókst með því að stilla málinu þannig upp að það væri valkostur að hafna endurgreiðslu og Ísland væri beitt ofríki af stórum þjóðum. Með því var óvinur búinn til og fá þúsundir til þess að skrifa undir áskorun Indefence-hópsins til forsetans.

Þegar forsetinn varð við kröfum þeirra, bregður svo við að þeir stjórnmálamenn sem áður héldu því fram að við gætum hafnað að borga, viðurkenna að við yrðum að standa við skuldbindingar okkar og höfnuðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú á að hóa saman nefnd og fara til Breta og Hollendinga og semja upp á nýtt. Við semjum ekki við okkur sjálf um Icesave. Icesave er milliríkjamál. Það er aukaatriði í augum þingmanna sjálfstæðismanna, þeir vilja alls ekki að hér skapist vinnufriður. Þeir vilja glundroða, sama hvað það kostar.

Það pólitíska moldviðri sem hefur verið þyrlað upp kringum Icesave-deiluna var alfarið heimatilbúið sagði Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur í eftirtektarverðu viðtali í Speglinum 7. jan. Hún hefur eins og fleiri félagsvísindamenn rýnt í ástandið frá því haustið 2008. Sigurbjörg segir að pólitísk öfl beita skipulega hér gamalkunnri aðferð, sem nefnd er í fræðunum að deila og drottna.

Icesave-deilan er alfarið heimatilbúin og þar eru stjórnmálamenn að beita þessari aðferð. Þetta er ekkert ný af nálinni og hefur verið beitt áður og er algeng aðferð. Það gerist þannig að þjóðinni er sundrað, Icesave er kjörið mál til þess að sundra þjóð, sérstaklega fámennri þjóð eins og Íslandi. Þeir sem að sundrungunni standa taka völdin í sínar hendur og stefna síðan að því sameina þjóðina á eigin forsendum.

Þjóðinni hefur ítrekað verið fullkomlega misboðið hvernig stjórnmálamenn hafa gengið fram í þinginu. Vaxandi fjöldi íslendinga er þessa dagana að átta sig á því, að hér er um að ræða skipulögð vinnubrögð sundrungarafla og hræðsluáróður. Viðbrögð alþjóðasamfélagsins eru alþekkt í alþjóðlegum samskiptum og viðskiptum. Þegar þjóðir fara ekki að almennum reglum sem um slík samskipti gilda, þá bregst alþjóðasamfélagið við og stendur yfirleitt nokkuð vel saman til þess að tryggja það að reglum sé fylgt.

Ríkisstjórnin á að halda sínu striki. Eftir 7-8 ár þá eru komnar upp allt aðrar aðstæður, það eru komnar nýjar ríkisstjórnir og það eru komnir nýir stjórnmálamenn. Skuldaaflausn í dag gengur ekki upp, jafnvel þó að þetta séu einhverjir smápeningar fyrir Hollendinga og Breta. Vextir sem íslenska ríkinu standa til boða í samningum vegna Icesave-skuldbindinga, byggja á þeim vaxtakjörum sem Bretum og Hollendingum standa til boða á langtímavaxtakjörum.

Bretar hafa lagt út um 2,3 milljarða breskra punda og Hollendingar 1,3 milljarða evra hins vegar. Kom fram í símaviðtali sem Íslensk-ameríska viðskiptaráðið skipulagði við Gylfa Magnússon viðskiptaráðherra á fimmtudag. Heildarupphæðin er fjórar milljarða evra. Það ræðst af heimtum verðmæta úr Landsbankanum hversu stór hluti falli á íslenska ríkið og við þá upphæð bætast svo vextirnir vegna lána Breta og Hollendinga. Raunhæft er talið að endurheimtur eigna verði um 90 prósent hið minnsta. Þannig að allur hræðsluáróður um efnahagslegt hrun Íslands og skuldsetningu barna okkar og barnabarna er rakalaus. Við verðum búin að ganga frá þessum málum eftir 14 ár.

Ísland er mjög efnað land og er meðal ríkustu þjóða í heimi. Það eru mjög margar fátækar þjóðir sem skulda bæði Bretum og Hollendingum stórfé og þau hafa staðið í ströngu við að semja við stjórnvöld þessara landa með milligöngu annarra aðila til þess að reyna að fá skuldaaflausn eða lengingu í lánum og þar fram eftir götunum.

Ef Ísland ofan í allt það sem á undan er gengið, með þessa miklu útrás og hugmyndir um að ætla að sigra heiminn á viðskiptasviðinu, fær síðan skuldaaflausn þá verður bókstaflega allt vitlaust í höndum Breta og Hollendinga gagnvart öðrum skuldurum. Þannig að Ísland er dæmi um hvernig farið getur fyrir þjóðum sem fara óvarlega. Alþjóðavæðast með mjög gáleysislegum hætti en skilið landið eftir efnahagslega varnarlaust eða varnarlítið, eins og íslenska efnahagsundrið var og þáverandi ríkistjórn var ítrekað bent á af nágrannalöndum okkar.

Skuldaaflausn Íslands þýddi að alþjóðasamfélagið væri að búa til fordæmi um það sem er kallaður freistnivandi, aðrir gætu farið að leika þetta eftir. Ísland er í refsivist. Þjóðarstoltið er sært. Ísland sem hagkerfi og sjálfstætt ríki, sem fór braut nýfrjálshyggjunnar og alþjóðavæddist og fór út í alþjóðleg viðskipti með mjög takmarkað bakland, verður sýnidæmi háskólanna um hvernig svona örhagkerfi virka og í hvaða skelfingum þau lenda, ef heimavarnirnar heima fyrir er ekki nægilega öflug og efnahagslegar varnir styrktar.

En sjálfstæðismenn þrættu eins og þeim er svo lagið, ekki bara um þær neikvæðu breytingar sem þeir gerðu á skattkerfinu og hættuna af hinni ofsafengnu þenslu hér heima. Heldur gerðu þeir grín af öllum erlendum sérfræðingum, sem ekki voru þeim sammála.

föstudagur, 8. janúar 2010

Umsátrinu verður að ljúka

Get ekki að því gert, sé litið til þróunar Icesave-umræðu, ég óttast mikið þessa stundina að verið sé að vekja væntingar, sem ekki munu standast þegar á reynir. Þar á ég við að vitnað er endurtekið í ummæli ýmissa álitsgjafa, sem standa núna með íslendingum og viðhorf til okkar séu að breytast. Vill minna á að enginn ráðamaður hefur sem í raun hefur eitthvað með þetta mál að gera hefur gefið upp neina breytingu.

Þetta minnir óþægilega á þegar einhver norskur þingmaður sagðist vilja lána okkur 2 þús. MIA og var svo í fréttum daglega í tvær vikur ásamt beinni útsendingu frá kostulegri för formanns framsóknarmanna til Noregs. Barnaleg og óvönduð vinnubrögð viðkomandi fréttamanna. Við verðum að fara að standa í fæturna og láta af þessari óskhyggju.

Í þessu sambandi vill ég minna sérstaklega á viðtal við Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttir stjórnmálafræðing í Speglinum í gær. Þar sem hún rakti ákaflega vel hvernig vinnubrögð íslenskra stjórnmálamanna eru og hvernig þeir hika ekki við að beita öllum brögðum í bókinni, algjörlega án tillits til þjóðarhags.

Svo það sé á hreinu þá finnst mér eins og öllum íslendingum ósanngjarnt að við séum í þessari stöðu og ætla ekki að rekja enn einu sinni þann feril hvers vegna, enda skiptir það engu nú. Við erum hér í dag. Vitanlega væri æskilegt að losna undan þessari kvöð, en við sitjum uppi með lög sem staðfesta stöðu okkar gagnvart þessum skuldum. Fyrir liggur atkvæðagreiðsla um val í nýjum lögum sem staðfesta þetta eða eldri lögum sem staðfesta einnig þessa stöðu.

Það liggur fyrir að helsta forsenda afstöðu Breta, Hollendinga og svo vinaþjóða okkar á norðurlöndum er það regluverk sem er í gildi og það fordæmi sem gefið væri, ef vikið væri frá þessum reglum með því að Íslandi yrði veitt undanþága. Það liggur einnig fyrir að það eru margar þjóðir sem standa mun verr en við. Þar á meðal þjóðir sem eru í Evrópu og þjóðir sem skulda Hollendingum og Bretum stórfelldar upphæðir. Fordæmið yrði þeim óviðráðanlegt.

Það breytir ekki því að breyta verði regluverkinu og forsendum Kasínó-efnahagskerfisins

Nokkrir kvarta undan því hvernig umfjöllun um Ísland er í norrænum fjölmiðlum þá sérstaklega dönskum. Er þessi umræða eitthvað einkennileg eftir það sem á undan er gengið? Ég hef rakið það oft hér á þessari síðu, að þessi viðhorf voru komin fram á Norðurlöndunum fyrir Hrun. Minni á viðbrögð þáverandi ráðamanna okkar, sem fóru í sérferð og gerðu grín að aðvörunum norðurlandanna. Þá sérstaklega Dana.

Síðan þá hafa reglulega birst í norrænum blöðum frásagnir blaðamanna sem hafa farið í heimsóknir hingað. Þar hefur verið bent á að ekki hafi glæsijeppum íslendinga fækkað. Allir veitingastaðir fullir fram á morgun hverja einustu helgi. Hér sé verið að byggja stærsta óperuhús á Norðurlöndum.

Atvinnuleysi á Íslandi sé þrátt fyrir allt minna en á hinum norðurlandanna og velmegun meiri í mörgum tilfellum. Ísland sé enn meðal ríkari þjóða heimsins. En við höfum hagað okkur ótrúlega heimskulega með óábyrgri hægri sveiflu ásamt því að gefa hinum norðurlöndunum og þeirra hagstjórn langt nef.

En þegar þessir blaðamenn ræddu við íslendinga, þá vorum við volandi yfir því að Ísland hafi það svo slæmt og önnur lönd eins og norðurlöndin vilji ekki lána íslendingum meiri peninga og Bretar afskrifa skuldir. Við séum eins og grenjandi alkahólisti og heimtum meira brennivín. Álit íslendinga hefur hrunið og engin skilur hvernig í veröldinni Ísland ætli að kjósa sig undan ábyrgð á eigin gjörðum. Álitshrunið hófst ekki bara núna, það hófst árið 2007 þegar dómar Danske bank komu fram og viðbrögð þáverandi ráðamanna okkar við þeim.

Þessu umsátursástandi sem stjórnmálamenn halda þjóðinni í verður að linna. Þeir eru upphaf og endir þeirra vandræða sem við erum í og geta ekki vikið sér undan þeirri ábyrgð. Það var ríkið sem brást okkur. Það er ríkið sem á að setja leikreglur og sjá til þess að þeim sé fylgt.

Stjórnmálamenn verða að taka upp ábyrgari vinnubrögð og hafa dug í sér að klára mál, jafnvel þó óvinsæl séu. Því verður að fylgja breytt stjórnarskrá og stjórnlagaþing. Það mál allt verður að taka úr höndum þingmanna þeir eru endanlega búnir að klúðra allri sinni aðkomu að því máli.

fimmtudagur, 7. janúar 2010

Er ekki nóg komið?

Formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa söðlað um í afstöðu til þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin. Nú telja þeir hættulegt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu, en aðeins er vika síðan þeir báðir studdu tillögu á Alþingi um að vísa lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Auk þess hafði Sigmundur Davíð bæði hvatt forseta Íslands til að vísa lögunum í þjóðaratkvæði og fagnað ákvörðun hans.

Að auki höfum við heyrt í öðrum þingmönnum sjálfstæðismanna þar sem þeir hafa skyndilega skipt um skoðun og þora ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú blasir við það sem allir vissu að þeir hafa verið með stóryrtar dómsdagsspár, reist fullyrðingar sínar á vafasömum spurningum í skoðanakönnunum og sama á við um InDefence.

Svo eru þessir menn í fjölmiðlum að saka stjórnarþingmenn um stóryrði og svartholsspár. Þessi menn þá ekki síst þingmenn Framsóknar hafa nú heldur betur verið með gífuryrði og nokkrir þingmenn sjálfstæðismanna.

Þessir litlu menn geta svo ekki horfst í augu við afleiðingar gjörða sinna. Verið þið viss ef næst samkomulag þá hrósa þessi menn sigri. Ætlast menn til þess að tekið sé mark á þessu fólki? Þetta er án nokkurs vafa ómerkilegasta dót sem komið hefur á Alþingi. Dót sem er búið að skafa allt álit af hæstvirtu Alþingi.

Maður veltir einnig fyrir sér hvort þingmenn og starfsmenn Sjálfstæðisflokksins séu yfir höfuð í sambandi við aðra flokksmenn. Þeir eru allavega ekki í neinu samfloti við forsvarsmanna úr atvinnulífinu. Lítið t.d. á þá sem voru valdir menn ársins í Viðskiptablaðinu og öðrum fjölmiðlum, eða forsvarsmenn SA. Yfirlýsingar þessara manna og svo athafna og yfirlýsinga þingmanna flokksins þarna er himinn og haf á milli.

Þessir þingmenn og starfsmenn þessara stjórnmálaflokka eru greinilega í einhverri allt annarri vegferð en þjóðin. Þeim virðist skipta engu atvinnustig og staða fyrirtækja. Nú spyr er það kannski rétt sem víða heyrist á kaffistofum vinnustaða. Þeir óttast svo niðurstöður rannsóknarnefnda, sem birta á innan skamms, að þeir vilja þyrla upp eins miklu moldviðri og hægt er áður en þær niðurstöður verða birtar.

Altalað er að nokkrir háttvirtir stjórnmálamenn einmitt úr þessum flokkum verði fyrir mikilli ágjöf í niðurstöðum rannsóknarnefndanna.

Er ekki komið nóg af skemmdarverkum þessarra sérhyggjumanna?

miðvikudagur, 6. janúar 2010

Hvað vakir fyrir Ólafi Ragnari?

Ég er einn af þeim fjölmörgu, sem er nokkuð viss um að stór hluti þeirra, sem eru í sjötíu prósentunum sem sögðust í skoðanakönnun vera á móti Icesave skuldunum, stóðu í þeirri trú að það væri valkostur að segja sig frá skuldunum.

Ég er einnig sannfærður að auk þess séu margir af þeim sem svöruðu neikvætt, hefðu svarað já, ef spurt hefði verið áfram um hvort Ísland verði þrátt fyrir það að standa við skuldbindingar sínar. Ég er einnig sannfærður að svipað sé ástatt um þann hóp sem skrifaði sig á InDefence. Þannig að þar er ekki í raun ekki svona stórir hópar sem eru andstæðir því að klára málið á sömu nótum og þingið afgreiddi milli jóla og nýárs.

Ég þar til viðbótar sannfærður um að forsetanum er fullkunnugt um þessa stöðu. Þannig að það er ekki annað en hægt að velta því fyrir sér hvað það sé sem vaki í raun og veru fyrir Ólafi. Hann hlýtur að hafa gert sér grein fyrir hvað myndi fylgja í kjölfar ákvörðunar hans.

Það er ljóst á svörum formanna Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna að þeir gerðu sér grein fyrir þessu, en reiknuðu ekki með að Ólafur myndi leika þessum leik. Það var aumkvunarvert að hlusta á þessa menn sverja allt af sér í gær. Enn aumari var forsvarsmaður InDefence. Þetta væri allt saman ríkisstjórninni að kenna, vælandi um að þeir einir hafi verið ábyrgir og nú eigi allir að verða vinir og semja um málið. Það sé auðvelt!!??

"Ofboðslega eru þetta litlir kallar," sagði konan mín í gærkvöldi þegar við hlustuðum á Kastljósið. "Litlir kallar geta aldrei orðið annað en minni kallar."

Hverjum í veröldinni, utan íslenskra fordekrarða stjórnmálamanna, dettur það í hug að ríkistjórn geti ákvarðað hvað erlend stórblöð setji á forsíður sínar. Þar rifjast upp sú útreið sem Geir fékk í enskum fjölmiðli í fyrra þar sem hann var afhjúpaður og rasskelltur í beinni. Pínlegt að það er eins og sumir fjölmiðlamenn trúi þessu líka. Þeir eru vanir að geta stjórnað þessu hér heima.

Mér finnst Politiken ná prýðilegri yfirsýn yfir íslenska veruleikasýn og reyndar ekki í fyrsta skipti sem ég er sammála norrænum alvörublöðum. Danirnir segja þegar þeir fjalla um athafnir forsetans og stjórnarandstöðunnar; Ef íslendingar telji að ekki sé hægt að nota ímyndunaraflið til þess að breyta veruleikanum, þá sé hægt að reyna að velja sér veruleika með því að kjósa já eða nei um þá þætti sem maður vill hafa og þá sem maður vill hafna.

Danirnir halda áfram á svipuðum nótum og aðrir erlendir fjölmiðlar; Vandamál hinna reiðu víkinga á Íslandi er að skuldir sem sköpuðust með fjármagnsflutningum frá Hollandi og Bretlandi til Íslands hverfa ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Eitt nei í atkvæðagreiðslu yljar kannski augnablik, en það mun valda hratt vaxandi vöxtum á þeim gríðarlegu skuldum sem íslendingar hafa steypt sér í og trúverðugleiki þeirra hverfur endanlega.

Íslendingar hafi sem sjálfstæð þjóð í áraraðir nýtt sér þá stöðu að standa fyrir utan ESB og velja sér bestu bitana, til að skapa velferðarástand sem ekki var í raun innistæða fyrir. Kostnaðinn af því geta íslendingar ekki kosið í burtu. Það er ástæða til þess að hjálpa Íslandi til þess að koma fótunum undir sig aftur. En þjóðaratkvæðagreiðslan mun einungis fresta gjalddeginum. Ísland muni verða einangraður ísklumpur í norðurhöfum og litið á það sem bananalýðveldi.

Að öllu þessu framansögðu velti ég því fyrir mér; Var Ólafur Ragnar vísvitandi að stilla upp Sjálfstæðis- og Framsóknarmönnum og þeim sem hafa hvað harðast barist gegn því að horfast í augu við þennan ískalda veruleika. Hann sé að þvinga það fólk til þess að horfast í augu við afleiðingar eigin gjörða og hátternis. Ákvörðun hans gengur eiginlega ekki upp öðruvísi.

þriðjudagur, 5. janúar 2010

Harmleikur forsetans

Ég efast ekki um stjórnarskrárvarin rétt forsetans til að grípa til þessa úrræðis. En ég get á engan hátt komið auga hvað býr að baki þessari ákvörðun hans. Lagafrumvarpið sem hann vill ekki staðfesta, fjallar um breytingar á lögum um ríkisábyrgðina sem eru í fullu gildi.

Eins og ég hef margoft komið að, þá snýst málið ekki um hvort borga eigi Icesave eða ekki, eins og margir þeirra sem studdu yfirlýsingu InDefence og eins allavega flestir stjórnarandstöðumenn virðast halda.

Kosningin snýst því um hvort halda eigi í þá fyrirvara sem íslendingar settu einhliða inn í milliríkjasamning og Bretar og Hollendingar, hafa þegar hafnað. Ég benti á það á sínum tíma að þessi gjörningur íslendinga byði í raun upp á að Hollendingar og svo Bretar settu einnig einhliða lög um ákveðin atriði í samningnum. Íslendingar væru að bjóða upp á endalausa og marklausa hringekju. Það var gert góðlátlegt grín af þeim fyrir þetta niður í Evrópu eins og ég hef margoft lýst í pistlum.

Spurningin sem verið er að vísa til þjóðarinnar marklaus, þetta var ekki eins einfallt og innanlands deila um fjölmiðlalög, sú deila snérist einnig um stjórnskránna og tjáningarfrelsi. Það er óframkvæmanlegt standa í samningaviðræðum með þjóðaratkvæðagreiðslum eða einhliða lagasetningum.

Endurreisnin bíður, við fáum ekki ný gjaldeyrislán á meðan. Lánshæfismat t.d. orkufyrirtækja fellur og endurfjármögnun útilokuð. Engar líkur eru á styrkingu krónunnar. Þetta verður þjóðinni og atvinnulífinu mjög dýrt.

Hvernig á þjóðaratkvæðagreiðslan að fara fram? Forsetinn vitnaði til þess að þingmenn hefðu skorað á sig og hann teldi að meirihluti væri á þingi fyrir þjóðaratkvæði um málið. Bíddu hvert er hann að fara? Breytingatillaga um þjóðaratkvæði var felld milli jóla og nýárs.

Hann talar um þessa atkvæðagreiðslu sem sátt. Um hvað? Að minnihluti geti ráðið með heimatilbúnum rangtúlkunum? Þjóðin mun klofna í enn harðsnúnari fylkingar og margir verða sárreiðir þegar það rennur upp fyrir þeim að InDefence og stjórnarandstaðan hafði ekki sagt rétt frá.

Það sem við þurftum á að halda núna var allt annað en þetta.

mánudagur, 4. janúar 2010

Hrunið var óumflýjanlegt

Nú tala menn á ábyrgan hátt og benda á ef Seðlabankinn hefði beitt heimild sinni í 13. gr. seðlabankalaga til að setja skorður við erlendri skuldsetningu þá hefðu kaup bankanna á skuldaviðurkenningum braskara orðið margfalt minni, og Ísland væri ekki í greiðsluþroti. Hér er ég að vitna í ummæli nokkurra sem hafa sést í bloggheimum undanfarið og á facebókinn, þ.á.m. þau sem Egill birti áðan eftir Gunnari Tómasson hagfræðing

En í alvöru; Telja menn þetta trúverðugt? Öll þekkjum við viðhorf þáverandi Seðlabankastjórnarmanna. Þeir mærðu íslenska efnahagsundrið og fóru víða til þess að kynna það. Öll þekkjum við viðhorf þeirra stjórnmálamanna sem fóru með efnahagstjórnina, þau voru hin nákvæmlega sömu og voru í Seðlabankanum.

Þeir héldu því ákveðið og stöðugt að landsmönnum að það væri sakir hin íslenska efnahagsundurs, sem þeir sköpuðu einhendis, að allt gengi svo vel hér og allir hefðu það svo gott. Þessir menn þrættu við okkur og hagdeildir atvinnulífsins, sem bentu á að gengið væri á 30% yfirverði og skattalækkanir þeirra væru til þess eins að auka á komandi vanda.

Þessir hinir sömu þrættu við erlenda ráðgjafa og norrænu seðlabankastjórana um að Ísland stefndi á mikil vandræði og afnám þeirra á bindiskyldu Seðlabankans væri fjarstæðukennd vitleysa. Þeir virtu ekki viðlits aðvaranir um hvert innlánsdeildir íslenskra banka á erlendri grund gæti leitt okkur.

Fyrir liggur að stjórn Seðlabanka tók við innistæðulausum ástarbréfum fram á síðasta dag og bankinn var keyrður í gjaldþrot af þessum mönnum. Þessir hinir sömu hreyttu fúkyrðum í stjórnarmenn lífeyrissjóðanna þegar við neituðum að afhenda þeim þá 500 MIA sem lífeyrissjóðirnir ættu erlendis daginn fyrir Hrunið, nema gegn ríkistryggðum bréfum og að efnahags- og peningastefnan yrði endurskoðuð.

Sé litið til framantalinna athafana og ummæla þessara manna sem fóru með efnahags- og peningastjórn; Hver haldið þið að viðbrögð þeirra hefðu verið ef einhver hefði krafist þess að Seðlabankinn nýtti hina umræddu 13. gr.? Það var búið að tala við þá, allir seðlabankastjórar norrænu Seðlabankanna, forsvarsmenn ríkisstjórnar Englands og Hollands.

Ég er sannfærður um að viðbrögð hinna íslensku ráðamanna í þáv. ríkisstjórn og Seðlabanka hefði verið á þann veg að þar færu úrtölu og öfundarmenn sem ekki skildu Íslenska efnahagsundrið og ættu þá að fara á eftirmenntunarnámskeið.

Það liggur fyrir að ekkert, engar aðvarandi, engin rök, ekkert gat hefði stöðvað þá þróun sem þáverandi ráðamenn höfðu búið til og fylgdu til enda, fram yfir Hrun. Og reyndar í nokkra mánuði eftir það. Sumir þeirra eru reyndar enn á ferðinni með óbreytta skoðun, sé t.d. litið ummæla sem koma fram í leiðurum og Staksteinum Morgunblaðsins, eða á AMX, eða í greinaskrifum Hannesar Hólmsteins fyrrv. seðlabankastjórnarmanns.

laugardagur, 2. janúar 2010

Áramótapæling

Sé litið til umræðunnar síðustu 15 mánuði þá hefur það opinberast svo berlega fyrir okkur hversu löskuð umræðan er hér landi. Ekki bara hjá stjórnmálamönnum heldur hafa þar verið áberandi einstaklingar sem hafa verið ósparir á yfirlýsingar og sleggjudóma, eins og biskup kemst svo ágætlega að orðið í nýársávarpi sínu.

Þetta er það sem stendur efst í huga mínum þegar litið er yfir síðasta ár. Það er margt gott sem gert hefur verið og ástandið er ekki eins slæmt og margir spáðu og minna atvinnuleysi.

Karl Sigurbjörnsson sagði einnig; “Níð og mannorðsmorð eru söluvara og ósjaldan stundað af þeim sem hæst hrópa og ákafast veifa fánum siðavendninnar. Áður hefðu Íslendingar verið þekktir fyrir orðheldni og heiðarleika. Menn stóðu við orð sín, handsöluðu skuldbindingar og stóðu við þær. Nú er sem mörgum finnist munnlegir samningar og fyrirheit lítils virði, flestallt sé afstætt. Stjórnmálin hafa lengi snúist um ímyndir og slagorð, sýndarmennsku og gylliboð.”

Upp á himinn fjölmiðla og spjallþátta hafa undanfarið ár skotist einstaklingar, sem hafa borið þungar sakir á aðra og kennt þeim um ófarir sínar. Oft hefur komið í ljós að viðkomandi einstalingar eru þekktir óreiðumenn og með langa slóð kennitöluflakks. Einstaklingar sem annað hvort voru orðnir gjaldþrota eða stefndu lóðbeint í það, þó svo Hrunið hefði ekki komið til. Það vekur svo undrun manns að jafnvel þó þessi vitneskja liggi fyrir, er ítrekað leitað til þessara hinna sömu sem álitsgjafa í fréttaþáttum.

Við starfsmenn stéttarfélaganna þekkjum allvel til nokkurra af þessum einstaklingum vegna vandræða sem launamenn hafa lent í vegna óuppgerðra launa eða kjaratengdra atriða. Einnig er það áberandi að þeir sem eru hvað harðastir í dómum um verkalýðshreyfinguna eru undantekningalítið einstaklingar sem ekki eru félagsmenn. Glögglega kemur fram í orðræðu þeirra fullkomið þekkingarleysi á þeirri starfsemi sem fordæmd er. Ég hef komið að þessu í svörum mínum í aths. kerfinu hér og nokkrum pistlum.

Stundum eru þar á ferð einstaklingar sem eru svokallaðir gerfiverktakar og leita í sífellu að rökum til þess að réttlæta svo kallaða „free rider“ áráttu sína. Þeir beita öllum brögðum við komast hjá því að greiða til samfélagsins, en eru með stanzlausar kröfur um fyrirgreiðslu.

Þeir gera kröfur í sjóði stéttarfélaganna þó svo þeir hafi ekki greitt þangað og leita aðstoðar starfsmanna stéttarfélaganna ef þeir eru í vandræðum. Þegar við bendum þeim á að ekki eru forsendur fyrir kröfum þeirra, er brugðist við með gífuryrðum og fúkyrðaflaum og ásökunum um að við vinnum gegn launamönnum. Eru síðan með yfirlýsingar í spjallþáttum um að verkalýðshreyfingin geri aldrei neitt.

Það er einmitt þetta sem sumir þáttagerðar- og fréttamenn virðast leita helst eftir, þeir vilja ekki heyra vel talað um menn og málefni og hafa engan áhuga á að fjalla um álit meirihlutans eða skoða á hvaða forsendum er niðurstaða hans er byggð.

Þetta hefur leitt til aukinnar tortryggni og er svo komið hjá mörgum, að þeir fara ekki á mótmælafundi. Maður vill ekki láta bendla sig við þessa einstaklinga eða sitja undir ræðu sem maður veit að er samansett af innistæðulausum fullyrðingum. Ekki er hlustað á spjallþætti, vegna þess að almælt er að það komi fyrr en síðar í ljós, að sá sem er þar mættur sem viðmælandi, byggi afstöðu sína á fullkominni og rakalausri endaleysu.

Þetta hefur bitnað svo illilega á þeim sem réttilega eiga að fá aðstoð í sínum fjármálum, en þeir lenda alltaf fyrir aftan þá sem hæst hafa. Þeim sem ráðamenn eru hættir að hlusta á.