föstudagur, 22. janúar 2010

Loftslagsvandinn


Lofthjúpurinn er þunnt lag af lofti umhverfis jörðina. Lofttegundir má finna upp í 500-600 km hæð, en þéttleiki loftsins vex hratt þegar nær dregur jörðu. Um 99% alls lofts er í innan við 30 km hæð. Þrátt fyrir að lofthjúpurinn sé mjög þunnur samanborið við þvermál jarðarinnar er hann samt nægur til að verja lífverur fyrir skaðlegum geislum og loftsteinum utan úr geimnum.

Loftslagsvandinn krefst víðtækra aðgerða, magn gróðurhúsaloftegunda sem losað er um heim allan ræður úrslitum um hlýnun jarðar í framtíðinni. Við eigum bara eina jörð, höfum ekki aðra til vara. Með sjálfbærni hvað varðar lofslagshjúpinn, er átt við að ganga þurfi þannig frá málum að jarðarbúar get verið hér endalaust, fá stöðugleika. Við þurfum að skilja og þekkja þau takmörk sem við búum við. Ef allir á jarðarbúar lifðu eins og íbúar Bandaríkjanna þá þyrftum við 5 jarðir til þess að komast af sé litið til framtíðar. Ef jarðarbúar lifðu eins og íbúar ESB þá þyrftum við 3 jarðir.

Vaxandi fjöldi Kínverja gerir nú sömu kröfur um lífsgæði og íbúar á vesturhvelinu búa við. Indverjar eru einnig á sömu leið. Ef allar fjölskyldur þessara landa fengju sér ísskápa og flatskjái myndu kolefnislosun margfaldast á jörðinni, séu þeir framleiddir áfram með sömu tækni og gert er í dag ásamt raforku til þeirra. Nú eru Kínverjar komnir í þá stöðu í efnahagskerfi heimsins að ekki verður gengið framhjá þeim. Bandaríkin eru mikið undir þá komnir með sínar ofboðslegu skuldir og verða að taka tillit til krafna Kínverja. Þar er að finna hluta þess hversu skammt loftslagsráðstefnan í Kaupmannahöfn náði

Ef ná á sjálfbærni í þessu pínulitla rými sem lofthjúpur jaðrar er, verður ekki nægilegt að við minnkun akstur og drögum úr framleiðslu rafmagns með brennanlegum orkugjöfum. Það verður ekki gert nema til komi gríðarleg tæknibylting og bylting í mörgum þáttum sem við teljum eðlilegt lífsmynstur í dag.

Byltingin þarf að vera mun umfangsmeiri en sú þjóðfélags- og tæknibylting sem en kom í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar með rafeindabyltingunni. Það er nú svo sé litið til mannkynssögunnar þá hafa allar tækninýjungar sem skipta máli komið fram þegar mannskepnan hefur verið að hugsa út tæki og tól til þess að auka afköst við að slátra óvinum.

Von kviknaði hjá mörgum efnahagshrunið yrði til þess að jarðabúar myndu taka höndum saman um endurskoðun á öllum grunnþáttum, tækniþekkingin er til. En það virðist ekki ætla að rætast. Nú eru menn farnir að spá jafnvel styrjöldum út af vatninu og orkugjöfum. Kannski það sé það sem þurfi til þess að þvinga fram þær úrbætur sem verða að koma til.

Ísland hefur allt til að bera að geta orðið grænt samfélag, ekki bara á nokkrum sviðum heldur allt samfélagið og við eigum að stíga það skref fyrst allra þjóðfélaga. Það skrefi skiptir heildina ekki miklu en gæti haft mikil áhrif.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hlutur Íslands í mengun eða sjálfbærni er ekki mælanlegur á heimsmælikvarða en hrunið hefur sýnt okkur að heimurinn metur gerðir meira en stærðir og ef okkur tækist að verða grænt samfélag yrði það miklu stærra innlegg í málstaðinn en hlutur okkar segir til um.
Stefán Benediktsson

Maggi W sagði...

Ef litið er á heimsmyndina er nauðsynlegt fyrir íslendinga að virkja meira af fallvötnum og jarðhita. Þær verksmiðjur, eða gagnaver, sem við knýjum þannig eru ekki knúnar með rafmagni frá jarðefnaorkuverum.

Nafnlaus sagði...

Við þurfum að eiga orku fyrir framtíðina. Samgöngur okkar þurfum við með einum eða öðrum hætti að knýja með innlendum orkugjöfum. Hvort sem við notum raforkuna beint eða notum milliliði, s.s. vetni. Því er fáránlegt að nota alla okkar orku til að framleiða eina tegund málma, þ.e. ál. Of mörg egg í sömu körfunni, gott fólk.