laugardagur, 9. janúar 2010

Sundrungaröflin ráða för

Allt frá því að stjórn sjálfstæðismanna féll eftir Hrunið, hafa þeir farið mikinn á Alþingi. Það er nákvæmlega sama hvað stjórnarflokkarnir hafa lagt fram, sjálfstæðismenn fara fram gegn öllu af mikilli heift. Alloft hafa rök þeirra verið harla grunn, jafnvel barnaleg og mótsagnakennd. En þeim virðist vera nákvæmlega sama þó engin samfella sé í málflutning þeirra og þeir fari jafnvel ítrekað fram gegn eigin tillögum.

Öllum brögðum í bókinni er beitt til þess að skapa glundroða og deilum. Það er athyglisvert að þingmenn sjálfstæðismanna og starfsmenn flokksins virðast vera á ferðalagi í fullkominni andstöðu við áhrifamenn innan flokksins úr atvinnulífinu, sem hefur verið rótarfesta flokksins.

Þjóðaratkvæðagreiðsla hrópuðu sjálfstæðismenn á Alþingi fyrir skemmstu og tókst með því að stilla málinu þannig upp að það væri valkostur að hafna endurgreiðslu og Ísland væri beitt ofríki af stórum þjóðum. Með því var óvinur búinn til og fá þúsundir til þess að skrifa undir áskorun Indefence-hópsins til forsetans.

Þegar forsetinn varð við kröfum þeirra, bregður svo við að þeir stjórnmálamenn sem áður héldu því fram að við gætum hafnað að borga, viðurkenna að við yrðum að standa við skuldbindingar okkar og höfnuðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú á að hóa saman nefnd og fara til Breta og Hollendinga og semja upp á nýtt. Við semjum ekki við okkur sjálf um Icesave. Icesave er milliríkjamál. Það er aukaatriði í augum þingmanna sjálfstæðismanna, þeir vilja alls ekki að hér skapist vinnufriður. Þeir vilja glundroða, sama hvað það kostar.

Það pólitíska moldviðri sem hefur verið þyrlað upp kringum Icesave-deiluna var alfarið heimatilbúið sagði Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur í eftirtektarverðu viðtali í Speglinum 7. jan. Hún hefur eins og fleiri félagsvísindamenn rýnt í ástandið frá því haustið 2008. Sigurbjörg segir að pólitísk öfl beita skipulega hér gamalkunnri aðferð, sem nefnd er í fræðunum að deila og drottna.

Icesave-deilan er alfarið heimatilbúin og þar eru stjórnmálamenn að beita þessari aðferð. Þetta er ekkert ný af nálinni og hefur verið beitt áður og er algeng aðferð. Það gerist þannig að þjóðinni er sundrað, Icesave er kjörið mál til þess að sundra þjóð, sérstaklega fámennri þjóð eins og Íslandi. Þeir sem að sundrungunni standa taka völdin í sínar hendur og stefna síðan að því sameina þjóðina á eigin forsendum.

Þjóðinni hefur ítrekað verið fullkomlega misboðið hvernig stjórnmálamenn hafa gengið fram í þinginu. Vaxandi fjöldi íslendinga er þessa dagana að átta sig á því, að hér er um að ræða skipulögð vinnubrögð sundrungarafla og hræðsluáróður. Viðbrögð alþjóðasamfélagsins eru alþekkt í alþjóðlegum samskiptum og viðskiptum. Þegar þjóðir fara ekki að almennum reglum sem um slík samskipti gilda, þá bregst alþjóðasamfélagið við og stendur yfirleitt nokkuð vel saman til þess að tryggja það að reglum sé fylgt.

Ríkisstjórnin á að halda sínu striki. Eftir 7-8 ár þá eru komnar upp allt aðrar aðstæður, það eru komnar nýjar ríkisstjórnir og það eru komnir nýir stjórnmálamenn. Skuldaaflausn í dag gengur ekki upp, jafnvel þó að þetta séu einhverjir smápeningar fyrir Hollendinga og Breta. Vextir sem íslenska ríkinu standa til boða í samningum vegna Icesave-skuldbindinga, byggja á þeim vaxtakjörum sem Bretum og Hollendingum standa til boða á langtímavaxtakjörum.

Bretar hafa lagt út um 2,3 milljarða breskra punda og Hollendingar 1,3 milljarða evra hins vegar. Kom fram í símaviðtali sem Íslensk-ameríska viðskiptaráðið skipulagði við Gylfa Magnússon viðskiptaráðherra á fimmtudag. Heildarupphæðin er fjórar milljarða evra. Það ræðst af heimtum verðmæta úr Landsbankanum hversu stór hluti falli á íslenska ríkið og við þá upphæð bætast svo vextirnir vegna lána Breta og Hollendinga. Raunhæft er talið að endurheimtur eigna verði um 90 prósent hið minnsta. Þannig að allur hræðsluáróður um efnahagslegt hrun Íslands og skuldsetningu barna okkar og barnabarna er rakalaus. Við verðum búin að ganga frá þessum málum eftir 14 ár.

Ísland er mjög efnað land og er meðal ríkustu þjóða í heimi. Það eru mjög margar fátækar þjóðir sem skulda bæði Bretum og Hollendingum stórfé og þau hafa staðið í ströngu við að semja við stjórnvöld þessara landa með milligöngu annarra aðila til þess að reyna að fá skuldaaflausn eða lengingu í lánum og þar fram eftir götunum.

Ef Ísland ofan í allt það sem á undan er gengið, með þessa miklu útrás og hugmyndir um að ætla að sigra heiminn á viðskiptasviðinu, fær síðan skuldaaflausn þá verður bókstaflega allt vitlaust í höndum Breta og Hollendinga gagnvart öðrum skuldurum. Þannig að Ísland er dæmi um hvernig farið getur fyrir þjóðum sem fara óvarlega. Alþjóðavæðast með mjög gáleysislegum hætti en skilið landið eftir efnahagslega varnarlaust eða varnarlítið, eins og íslenska efnahagsundrið var og þáverandi ríkistjórn var ítrekað bent á af nágrannalöndum okkar.

Skuldaaflausn Íslands þýddi að alþjóðasamfélagið væri að búa til fordæmi um það sem er kallaður freistnivandi, aðrir gætu farið að leika þetta eftir. Ísland er í refsivist. Þjóðarstoltið er sært. Ísland sem hagkerfi og sjálfstætt ríki, sem fór braut nýfrjálshyggjunnar og alþjóðavæddist og fór út í alþjóðleg viðskipti með mjög takmarkað bakland, verður sýnidæmi háskólanna um hvernig svona örhagkerfi virka og í hvaða skelfingum þau lenda, ef heimavarnirnar heima fyrir er ekki nægilega öflug og efnahagslegar varnir styrktar.

En sjálfstæðismenn þrættu eins og þeim er svo lagið, ekki bara um þær neikvæðu breytingar sem þeir gerðu á skattkerfinu og hættuna af hinni ofsafengnu þenslu hér heima. Heldur gerðu þeir grín af öllum erlendum sérfræðingum, sem ekki voru þeim sammála.

25 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábær greining, með þeim betri frá þér
Kv. KÞG

Nafnlaus sagði...

Gamall vinnufélagi minn sagði mér fyrir Alþingiskosningarnar 2003 að hann kysi ávalt sjálfstæðisflokkinn.

Ekki af því að hann væri svo sammála þeim. Heldur vegna þess að ef þeri væru ekki í stjórn, þá reyndu þeir að eyðileggja og skemma fyrir hverjum einasta hlut.

Sjálfstæðismenn veigra sér ekki einu sinni við því að draga erlendar stjórþjóðir inní pólitísku pissukeppni sína.

Birgir Finnsson sagði...

Nú hefði maður svo sannarlega vonað að fólk allra flokka myndi skynja þann óvænta en áþreifanlega meðbyr sem Ísland er að fá í umræðunni erlendis, og sneri bökum saman í viðleitni til að knýja
fram sanngjarnar samningaviðræður. Eins og ónefndur álitsgjafi orðaði það í einum fjölmiðlanna um daginn: "Burtséð frá því hvaða skoðun menn hafa á þeim atburðum sem nú eiga sér stað á Íslandi er það lykilatriði fyrir íslenska hagsmuni að tala máli landsins á erlendum vettvangi. Í þeim efnum þurfa allir að leggjast á árarnar."

Sjálfur er ég sannfærður um að þetta sé það sem þjóðin þarf - að láta gamlar væringar og dægurþras niður falla, þjappa okkur saman og koma fram sem ein heild í vörn gagnvart þeim sem sækja að hagsmunum okkar. Á þessa leið hefur mér fundist vakningin vera undanfarna daga - í kjölfar ákvörðunar forsetans hefur þjóðin öðlast ákveðna sjálfsvirðingu á ný og ákvörðun hans og jákvæðar
afleiðingar hennar hafa blásið fólki baráttuanda í brjóst.

Því miður eru þó til þeir aðilar sem megna ekki að líta upp úr skotgröfum pólitískra væringa.

Þetta eru mennirnir sem virðist ennþá telja að mestu máli skipti að skora sem flest "stig" í pólitískum þrætum. Þetta eru mennirnir sem virðist frekar geta hugsað sér að yfir þjóðina hellist ægilegar skuldir frekar en að viðurkenna að "andstæðingurinn" sé að
gera eitthvað rétt.

Þetta eru mennirnir sem gera sitt ítrasta til að hindra að mótherjinn "skori"; tala niður allar tilraunir annarra en eigin til að gera þjóðinni gagn og skeyta engu þó þeir ali í leiðinni á sundurlyndi og óöryggi meðal þjóðarinnar.

Þetta eru úrtölumennirnir sem umfram allt virðast ekki geta hugsað þá hugsun til enda að "hitt liðið vinni" og virðast meta "sigur" í pólitískum þrætum ofar heildarhagsmunum íslensku þjóðarinnar.

Í hugsa slíkra manna geisar einhver stormur sem ég vona að ég eigi aldrei eftir að kynnast.

Nafnlaus sagði...

Frábær pistill hjá þér Guðmundur. Kannski í lengra lagi eins og ritgerðirnar þínar forðum tíð við Ha. Kveðja, Ingi Rúnar

Nafnlaus sagði...

Góður pistill Guðmundur. Haltu áfram góðum skrifum.
kv. Ingi

Nafnlaus sagði...

Góður pistill að vanda. Mín trú er sú að foringjar stjórnarandstöðunnar muni fá þunga dóma í sögunni og verða notaðir sem dæmi um menn sem svífast einskis og láta sig þjóðarhag engu varða í einhverri blindri pólitískri hefndarför.
Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn hefðu verið menn að meiri ef þeir hefðu farið í trúverðuga naflaskoðun og í kjölfarið gefið út einhverja framtíðarsýn - en það hafa þeir ekki gert.
Sverrir

Nafnlaus sagði...

Eins og venjulega skrifar Guðmundur af yfirvegun og skynsemi þótt hann sé harður og ákveðinn um leið. Það þarf meira af svona umræðu.
GPM

Nafnlaus sagði...

Sammála Sverri um pistilinn. það er hins vegar skýring á því af hverju Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn gefa ekki út framtíðarsýn. Hún er bundin því að þeir stjórni - annars verði engin framtíð.
GRÁ

Nafnlaus sagði...

Maður hefur áður sé óábyrga sjórnmálamenn hér og þar, en á öllum mínu ferli hef ég aldrei áður séð jafn óábyrga forystumenn heilla stjórnmálaflokka koma jafn óábyrgt fram og núna. Til þess að átta sig á afstöðu þeirra þarf maður að vera viss um að hlusta á fréttir bæði kvölds og morgna. Því miður hefur þingflokkur VG ekki áttað sig á því, að það eitt vakir fyrir þeim að fella ríkisstjórnina - alveg óháð því hvaða afleiðingar það hefur fyrir þjóðina!
GA

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir frábæra grein. Ein best skrifaða greining sem ég hef séð.

Birgir... Málfæri þitt er dæmigert fyrir brennuvargana. Sáttatónnin sem heyrist nú er rammfalskur. Og það var auðvelt að heyra á máli Bjarna Ben í þinginu í gær. Það er ekki liðinn sólarhringur frá breyttum tón hans og Sigmundar Davíð að þeir eru farnir að spinna á nýjan leik. Og nú er verið að slá á sáttahendur þeirra!! Hvernig væri að gefa ríkisstjórninni tíma til að anda? Ef stjórnarandstöðunni er alvara með því að "rísa upp úr pólitískum skotgröfum" þá er allt í lagi að vera samkvæmur málflutningi sínum í einsog eina viku eða svo.

Kveðja,
Jón H. Eiríksson

Guðmundur sagði...

Já Ingi. Ég hef oft verið með aðeins lengri pistla um helgar.

Byrjaði á því reyndar áður en Jón Garðar á Eyjunni leitað til mín um að skrifa hér. Skrifaði þá oft mjög ítarlegar helgarhugleiðingar á heimasíðu Rafiðnaðarsambandsins um fagpólitísk efni.

Tíni þá fram aðeins fleiri atriði, já eins og ég gerði í verkefnum mínum við Háskólann á Akureyri.

Annars takk og góða helgi öll sem lesa síðuna
GG

Nafnlaus sagði...

Mjög góð greining á máli málanna.
Kv Haddý

Nafnlaus sagði...

Verð að taka undir það sem er ráðandi hér framar. Frábær greining og vel skrifuð
Takk fyrir mig Úlfur

Guðni Gunnarsson sagði...

touché!

Unknown sagði...

nn pistill að vanda.

En ég er ekki eins viss og Birgir hér að framan um að íslendingar hafi svo mikinn meðbyr í umræðunni erlendis. Vissulega hafa birst greinar málsmetandi manna sem hafa verið okkur hliðhollar, en mér hefur þótt áberandi í flestum fjölmiðlum á Íslandi síðustu sólahringa að áherslan hafi verið á birtingu jákvæðra greina.

Veruleikinn sem ég upplifi héðan frá Spáni í mjög ensku samfélagi er svolítið annar. Enda er ég að sjá í enskum miðlum meira af viðbrögðum úr stjórnsýslunni,þar sem ég finn fyrir meiri hörku. Þá finnur maður fyrir bretunum þegar þeir tjá sig um málið, en sem skattborgarar skilja þeir afstöðu þjóðarinnar.

Til marks um þetta þá kom að vanda ensk vinkona 11ára dótturminnar í heimsókn daginn eftir neitun forsetans og sagði við mig að bragði stríðnislega og brosand "Svo forsetinn ykkar vill ekki borga okkur".

Þjóðin þarf ekki bara að sjá og heyra jákvæðu umræðuna, heldur líka þá neikvæðu í réttu hlutfalli.

Unknown sagði...

nn pistill að vanda.

En ég er ekki eins viss og Birgir hér að framan um að íslendingar hafi svo mikinn meðbyr í umræðunni erlendis. Vissulega hafa birst greinar málsmetandi manna sem hafa verið okkur hliðhollar, en mér hefur þótt áberandi í flestum fjölmiðlum á Íslandi síðustu sólahringa að áherslan hafi verið á birtingu jákvæðra greina.

Veruleikinn sem ég upplifi héðan frá Spáni í mjög ensku samfélagi er svolítið annar. Enda er ég að sjá í enskum miðlum meira af viðbrögðum úr stjórnsýslunni,þar sem ég finn fyrir meiri hörku. Þá finnur maður fyrir bretunum þegar þeir tjá sig um málið, en sem skattborgarar skilja þeir afstöðu þjóðarinnar.

Til marks um þetta þá kom að vanda ensk vinkona 11ára dótturminnar í heimsókn daginn eftir neitun forsetans og sagði við mig að bragði stríðnislega og brosand "Svo forsetinn ykkar vill ekki borga okkur".

Þjóðin þarf ekki bara að sjá og heyra jákvæðu umræðuna, heldur líka þá neikvæðu í réttu hlutfalli.

Nafnlaus sagði...

Ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar snérist eingöngu um hagsmuni ÓRG. Röksemdarfærslur hans eru tækifærissinnaðar og mótsagnafullar sbr ágæt grein Þorsteins Pálssonar í morgun.
Ef stjórnarandstaðan og forsetinn hefðu raunverulegan áhuga á skoðunum þjóðarinnar að þá þarf spurningin í þjóðaratkvæðagreiðslunni að vera tvískipt:
A Á íslenskur almenningur að borga icesave skuldina?
B Ef já, þá kæmi langa versionin með samningstæknilegu atriðin.

Ólafur Guðmundsson

Nafnlaus sagði...

Heyrðu Guðmundur, ég er farinn að lesa allt sem frá þér kemur. Hér talað á mannamáli, kannski ekki alltaf sammála, en er það svo sannarlega hér.
Takk fyrir mig
Kv. Stína

Gísli Baldvinsson sagði...

Góður pistill...gb

Nafnlaus sagði...

Kannast vel við þetta sjónarmið kjósenda xD. Það sé betra að hafa þá við stjórnvölinn, því þá séu skemmdarverk þeirra minni. Skeflieg staðreynd. Aldrei heyrst aðra eins þvælu og í formanni xD í morgun. Maður kemst varla á milli setninga án þess að vera í mótsögn við sjálfan sig

Fínn pistill
Nonni

Nafnlaus sagði...

Mér þykir leitt að skemma fyrir þér jákórinn nafni. Þér finnst semsagt virkilega að Svavar Gestsson hafi staðið sig svo vel að enginn geti náð betri samningum en hann? Þú ert semsagt líka sannfærður um að við munum hafa meiri viðskiptajöfnuð næstu 14 árin en við höfum haft hingað til? Ég veit að það er gaman að henda skít í sjálfstæðisflokkinn og ég leyfi mér það stundum en það verður líka að horfa í eigin barm og sjá hverskonar óstjórn okkur er boðið uppá. Afhverju var ríkisstjórnin ekki tilbúin með yfirlýsingu á hvorn veginn sem var 5 janúar? Þetta er bara það síðasta í röð klúðra sem fylgt hafa þessari stjórn. Höfum við efni á mikið fleirum?

Kv.
Guðmundur

Nafnlaus sagði...

Þetta viðtal við Sigurbjörgu
Sigurgeirsdóttur, stjórnsýslufræðing í Speglinum 7. jan. s.l. var afar gott. Fólk ætti að fara inn á RÚv og hlusta á það.

I.

Nafnlaus sagði...

Hvað varðar athugasemdir frá Guðmundi hér næst neðst má allavega segja að núverandi ríkisstjórn er svo margfallt öflugri og betri en þær ríkistjórnir sem Sjálfstæðismenn leiddu og keyrðu Ísland í þá stöðu sem landið er nú.

gosi sagði...

Góður pistill að venju. Ég skil ekki hvers vegna bretar og hollendingar ættu að semja við okkur yfirleitt,þe. ef núverandi samningurinn verður feldur. Að minnsta kosti liggur þeim akúrat ekkert á.Ef ég væri í forsvari fyrir þeirra samninganefnd myndi ég kannski hafa samband eftir einhverja mánuði. Það eru margir sem halda að við höfum einhverja samningstöðu verði núverandi samningur feldur. Hver er hún?? Við höfum ekki einu sinni hin norðurlöndin sem bandamenn, lái þeim hver sem vill. Við höfum jú ekki gert neitt annað en sýna þeim "puttan" þegar þeir hafa gagnrýnt efnahagsstefnuna síðast liðin ár

gosi sagði...

Góður pistill að venju. Ég skil ekki hvers vegna bretar og hollendingar ættu að semja við okkur yfirleitt,þe. ef núverandi samningurinn verður feldur. Að minnsta kosti liggur þeim akúrat ekkert á.Ef ég væri í forsvari fyrir þeirra samninganefnd myndi ég kannski hafa samband eftir einhverja mánuði. Það eru margir sem halda að við höfum einhverja samningstöðu verði núverandi samningur feldur. Hver er hún?? Við höfum ekki einu sinni hin norðurlöndin sem bandamenn, lái þeim hver sem vill. Við höfum jú ekki gert neitt annað en sýna þeim "puttan" þegar þeir hafa gagnrýnt efnahagsstefnuna síðast liðin ár