miðvikudagur, 13. janúar 2010

Spegillinn í gær - örfáar leiðréttingar

Í Speglinum í gær þ. 12. jan. fjallaði Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir um nokkur áhugaverð atriði í sambandi við hið norræna módel og hvernig Ísland nálgist það og gerði það að venju ákaflega vel.

En án þess að ég ætli að fara út efnislega umræðu, voru nokkur atriði sem ég hnaut um í því sem hún sagði. Hún sagði að ASÍ og SA stjórnuðu lífeyrissjóðunum. Það er ekki allkostar rétt. ASÍ hefur t.d. enga aðkomu að almennu sjóðunum. Stjórnarmenn menn í almennu sjóðina eru kosnir af þeim hópum sem standa að viðkomandi lífeyrissjóð, ASÍ kemur þar hvergi nærri. SA aftur á móti tilnefnir helming stjórnarmanna í þessa sjóði. Það er ársfundur viðkomandi lífeyrissjóðs sem ákvarðar starfsreglur og fjárfestingarstefnu hvers sjóðs.

Það eru allnokkrir lífeyrissjóðir sem standa utan þessa „ASÍ/SA“ kerfis, þar eru stærstir lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna og sjóðirnir sem bankarnir reka.

Haustið 2008 áður en bankarnir hrundu þá sótti ríkistjórnin fast að lífeyrissjóðunum um að þeir kæmu heim með allar erlendar eignir sínar, um 550 MIA kr. Þessu var hafnað af hálfu stjórna almennu lífeyrissjóðanna nema að ríkistjórnin uppfyllti ákveðnar tryggingar og tæki til í efnahags- og peningastjórn, eins var algjörlega hafnað að koma heim með allar eignirnar. Ef farið hefði verið að kröfum þáverandi ríkisstjórnar hefðu tapast líklega 300 MIA af eignum lífeyrissjóðanna inn í hít hins gjaldþrota Seðlabanka.

Einnig má benda á í sambandi við ummæli Sigurbjargar, að það er ekki rétt að lífeyrisskerfin á hinum norðurlandanna koma alfarið í gegnum skattkerfið, það var þannig, en er ekki lengur. Á undaförnum árum hafa hin norðurlöndin, utan Noregs með sinn olíusjóð, gengið mjög rösklega fram í því að koma á svipuðu uppsöfnunarkerfi og við höfum verið að byggja upp hér síðan 1970.

Það kerfi kemur til viðbótar við lágmarksgreiðslur frá almenna tryggingarkerfinu, eins og er hér. Í því sambandi má minna á að íslenskir stjórnmálamenn hafa svikist um að standa við það sem upphaflega var lagt upp með. Það er að það sem úr lífeyrissjóðum komi, sé til viðbótar við hinn almenna lífeyri. Í stað þess hafa stjórnmálamenn látið lífeyrir standa kyrran í krónum talið á meðan tekjutrygging hefur verið aukinn.

Sem er ákaflega óréttlátt, og hefur ítrekað, en árangurslaust, verið harðlega mótmælt. Það er verið að hegna þeim sem sýna forsjá og fara að lögum og greiða í lífeyrissjóð. Sjóðsfélagar verða í raun að greiða 100% skatt af þeirri upphæð sem viðkomandi fær úr sínum lífeyrissparnaði, sem nemur tekjutryggingunni. Ef viðkomandi kæmi sínum sparnaði fyrir utan lífeyriskerfis, þyrfti hann ekki að greiða jafnháan skatt af sínum sparnaði.

Hvað varðar atvinnuleysistryggingasjóð er rétt að minna á að á hinum norðurlöndunum fá allir ákveðið lágmarksgjald, ef þeir uppfylla skilyrði kerfisins, eins og hér. Á engu stigi hefur verið rætt um að breyta því ef atvinnulífið kæmi aftur að atvinnuleysistryggingarerfinu hér, eins skilja mátti á Sigurbjörgu.

Það sem hér hefur verið gagnrýnt er að í hinu mikla atvinnuleysi sem upp er komið þá ræður núverandi stjórnkerfi og afgreiðslukerfi við svona mikinn fjölda, t.d. eru allmörg dæmi um að sá sem verður atvinnulaus fær enga þjónustu vikum jafnvel mánuðum saman vegna þess að núverandi kerfi annar því ekki. Úr þessu hafa aðilar vinnumarkaðs vilja bæta með aukinni aðkomu. Það voru viðbrögð stjórnsýslunnar sem komu þessum röngu viðbrögðum um ætlaða mismunum, af stað sem Sigurbjörg er að vísa til.

Til viðbótar við það sem Sigurbjörg talaði um kerfið á hinum norðurlöndunum greiða allmargir í A-kassa viðkomandi síns starfsgeira hluta af félagsgjaldi, oft tvöfalt, sem rennur í A-kassa viðkomandi starfsgreinar. Gegn því nýtur viðkomandi ákveðinnar tekjutryggingar í tiltekinn tíma.

Það hefur alloft verið rætt hér á landi, m.a. innan Rafiðnaðarsambandsins, að koma á sambærilegu kerfi, en alltaf verið horfið frá því einmitt vegna reynslunnar af framangreindu háttalagi íslenskra ríkisstjórna, hvað varðar tekjutrygginguna í lífeyriskerfinu. Menn hafa óttast að íslenskir stjórnmálamenn myndu þá lækka grunntryggingar í almenna atvinnuleysistryggingasjóðnum, sem næmi framlagi úr sameiginlegum sjóði viðkomandi starfsgreinar.

Sigurbjörg svaraði mér í góðum pistli á blogginu sínu hér á Eyjunni

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur

Tvær spurningar, finnst þér eðlilegt og ásættanlegt að fulltrúar atvinnurekenda sitji í stjórnum lýfeyrissjóða? Og finnst þér eðlilegt og ásættanlegt að þeir sem eiga sjóðina fái ekki að kjósa í stjórn þeirra?

Kv, Jón Ottesen

Guðmundur sagði...

Það er nú svo að allmargir atvinnurekendur eru sjóðsfélagar og þeir sem eru það eiga vitanlega sama rétt og aðrir sjóðsfélagar. allavega er það svo þar sem ég þekki til þ.e.a.s. innan rafiðnaðargeirans. Langflest iðnfyrirtæki eru 3 - 5 manna fyrirtæki.

Við höfum í rafiðnaðargeiranum barist lengi fyrir því að sjóðsfélagar koma að kosningu allra stjórnarmanna, þeir komi allir úr röðum sjóðsfélaga og þeir sem séu í kjöri uppfylli þær miklu kröfur sem við gerum til stjórnarmanna.

Þannig er það og hefur alltaf verið í rafiðnaðargeiranum eins og ég hef margoft komið að hér á þessari síðu og þeir sem koma frá atvinnurekendahliðinni eru sjóðsfélagar.

Á síðasta ársfundi ASÍ var samþykkt að leggja það til við samningaðaila að farinn yrði þessi leið og lagt til að unnið yrði að því.

Nafnlaus sagði...

"í umfjöllun minni er ekki verið að bera saman fjármögnun almannatryggingakerfa, heldur fjármögnun velferðarkerfa í heild þar sem sérstaklega er fjallað um fjármögnun heilbrigðisþjónustu-, félagsþjónustu og menntakerfa og hvað það myndi hafa í för með sér fyrir jöfnuð í landinu ef fjármögnun t.d. heilbrigðisþjónustu yrði vinnumarkaðsvædd eins og fjármögnun lífeyrissjóða og atvinnuleysistryggingasjóðs.
Sérstaklega er tekið fram í þessum pistli að fjármögnun íslenska lífeyrissjóðakerfisins er flaggskip íslenska velferðarkerfisins. Þegar við tölum um velferð, að ég tala nú ekki um velferð á erfiðum tímum sem þessum megum við ekki líta of þröngt á hlutina. Ef við skoðum ekki kerfin í heild geta slys átt sér stað þar sem kerfislægar áhættur hafa farið fram hjá mönnum, sbr. hrun íslenska fjármálakerfisins er m.a. rakið til þess að áhættustýring tók ekki mið af kerfislægum áhættum."

Sigurbjörg Sigursteinsdóttir