laugardagur, 30. janúar 2010

Erum kominn á leiðarenda

Hvers vegna er Ísland í mun verri stöðu en aðrar þjóðir? Hvers vegna fer þolinmæði annarra þjóða gagnvart okkur þverrandi? Hvers vegna hafa ráðandi stjórnmálamenn undanfarinna áratuga alltaf haft allt á hornum sér gagnvart erlendu samstarfi? Nema það snúist einvörðungu um atriði sem eru Íslandi til hagsbóta, án skuldbindinga gagnvart öðrum.

Smuguhugsunarháttur íslenskra stjórnmálamanna og einangrunarstefna markast af því að við séum allt öðruvísi og aðrar þjóðir eigi að taka tillit til þess. Nú blasir við að við komumst ekki lengra þessa braut. Þess er krafist að við stöndum við alþjóðlegar skuldbindingar og á það bent að við höfum með hátterni okkar valdið öðrum um 6 milljarða tapi. Við höfum eitt um efni fram og í óarðbæra hluti.

Það er við íslenskt ríkisvald og eftirlitsstofnanir að sakast hvernig fór. Þau tóku mikla hægri beygju og fóru í ferðalag til aukinnar frjálshyggju með íslenskt efnahagslíf. Íslenskir kjósendur samþykktu það með því að endurkjósa þau stjórnvöld nokkrum sinnum. Nú blasa afleiðingarnar við. Vinaþjóðir hafa á undanförnum árum ítrekað bent fyrrverandi íslenskum ráðherrum og Seðlabankastjórn hvert stefni. Viðbrögð ráðamanna okkar eru þekkt og á því byggjast viðhorf ráðamanna vinaþjóða gagnvart okkur. Það byggist ekki af einhverri illgirni eða vilja til ofbeldis gagnvart litlu ríki. Íslendingar komu sér í þessa stöðu og kjósa sig ekki frá þessum óförum, les maður í erlendum blöðum.

Spilling hefur vaxið gríðarlega í skjóli þeirrar stjórnarstefnu sem hér hefur verið viðhöfð. Markaðsvæðingin breytti starfi stjórnmálaflokka og einstakra þingmanna. Þetta kom t.d. afskaplega glögglega fram á svörum þingmanns Sjálfstæðismanna, útgerðarmanns að vestan, og svo ekki síður í svörum formanns flokksins þegar hann var inntur eftir áliti á hátterni þingmannsins. Formaður eins stærsta stjórnmálaflokks Íslands, sem hefur verið við völd á Íslandi meir og minna undanfarna áratugi, lýsir því yfir að honum finnist í lagi að menn brjóti landslög, svo framarlega að þeir dæmi sig sjálfir og ákvarði hver refsing eigi að vera. Formaðurinn lýsir því yfir við land og þjóð að dómsstigið sé í raun óþarft, allavega hvað varðar útvalda vildarvini hans.

Nú liggur fyrir að innan skamms verður birt skýrsla rannsóknarnefndar. Sé litið til ummæla skýrsluhöfunda má ætla að þar muni koma fram mjög alvarleg afglöp nokkurra núverandi og fyrrverandi stjórnmálamanna. Skýrslan verður áfellisdómur á vinnubrögð og athafnir ráðandi manna hér á landi. Staðfesting á því sem vinaþjóðir okkar hafa bent á. Það sé við íslendinga sjálfa að sakast hvernig komið sé fyrir land og þjóð.

Af orðum og athöfnum formanns Sjálfstæðisflokksins, þingmanna flokksins og fyrrverandi ráðherra virðist það vera ætlun þeirra að með öllum tiltækum ráðum að virða niðurstöður nefndarinnar að vettugi, dæma sig sjálfir og ákvarða sjálfir hvort nokkrar refsingar verði. Þetta staðfestist ekki síður í skrifum sem birtast á síðum Morgunblaðsins, m.a. hjá núverandi ritstjóra blaðsins, fyrrverandi Seðlabankastjóra sem keyrði bankann kyrfilega í þrot og efnahags- og peningastefnu Íslands um leið.

Allir sérfræðingar atvinnulífsins benda á að við séum nú í brotpunkti og það sé okkar að ákvarða hvort við ætlum að sökkva enn dýpra og búa okkur enn lengri efnahagslega ánauð, eða hvort ætlum við taka markvist á og hefja göngu upp á við. Við verðum að hefja siðbót og erum einfaldlega neydd til þess að skipta um stjórnendur og þvinga íslenska stjórnmálamenn til þess að taka upp breytt vinnubrögð og viðhorf. Íslenska ríkið stendur á brauðfótum. Við verðum að fara að hugsa saman, heildstætt. Við þurfum ekki sérfræðinga til þess að úthugsa fleiri bellibrögð og undanskot frá skyldum alþjóðasamfélagsins.

Nú þarf að rækta jöfnuð og hugsa skýrt. Víkja öllu moldvirðinu frá sem stjórnmálmenn þyrla upp til þess að villa okkur sýn. Standa vörð um samfélagsleg gildi og rækta þau. Hvert viljum við stefna, hver eru markmið okkar.

Hvað þarf til þess að leysa þessi verkefni. Skoða hversu vel er verið að gera það sem við þurfum/verðum að gera. Hvernig við komum í veg fyrir að þessar ófarir endurtaki sig.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þessa frábæru grein !!

Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur!
Þetta eru frábær skrif og óskandi að sem flestir læsu en læsi manna er ólíkt og líklegt að þessi grein safni saman öllum drullukösturunum, sem sýnir þá bara að enn einu sinni hefur þú hitt á viðkvæma taug.
Stefán Benediktsson

Nafnlaus sagði...

hvernig væri að þú færir fyrir einhverri slíkri uppstokkun, það vantar leiðtoga sem fylkir okkur saman í hreinsuninni!

Nafnlaus sagði...

Frábær grein Gudmundur.
Kvedja frá Køben.
IB

Nafnlaus sagði...

Já það er ljóst að báðir formenn stjónarandstöðunnar eru búnir að stimpla sig út. Þeir hamast við að reyna að búa til eitthvað nýtt upphaf sem þeir séu höfundar að og klifa á því að ekkert hafi verið gert.
Trúi því ekki að sjálfstæðismenn muni sætta sig við yfirlýsingu Bjarna Ben um Ásbjörn.

Annars þetta er frábær pistill og það munu verða ákveðin þáttaskil núna við birtingu skýrslunnar og þá munu nýir leiðtogar koma fram.
Úlfur

Nafnlaus sagði...

Góð grein Guðmundur. já vonandi náum við þeim þroska sem þjóð þarf til að taka þátt í samfélagi þjóðanna svo sómi sé af. Allt fyrir ekkert stefnan gengur ekki lengur.

Nafnlaus sagði...

Skýrmæltur að venju. Þessi er í betri kantinum.
Takk KÞG

Nafnlaus sagði...

Núverandi ástand á Íslandi er bein afleiðing þeirrar frjálshyggju sem Sjálfstæðisflokkurinn innleiddi í valdatíð Davíðs Oddssonar með hjálp hækju sinnar Framsóknar.

Erlendis er hlegið að Íslendingum vegna þess að Davíð Oddsson, ekki sérfræðingur á sviði hagstjórnar, gat gert sjálfan sig að seðlabankastjóra !!

Erlendis er hlegið að Íslendingum vegna þess að Davíð Oddsson var ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins á meðan hann og aðrir sæta opinberri rannsókn !!

Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

Nafnlaus sagði...

Við getum ekki byggt samfélagið upp á núverandi grunni. Það verður að bæta lýðræðishallann í samfélaginu, hrunið varð aðeins afleiðing af því hvernig við höfum misbeitt lýðræðinu.

*Ný stjórnarskrá
*Ný stjórnskipan (er ekki hér að tala um ríkisstjórn)
*Ný grunngildi í samfélaginu
*Ný atvinnustefna
*Ný menntastefna

o.s.frv. Þetta eru stóru málin. Allt annað hefur miklu miklu minna vægi.

Björn Kristinsson

Nafnlaus sagði...

Bjarni Ben er búinn að lýsa því yfir að lögbrot Ásbjörns Ó. sé ok úr því að hann bað afsökunar á þvi.
Þar með er búið að leggja línuna fyrir þá sem kunna að hafa gert slíkt hið sama skv skýrslunni sem allir bíða eftir:
"Ég er heiðarlegur, hafði bara ekki hugmynd um að þetta sem ég gerði væri ólöglegt."
Og málið dautt...

Sigrún Gunnarsdóttir sagði...

Kæri Guðmundur. Þakka þér enn einu sinni fyrir frábæran pistil um kjarna málsins. Við þurfum siðbót. Við þurfum samtal um þessa siðbót. Hvernig fer hún fram? Umræðan á þjóðfundinum þarf að halda áfram, - og þolir satt að segja enga bið.