fimmtudagur, 14. janúar 2010

Málskotsrétturinn

Töluverð umræða fer fram um málskotsrétt forsetans og eins hvernig hann beiti honum. Það er mín skoðun að málskotsréttinn eigi að varðbeita, en það verði að setja honum mun skýra skorður. Svanur Kristjánsson prófessor í stjórnmálafræði hefur oft fjallað um þetta mál, m.a. í Speglinum nýverið. Þar sagði hann m.a. Það er hafið yfir vafa að forseti Íslands hefur vald til að neita að undirrita lög frá Alþingi. Ekki þarf annað en að lesa í þingtíðindum þær ítarlegu umræður sem fóru fram á Alþingi um setningu stjórnarskrárinnar í aðdraganda stjórnarskrárinnar.

Upphaflega voru lögin þannig úr garði gerð af hendi stjórnarskrárnefndar þingsins ef forseti neitaði að skrifa undir þá tækju lögin ekki gildi, sem er lögfræðilega rétt. Ef það þarf undirskrift forseta og lögin taki þá gildi, er rökrétt að lögin taki ekki gildi ef forsetinn neitar að skrifa undir, en þau taka samt gildi eftir gallaðri stjórnarskrá okkar.

26. grein er angi af mjög frjórri pólitískri hugsun og segir að fullveldisrétturinn er hjá þjóðinni. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, hafði áður en kom til afgreiðslu fjölmiðlalaganna 2004 sett sér mælikvarða um það hvenær réttlætanlegt væri að neita að skrifa undir lög. Í fyrsta lagi yrði að vera um að ræða mál sem varðaði þjóðina miklu. Í öðru lagi þyrfti að vera til staðar gjá milli þingvilja og þjóðarvilja og í þriðja lagi væru ekki önnur úrræði fyrir hendi til lausnar.

Það var rökrétt að forsetinn neitaði að verða við áskorun um að hafna svokölluðum öryrkjalögum sem fjölluðu um skerðingu lífeyris öryrkja vegna þess að því máli var unnt að skjóta til dómstóla. Það gerðu öryrkjar og höfðu sigur. Þegar forsetinn neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin var það rökrétt miðað við þá mælikvarða sem hann hafði sett. Málið hafi verið mikilvægt og varðað grundvallarréttindi eins og tjáningar- og atvinnufrelsi.

Síðasta ákvörðun forsetans er að fara inn á mál er snertir fjárreiður ríkisins. Það er óþekkt að lög um ríkisábyrgð á láni, sem er partur af fjárstjórnarvaldi þingsins, fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Kjarni málsins er að engin dæmi eru um þetta í sjálfstæðu ríki þar sem er fulltrúastofnun, þingið, sem að fer með fjárstjórnarvaldið og ber ábyrgð á fjárreiðum ríkisins. Alþingi er búið að ræða þetta í þaula, þetta eru lög númer tvö sem Alþingi hefur samþykkt um málið og samþykkti einnig þau fyrri ásamt því að forsetinn staðfesti þau.

Það er ekki hægt að draga í efa að þetta er lögleg ákvörðun, en hún er ekki málefnaleg. Vegna þess að hún er ekki byggð á yfirveguðu mati. Það á ekki að beita þessu valdi til þess að brjóta niður stofnanir ríkisins. Við þurfum ekki á því að halda núna. Ísland hefur með þessari ákvörðun verið gert stjórnlaust. Forsetinn er búinn að svipta Alþingi og ríkisstjórnina fjárstjórnarvaldi.

Ef talað er um að skipa eigi aðra samninganefnd er rökrétt að Ólafur Ragnar fari fyrir þeirri samninganefnd, svo það sé ljóst frá upphafi að þeir samningar sem eru gerðir séu honum þóknanlegir. Um hvað eiga þessir samningamenn ríkisins að semja við Hollendinga og Breta? Þeir vita það nú að það skiptir engu máli hvað er samið um við Íslendinga og Alþingi hefur staðfest. Hvert á að vera næsta skref yfir synjunarvaldi forsetans? Á að neita að skrifa undir fjárlögin? Eiga þau að fara í almenna þjóðaratkvæðagreiðslu?

Eitt af meinsemdum íslensks lýðræðis er að valdsmenn umgangast ekki vald sitt af hófsemd og auðmýkt og líta ekki á lagaumhverfið þannig; Við ætlum að gera allt sem ekki er bannað. Ef það stendur ekki í stjórnarskránni að það sé bannað að beita málskotsréttinum um fjárreiður ríkisins að þá ætla ég að gera það. Og síðan er það annarra að sjá um þann vanda sem verður til eftir þær ákvarðanir sem að ég hef tekið.

Það er greinilegt eftir að það sem stjórnmálamenn hafa boðið almenning upp undafarið ár, að það er þörf á að byggja upp íslenska stjórnmálaflokka og endurreisa traust á þeim. Sama á við um Alþingi, stjórnvaldið og stjórnsýslunni. Upphafsreitur þessa er stjórnlagaþing og ný stjórnarskrá.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Málið er samt, að það er eins og sumt eða margt fólk - eigi rosalega erfitt með að skilja eftirfarandi:

"...að fara inn á mál er snertir fjárreiður ríkisins. Það er óþekkt að lög um ríkisábyrgð á láni, sem er partur af fjárstjórnarvaldi þingsins, fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Kjarni málsins er að engin dæmi eru um þetta í sjálfstæðu ríki..."

Það er einfaldlega eins og það fatti ekki puntktinn.

Og framhjá þessu, skautar forseti algjörlega í rökstuðningi þeim er hann færði fram (sem var afar veikur)

Þetta er sérlega umhugsunarvert með það í huga að forseti er nú stjórnmálafræðingur og almennur fræðimaður má segja.

Ómar Kristjánsson