þriðjudagur, 19. janúar 2010

Ekkert að gerast

Var á löngum fundi í Karphúsinu gær með forsvarsmönnum atvinnulífs, sveitarfélaga, stjórnvalda, ráðuneyta og þingflokka. Þar voru m.a. forsvarsmenn orkuveitufyrirtækjanna, álveranna.

Samkvæmt málflutning forsvarsmanna stóru fyrirtækjanna og orkuveitnanna er allt stopp og allir bíða eftir niðurstöðu Icesave. Lánhæfismat íslenska ríkisins ákvarðar þau vaxtakjör sem íslenskum fyrirtækjum standa til boða. Þegar það er í ruslinu þá eru í raun engin lán í boði nema þá á óásættanlegum kjörum, nema þá í gegnum AGS og sumir virðast ætla nú að af þakka þá leið.

Þetta leiðir til þess að lánshæfismat ríkisins er komið á það stig að lífeyrissjóðirnir geta ekki keypt af ríkinu skuldabréf. Það væri samkvæmt þessu öruggara að kaup ríkisbréf frá Zimbabwe. Þær litlu framkvæmdir sem voru í gangi eru að stöðvast og verið er að leggja á hilluna undirbúningsvinnu á stærri framkvæmdum.

Við blasir ekkert annað enn meira hrun og vaxandi atvinnuleysi. Þetta geta íslendingar þakkað óábyrgum málflutning stjórnarandstöðunnar með dyggri aðstoð fjórmenninganna í VG síðasta ár og svo útspili forsetans. Fullkomið getuleysi þessa fólks til þess að horfast í augu við vandan og takast á við hann. Hvað var flokksráð VG að gera á Akureyri um helgina?

Á sautjánda þúsund eru utan vinnu hér á landi. Þær framkvæmdir sem gætu farið í gang á þessu ári eru stopp sakir þess að ráðherrar geta ekki komið sér saman um hvernig eigi að flytja orku suður Reykjanes, sama á við um Icesave. Ekki er minnst á þessi mál í niðurstöðum flokksráðs. Kutarnir eru brýndir í andstöðunni við ESB, sem flestir úr atvinnulífinu telja einu leiðina til þess að byggja atvinnulífið upp aftur og koma í veg fyrir að Ísland verði láglaunasvæði.
En flokksráð VG talar ekkert um atvinnumálin.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ríkisstjórninn er fjandsamleg atvinnulífinu. Samfylkinginn er ekkert skárri Guðmundur?

Hvað heldur að gerist þegar fyrningarleiðinn verður farin í sjávarútveginum?

Sigurður Viktor Úlfarsson sagði...

Það er mín skoðun að þegar 25% kjósenda fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um eitthvað mál, hvort sem það heitir ICESAVE eða eitthvað annað, þá eigi forseti afarlítið val um það hvort hann segi já við því eða ekki. Það þurfa beinlínis líf og limir að vera í hættu til að hann neiti þjóðinni um þennan lýðræðislega rétt sinn enda verulegar líkur að þegar slíkur fjöldi fer fram á þetta þá endi það með grjótkasti einhvers staðar neiti hann þjóðinni um rétt sinn.

Hitt er síðan annað mál að þjóðin hefur auðvitað tvo möguleika en ekki bara einn, hún getur bæði staðfest lögin og hafnað þeim. Forsetinn hafnaði ekki lögunum, hann vísaði málinu til þjóðarinnar til ákvarðanatöku. Á því er mikill munur.

Á ég að skilja þig svo að þú mælir með því að núverandi frumvarp verði staðfest? Mér finnst það athyglisvert komandi frá þér. Ég veit að þú ert vel inni í þessum málum og ekki verður þú sakaður um að þora ekki að taka slaginn þegar og ef þér finnst það skynsamlegur kostur. Svo vel þekki ég þig.

Ef þér finnst þetta þá er líklega ástæða til að málsmetandi fólk eins og þið sem voruð í Karphúsinu í dag stigið fram og styðjið Steingrím í hans baráttu. Sjálfur hef ég ekki almennilega gert upp hug minn. Það er auðvitað alveg djöfullegt að samþykkja svona kaleik sem ekki er öruggt að manni beri að samþykkja samkvæmt lögum en það verður auðvitað að vera einhver skynsemi í þessu býst ég við.