miðvikudagur, 27. janúar 2010

Sprotafyritækin

Á undanförnum 2 árum hafa verið stofnuð með stuðningi Nýsköpunarstofnunar um 80 ný sprotafyrirtæki og þau eru í dag með um 400 manns í vinnu. Ég heyrði til forsvarsmanna tveggja fyrirtækjanna á fundi um atvinnumál í gær sem Dofri Hermannsson stóð fyrir, þar sem þeir lýstu því hvernig þetta hefði gengið fyrir sig.

Þegar þeir fóru til bankanna fyrir Hrun tóku Bankamenn á móti þeim sem einhverjum hálfvitum og spurðu; „Hvers vegna ertu að setja peningana í svona bulláhættu. Láttu okkur fá peningana þína og þú færð a.m.k. 15% ávöxtun og tekur enga áhættu. Peningasjóðirnir hjá okkur eru 100% öruggir.“

En þeir fóru frekar og fengu aðstöðu með sína viðskiptahugmynd í Nýsköpunarmiðstöð, settu sína fjármuni og vina sinna í hugmyndina og unnu hjá sjálfum sér á litlu launum til að byrja með. Báðir aðilar eru með starfandi fyrirtæki, annar þeirra er í dag með hratt vaxandi fyrirtæki og var með nálægt 200 millj. kr. útflutning á síðasta ári.

Nú blasir við okkur að á sama tíma og bankarnir reyndu allt sem hægt var til þess að soga til sín fjármuni og beitti saklaust fólk blekkingum um 100% öryggi. Bankamenn vissu betur, þeir voru vísvitandi að stefna landinu fram af bjargbrúninni og hrifsa til sín fjármuni saklaus fólks senm var að reyna að koma undir sig fótunum. Í dag taka fjármagnsfyrirtæki allt öðruvísi á móti fólki með viðskiptahugmynd. Það er sest niður með fólki og viðskiptahugmyndin skoðuð af jákvæðni og rætt við sprotahugmyndamenn eins og eðlilegt fólk.

Á árunum fyrir Hrun komust fá fyrirtæki af stað vegna þess hverju þau mættu hjá fjármálastofnunum. Íslensk fyrirtæki stríða við svo miklar sveiflur í sínum rekstri að þau eru undirseld þeirri stefnu sem stjórnvöld hafa fylgt að bíða eftir næstu innspýtingu sem hafa verið mannaflsfrekar framkvæmdir. Ef ekki verður staðið rétt að næstu "uppsveifla", má búast við hún gæti orðið styttri en oft áður og timburmennirnir enn harkalegri. Sumt af því sem stjórnmálamenn ræða um lítur út eins og "síðasti smókurinn" áður en við hættum alveg.

Er okkar björg fólgin í því að verða með svo skert mannorð að við fáum ekki lán erlendis frá? Í þeirri stöðu að verða að fara að huga að alvöru lausnum, sem eru að setja niður stöðugan gjaldmiðil, viðráðanlega vexti, þannig að við gætum skapað verðmæti eins og annað fólk með því að gera hlutina aðeins betur en næsti maður. Það er nefnilega undirstaða viðskiptahugmyndar og eðlilegrar uppbyggingar atvinnulífs ásamt hugmyndum sem skapa 3 – 20 mnns atvinnu þar sem unnið er að því að skapa verðmæti.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú talar um að bankarnir hafi vísvitandi blekkt fólk og stefnt fram af bjargbrúninni. Þeir komu aftan að almenningi. Þeim tókst að blekkja allt þjóðfélagið.

Þýðir þetta ekki líka að skuldarar voru fórnarlömb líka? Kom ekki bankinn í bakið á kúnnanum með því að stefna að hruninu?
Þú hefur verið svolítið miskunnarlaus gagnvart ofur-skuldurum." þeir tóku of mikil lán, allir vissu að krónan var allt of hátt skráð, etc. Er ekki borðleggjandi að ef bankarnir framkvæmdu þennan gjörning vísvitandi og með glæpsamlegum hætti að þá eigi skuldarar allir málsbætur? Í ofanálag helltu eftirlitsmenn okkar (stjórnvöld) olíu á eldinn og stóðu bankamannamegin í blekkingunni?
Hver er siðferðileg ábyrgð stórra alþjóðlegra banka sem helltu hér inn ódýru lánsfé? Inn í þetta örhagkerfi á heimsvísu, með ónýtan gjaldmiðil?

Nafnlaus sagði...

Það verður að setja skýrastefnu í málum sprotafyrirtækja.

t.d. með sjálfvirkum skattaafslætti fyrstu tvö árin, öflugum lánasjóði, sem lánar gegn veði í fyrirtækinu sjálfu osfr.

sem dæmi um sprotafyrirtæki sem hafa dafnað eru t.d. Össur og Marel

Guðmundur sagði...

Jú það er rétt að ég hef ekki haft (og hef ekki) mikla samúð gagnvart þeim sem tóku á fullu þátt í ofsaneyslunni með ofurskuldsetningu heimila sinna og stefndu í þrot sama hvort Hrunið hefði komið til eða ekki eða voru jafnvel komnir í þrot áður en Hrunið skall á.

Ég hef í allmörgum pistlum bent á að þessir einstaklingar hafi haft sig mikið í frammi og viðhaft gífuryrði og var beitt á fundum og í spjallþáttum, reyndar einnig í heimildarmyndum um Hrunið og afleiðingar þess. Þessir einstaklinga kröfðust þess að teknir væru fjármunir úr lífeyrisjóðum til þess að greiða upp skuldir þeirra, eða með öðrum orðum skuldir yrðu felldar niður og fjármunir til þess væru teknar úr lífeyrissjóðunum og með hækkuðum sköttum.

Ég hef bent á að þessir einstaklingar hafi í raun eyðilagt fyrir þeim sem veru með eðlilega lífshætti, en lenda svo í vandræðum vegna afleiðinga Hrunsins, verðbólgu, hárra vaxta, gengisfalls og minnkandi kaupmáttar. Margir þekkja raunstöðu þessara einstaklinga, sem varð til þess að margir hættu að hlusta og taka minna mark á heimildarmyndunum.

Hér er ég að tala um hóp sem ég hef kallað hinn þögla meirihluta. Fólk sem ég hef hitt á fjölmennum fundum víða um land og á vinnustöðum. Fólk sem krefst þess að við starfsmenn samtaka þeirra stöndum vörð um eignir þeirra í lífeyrissjóðunum og velferðarkerfið.

Ég hef margoft heyrt þetta fólk segja; „Ég er tilbúinn til þess að taka þátt í uppbyggingastarfinu og leggja ýmislegt á mig og mína fjölskyldu til þess. En ég er ekki tilbúinn til þess að greiða upp skuldir fólks sem hefur hagað sér eins vitleysingar, með rugleyðslu í dýrum bílum, stórum húsum, fjórhjólum, fótbolta- og skíðaferðum erlendis.“ Þessum viðhorfum hef ég reynt að koma á framfæri, en reyndar .

En ég hef einnig fjallað um að það séu margir sem fóru að ráðum „efnahagsráðgjafa“ bankanna, seldu eignir sínar létu ráðgjafana hafa þá fjármuni og tóku jafnvel að ráði ráðgjafanna enn meiri lán til þess að kaupa enn meiri hlutabréf í bönkunum eða leggja inn á eignastýringareikningana græða enn meir. „Láta peningana vinna fyrir sig“ sem var þekkt viðkvæði ráðgjafanna. Ráðgjafarnir fengu svo hratt vaxandi bónusa og premíur tækist þeim að plata saklaust fólk til þess að taka þátt.

Sé litið þeirra upplýsinga sem eru að koma upp á yfirborðið þá blasir við að stjórnendur bankanna og eigendur þeirra hafa hagað sér eins og fólk sem stóð að skipulögðum landráðum og ég vona svo sannarlega að þetta fólk verði dregið til ábyrgðar fyrir gjörðir sínar.

Nafnlaus sagði...

"Ekki veit ég hvað oft ég reyndi að tala um þetta marga og smáa - sem stundum var kallað "eitthvað annað" (en stóriðja og allt það) og umræðan endaði gjarnan í "já, þið viljið náttúrlega að allir fari bara að tína fjallagrös"! En það hafa bara furðu margir góða atviinnu af því að tína fjallagrös! Góður pistill, Guðmundur!"
Þorgrímur

Unknown sagði...

Mikið er ég sammála þér núna. Það er miklu nær að einhv. hluti sjóða lífeyrissjóðanna verði notaður til að endurreisa rekstrarhæf fyrirtæki sem eru að verða stop vegna skuldsetts eignarhalds. Hef ekki skilið hversvegna lífeyrissjóðirnir taka í mál að fjármagna opinberar byggingarframkvæmdir eins og sjúkrahús og hvað það var nú meira. Hefði haldið að l.sjóðirnir ættu að einbeita sér að því að festa fjármuni í t.d. gjaldeyrisskapandi fyrirtækjum. Þá halda peningarnir áfram að krauma en ef þeir eru settir í sjúkrahús eða slíkt er ég hræddur um að það endi sem dautt fjármagn við enda framkvæmda. Eins og að pissa í skóinn, skammgóður vermir.
Sævar.

Nafnlaus sagði...

Það er ekki rétt að bankarnir taki fagnandi á móti nýsköpunar fyrirtækjum. Ég fór í bankann með góða hugmynd og þarf 100þús til að starta. Mér var sagt að ég þyrfti að leggja fram veð í íbúðinni minni. En þar sem hún hefur lækkað í verði þá er það ekki hægt. Í dag er ég atvinnulaus og á leiðinni að flytja úr landi því hér er bara gert eitthvað fyrir fólk sem getur lagt fram tryggingar eða er nafn