föstudagur, 8. janúar 2010

Umsátrinu verður að ljúka

Get ekki að því gert, sé litið til þróunar Icesave-umræðu, ég óttast mikið þessa stundina að verið sé að vekja væntingar, sem ekki munu standast þegar á reynir. Þar á ég við að vitnað er endurtekið í ummæli ýmissa álitsgjafa, sem standa núna með íslendingum og viðhorf til okkar séu að breytast. Vill minna á að enginn ráðamaður hefur sem í raun hefur eitthvað með þetta mál að gera hefur gefið upp neina breytingu.

Þetta minnir óþægilega á þegar einhver norskur þingmaður sagðist vilja lána okkur 2 þús. MIA og var svo í fréttum daglega í tvær vikur ásamt beinni útsendingu frá kostulegri för formanns framsóknarmanna til Noregs. Barnaleg og óvönduð vinnubrögð viðkomandi fréttamanna. Við verðum að fara að standa í fæturna og láta af þessari óskhyggju.

Í þessu sambandi vill ég minna sérstaklega á viðtal við Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttir stjórnmálafræðing í Speglinum í gær. Þar sem hún rakti ákaflega vel hvernig vinnubrögð íslenskra stjórnmálamanna eru og hvernig þeir hika ekki við að beita öllum brögðum í bókinni, algjörlega án tillits til þjóðarhags.

Svo það sé á hreinu þá finnst mér eins og öllum íslendingum ósanngjarnt að við séum í þessari stöðu og ætla ekki að rekja enn einu sinni þann feril hvers vegna, enda skiptir það engu nú. Við erum hér í dag. Vitanlega væri æskilegt að losna undan þessari kvöð, en við sitjum uppi með lög sem staðfesta stöðu okkar gagnvart þessum skuldum. Fyrir liggur atkvæðagreiðsla um val í nýjum lögum sem staðfesta þetta eða eldri lögum sem staðfesta einnig þessa stöðu.

Það liggur fyrir að helsta forsenda afstöðu Breta, Hollendinga og svo vinaþjóða okkar á norðurlöndum er það regluverk sem er í gildi og það fordæmi sem gefið væri, ef vikið væri frá þessum reglum með því að Íslandi yrði veitt undanþága. Það liggur einnig fyrir að það eru margar þjóðir sem standa mun verr en við. Þar á meðal þjóðir sem eru í Evrópu og þjóðir sem skulda Hollendingum og Bretum stórfelldar upphæðir. Fordæmið yrði þeim óviðráðanlegt.

Það breytir ekki því að breyta verði regluverkinu og forsendum Kasínó-efnahagskerfisins

Nokkrir kvarta undan því hvernig umfjöllun um Ísland er í norrænum fjölmiðlum þá sérstaklega dönskum. Er þessi umræða eitthvað einkennileg eftir það sem á undan er gengið? Ég hef rakið það oft hér á þessari síðu, að þessi viðhorf voru komin fram á Norðurlöndunum fyrir Hrun. Minni á viðbrögð þáverandi ráðamanna okkar, sem fóru í sérferð og gerðu grín að aðvörunum norðurlandanna. Þá sérstaklega Dana.

Síðan þá hafa reglulega birst í norrænum blöðum frásagnir blaðamanna sem hafa farið í heimsóknir hingað. Þar hefur verið bent á að ekki hafi glæsijeppum íslendinga fækkað. Allir veitingastaðir fullir fram á morgun hverja einustu helgi. Hér sé verið að byggja stærsta óperuhús á Norðurlöndum.

Atvinnuleysi á Íslandi sé þrátt fyrir allt minna en á hinum norðurlandanna og velmegun meiri í mörgum tilfellum. Ísland sé enn meðal ríkari þjóða heimsins. En við höfum hagað okkur ótrúlega heimskulega með óábyrgri hægri sveiflu ásamt því að gefa hinum norðurlöndunum og þeirra hagstjórn langt nef.

En þegar þessir blaðamenn ræddu við íslendinga, þá vorum við volandi yfir því að Ísland hafi það svo slæmt og önnur lönd eins og norðurlöndin vilji ekki lána íslendingum meiri peninga og Bretar afskrifa skuldir. Við séum eins og grenjandi alkahólisti og heimtum meira brennivín. Álit íslendinga hefur hrunið og engin skilur hvernig í veröldinni Ísland ætli að kjósa sig undan ábyrgð á eigin gjörðum. Álitshrunið hófst ekki bara núna, það hófst árið 2007 þegar dómar Danske bank komu fram og viðbrögð þáverandi ráðamanna okkar við þeim.

Þessu umsátursástandi sem stjórnmálamenn halda þjóðinni í verður að linna. Þeir eru upphaf og endir þeirra vandræða sem við erum í og geta ekki vikið sér undan þeirri ábyrgð. Það var ríkið sem brást okkur. Það er ríkið sem á að setja leikreglur og sjá til þess að þeim sé fylgt.

Stjórnmálamenn verða að taka upp ábyrgari vinnubrögð og hafa dug í sér að klára mál, jafnvel þó óvinsæl séu. Því verður að fylgja breytt stjórnarskrá og stjórnlagaþing. Það mál allt verður að taka úr höndum þingmanna þeir eru endanlega búnir að klúðra allri sinni aðkomu að því máli.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

flottur pistill. Við erum ofdekraðasta fólk í heiminum af kjarklausum valdagráðugum stjórnmálamönnum sem hafa það eitt að markmiði að komast aftur að kjötkötlunum. Kristján Eldjárn

Nafnlaus sagði...

Held að það sé rétt sem Þorvaldur sgaði í Fréttablaðinu um þessa styrki til stjórnmála flokkana gerir flest stjórnmálamenn vanhæfa til að eiga við þessi mál. Það er alltaf sótt fólk úr sama grugguga vatninu, sjáum bara kúludrottninguna sem er svo látin rannska hrunið. Og síðan gerð að forstýru Bankasýslu ríkisins.
Simmi

Nafnlaus sagði...

takk fyrir fína greiningu á ástandinu ... mér líst ekkert á stöðuna. Minnir á biðröð frakka við aftökupallin í byltingunni, að hamast við að díla sig aftar í röðina
Pálmi

Guðni Gunnarsson sagði...

Sammála Guðmundur, ég setti inn athugasemd hjá Agli áðan varðandi skrif blaðamanns FT um ábyrgð Breta og að sanngjarnt væri að þeir fengju eignir Landsbankans uppí Icesave skuldina....

Þetta er það sem manni datt fyrst í hug þegar Icesave málið kom upp, mjög sanngjörn lausn og gæti meira að segja orðið mjög rausnarleg af okkar hálfu. Málið var hinsvegar strax tekið í aðra átt af ríkisstjórn Geirs Haarde og skrifað var undir viljayfirlýsingar þar sem vextir áttu að vera að mig minnir 6.7% en ekki 5,5%. Samningaferli var hafið og ekki aftur snúið. Athugið gott fólk að Englendingar og Hollendingar eru gamlar nýlenduþjóðir og varðhundar rándýrskapítalismans í Evrópu sem hafa ekki lagt það í vana sinn að deila auðæfum sínum...og þótt þeir beri ábyrgð á þessu eins og Íslendingar dettur einhverjum í hug að þeir muni láta sér líka að komið sé við hjá þeim og mörghundruð milljörðum stungið í pokann? og annað...viljum við vera þekkt fyrir það? Það er barnalegt að halda annað en að orðspor allrar þjóðarinnar sé hér að veði.

Það er auðvitað óþolandi að við fólkið í landinu stöndum í skuldafeni uppað öxlum vegna örfárra stjórnmálamanna og vina þeirra. Það er eiginlega alveg súrt.

En stöldrum aðeins við, er það ekki rétt að á árunum 1999-2007 hafi farið fram þrennar kosningar í landinu þar sem að fólk hefði getað gripið í taumana þegar það var orðið morgunljóst hvaða stefnu stjórnvöld voru að taka? Meirihluti landsmanna kaus þetta yfir sig, það kaus að halda áfram á braut græðgi og þjóðernisdrambs. Þetta er skuld sem að meirihluti landsmanna "skrifaði" undir og nú er komið að skuldadögum. Það er ekki um það að ræða að borga ekki. Hvað ákvörðun forsetans varðar finnst mér hann hafa lagt okkur þjóðina undir á pólitísku pókerborði og ég geri mér ekki grein fyrir hvað liggur að baki því. Það getur svo sem vel verið að þetta eigi eftir að ganga upp hjá honum (ég efa það þó) líklegra finnst mér að þetta verði bara til þess að tefja allt málið og nauðsynlegar efnahagslegar aðgerðir hér heima fyrir og kosta okkur á endanum enn meiri peninga.

Ég hef eins og flestir landsmenn verið á báðum áttum í þessu máli og það sem meira er þá skilur maður stundum ekki hvað gengur á. Málið er orðið svo flókið og svo mikil þokukennd langloka. En væri ekki réttast fyrir þjóðina núna að horfa í spegill með æðruleysi í huga...jafnvel skella sér samfélagslega í 12 sporin. Öll mál hafa orsakir og afleiðingar og við munum ekki komast hænuskref áfram nema að við horfumst í augu við hvortveggja.

Nafnlaus sagði...

minni á orð þín í öðrum fínum pistli "Það eina sem getur bjargað íslendingum er að skipta um kjósendur"
Úlfur

Nafnlaus sagði...

Er til eitthvað sem heitir þjóðernis-masókismi ?

aRNAR hELGI