sunnudagur, 10. janúar 2010

Verður Ísland láglaunasvæði?

Þótt margt hafi breyst til batnaðar í starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja þurfum við enn að burðast með íslensku krónuna, hina örsmáu og óstöðugu mynt. Íslenskt atvinnulíf starfar í alþjóðlegu umhverfi og við verðum að víkja frá einangrunarstefnunni. Miklar gengissveiflur kalla á hærri vexti en eru í nágrannalöndum okkar. Ef íslensk fyrirtæki eigi að vera samkeppnishæf verði þau að hafa tryggan og greiðan aðgang að erlendu lánsfjármagni og búið við stöðugleika svo hægt sé að gera langtímaáætlanir.

Nú blasir við okkur sú ískalda staðreynd hversu veik stjórnsýslan hefur verið. Ríkistjórnir undanfarinna áratuga brugðust rangt við og fylgdu hugmyndum frjálshyggjunnar um að markaðurinn myndi leiðrétta sig. Upp úr aldamótunum var markvisst hafinn vinna við að afnema regluverkið undir yfirskini frelsis og haldið áfram fram á síðasta dag fyrir hrun. Eftir stóð Seðlabankinn gjaldþrota og stórkostleg eignatilfærsla hafði átt sér stað.

Vandamálið var ekki síst að það var nánast ómögulegt að fá krónur að láni til þess að fara út í framkvæmdir. Vaxtastig á krónulánum var alltof hátt. Lánin voru mjög óhagstæð og hafa í raun verið lengi. Lán í erlendri mynt eru mun ódýrari heldur en krónulánin og því tóku fyrirtækin g einstaklingar erlendar myntir að láni frekar en krónur. Vaxtastigið á þeim lánum var miklu hagstæðara. Eitt af helstu vandamálum Íslendinga er krónan. Hún er alltof dýr og hreinlega ónothæf þegar kemur að fjármögnun stórra framkvæmda.

Launamenn stoppa við þegar fjármálaráðherra lýsir kostum krónunnar með því að hún tryggi óvenju lágan launakostnað sem hlutfall af tekjum hjá útflutningsfyrirtækjum. Hann er með þessu að segja að lág laun fyrir fólkið í landinu séu eftirsóknarverð. Þessi stefna mun draga mjög úr samkeppnishæfni landsins og stórskaða lífskjör í landinu.

Það er brýnt að annar gjaldmiðill verði tekinn upp í landinu, sé horft til framtíðar, eins og verkalýðshreyfingin og forsvarsmenn allra helstu fyrirtækja hafa bent á. Ísland á miklar auðlindir og mun ná vopnum sínum. Það eru allar forsendur fyrir því að það sé hægt að á skömmum tíma. Ef ekki verður gripið til réttra aðgerða verður Ísland láglaunasvæði við hlið hinna norðurlandanna sem eru með lægri vexti, hærri laun, mun lægra verðlag og mun betra öryggisnet. Það kallar á fólksflótta.

Fjórflokkalýðræðið er ekki að endurspegla þann vilja sem maður skynjar á kaffistofum, samtakamátt um að vinna okkur frá því samfélagi sem fjórflokkarnir hafa myndað hér. Það verður ekki undan því vikist sama úr hvaða átt litið er á þróun mála, að velta því fyrir sér hvort stjórnmálamenn séu á allt annarri vegferð en atvinnulífið, svo uppteknir í sínum átakastjórnmálum og að sverja af sér beina aðild að því að skapa það umhverfi sem olli Hruninu.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ísland er láglaunasvæði, kannski ekki fyrir rafiðnaðarmenn en fyrir verslunarmenn, verkamenn, sjúkraliða etc.

Nafnlaus sagði...

Stefán Benediktsson segir: "fjármálaráðherra lýsir kostum krónunnar með því að hún tryggi óvenju lágan launakostnað sem hlutfall af tekjum hjá útflutningsfyrirtækjum". Þessi hugsunarháttur hefur ráðið íslenskum stjórnmálum frá lýðveldisstofnun og komið fram í 25% verðbólgu á ári síðustu 60 ár. 25% verðbólga er færsla 1/4 tekna árlega frá launþegum og sparifjáreigendum til atvinnurekenda. Launþegar hafa eytt 3 mánuðum á ári í 60 ár í að niðurgreiða íslenskt atvinnulíf.
Þriðjung starfsæfi okkar, Guðmundur, höfum við eytt í að greiða herkostnað stjórnmálamanna sem finnst það eðlilegt að tryggja lágan launakostnað með verðbólgu.

Unknown sagði...

Island er og hefur verið láglaunasvæði eftir að kaninn fór. Íslendingar eru Íslenskum almenningi verstir. Það sýndi sig þegar Ísland var nýlenda Dana því það voru ekki Danir sem þræluðu almenningi út heldur íslenskir sýslumenn, prestar,biskupar og svo kallað hefðafólk. Það sést best hvernig Samfylking og hluti af VG eru tilbúnir að selja landið fyrir kannski feitt embætti í "draumalandinu" ESB.

Nafnlaus sagði...

Góður eins og vanalega. Eitt þó sérstaklega. Það er þessi áhugi Vinstri-Grænna til að viðhalda krónuni - getur bara verið ásetningurinn að deila út auðnum - taka frá hinum vinnandi stéttum og færa til auðsafnara.
HG

Nafnlaus sagði...

Já það verður það. Enda virðist það vera að ósk okkar eða vorum við ekki að óska eftir því að laun ráðamanna og annara sem væru í stjórnunarstörfum hjá ríkinu yrðu lækkuð. Og svo gekk nú sá góði maður Þór Sigfússon fremst í flokki atvinnurekanda að lækka launinn. Þessari þróunn verður að snúa við. Hvaða vit er í því að forsætisráðherra hafi innan við miljón á mánuði ? Meðan svona launastefna er í gangi þá lækka bara laun fólksins í landinu. Kv Simmi