þriðjudagur, 12. janúar 2010

Hverjir eru landráðamenn?

Það verður að segjast eins og það er, það er ákaflega einkennilegt og reyndar óásættanlegt hvernig tiltekin öfl beita öllum brögðum í bókinni í tilraunum í að stjórna umræðunni hér á landi. Þau hafa komist upp með það í gegnum undanfarna áratugi að stjórna eina prentmiðlinum. Reyndu síðan að setja lög til þess að stöðva útkomu annarra prentmiðla nema þeir uppfylltu harla einkennilegar reglur sem samdar voru á skrifborði eins manns.

Þessi öfl komu sér fyrir í öllum valdastólum og lögðu undir sig embættismannakerfið. Þessir einstaklingar settu fréttamenn í þá stöðu að ef þeir spyrðu ekki réttra spurninga fengju þeir ekki viðtöl og þar með var starfsframi þeirra búinn. Ef menn ætluðu sér einhvern pólitískan frama urðu þeir að fylgja í einu og öllu því sem handhafar valdaklíkunnar vildu. Svo var komið hjá okkur að ráðherraræðið var orðið algjört og jafnvel stjórnarþingmenn kvörtuðu undan því að þeir væru verkefnalausir á Alþingi, þingið væri orðin viljalaus afgreiðslustofnun. Ráðherrar mættu í þingið með tilbúin frumvörp sem keyrð voru í gegn umræðulaust.

Eftir Hrun sætti almenningur sig ekki við að þessir menn væru lengur við völd og þess var krafist að ríkisstjórn þeirra færi frá, auk þess að þeir vikju úr Seðlabanka og Fjármálaeftirliti. Þessu var lýst af valdaklíkunni sem pólitískum ofsóknum!! Bíddu aðeins við : Efnahags- og bankakerfi landsins var hrunið til grunna undir stjórn þessara afla auk þess var Seðlabankinn gjaldþrota. Viðbrögð þeirra staðfestir í raun hversu mikil siðblinda þessara einstaklinga var orðinn.

Allt frá upphafi Hrunsins hafa þessir menn hamast við að telja þjóðinni í trú um að vandinn sé ekki heimatilbúinn, heldur séu þetta vandamál sem óvinveittir fjárglæframenn ásamt erlendum aðilum og þjóðum hafi leitt yfir Ísland. Ég verð stundum svo illilega var við þessu viðbrögð.

T.d. birti ég í gær hér á síðunni tvo leiðara úr stærstu blöðum Svíþjóðar. Þar sem leiðarahöfundar fara yfir nálgun Íslendinga og undrast hana. Íslendingar neiti að greiða skuldir sínar, en setji um leið fram beiðnir/kröfur um meiri lán. Leiðarahöfundar efast um að sænsk þjóð sé tilbúinn til þess að taka þátt í þeim óábyrga leik sem íslendingar stilli upp. Eins og kom fram í aths. dálkum eru viðbrögð margra að telja að leiðarahöfundar séu óvinveittir Íslendum og gefið skyn að ég sé landráðamaður.

Eru þessi leiðarahöfundar að gera nokkuð annað en að fara yfir ósköp eðlilegt sjónarmið? Maður getur heldur ekki annað en undrast þau viðbrögð að ef einhver bendir á, að allar leikreglur segi að við verðum að standa við skuldbindingar okkar, þá er maður umsvifalaust dæmdur sem landráðmaður sem ekki standi í fæturna, gegn erlendu ofurvaldi.

Sé staða Íslands borinn saman við stöðu nágrannalanda okkar þá blasir við hverjir það voru sem skópu þetta ástand. Þeir hinir sömu sem ekki vilja ræða það. Það eru þessir einstaklingar sem standa mun nær því að vera landráðamenn og óvinir íslenskrar þjóðar, ásamt því að það blasir við okkur öllum að það eru þessir sem ekki standa í fæturna undir eigin gjörðum.


Grímur Atlason er með greinargott yfirlit um þá þróun sem átt hefur sér stað hér á landi og segir m.a. :
Menn gátu stofnað banka hér og hvar um allt. Sett var upp regluverk sem átti m.a. að verja innistæðueigendur en þetta regluverk virkaði ekki. Er það á ábyrgð Íslendinga? Vandamálið var ekki búið til af Íslendingum það var búið til af Evrópusambandinu. Við gerðum ekkert annað en að taka það upp eins og átti að taka það upp. Við höfum framfylgt því eins og átti að framfylgja því alla tíð síðan.

Sakleysingjarnir á Íslandi bera enga ábyrgð. Samningamennirnir lyppast bara niður – enda ber fas þeirra allt ugglaust merki um djúpa vanþekkingu á málefninu. Það væri dásamlegt ef satt reyndist og saklausu, harðduglegu bankamennirnir á Íslandi hefðu bara verið grátt leiknir af innistæðutryggingakerfi Evrópusambandsins. Vissulega var regluverkið gallað en hvers vegna eru þá svona fáar þjóðir í sömu stöðu og Ísland ef það er bara regluverkinu að kenna? Þetta er það sem raunverulega gerðist á Íslandi:

1. Íslensk stjórnvöld gáfu vinum sínum tvo ríkisbanka. Þau settu sér leikreglur um einkavæðingu sem þau breyttu í miðjum klíðum svo fjárglæframenn frá Pétursborg gætu eignast annan bankann og auralaus fyrrverandi seðlabankastjóri og viðskiptaráðherra og vinir hans gætu fengið hinn.

2. Seðlabanki Íslands, hvar sat uppgjafa forsætisráðherra með lögfræðipróf, dró úr bindisskyldunni. Það var einmitt hann sem gaf vinum sínum annan bankann og lækkaði síðan bindisskylduna sem hjálpaði til við stofnun Icesave-reikninganna.

3. Viðvörunarbjöllurnar hringdu um allt. Fjármálaeftirlitið á Íslandi svaf værum blundi og helsti ráðgjafi fyrrverandi forsætisráðherrans talaði um íslenska efnahagsundrið.

4. Á sama tíma og ódýrt lánsfé streymdi um fjármagnsmarkaði heimsins ákváðu íslensk stjórnvöld að bæta í. Ráðist var í mestu framkvæmdir Íslandssögunnar og íbúðalánakerfið opnað upp á gátt. Afleiðingarnar voru sambærilegar því þegar innihald olíubíls er sprautað á eld.

5. Árið 2006 þegar lausafjárkreppan dundi yfir var svar Íslendinga að stofna útibú erlendis. Bindisskyldan hjálpaði til og reynsluleysi þessara efnahagslegu gervitungla, sem fengu bankana gefins, fór að hafa veruleg áhrif.

6. Á árunum 2002 til 2008 gagnrýndu margir aðgerðir stjórnvalda og brjálæði útrásarvina hennar. Erlendum sérfræðingum var svarað á þann veg að þeir væru bara öfundsjúkir. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði m.a. annars þessa öfundarmenn Íslands þurfa á endurmenntun að halda.

7. Í aðdraganda hrunsins fóru ráðamenn Íslands út um allan heim og reyndu að róa órólega fjárfesta og tjáðu þeim að íslensk stjórnvöld ábyrgðust innistæður í íslenskum bönkum.

8. Þegar allt síðan hrundi fengu íslenskir sparifjáreigendur allt sitt sem var í íslenskum bönkum staðsettum á íslenskri grundu. Fólk sem átti peninga í tilteknum hlutabréfasjóðum fékk allt að 80% innistæðna sinna (allir). Skipti þá engu hvort hlutabréfasjóðurinn hafði verið notaður í allt aðra hluti en leyfilegt var.

Ábyrgð Íslendinga er ekki aðeins lagalegs eðlis hún er siðferðilegs eðlis. Við verðum að horfast í augu við gerðir þeirra sem við treystum til að stjórna þessu landi. Orðstír okkar sem þjóðar er að veði.

20 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sjaldan veldur einn þá tveir deila. Margir hafa bent á að Ísland hafi ýmislegt sér til málsbóta, bæði siðferðilega og lagalega. Þeim sjónarmiðum ber okkur að halda á loft, burtséð frá harmsögu íslenskra stjórnmála undanfarna tvo áratugi. Skortur á þeirri málafylgju mun skaða okkur langt fram eftir öldinni.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir frábæra og hressilega upprifjun. Hún ætti að fara í skrilegu formi inn á hvert heimili í landinu.

Unknown sagði...

Klúður seinustu ára gefur ekki afsökun til handa Samfylkingunni og verkalýðsklíkunni að selja Ísland gráðugum kröfuhöfum á tombólu svo þið getið farið að leika ykkur í Brussel.

Teitur Atlason sagði...

Það er óumdeilt hvað gerðist í aðdraganda Hrunsins. Upptalning Gríms er ágæt en ekki akkúel

Þú fellur í þá gildru að segja að Íslendngar neiti að borga. Það er bara skrum frá ysta hægrinu og ysta vinstrinu.

Málið snýst um vexti. það er líka alltof mörg vafaatriði í þessu máli svo það sé hægt borga umyrðalaust.

Munum að eignir LB duga fyrir 90%& af skuldinni. Þetta snýst um vexti í 15 ár.

Guðmundur sagði...

Sæll Teitur
Ég segi ekki að íslendingar neiti að borga. Ég er þarna að vitna í skrif hinna sænsku leiðarahöfunda.

Leiður vani að vera að gera fólki upp skoðanir.

Það eru aftur á móti nokkrir sem hafa haldið því fram að íslendingar eigi ekki að borga og komið fram að nokkrir skráðu sig í InDefence á þeim forsendum

Ég hef allt frá upphafi haldið því fram að við verðum að greiða þetta með einum eða öðrum hætti, þó svo það sé ósanngjarnt. Það hefur komið fram í allmörgum pistlum hér og er vel þekkt meðal lesenda síðunnar.

Teitur Atlason sagði...

þá erum við bara sammála.

Það verður að leiðrétta þann misskilning nágrannaþjóða okkar að við ætlum ekki að borga.

Nafnlaus sagði...

Ég skal svara fyrirsögninni. Þú ert landráðamaður. Nema að þú sért svona einfaldur að þú hafir ekki skilið fréttirnar sem þú lest. Þá getur þú ekki að gert. Eða kannski svo latur að þú hafir ekki nennt að lesa tilskipunina sem allt hringsnýst um. Það hef ég gert og þar kemur skýrt fram að við erum ekki ábyrg sem þjóð. Ef þú vilt bera fyrir þig neyðarlögunum þá er búið að skera úr um það og þau eru óháð Icesafe samningunum enda vel útskýrt af hverju í mannréttindalögum sameinuðu þjóðanna. Þú gætir kannski kíkt á þau í leiðinni. Þú hefur kannski ekki orðið var við hvaða flokkshestar stýra flestum helstu fréttamiðlum landsins síðustu árin en það eru þínir lagsbræður. Síðan er góð regla að lesa sér til áður en maður tjáir sig um menn og málefni.

Nafnlaus sagði...

Já Guðmundur hún er harla leiðinleg sú mynd sem við okkur blasir og þú greinir ákaflega vel hér eins svo oft áður. Þú ert líklega einn þeim fáu sem hefur fylgt sömu línu allt frá því fyrir hrun, það kemur svo vel fram í pistlum þínum og fáir sem hafa kynnt sér málin betur og hafa verið greinarbetri í umfjöllum um þetta mál
Siggi

Nafnlaus sagði...

Heyrðu Teitur, það sem þú ert að segja er nákvæmlega það sem Guðmundur hefir oft skrifað um m.a. í þessum viku gamla pistli
http://gudmundur.eyjan.is/2010/01/sundrungaroflin-raa-for.html

Nafnlaus sagði...

Góð hágegislesning
Takk fyrir mig

SIJ sagði...

Það er sjálfgefið að Bretar og Hollendingar vilji að Íslendingar endurgreiði þeim vegna Icesave útláta, en það er hvorki sjálfgefið að Íslendingar geri það, eða beri lagaleg skylda til þess.
Leiðarar og greinar í Indepentent, Daily Mail, Financial Times, The Guardian og fleiri stórblöðum taka upp hanskann fyrir íslenska þjóð á sama tíma og íslenska ríkisstjórnin lætur eins og einhver Icesave Intrum.

Nafnlaus sagði...

Ég rekst á nokkuð kyndugt í allri Icesave umræðunni. Menn eru að einblína á "12 milljónir á hvert mannsbarn" en ef eignir Landsbankans duga fyrir 80% af upphæðinni er þetta 2.4 milljónir. Stór upphæð, en mun viðráðanlegri fyrir þjóðarbúið

gosi sagði...

Hlýtur að vera vont fyrir suma að lesa svona upprifjun á raunveruleikanum. Sérstaklega þá sem leggja nótt við nýtan dag við að þyrla upp nógu miklu moldviðri með lýðskrumið eitt að vopni til að fyrra sig ábyrgð á ástandinu.

gosi sagði...

Hlýtur að vera vont fyrir suma að lesa svona upprifjun á raunveruleikanum. Sérstaklega þá sem leggja nótt við nýtan dag við að þyrla upp nógu miklu moldviðri með lýðskrumið eitt að vopni til að fyrra sig ábyrgð á ástandinu.

Guðmundur sagði...

Það eru fjölmargir erlendir aðilar sem finnst staða okkar vera þannig að ástæða sé að koma til móts við óskir okkar.

Allir íslendingar, ég held ég sé ekki að alhæfa, vilja losna undan því að þurfa standa skil á þessu.

En það er aftur á móti staðreynd sem mjög margir, líka sumir hinna erlendu vinveittu ritara, sem hafa burði til þess að horfast í augu við afleiðingar þess hvernig íslensk stjórnvöld héldu hér á spilunum á árunum frá 1992 fram að hruni Seðlabankans og hvaða reglum við verðum að fara eftir

Það er alllangt á milli þess sem maður vildi gjarnan gera og þess sem maður verður að gera og maður axlar þá ábyrgð

Nafnlaus sagði...

Góð færsla Guðmundur og kærar þakkir. Það er svo mikið framboð af innihaldslitlum frösum núna að það hálfa væri nóg

Nafnlaus sagði...

Guðmundur situr í fílabeinsturni sínum og segir, ef fólkið á ekki brauð þá getur það bara étið kökur.
Sem atvinnulaus verkamaður er ég orðinn ansi reiður út í möppudýrin sem sitja í stjórnaráðum og bönkum og lífeyrisjóðum og úthluta sjálfum sér gæðum sem almenningur borgar fyrir og segja síðan þeim sem ekkert eiga að éta kökur.
Ég er reiður, mjög reiður.
Það er kominn tími til að einhverjum blæði öðrum en almenningi og ég er byrjaður að brýna hnífana.

Nafnlaus sagði...

Þakka þér Guðmundur fyrir frábærar færslur, þessi er mjög greinargóð.

Átta mig alls ekki á sumum sem eru að skrifa hér aths. Það sem er verið að benda á eru athafnir þeirra sem hafa verið í ríkisstjórn og á Alþingi og hvernig þeir sem sátu á þar hafi unnið þrátt fyrir allar aðvaranir.

Minnistæðar eru frá undanförnum árum allmargar aðvaranir frá stéttarfélögum og samtökum atvinnurekenda og svo ekki síður erlendra aðila.

Það er geinileg tað þessi pistill fer mikið fyrir brjóstið á þeim sem studdu fyrrverandi ríkisstjórnir og það er auðskiljanlegt.

Með þvílíkum endemum er ferill þeirra sem þeir kusu. Þangað ætti atvinnulausir og þeir sem hafa lent illa í því að beina spjótum sínum
Takk fyrir Nonni

Nafnlaus sagði...

Það er vel þekkt í vísindum að fólk hefur tilhnegingu til að sjá úr rannsóknum eitthvað sem passar vel í þeirra heimsmynd. Það er reitthvað sem allir vísindamenn eru meðvitaðir um og reyna eftir fremsta megni að forðast að falla í þá grifju.

Ég tala nú ekki um þegar fólk þarf að horfast í augu við það að það hafi breytt rangt. Eða trúað einhverju röngu. Það er afskaplega erfitt að játa það fyrir sjálfum sér, en það er víst bara mannlegt.

Það er ljúf hugsunin að Íslendingar hafi ekki gert neitt rangt. Að engin skaði sé skéður vegna okkar sjálfra. Það er eiginlega of gott til að vera satt!

kv. Haukur

Nafnlaus sagði...

Tek undir það að þennan pistil á að prenta út og hengja upp í öllum skólastofum landsins og setja í sögubækur.
Takk fyrir mig og mína Sveinn