föstudagur, 12. mars 2010

Þetta reddast ekki

Ef við ætlum að reisa Ísland upp úr rústunum þá verður það ekki gert með skammtíma aðgerðum, hinum venjubundnu íslensku „þetta reddast leiðum“. Fólk er búið að fá sig margfullsatt af hinum endurteknu sveiflum íslensku krónunnar og agalausri efnahagsstjórn stjórnmálamanna, sem oft einkennast frekar af kjördæma poti en heildaryfirsýn. Það verður að fjarlægja þann möguleika að örfáir einstaklingar geti með aðstoð vogunarsjóða spilað með hag almennings eins og gert hefur verið með "blóðsúthellingalausum" lausnum sem ollu Hruninu í boði pólitískra stjórnenda Seðlabankans.

Það voru mikil mistök hjá íslenskum stjórnvöldum að halda ekki áfram á þeirri leið sem mörkuð var með inngöngu í EES með frekari tengslum við evrópska efnahagsstjórn. Um aldamótin síðustu lá fyrir að uppbygging íslensks atvinnulífs var ekki afmörkuð við Ísland og taka yrði á gjaldmiðilsmálum.

Það blasir við í dag að það sem gerðist eftir 2003 var að mestu innistæðulaus bóla sem ríkjandi stjórnvöld vildu ekki horfast í augu við. Þeir sem voguðu sér að benda á þetta voru hæddir og lýst sem púkó og neikvæðum. Fáir sem vildu vera í þeirri stöðu, allra síst ríkjandi stjórnmálamenn. Þeir vildu að allir væru sannfærðir um að þeir hefðu skapað hið Íslenska efnahagsundur.

Útflutningur er forsenda búsetu í landinu og áhrifamikill um gengi krónunnar. Náttúrulegar sveiflur í fiskveiðum ásamt sveiflum í verðlagi hafa verið leiðréttar með handafli stjórnvalda í gengi krónunnar. Aukning orkubúskapar og aukinn iðnframleiðsla hefur unnið að nokkru á þessum sveiflum hefur skapað aukna möguleika á stöðugleika, þ.e.a.s. ef efnahagsstjórnun er rétt.

En stjórnendur fjármálakerfisins þróuðu með sér nýtt form forréttinda fólgið í að útvöldum stóðu til boða gríðarleg lán án þess að þurfa að leggja fram tryggingar, sem nýtt voru til þess að gíra upp hlutabréf og ná út úr hagkerfinu milljörðum króna. Ofurlaun, bónusar, premíur, styrkir auk pólitískra hyglinga og kúlulána varð að skiptimynt innan útvalins hóps.

Fjármagn til þessa kom ekki af himnum ofan frekar en áður. En stjórnarþingmenn undanfarinna 18 ára virðast hafa staðið í þeirri trú að þeir væru ásamt fjármálamönnum og forseta Ísland búnir að finna upp kostnaðarlausa aðferð til þess að útbýta ókeypis málsverðum, glysferðum erlendis og á bökkum íslenskra laxveiðiperlna, ásamt tugmilljóna styrkjum til stjórnmálaflokka. Það var fjármagnað okurþjónustugjöldum og gríðarlegum vaxtamun, ásamt lakari ávöxtun eða verðfalli á eignastýringum sparifjáreigenda.

Greiðandinn var hinn sami og áður, almennir launamenn og skattgreiðendur. Það er einungis ein leið út úr þessum vanda, hún felst í því að koma stjórnkerfinu inn í annað umhverfi þar sem stjórnmálamenn komast ekki upp með jafnóvandaða stjórnarhætti og þeir hafa þróað í tíð ríkisstjórna síðustu 18 ára. Við komumst ekki lengra eftir "þetta reddast" braut stjórnmálamannanna, enda greiðslubyrði almennings þrotin.

Ná verður stöðugleika og lágri verðbólgu. Það er forsenda lágra vaxta og endanlegu afnámi verðtryggingar, eða hvaða nafni sem bankamenn og stjórnmálamenn kjósa að kalla greiðsludreifingarform okurlána. Upptaka annars gjaldmiðils mun taka einhvern tíma. Eitt brýnasta verkefni núverandi ríkisstjórnar er að hefja þetta ferli með því að endurskoða vísitölugrunninn og halda ákveðin áfram við undirbúning inngöngu í ESB og upptöku Evru með aðstoð Seðlabanka Evrópu.

14 ummæli:

Jenný Stefanía sagði...

Á nákvæmlega þessum forsendum tók ég afstöðu með ESB 1996, eftir yfirlýsingar nýkjörnar ríkisstjórnar (Davíðs og Halldórs) um "hvað liggur á" og þetta verður fyrst skoðað í næsta stækkunarferli 2002, þá ákvað ég að flytja af landi brott 1998.

Tek því heilshugar undir þennan pistil, því "römm er sú taug sem rekka dregur föðurtúna til" en til þess þurfa að vera einhverjar lífvænlegar framtíðar forsendur.

Nafnlaus sagði...

Stjörnupistill dag eftir dag - takk takk takk

Nafnlaus sagði...

Tek undir hvert orð hjá þér, Guðmundur. Brýnasta hagsmunamál almennings á Íslandi er að þjóðin gangi í Evrópusambandið og lagður sé grunnur að því að fleygja krónunni og taka upp evru. Öðrum kosti tekst okkur ekki að uppræta verstu ókosti hins fámenna íslenska samfélags þar sem nokkrar valdaklikkur hafa níðst á fólki 140 ár. Þakka þér allar hugvekjurnar. Man ekki til þess að hafa ekki verið þér hjartanlega sammála í hvert einasta sinn. - Jón Örn Marinósson

Frimmi sagði...

Heyrðu nú. Nú verður Hannes Hólmsteinn reiður. Það var nefnilega eftir 2004 sem all fór til fjandans. Ef þú vart ekki búinn að fatta það.

Nafnlaus sagði...

"Eitt brýnasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar er að hefja þetta ferli með því að endurskoða vísitölugrunninn og halda ákveðin áfram við undirbúning inngöngu í ESB og upptöku Evru með aðstoð Seðlabanka Evrópu."

Ertu þá að tala um ríkisstjórn eftir núverandi ?

Ómar R. sagði...

Góður pistill Guðmundur.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur, þú ert greinilega í herferð gegn krónunni dag eftir dag. Fyrir hverja?

Þar að auki er með pólitískar yfirlýsingar og pólitísk skoðanaskipti.

Er það hlutverk forystumanns í stéttarfélagi að standa í slíku?

Svona herferð mun ekki flýta fyrir efnahagsbata, þannig að enn lengur tekur að ná "draumamarkmiðinu", að komast inn fyrir gullna hliðið í Brussel og í sæluríki ESB þar sem eilíf efnahagsleg sæla ríkir samvkæmt trúarkenningu ESB-sinna.

Og þú er sannfærður um að ESB-aðild og upptaka Evru leysi öll okkar efnahagsvandamál til frambúðar? Og að við það muni ríkja hér efnahagslega alsæla?

Það má vel vera að innganga í ESB og upptaka Evru leysi ýmis efnahagsleg vanda.

En eitt skaltu vita, í staðinn munum við fá önnur efnahagslega vandamál sem jafnvel gætu orðið illviðráðanleg fyrir okkur þegar við höfum ekki stjórn á peningamálastefnunni.

Og hvað gera fyrirtæki á Íslandi þá til að bregðast við því ástandi?

Jú, það mun heita hagræðing sem felst í því að segja upp fólki til að lækka kostnað.

Nafnlaus sagði...

Ég og mín fjölskylda erum á leið erlendis einmitt út af þessu. Ef aðildarsaming verður hafnað, veit ég ekki hvort við sjáum ástæðu til að koma aftur.

Ég vil ekki bjóða mér og börnunum mínum upp á svona boom crash.

Guðmundur sagði...

Svar til þess sem telur að ég sé í herferð gegn krónunni.

Já ég er það.

Rök fyrir þessari afstöðu minni eru færð í pistlunum ekka bara undanfarna daga, heldur frá upphafi þessarar síðu og reyndar má sjá greinar eftir mig í fjölmiðlum um sama efni fyrr.

Það sem fram kemur á þessari síðu eru vitanlega skoðanir mínar.

Það eru til samþykktir í Rafiðnaðarsambandinu að félagsmenn megi hafa skoðanir án þess að þær séu bornar upp á fundum.

Það eru til samþykktir í Rafiðnaðarsambandinu fyrir því að það eigi að skoða þessa leið til þrautar, það verði ekki gengið áfram á núverandi leið með þessa peningastefnu.

Unknown sagði...

Vandamálið fyrir þá sem eru á móti þessari góðu sýn þinni er að þau hafa engin svör. Þeir sem vilja ekki fara í ESB hafa engin raunveruleg svör fyrir fyrirtækin, fyrir heimilin, engar lausnir á gjaldeyrishöftunum, engar leiðir til að styrkja okkar fullveldi með því að taka þátt í því gríðalega fullveldi sem kemur frá ESB aðild.

Andstæðingar aðildar hafa engin svör! Enga framtíðarsýn!

Eina sem þeir gera er að ráðast á. En koma ekki með neitt betra.

"The best defense is a good offence". Og í þeirra "offence" er oftar en ekki notast við hræðsluáróður og lyga, og oftast af fólk sem þekkir ekkert til ESB og veit í raun ekkert hvað það er að tala um.

Guðmundur sagði...

Það er að koma fram þessa dagana hvaða þjóðfélag stjórnmálamenn undanfarinna áratuga hafa búið okkur almenning.

Hér hefur verið reist þjóðfélag þar sem hagsmunir fjármagnseigenda og fyrirtækja eru sett ofar öllu. Svo einkennilegt sem það nú er þá hafa þessir hinir sömu verið endurkosnir aftur og aftur og virðast vera lá leið inn á ríkisstjórnarheimilið aftur.

Öll innheimtulög og staða hins almenna skuldara er mun lakari en þekkist í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.

Minna má á endalausa baráttu stéttarfélaga fyrir lögum sem verja stöðu launamanna gagnvart ríkisvaldi.

Minna má á þá baráttu sem stéttarfélögin urðu að taka við stjórnvöld til þess að verja almenn mannréttindi launamanna við Kárahnjúka.

Aldrei hefur komið frumkvæði frá stjórnvöldum, alltaf hefur þurft langvarandi baráttu til þess að fá lög og reglugerðir sem hafa verið viðurkenndar í löndum sem við viljum bera okkur saman við sem verja réttindi launamanna og hins almenna borgara.

Nú berjast þessir hinir sömu við að viðhalda þessu, þarna fara fremstir í flokki þeir stjórnmálamenn sem bjuggu sér þetta samfélag og þeir vilja viðhalda sinni stöðu.

Þeir standa fremstir gegn ESB og Evru. Aldrei koma haldgóð rök, bara endalausar upphópanir og klisjur.

Nafnlaus sagði...

Þessir pistlar er frábær samantekt á þessum málum, og settir upp á mannamáli
Takk Kristinn

Nafnlaus sagði...

Ég get nú ekki verið alveg sammála Guðmundi þegar hann segir að þettað sé stjórnmálamönnum undanfarina ára sé staðan svona. Þá spyr ég á móti hverjir kusu þettað fólk? Við sem þjóð eigum stóran þátt í þessu rugli sem við erum í núna stödd í.Við getum ekki verið svo barnaleg að kenna alltaf öðrum um ófarir okkar. Það sem Guðmundur er að tala um innheimtulöginn, þar á sama við um tryggingarlög öll samþykkt með breytingum sem Verslunarráð og tryggingarfélög vor búinn að setja inn. Myndi segja að það væri rannsóknar efni hvað Verslunarráð og þeir sem þar hafa setið sleppa billega út úr þessu öllu. Enn ég tel mig ekki á móti ESB eða Evru enn er samt með efasemdir, því ég hef enga trú á svona Herbalife lausnum. Því það má spyrja sig ef við tökum til í okkar efnahagsmálum til að taka upp Evru afhverju erum við ekki með Krónuna áfram ? Til að hafa Evru þá þurfum við að fara stjórna efnahagsmálum okkar og það er kanski eini kosturinn við Evruna..
Svo er svona eitt í viðbót til umhugsunar og er svona í samhengi við pælingar Guðmundar stjórnmálamenn , það er hvað þeir eru fljótir að vera handbendlar atvinnurekanda og þá meina ég pælingar um það að setja lög á verkfall Fulgumsjónarmanna. Að þessi stjórn skuli bendla sig við norrænvelferðarmál það skil ég ekki. Voru ekki verkföll hjá Finnum og SAS í daginn ? Og ekkert var talað um að setja lög á þau. Kv Simmi

Nafnlaus sagði...

Já, bara mjög ánægður með pistlana þín dag eftir dag!

Guðbjörn Guðbjörnsson