Þegar helgrímu Hrunsins hefur verið svipt í burtu blasir við okkur að íslenskir stjórnmálamenn undanfarinna áratuga hafa búið almenning þjóðfélag þar sem hagsmunir fjármagnseigenda eru settir ofar öllu, en lög til varnar stöðu almennings eru lakari en þekkjast í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Þessi birtingarmynd blasir við okkur t.d. í lögum um skuldir og uppgjör þeirra.
Þetta sáum við svo vel starfsmenn stéttarfélaganna sem börðumst upp á Kárahnjúkum, við hlið manna sem voru hlunnfarnir í launum og aðbúnaði. Þáverandi ráðherrar tóku eftirlitsstofnanir úr sambandi ef kærur bárust, felldu niður dagsektir og létu opna aftur staði sem búið var að innsigla. Hagsmunir launamanna skiptu þá engu, hagsmunir fyrirtækjanna réðu. Stjórnmálamenn réttlættu sig með endurteknum fullyrðingum um að hér ríkti engin spilling og komið var í veg fyrir að mál væri krufin í fjölmiðlum.
Innviðirnir þurfa að breytast Siðbót, yst sem innst! Kærleiksboðanir og jafnræði manna í millum, hafa verið hafðar að háði og spotti. Aldrei höfðu íslensk stjórnvöld frumkvæði að því að sett væru lög sem vernduðu launamenn. Ísland var áratugum á eftir nágrannalöndum okkar í staðfestingu á alþjóðlegum lögum og reglum. Alltaf þurfti áralanga harðvítuga baráttu stéttafélaga til þess að draga stjórnvöld að borðinu og staðfesta þessi lög. Helst var að stilla upp í frágangi allsherjar kjarasamninga með þeim hætti að setja á oddinn skilyrði um framgang þessara mála.
Sömu menn og sömu sjónarmið náðu endurkosningu aftur og aftur. Þau sitja ekki við völd í dag, en berjast um með öllum brögðum í bókinni og virðast vera á leið í ríkisstjórn aftur. Álit Íslands hefur hrapað gríðarlega og fólk í nágrannalöndum okkar spyr hvers konar fólk búi á Íslandi, eins og ég hef margoft komið að hér þegar ég hef fjallað um alþjóðlegar ráðstefnu sem ég hef sótt undanfarið ár.
Við erum um borð í skipi sem sigldi á fullri ferð á ísjaka á meðan skipstjórnin sat að pókerspili. Skipið er enn á sama ísjakasvæði, en það berast stöðugt skipanir úr spilaherberginu um að setja á fulla ferð aftur.
Það er talið nauðsynlegt að hafa til staðar áhættustjórnun í vel reknum fyrirtækjum. En það á ekki við um stjórnvöld og stjórnmálamenn. Hvers vegna ekki? Þessir menn vilja ekki fara í ESB því þar eru þeim settar harðar leikreglur. T.d. blasir það við þegar staðan í Grikklandi eru skoðuð. Þeir vilja ekki Evru, því þá verður að taka upp agaða efnahagsstjórn og ekki hægt að ástunda eignatilfærslur í samfélaginu frá almenning til fárra.
Almannahagsmunir hafa vikið fyrir hagsmunum fjármagnseigenda. Þjóðir eru farnar að keppa í lækkun skatta vegna fyrirtækjanna. Það getur ekki leitt til annars en lakari skóla, veikari heilbrigðisþjónustu og skuldsettari þjóða. Það setur þrýsting á stéttarfélögin, þau dragi úr sínum kröfum og laun hækki ekki. Kaupmáttur minnkar. Arður fyrirtækjanna ræður.
Þessi keppni getur ekki leitt til annars en að þau samfélög sem byggð voru upp með blóði svita og tárum almennings í baráttunni fyrir réttlæti og jöfnuði á síðustu öld munu hrynja. Fórnað á altari samkeppninnar. Það skortir lög sem tryggja hagsmuni almennings gagnvart fjármagnseigendum. Það þarf að skilgreina upp á nýtt hver markmiðin eigi að vera. Taki mið af hagsmunum almennings, í stað þess eru það fyrirtækin sem stjórna ríkisstjórnunum með sína hagsmuni í fyrirrúmi. Samspil þessara aðila ræður um þau kjör sem launamönnum er boðið.
Þau viðhorf sem höfð voru að leiðarljósi við uppbyggingu samfélaga hafa glatast og viðhorf auðhyggju hafa tekið yfir. Barnaþrælkun eykst, mansal viðgengst sem aldrei fyrr, kynlífsþrælkun vex, réttindalausum farandverkamönnum fjölgar og hungrið í heiminum vex. Þeim fjölgar sem ekki hafa aðgang að vatni. Mannfyrirlitning fjölþjóðafyrirtækjanna nálgast okkur sífellt meir.
Gjaldþrot auðhyggjunnar og nýfrjálshyggjunnar blasir við hvert sem litið er. Fjárfestar eru prímusmótorar þessa ferlis blindaðir af veðmálakeppni sem fer fram með undirspili greiningardeildanna. Glottandi styðja þeir bak við tjöldin prófkjör lítilsigldra stjórnmálmanna og synir milljarðamæringa sitja í stólum formanna.
Við erum á ögurstund. Verður aftur sett á fulla ferð áfram í næsta Hrun, eða tekst okkur að snúa skipinu og koma áhættustjórnun yfir stjórnmálamenn.
12 ummæli:
Já! Hvað er það sem veldur því að stór hluti þjóðarinnar orgar í einum kór gegn eigin hagsmunum? Heimska? Þrælsótti? ESB andúð almennings byggir einkum á því sem snýr að sjávarútvegi og landbúnaði. Almenningur er ósáttur við hvernig þeim málum er háttað hér en má þó ekki heyra minnst á að Evrópusambandið gagnrýni ranglætið og sukkið í tengslum við það. Og stillir sér þá samstundis upp við hlið sérhagsmunaliðsins. Þetta er sennilega einhver meinloka sem byggist á þjóðrembu. Kannski sömu ættar og það að enginn má kalla negra negra nema negri sé.
Kveðja,
Jakob
Það sem er athyglisvert við þessa stöðu er að fólk virðist vera tilbúið að veita Sjálfstæðisflokknum brautargengi á nýjan leik. Hvað þyrfti eiginlega að gerast til að kjósendur átti sig og losi þessa eyju við þau heljartök sem þessi flokkur hefur á samfélaginu?
Einar Marel
Þakka þér fyrir mjög skýran og skorinorðan pistil Guðmundur. Það er lífsnauðsynlegt fyrir okkur hér í landinu, fólkið að spyrna við fótum. Þetta er ekkert grín og róttækni peningaaflanna er svo svakaleg að það þýðir ekkert að vera bara penn og umburðarlyndur á móti.
Kv.
Sigríður Guðmundsdóttir
Já fínn pistill hjá þér. Hvar er verkalýðshreyfingin? hvernig væri að hún færi að berjast meira fyrir manngildi ofar auðgildi. Hún er kannski bara að passa pjeninginn sinn! Kannski virka pjeningar og verkalýðshreyfingar illa saman!
Verkalýðshreyfingin hefur aldrei verið jafn sterk og hún er nú,þakka þér fyrir.
Sem dæmi þá voru útgjöld sjóða Rafiðnaðarsambandsins síðasta ár um 200 millj kr. meiri en árið þar á undan vegna stöðunnar á vinnumarkaði og aðstoðar við félagsmenn.
Verkefni starfsmanna sambandsins jukust mikið. Starfmsen lífeyrissjóðsins unnu mikið við að aðstoða fólk sem lenti í fjárhagsvandræðum.
Ráðinn var lögmaður sem vann gríðarlegt starf við að aðstoða félagsmenn. Einnig var ráðin sérfræðingur vegna starfsendurhæfingar og viðtala við einstaklinga sem voru í langtíma atvinnuleysi og veikindum.
Námskeiðum í Rafiðnaðarskólanum var fjölgað og þau fullbókuð og eins voru gerðir amrgskonar samningar við aðrar námstofnanir, líkmasræktarstöðvar og fleira.
Fjölbreytini í orlofskerfinu var aukin og er sambandið með 42 hús hér á landi suk eins stræsta og vandaðasta tjaldsvæði sem er hér á landi. Þessar aðstöður hafa verið mikið nýttar af félgsmönnum
En það hefur ekki vantað, eins og svo oft áður að mann hafi ástundað margskonar niðurrif um verkalýðshreyfinguna og illt umtal. Allt byggt á rakalausum fullyrðingum og dylgjum. Oftast frá mönnum sem ekki eru félagsmenn en eru að reyna að sanna fyrir sér að það hafi verið rétt ákvörðun.
Hárrét Guðmundur Besta dæmið um viðhorf stjórnmálamanna í garð launamana er breytingin á mannréttindaávæðum stjórnarskrár 1994 þegar enginn á Alþingi hafði vit á að knýja á um félagsleg og efnahagsleg réttindi. Þáverandi vinstriflokkar skildu ekki málið.
Kristrún
Hér á landi er ekki til samfélagshugsun hjá þessum fjórflokkum. Því miður
Mæli hiklaust með pistlum Guðmundar, þar ekki skafið utan af hlutunum og gengið beint til verka
Felix
Góð lesning fyrir mína parta en það þarf að skoða alla þætti ekki einvörðungu þau öfl sem komu okkur í þetta, því ég get ekki fellt mig við starfshætti núverandi stjórnvalda með óvönduðum tilskipunum (að hætti EB) án ígrunnduar á efninu.
Mín skoðun á þessu tilskipunarvaldaleið kemur mjög vel í ljós nú við Gjástykki, það var ekki haft samband við heimafólkið,þetta var bara ákveðið í nefndinni, þetta á einnig við um hina margrómuðu firningarleið í sjávarútveginum, það gengur bara ekki upp að fara þá leið. Allar þessar tilskipanir frá stjórnvöldum valda tiltrúarleysi á þeim og þar verður að taka til hendinni og vanda alla vinnu, ekki vera með hagsmuni stór-höfuðborgarinnar að leiðarljósi, því við úti á landsbyggðinni ætlum að lifa þessar aðstæður af einnig en við ætlum ekki að afhenda stóra bróður þessar auðlindir á silfurfati til meðhöndlunar.
Það er rétt að við völdum að búa hér við þessar aðstæður og ekki vantaði uppá það að okkur væri tjáð að slíkt væri val okkar, en við komum einnig til með að verja okkar aðstæður með öllum ráðum.
Hver segir að X mörg tonn af steinsteypu sé mælihvarði á lífsgæðum?
Friðrik Björgvinsson
Minna má á Iðnaðar- og Viðskiptaráðherra ríkisstjórnar DO. Manneskjunni sem fékk skýrslurnar frá CB/FME um tryggingasjóðinn. Svör hennar við fyrirspurnum á Alþingi um málið eru "dásamleg" heimild um vangetu stjórnmálamanna í þessu máli.
Sami Iðnaðar- og Viðskiptaráðherra sem næstum færði allt vatn landsmanna í einkaeigu (a la kvótakerfið) og stóð svo flíruleg í atriðinu í lok Draumalandsins og flissaði með Friðriki Z og álbarónunum yfir "tilviljuninni" að álverið hefði einmitt lent í hennar kjördæmi.
Stefán Ólafsson :
"Fullyrt hefur verið að tíminn frá 1995 hafi verið einstakt hagsældarskeið í sögu þjóðarinnar. Frjálshyggjumenn efndu til sérstakrar ráðstefnu undir heitinu „Íslenska efnahagsundrið“ árið 2007 og þökkuðu frjálshyggjustefnu ríkisstjórna Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar það sem þeir töldu einstaklega góðan árangur.
Þetta tímabil einkenndist af flæði lánsfjár, ofurlaun komu til sögunnar og stjórnlaus spákaupmennska einkenndi tíðarandann og umsvifin í atvinnulífinu.
Íslenskt þjóðfélag var orðið stöndugt og tiltölulega skuldlítið þegar um 1980 og gat veitt þegnum sínum lífskjör sem voru um margt áþekk því besta sem þekktist í heiminum. Því var hins vegar fórnað á altari óheftrar markaðshyggju og spákaupmennsku-kapítalisma sem fylgdi starfsháttum sem innleiddir voru með einkavæðingu bankanna.
Þjóðarinnar bíður nú að reisa sig aftur upp úr rústum fjármálahrunsins sem leiddi af þessari óvenjulegu og róttæku þjóðfélagstilraun sem íslenskir frjálshyggjumenn stóðu fyrir."
Takk fyrir góðan pistil. Það er gott að hafa menn eins og þig til að standa vaktina.
Skrifa ummæli