sunnudagur, 7. mars 2010

Er deilunni lokið?

Er að leita að tölum finn ekki. Það virðist vera að 55% þjóðarinnar hafi mætt og sagt Nei. Afgerandi niðurstaða.

Nú er spurningin hvort þetta verði til þess að Bretar og Hollendingar semji strax, eins og Bjarni og Sigmundur Davíð spáðu, eða hvort þessi kosning verði til þess eins að deilurnar verði enn svæsnari og dragist á langinn, eins við í minnihlutanum spáðu.

Mikið óska ég þess að ég hafi rangt fyrir mér og nú sé hægt að setjast niður og klára þetta mál strax og hefja uppbygginguna.

En ég óttast samt að Bjarni og Sigmundur Davíð ætli sér ekkert að semja og ætli sér ekkert að sætta sig við nýja samninga sama hvernig þeir líti út.

Finn staðfestingu í því að Bjarni sagði í gærkvöldi að nú vildi hann fara niður á þing og endurtaka umræðurnar sem fóru fram í fyrra og tóku nokkra mánuði án nokkurrar niðurstöðu.

Og ég spáði því að niðurstaða Jóhönnu yrði sú að hún myndi höggva á hnútinn með því að skila umboðinu til forsetans áður en þjóðin tortímdi sjálfri sér í þessari deilu, það kemur svo í ljós hvort það hafa verið rétt pæling.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Í kjölfar atburðanna var samfélagið í miklum sárum. Í fyrstu var fólk ruglað í ríminu en síðan tók við reiði og ótti. Og ótti fólksins braust út í róttækum skoðanaskiptum. Fólk skipti sér upp í andstæðar fylkingar, hóf að skjóta með orðum sínum úr tilbúnum skotgröfum hvert á annað. Siðprúð, yfirveguð og málefnaleg umræða komst ekki að. Ólíkar skoðanir, meiningamunur, leiddi til reiði og átaka. Veruleg ógn steðjaði að hinum ósýnilega sáttmála sem er heilbrigðu samfélagi nauðsynlegur.

Aðdragandann að atburðunum mátti svo til alfarið rekja til ábyrgðarleysis innanlands. Farið hafði verið allt of geyst. Það sem skóp taktinn í samfélaginu var þó hugmyndafræðin fyrst og fremst. Hún mótaði stefnu stjórnvalda sem almenningur fylkti sér að baki. Almenningur hafði í raun fagnað stjórnvöldum og stefnunni – með atkvæði sínu. Þó voru það tiltölulega fáir einstaklingar sem raunverulega mótuðu stefnuna og höfðu gífurleg áhrif á stemninguna í samfélaginu. Eftirlitsstofnanir voru lamaðar og máttu sín einskis í að gæta að hag almennings. Samfélagið fór á yfirsnúning án nokkurra hamlana. Í trilltum dansi tók fólk ekki eftir því hvert samfélagið stefndi. Og nú voru innanlandsátök meiri en nokkru sinni og grunnstoðir samfélagsins orðnar veikburða.

Samfélagið þurfti hjálp.

Nú reið á að upplýsa heiminn um stöðu samfélagsins og ógöngur. Nauðsynlegt var að verkefnið yrði unnið af auðmýkt og með viðurkenningu á því sem gerst hafði. Þannig mátti vonast eftir samúð umheimsins og hjálp.

Leiðtogi samfélagsins kom fram í fjölmiðlum og nýtti hvert tækifæri. Þó ekki til að sýna iðrun og biðjast hjálpar. Hann úthúðaði öðrum ríkjum – nánast öllum öðrum ríkjum! Hann kvað önnur ríki vond og illgjörn! Hann kenndi öðrum um ástandið sem við blasti í eigin ríki! Auðmýkt og iðrun var hvergi að sjá heldur þveröfugt! Leiðtogar annarra ríkja urðu furðu lostnir. Samningsstaða samfélagsins var ekki góð. Og nú versnaði hún. Leiðtogi samfélagsins virtist ekki gera sér grein fyrir því tjóni sem hann var að baka samfélaginu. Erlendir leiðtogar spurðu sig hvort samfélaginu væri viðbjargandi. Hversu ábyrgðarlaust og óraunsætt er þetta samfélag? Það hefur þegar grafið sína gröf en heldur áfram að grafa fremur en að taka í hönd þess sem vill hjálpa því.

Hvers konar samfélag er þetta? Og hvaða samfélag er verið að tala um? Rúanda, Úganda, Simbabve…?

Oddur Ólafsson sagði...

Spinnmundur Davíð og N1-Vafningur ætla ekkert að semja.

Það var bara partur af spunanum af þeirra hálfu að taka þátt í samningarviðræðum.

En hvernig ætla þeir félagarnir að fjármagna lánin 2011? Það þarf að stilla þeim upp við vegg og láta þá svara því.

gosi sagði...

Hvað kemur næst?? Helmingur kostingarbærra manna fór á kjörstað og kaus um ekki neitt! Skuldin er þarna ennþá á nákvæmlega sama stað.Herkostnaður okkar í krónum talið er orðin markfalt meiri en heilsarskuld vegna icesave. Atvinnulífið stoppar enn meira,atvinnuleysi og fólksflótti eykst hratt,og þjóðin siglir inn í alvarlega stjórnarkreppu, Ég spyr eru Bjarni og félagar algjörlega veruleikafirrtir??

Nafnlaus sagði...

Það er nokkuð ljóst að stjórnarandstaðan er ekki að taka þátt í samningaviðræðunum að heilum hug.

Ég gat ekki skilið annað á Bjarna Ben en að hann vildi endurtaka mikið eldri umræður á þingi.

Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu 5. des 2008, sem bindur ríkisstjórnina til þess að viðurkenna ábyrgð á innistæðutryggingum og semja um lán frá Bretum og Hollendingum.

http://www.althingi.is/altext/136/s/0219.html
(1. flutningsmaður Bjarni Ben)

Bjarni og Sigmundur Davíð segja að ekkert liggji á lausn þessa máls. Þeir eru greinilega tilbúnir til að láta atvinnulausa Íslendinga sitja lengur í "verkfalli" til að pína út örlítið hagstæðara lán.

kv. Haukur

Nafnlaus sagði...

'Eg skil ekki að Jóhanna og Steingrímur nenni þessu lengur, þjóðin trúir því að hún þurfi ekki að borga Icesave og að við getum bara haldið áfram að búa hér á 'Islandi án allrar utanaðkomandi hjálpar. Best væri að Bjarni, Sigmundur og Ögmundur tækju við stjórnartaumunum og lokuðu þessu máli.

Nafnlaus sagði...

Varðandi tölurnar þá er kjörsókn 62.51% kjörsókn. Þar af segja "nei" 92.17% .
Það þýðir að 58.24% atkvæðisbærra sögðu NEI.

Þetta er nálega miðjavegu milli einfalds meirihluta (50% plús einn) og aukins meirihluta (2/3).

kv.
Halldór

Guðmundur sagði...

Pistillinn er settur inn kl. 9.02. Um kvöldmat kemur í ljós hverjar niðurstöðu tölur eru í fréttum.

Það breytir engu af því sem sagt er í pistlinum um afgerandi Nei 55% landsmanna sem endanlega verður 3% hærra.

Málið snýst fyrst og síðast úr um hvernig stjórnmálamenn vinna úr því og eins og virðist hafa verið í Silfrinu (sá það ekki) og svo það sem kom fram í kvöldfréttum, þá er þróuninn nákvæmlega eins og ég hef spáð í pistlum undanfarna daga og tek fram að ég óttist mikið í þessum pistli.