fimmtudagur, 18. mars 2010

To be or to have?

Hlustaði nýverið á mjög gott erindi Sigurðar Eyberg um umhverfis- og auðlindafræði og „Fótspor“ okkar hér á landi. Margir hafa velt fyrir sér ágang manna á jörðina og hafa reynt að setja á hann einhverskonar mælistiku. Þá er reiknuð er út getu ákveðinna svæða jarðarinnar til að framleiða gagnlegar afurðir með sjálfbærni og notkun manna á þessum afurðum.

Ef geta viðkomandi svæðis er meiri en neysla þeirra sem þar búa er talað um vistfræðilegan afgang, en ef neyslan er meiri er talað um vistfræðilegan skort. Algengast er að mælingin sé gerð fyrir þjóð og þá er svæðið umreiknað í meðal framleiðni á jarðhektara, talað er um Fótspor þeirra sem á svæðinu búa.

Ágangur á svæðin er mældur í þeim vörum sem af þeim eru fengnar. Þetta á ekki við um mannvirki, en mæld framleiðnin sem hverfur undir mannvirki og land til kolefnisbindingar en þar er mælt það svæði skóglendis sem þyrfti til að binda magn koltvíoxíðs sem veitt er út í andrúmsloftið.

Global Footprint Network reiknar út Fótspor 150 þjóða á ári hverju. Árið 2005 notaði mannkynið að meðaltali 2,7 jarðhektara. Til þess að fullnægja þörfum mannkyns innan marka sjálfbærni hefði þurft 1,3 jarðir. Það tók jörðina 16 mánuði að framleiða það sem mannkyn neytti á 12 mánuðum.

Af þessum 150 þjóðum eru það Sádi Arabía og Bandaríkin sem eru mestu umhverfissóðarnir og nýta tæpa tíu hektara á mann. Ef allir neyttu á sama hátt og þau þyrftum við 4,5 jarðir til að standa undir neyslunni. Ef allir neyttu eins og Suður Kórea þyrftum við 1,8 jarðir. Ef allir neyttu eins og Indverjar þyrftum við helming af þeim gæðum sem jörðin framleiddi.

Árið 1961 voru flestar þjóðir með vistfræðilegan afgang. Árið 2005 er þessu öfugt farið. Árið 1999 kom fram mæling á Íslandi gerð eftir tölum frá 1993 og reyndumst við nýta 7,4 jarðhektarar. Vistfræðileg geta var 14,3 eða stærra er BNA og Sádarnir. Við erum víða „best“ í heimi. Nú er unnið að samskonar rannsókn á Íslandi miðað við árið 2005. Niðurstöður ekki tilbúnar. Lítur út fyrir að útkoma verði vægast sagt uggvænleg. Við erum orðin „langbest“ í heimi.

Koltvísýringslosun er um helmingur Fótspors hjá vestrænum ríkjum. Með því að hætta losun á gróðurhúsalofttegundum getum við því minnkað Fótsporið um helming. Það má velta því fyrir sér hvort þetta sé bara gálgafrestur, því við blasir aukin neysla og vaxandi fólksfjölgun. Þar má t.d. benda á að Indverjar og Kínverjar munu gera næsta örugglega gera kröfu um að eiga ísskáp og sjónvarp svo ekki sé talað um annað. Það eitt út af fyrir sig kallar á nánast tvöföldun raforkuframleiðslu við með núverandi tækni.

Samfara þessu hljótum við að verða að velta fyrir okkur hvort allir sem fæðast á jörðinni eigi jafnt tilkall til gæða hennar. Eða þá hvort þeir sem búa á gjöfulum svæðum eigi meira tilkall til gæða jarðar heldur en hinir. Ef auðlindir jarðar eru takmarkaðar og þær einu sem mannkyn hefur til að bíta og brenna og við hér á Íslandi notum liðlega tíu jarðhektara, þá eru einhverstaðar fimm sinnum fleiri sem láta okkur eftir sín jarðargæði.

"To be or to have? That is the question" erum við í vestrænum samfélögum spurð, og bent á atferli okkar sem einkennist af græðgi sem skapast af löngun til að eiga í stað þess að vera, sem leiðir til löngunnar til þess að eignast enn meira. Í þessu sambandi má benda á þau einkenni sem hafa verið ríkjandi í hátterni íslendinga og endurspeglast ekki bara í atferli okkar fyrir Hrun. Þetta viðhorf virðist nefnilega ráða ríkjum í þeirri umræðu sem fram fer hér á landi þessa dagana og viðhorfum okkar til nágrannalanda okkar.

Þörfina til að eiga mest, sú fullnægja næst aldrei og getur ekki leitt til annars en til tómleika. Hvar ert þú staddur í því ferli lesandi góður?

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Flottur pistill
Ingunn

Nafnlaus sagði...

Það er einmitt tómleikinn sem við erum hrædd við, en mótsögnin er einmitt sú að uppúr tómleikanum spretta blóm ef við þorum að horfast í augu við hann. Stundum eru blómin nefnilega skrítin.
Elísabet

Nafnlaus sagði...

Að vera eða að vera ekki, í stjórn lífeyrisjóðanna. Það er spurningin!

Hörður Tómasson

Nafnlaus sagði...

Hver er þessi Hörður Tómasson eiginlega sem sendir endurtekið inn svona snarruglaðar aths.

Hvað koma stjórnir lífeyrissjóðanna þessum pistli við? Hvað er að þessum manni, hann hlýtur að eiga verulega bágt.

Annars er þessi pistill frábær Úlfur

Nafnlaus sagði...

Hugsun án Hirðis -
er einhver að kaupa það ?!

eva luna

Nafnlaus sagði...

Flottur pistill.

Freyr Björnsson

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur, mjög góð grein hjá þér. Það er satt að Íslendingar eru algerir umhverfissóðar. Að hafa allt þetta landflæmi en geta ekki asnast til að framleiða 100% matvæla þjóðarinna er hrein og klár skömm. Með allt þetta landflæmi en geta ekki asnast til að rækta skóglendi til að vinna á móti mengun álvera og annarra stóriðju og að sama skapi mengun ökutækja. Að geta ekki asnast til að vera með almennilegar almenningssamgöngur sem ættu að mínu mati að vera ókeypis .. þessi fáu dæmi eru merki þess að Íslendingar eru latir umhverfissóðar með engan metnað eða skilning á nauðsyn náttúru. Við ættum að líta í eigin barm áður en við kveimkum okkur yfir hinum þjóðunum ... og ef eitthvað ætti að banna er orðatiltækið "best í heimi"
Árni Haraldsson