sunnudagur, 21. mars 2010

Hin endalausa bullumræða

Búinn að vera á ferðinni utan höfuðborgar í vegna starfa minna og pistlagerð legið niðri, enda virðist það reyndar ekki skipta miklu, umræðan snýst hring eftir hring fóðruð með reglulegum eltingarleik á eftir upphrópunum um sársaukalausa lausn frá þeim vanda sem við blasir. Látum skuldir heimila og fyrirtækja gufa upp og það kostar ekkert segja Excelsérfræðingar spjallþáttanna.

Við skulum kjósa okkur frá skuldum landsins og taka upp 2007 aftur, segir stjórnarandstaðan og InDefence. Lýsum nágrannalöndum sem óvinum Íslands sakir þess að þau vilja ekki láta okkur hafa enn meiri lán og leggja fram enn meiri ábyrgðir. Þó svo við gerðum gys af aðvörunum þeirra um hvert stefndi 2007 og 2008.

Við blasir í dag að tillaga verkalýðshreyfingarinnar um að í stað þess að lækka skatta á þeim hæst launuðu á toppi þennslunnar 2005, hefði verið betra að nýta fjármagnið til þess að leggja í gjaldeyrisvarasjóðinn. Þessi arfavitlausa og grunnhyggna ákvörðun er nú stærsti þröskuldurinn hjá ríkissjóði afborgun af lánum vegna gjaldeyrissvarasjóðsins og auk gjaldþrots Seðlabankans í boði fyrrv. ríkisstjórna. Það er ekki staða íslensks atvinnulífs sem veldur háu skuldtryggingarálagi Íslands, það er til komið vegna pólitísku vantrausti á íslenskum stjórnmálamönnum og tregðu til þess að víkja frá hinni gjaldþrota efnahags- og peningastefnu, og helsta ástæðan virðist vera sú ein að vernda hagsmuni fárra sponseraðri af LÍÚ og Bændasamtökunum.

Hendum bara AGS úr landi, við björgum okkur sjálf. Svo einkennilegt sem það nú er þá er fyrrv. formaður opinberra starfsmanna þar fremstur í flokki. Hann veit vitanlega jafnvel og við hin að það muni kosta enn meiri niðurskurð í rekstri hins opinbera og enn umfangsmeiri uppsagnir á opinberum vinnumarkaði og því muni fylgja kröfur um enn meiri hækkanir á sköttum.

Helsta ástæða þess að nágrannalöndin vilja ekki lána okkur meira, nema þá í gegnum AGS er einmitt sú að þau treysta ekki íslenskum stjórnmálamönnm til þess erfiða hlutverks að stoppa upp í fjárlagagatið og það muni einfaldlega lenda þá á skattgreiðendum nágrannalandanna að standu undir þeim kostnaði og við lifa í praktuglegheitum á meðan.

Menn vilja víkja sér undan því að breyta um efnahags- og peningastefnu og alla vega þáverandi stjórnarflokkar hafna enn að breyta. Við höfnum því standa við ábyrgð sem fyrri ríkisstjórnir og Alþingi hafa staðfest og krefjumst þess að fá að gera enn einn Icesavesamningin gegn því að hann losi okkur undan ábyrgð og endurgreiðslu.

Við höfnum því að skera niður kostnað hins opinbera og stoppa upp í fjárlagagatið. Höfnum skattahækkunum, en gerum kröfur um að fá skattpeninga nágrannalandanna til þess að geta haldið áfram á sömu braut svo vitnað sé til ítrekaðra ummæla fjármálaráðherra nágrannalanda okkar.

Athugasemdalaust kemur stjórnarformaður OR fram og hreytir í okkur fullyrðingum á borð við að stjórnir lífeyrissjóða standi gegn þeim sem minnst mega sín á vinnumarkaði af því lífeyrissjóðirnir hafni að lána OR umtalsverða fjármuni á neikvæðum vöxtum (já minna má það nú ekki vera). OR er glæsilegt tákn fyrirtækis (eða hitt þá heldur) í höndum stjórnmálamanna.

Þar er raðað er á garðanna í stjórnunarlög fyrirtækisins afdönkuðum stjórnmálamönnum og kosningasmölum, sem leiðir til þess að reksturinn sé með þeim hætti að verulegar athugasemdir eru gerðar við hann. Fagtæknilega stendur OR mjög framarlega en óþörf stjórnunarlög eru að eyðileggja fyrirtækið og stjórnmálamenn vilja fá að gera það áfram og fá til þess ódýrt fjármagn frá sparifjáreigendum.

Þessi aðferð er vel þekkt hér á landi hún var ástunduð fram undir 1985 með gengdarlausri eignauppstöku í formi gengisfellinga og verðbólgu og nú berjast sömu stjórnmálöfl fyrir áframhaldi þeirrar stefnu

Sömu stjórnmálamenn hafa ákveðið þrátt fyrir stöðu fyrirtækisins að tappa út úr fyrirtækinu sem er á barmi gjaldþrots þeim milljörðum sem eiga að koma frá lífeyrissjóðunum í formi „arðs!!??“ til gæluverkefna hjá Reykjavíkurborg. Allir vita hverjir munu borga þetta, það eru vitanlega eigendur þess sparifjár sem geymt er í lífeyrisjóðunum, þeir eiga að standa undir þessum óskalistum stjórnmálamanna í formi minni lífeyris. Ef gerðar eru athugasemdir við þetta hreytir borgarstjórnarmeirihlutinn sínum venjubundnu þóttafullu aðdróttunum og innistæðulausu dylgjum í fréttaþáttunum.

Enn eina ferðina er umræða um hinn óendanlegan orkuforða Íslands kominn upp á borðið og á að gera okkur að ríkustu þjóð í heimi án þess að við lyftum svo sem einum eða tveim fingrum. Á sama tíma er rokið til ef virkja á aðgengilegasta vatnsfall landsins, sem þegar er búið að umbreyta með gríðarlegum mannvikjum á hálendinu og það sem til stendur að fari undir lón núna er land sem bændur meðfram ánni hafa athugasemdalaust þegar umbylt í tún og golfvelli.

Það liggur fyrir að raforka verður ekki flutt yfir hafið nema að hún sé í fyrstu framleidd hér á landi og eins það verður ekki gert nema um sé að ræða umtalsvert magn. Svipað og framleitt er á Kárahnjúkum að minnsta kosti og það sé hagkvæm virkjun. Það eru nú ekki margir kostir í boði af þeirri stærðargráðu. Vilja menn virkja gufualfið að Fjallabaki, Landmannalaugar og Hrafntinnusker? Eða vilja menn loka Dettifoss með því að færa jökulvatnið yfir í Arnardal og fæða nýja stórvirkjun við Lagarfljótið.

Á sama tíma hlýtur maður að spyrja stuðningsmenn þessara tillagna hvort þeir séu þá tilbúnir að nota síðan óhagkvæmu virkjanakostina til þess virkja fyrir íslensk heimili og atvinnulífið hér heima, eða hvernig ætla þeir nú að fara að þessu.

Við þennan lista er hægt að bæta við mörgum málum. T.d. umræðunni um nýja stjórnarskrá og stjórnlagaþing. Um allt sé leyfilegt ef það sé ekki bannað í lögum, umfjöllun um aðdraganda Hrunsins eigi að fara fram í réttarsölum og siðferðið skiptir engu.

Landslög eru grunnur þess til að halda uppi réttarríki. En lögfræðileg nálgun í uppgjöri Hrunsins nær ekki yfir meginvandann og nauðsynlega siðbót. Friður og sátt innan samfélagsins næst ekki í tæknilegu tafli lögfræðinga.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það var líka áhugavert að heyra að leggja sæstreng til Færeyja kostaði bara svipað mikið og Kárahnjúkavirkjun og síðan þyrfti að virkja meira til að geta selt eitthvað rafmagn, við þurfum að fá ansi mikið fyrir raforkuna til að þetta borgi sig. Við verðum við líka að horfa á það að það verða ekki mörg störfin úr þessu að framkvæmdum loknum. En það er allt mjög einfalt í pólitíkinni.
Kristján

Unknown sagði...

Takk fyrir góðan pistil.

Nafnlaus sagði...

Góð greining
Kristinn Þór

Hjalti sagði...

Góður pistill.

Ég er sammála því að Norðurlöndin treysta ekki stjórnvöldum til að fara vel með peningana.
Þeir nota AGS sem skálkaskjól til þess að þurfa ekki að segja þetta beint í andlitið á okkur.

Hefur þú séð einhverja tillögu að nýrri peningamálastefnu fyrir krónuna?

Tel mig fylgjast vel með en hef ekki séð tillögu frá einum einasta hagfræðing innlendum né erlendum. Meira að segja Stiglitz sem mælti með því að halda krónunni kom ekki einu orði að því hvernig ætti að stýra henni.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir hugvekjuna. Nokkrar athugasemdir:
"lífeyrissjóðirnir hafni að lána OR umtalsverða fjármuni á neikvæðum vöxtum"
Hvernig getur verðtryggt skuldabréf verið með neikvæða vexti?
"Fagtæknilega stendur OR mjög framarlega en óþörf stjórnunarlög eru að eyðileggja fyrirtækið"
Held því fram að stjórnun fyrirtækisins sé „fagtæknileg“ og þess vegna sé fyrirtækið það í heild.
"Sömu stjórnmálamenn hafa ákveðið þrátt fyrir stöðu fyrirtækisins að tappa út úr fyrirtækinu sem er á barmi gjaldþrots þeim milljörðum sem eiga að koma frá lífeyrissjóðunum í formi „arðs!!??“ til gæluverkefna hjá Reykjavíkurborg"
Arðgreiðslur OR hafa verið u.þ.b. 1.500 mkr. á ári í áratug, hvernig sem afkoman hefur verið frá ári til árs. Þessi fjárhæð hefur nú verið skorin niður um helming. 800 mkr. fara í nú í ár til eigendanna í að borga grunnskólakennurum, félagslega aðstoð, heimaþjónustu aldraðra og önnur gæluverkefni.

Kveðja,
Eiríkur Hjálmarsson.

Guðmundur sagði...

Sæll Eiríkur
Er fjárhagsleg afkoma OR þess eðlis að hún leyfi 800 MIA arðgreiðslur til eigandans?

Það hefur komið fram hjá þeim aðilum sem hafa átt viðræðu við OR að rekstrarkostnaður sé allt of hár og er það altalað hvar sá kostnaður liggur.

Þarf ekki að útksýra neikvæðu ávöxtunaina, bendi á þær kröfur sem OR heufr gert og þær skýringar sem fram hafa komið.

Leiðist að þurfa að standi í svona útúrsnúningakeppni.

Nafnlaus sagði...

Nú þarf miðstjórnarmaðurinn GG að
skýra það út, afhverju ASÍ var á móti
skötuselsfrumvarpinu,trúi því ekki fyrr en ég heyri það beint frá aðila sem er í miðstjórn ASÍ.

Guðmundur sagði...

Miðstjórnarmaðurinn GG minnist þess ekki að hafa verið á fundi þar sem fjallað var um eða tekin afstaða gagnvart skötuselsfrumvarpinu.

En mér lýst bara vel áþetta frumvarp ef ég á að segja mína persónulega afstöðu til þess