Skortur á samstöðu hefur einkennt íslenskt samfélag frá Hruni. Margir gerðu sér vonir um að eitt af því sem yrði jákvætt við erfiðleikana, væri að menn myndu leggja til hliðar hina löskuðu íslensku umræðulist rígbundna í flokkspólitíska kassa.
Hugur samkenndar varð til þess að það tókst að ná öllum aðilum vinnumarkaðs, ríkisvaldi og sveitarfélögum að samningaborði. Mikil vinna var lögð undirbúning gerð Stöðugleikasáttmála og það sem batt fylkingar saman var rík von um að þjóðinni myndi með því að taka höndum saman takast á 2 - 3 árum að vinna frá vandanum.
Tekist var á við undirbúning sáttmálans, nokkrir reyndu að nýta sér stöðuna til þess að skapa sér sérstöðu og spiluðu með yfirboðum á lýðskrumið, en fjöldinn sá í gegnum það og um 90% samstaða varð innan verkalýðshreyfingarinnar að undirrita Stöðugleikasáttmálann í lok júní árið 2009.
En í flestum mikilvægum málum hefur þjóðin viðhaldið sínum fylkingum og stjórnmálamenn grófu sínar venjubundnu skotgrafir, tiltölulega lítið mál var nýtt sem smjörklípa til þess að víkja sér undan því að takast á við hinn raunverulega vanda. Hluti stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar gekk í lið með stjórnarandstöðu og pattstaða hefur verið.
Nú er kominn fram annar vandi tilraun til sátta um sjávarútvegsmálin hefur mistekist og SA hefur sagt upp Stöðugleikasáttmálanum. SA gengur þar erinda útgerðarmanna. Með þessu er verið að skapa upplausn í stjórnmálum, er hún þó ærin fyrir. Þetta virðist gert til þess eins að tryggja eignarhald fárra á kvótanum og spila enn frekar á þá óeiningu sem hefur ríkt á stjórnarheimilinu. Jóhanna segir réttilega að grátkór LÍÚ eigi ekki að stjórna samfélaginu, það vald sé í höndum ríkisstjórnarmeirihlutans. En er hann til staðar?
Stöðugleikasáttmálinn var forsenda þess að launamenn sættu sig við frestun umsaminna launahækkana. SA hefur með ákvörðun sinni rofið þá sátt og launamenn krefjast þess að þeirri launahækkun sem frestað var um síðustu áramót komi nú þegar til framkvæmda. Launamenn hafa staðið við sitt og sýnt fulla ábyrgð og hafa þegar axlað sínar byrðar.
Sú staða sem upp er kominn getur haft mun alvarlegri afleiðingar en margir virðast gera sér grein fyrir. Aðilar vinnumarkaðs hafa síðan Þjóðarsátt fylgt svokallaðri raunsæisstefnu, það er stöðugleika og áherslu á að tryggja kjarabætur með aukinni framleiðni.
Þessi stefna hefur leitt til þess staða kaupmáttarauka hefur verið tryggari en áður var. Þessi staða getur leitt til þess að samstaða fylkinga launamanna riðlist og nú verði horfið til fyrri daga við taki víxlhækkanir launa og verðlags.
Kvæðið um veginn
Og við gengum af stað
Það var gamall vegur
og gott að rata.
Og við hugsuðum djarft:
Nei, við hræðumst það ekki,
þetta er heimalings gata
Svo héldum við áfram.
Í hópnum var enginn
huglaus né tregur.
Svo námum við staðar:
Það var auðn og myrkur
á allar hliðar,
og enginn vegur.
Steinn Steinarr
8 ummæli:
Sæll Guðmundur.
Samstöðuleysið stafar af afstöðu ríkisstjórnarinnar varðandi skuldavanda heimilanna og afstöðu forsvarsmanna verkalýðshreyfingarinnar (alla vega ASÍ) sem sinnir ekki hagsmunum félagsmanna en er frekar unhugað um að Samfylkingin sé við völd.
Í stað þjóðarsáttar var stofnað til vanheilags bandalags ríkisvalds, fjármálavalds (SA) og fulltrúa lífeyrissjóða verkalýðshreyfingarinnar (líka fjármálavald). Almenningur og launþegar almennt "gleymdust". Þetta sætta sig ekki allir við, ekki einu sinna allir stjórnarliðar enda var ríkisstjórnin ekki kosin til að ganga gegn hagsmunum almennings.
Það er í raun grátlegt að SA skuli vera þvingað í þessa stöðu og þá um leið samtökum launamanna.
Það, hversu langt LÍÚ er tilbúið að ganga til að verja eignarhaldið yfir kvótanum er í raun óhugnanlegt, en kemur ekki á óvart, En staða SA er mjög umhugsunarverð svo ekki sé meira sagt, eru þeir í raun, tilbúnir að hleypa öllum vinnumarkaðnum í uppnám og fara afur til níunda áratugarins þegar samið var um hundraða prósenta launahækkana en um leið mikilla kaupmáttarrýrnunar??? eingöngu til að verja hagsmuni LÍU ??? Ef svo er, hefur þá málfluttningur þeirra varðandi stöðuleika og frið á vinnumarkaði undanfarinn ár verið marklaus?? Ég held ekki og reyndar veit að svo er ekki. Við megum einfaldlega ekki láta LÍÚ komast upp með að nota þessa aðferð, það er of mikið í húfi.
Georg Georgsson ( gosi)
Útgerðarmenn og LÍÚ hafa einstakt lag á að gera sig að skotskífu í harðvítugri hagsmunagæslu með klaufalegum málflutningi. Það breytir ekki því að það er ábyrgðarhluti af vega að rótum kerfis sem að mörgu leyti hefur gefist vel með hugmyndafræði sem enn hefur ekki verið útfærð, hvað þá reiknuð út. Þá er átt við fyrningaleiðina þar sem verið er að stíga einhliða fyrstu skrefin. Þetta er auðvitað hreinræktaður glannaskapur. Auk þess munu aðgerðir sjávarútvegsráðherra veikja mjög málstað Íslands í sjávarútvegsmálum í aðildarumsóknarferli að ESB.
Jóhannes
Það er mjög mikilvægt að alla vega félögin innan ASÍ standi saman - það hefur sagan sýnt okkur. Spurningin er bara hversu lengi við ætlum að láta stjórnvöld komast upp með að skauta fram hjá samráði og því að standa við sinn part af stöðugleikasáttmálanum. Daginn sem við höfum fengið nóg og grípum til aðgerða er mikilvægt að við séum samstíga!
Sverrir
Nú verður verkalýðshreyfingin að stilla sér upp réttu megin við átakalínuna. Viðbrögðin við hótunum SA bera þess því miður ekki merki að menn séu að átta sig á því hvar sú lína liggur.
Gunnar Axel
Þór Sari, alþingismaður sagði í umræðum á Alþingi vegna laga um flug-vélavirkjanna- á móti bannainu.
Deilan er við flugfélag, sem annast ferðamenn. Einfalt að flytja farþegana með öðrum félugum.
Getur einhver tekið mark á svon
hugsandi alþingismanna?
Kjarni málsins eins og oft áður.
Spurningin er hvort Ísland á leiðtoga til að forða því frá frekari heimatilbúnum áföllum.
Þó líkurnar á því virðast fara minnkandi, verður að treysta á þá sem hafa, trú, von og kjark til að marka leið til stöðugleika og framtíðar, en ekki endurtekinna vandamála fortðiðarinnar, ekki síst á sviði gengismála.
Styrking gengis (sbr. stöðugleikasáttmálann)um 30% gengissamstarf og upptaka evru, er það traust og trúverðugleiki sem Ísland þarfnast - til að geta unnið bug að á skammtímavandanum sem og langtímavandanum.
Það er sú framtíðarsýn og verkefni sem verða að takast, til að komst út úr vandanum. Annars magnast tjónið enn frekar og verður óviðráðanlegt.
Trúum á lausn og framkvæmum eftir því.
Skrifa ummæli