þriðjudagur, 23. mars 2010

Verkfallsréttur er mannréttindi

Það er alveg sama frá hvaða horni litið er á lagasetningu um bann við verkföllum, þá er verið að brjóta mannréttindi. Þetta neyðarréttur verkafólks til þess að þrýsta á um viðræður og lyktir í kjarasamningum. Ríkið er með þessu að brjóta grundvallarsamþykktir ILO, samþykktir 87 og 98 um réttinn til að gera frjálsa kjarasamninga og efna til verkfalla til framgangna krafna sinna sbr. kæru ASÍ 2001 vegna lagasetningar á verkfall sjómanna

Það má svo alltaf velta því fyrir sér hvort menn séu taktvissir og hafi nægilega yfirsýn þegar þessu vopni er beitt. Þar á við hið sama og um öll önnur vopn. En sú umræða snýst um allt annað og er matsatriði sem félagsmenn viðkomandi stéttarfélags taka afstöðu til á hverjum tíma.

Kristján Kristinsson formaður samninganefndar flugvirkja segir bann Alþingis við verkfalli þeirra, mikil vonbrigði, en þeir muni hlíta lögunum. Það sé búið að slá vopnin úr höndum flugvirkjanna. Þeir hafi ekki áhuga á Gerðardómi og vilji frekar útkljá sín mál út við samningsborðið. Ég tek fyllilega undir þessi orð.

Það er sérstök ástæða til þess að fara yfir hvernig þessi mál ganga fyrir sig, því sumir taka gjarnan þannig til orða, að það virðist vera þeirra skilningur að það sé formaður viðkomandi stéttarfélags sem hafi þetta ákvörðunarvald í hendi sér.

Stundum ganga menn svo langt að tala eins og formaðurinn semji við sjálfan sig. Ef laun eru ekki ásættanleg, þá sé við formann viðkomandi stéttarfélags að sakast. Ekki er hægt að skilja ummæli sumra öðruvísi en að formaður hafi einhendis samþykkt of lélegan kjarasamning sem hann gerði við sjálfan sig. Svo sem skiljanlegt því þannig hafa sumir formenn stéttarfélaga ítrekað talað í fjölmiðlum undanfarin misseri, þegar þeir eru að veitast að öðrum stéttarfélögum í tilraunum við að upphefja sjálfa sig standi á baki kollega sinna. Þetta er gríðarlega vinsælt hjá tilteknum þáttargerðarmönnum.

Verkfallsréttur íslenskra stéttarfélaga var settur í mjög ákveðnar skorður með svokölluðum Pálslögum Péturssonar þáverandi félagsmálaráðherra (1995-2003). Þar segir að stéttarfélög geti ekki boðað til verkfalls fyrr en kjaradeila sé kominn í hendur Sáttasemjara og hann hafi gert árangurslausar tilraunir til þess að leysa deiluna.

Þegar samningamenn stéttarfélaganna telja að ekki verði lengra komist í Karphúsinu, þá er þeim gert með Pálslögum að bera samningsdrögin undir viðkomandi félagsmenn. Í lögunum eru settar mjög ákveðnar reglur um hvernig skuli staðið að atkvæðagreiðslum.

Þar er félagsmönnum gert er að taka ákvörðun um hvort samningsdrögin séu að þeirra mati ásættanleg, það er ekki samninganefndin sem tekur þá lokaákvörðun. Ef félagsmenn samþykkja samningin þá er málið dautt, eins og menn segja í dag og samninganefndarmenn geta ekki meir. Þar með eru stéttarfélögin eru bundin friðarskildu út samningstíman. Ef upp rís ágreiningur um túlkun verður að útkljá það fyrir Félagsdómi. Ef félagsmenn aftur á móti fella samningsdrögin þá fyrst geta samninganefndarmenn leitað eftir verkfallsheimildum til að þrýsta á um að ná lengra.

Á þessu flaska allmargir þegar þeir eru með yfirlýsingar um að núverandi verkalýðsleiðtogar séu aumingjar og landeyður sakir þess að þeir skelli sér ekki í verkföll til þess að mótmæla hinu og þessu. Það var ákkurat megintilgangur laganna, þáverandi meirihluti Alþingis þótti stjórnir stéttarfélaga nýta sér verkföll um of í pólitískri baráttu gegn sitjandi ríkistjórnum.

Já hún er svo víða á ferðinni bullumræðan.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Réttast væri Guðmundur Gunnarsson að flengja þig opinberlega.

Þú ættir ekki að tjá þig um verkfallsréttinn, þar sem þú ert einn af þeim sem berð ábyrgð á því að starfsmenn Norðuráls hafa ekki verkfallsrétt í kjaradeilu sinni í dag.

Skammastu þín, svo kallarðu sjálfan þig verkalýðsforingja, þvílíkt jók.

kv.
Mjög reiður starfsmaður Norðuráls.

Guðmundur sagði...

Því hefur verið haldið fram að ég hafi samið verkfallsréttinn af starfsmönnum Norðuráls, sumir gengið svo langt að segja að ég gert það einhendis.

Þetta er ódrengilegasti og ógeðfelldasti áburður sem á mig hefur verið borinn. Þetta hefur verið leiðrétt nokkrum sinnum t.d. hér,

http://www.rafis.is/index.php?option=com_content&view=article&id=370&catid=68:2007&Itemid=135

En einhverra hluta hafa einhverjir kosið að halda þessu áfram.

Við gerð upphafssamnings Norðuráls kom fram sú ósk frá þeim aðilum, sem ætluðu að reisa verksmiðjuna að fyrsta samningstímabil yrði tvöfalt og samið yrði um friðarskyldu.

Þetta var sambærilegt og gert hefur verið við aðrar stórar og dýrar framkvæmdir. Það væri friður á meðan væri verið að koma fyrritækinu í rekstur og ljúka uppbyggingu.

Að samningsgerðinni komu öll stéttarfélögin á svæðinu. Þá voru 4 stéttarfélög á Akranesi, sem sum hver hafa síðan þá sameinast öðrum félögum. Einnig komu verkalýðsfélögin í Hvalfirði, Borgarnesi og Rafiðnaðarsambandið að gerð samningsins.

Þessi upptalning ætti reyndar segja allt sem segja þarf, varla hefur Rafiðnaðarsambandið geta lagt öll hin félögin og hvers vegna í ósköpunum ætti það að hafa gert það.

Lagt var mikið kapp á að fá verksmiðjuna í Hvalfjörðinn af heimamönnum vegna atvinnuástands, en önnur svæði voru einnig inn í myndinni, þá helst á Reykjanesi.

Kjarasamningurinn var unnin í samvinnu stjórna allra stéttarfélaganna og trúnaðarráða þeirra, eitthvað á annað hundrað manns, þar sem ekki var búið að ráða starfsmenn.

Samningur stéttarfélaganna við Norðurál á sínum tíma var í mörgu tímamótasamningur, hann gerði ráð fyrir teymisvinnu sem ekki var þekkt hér á landi og ávinnslubónusum, fyrirtækið gugnaði á að taka teymisvinnu upp og það varð til þess að hluti ábata skilaði sér ekki til starfsmanna í byrjun en það var að hluta leiðrétt fljótlega, eins og t.d. stjórnunarálögin. Einnig voru ákvæði um séreignargreiðslur sem voru þá nýnæmi.

Áður en samningurinn var undirritaður var hann borinn undir stjórnir allra stéttarfélaganna og trúnaðarráð þeirra. Ég minnist þess ekki að komið hafi fram nokkrar athugasemdir á fundum stjórna og trúnaðarráða og man ekki betur en almenn ánægja hafi verið innan félaganna með samninginn og takist hafi að tryggja að verksmiðjan yrði reist.

En í dag skiptir það mestu í þessu sambandi að samningurinn var endurskoðaður í ýmsu á samningstímanum og hann rann síðan út og endurnýjaður 2005 af samninganefnd kosinni af starfsmönnum.

Þá var rætt um ýmiskonar ákvæði viðbrögð um niðurkeyrslu verksmiðjunnar vegna hugsanlegra verkfalls eins og eru í mörgum kjarasamningum.

Niðurstaðan varð sá samningur var borinn undir alla starfsmenn í atkvæðagreiðslu. Ekki aðra, t.d. hafði ég ekki atkvæðisrétt í þeirri atkvæðagreiðslu.

Það er sá samningur sem nú er unnið við að endurnýja, það verða menn að horfast í augu við og geta ekki verið að bera á saklaust fólk uppspunnar dylgjur.

Guðmundur sagði...

Ég hef ekki hleypt í gegnum athugasemdakerfið óröksutddum dylgjum og svívirðingum um annað fólk og held mig við það

Sumir eru svo litlir karlar að þeir þora ekki að skrifa undir nafni þann óþverra sem þeir bera á annað fólk. Óþverra sem þeir nýta til þess að upphefja sjálfa sig á kostnað annarra.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur
Hún á ákaflega lágu plani umræða um kjarasamninga meðal ákveðins hóps starfsmanna hjá Norðurál. Það hefur leitt tilþess að margir vilja alls ekki koma nálægt þeim leðjuslag.

Ég hef starfað á nokkrum stöðum, en aldrei hef ég upplifað aðra eins sýndarmennsku og ástunduð er þar af þessum hópi.

Hann hefur ekkert til málanna að leggja annað órökstuddar ásakanir á hendur öðrum en hafa aldrei neitt annað til málanna að leggja nema einhver yfirboð.

Ég þykist vita hver það er sem skrifar fyrstu athugasemd og ef einhverjar aðrar hafa fylgt þá vitum við starfsmenn hvaðan þær koma.

Ég þakka þér fyri drengileg störf og virkilega góða pistla sem ég les reglulega.
Iðnaðarmaður hjá Norðurál

Nafnlaus sagði...

http://blog.eyjan.is/jenny/2010/03/23/allir-reidir/

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur
Þakka góðan pistil og ekki síður ágætt innlegg hér í aths.
Það er leitt að sjá hvernig vinnbrögð tiltekins hóps er að leiða til þess að sífellt færri vilja koma nálægt trúnaðarstörfum fyrir verkafólk hér á Grundartangasvæðinu. Þeir sem ekki eru í einhverju sammála því sem þessi hópur setur fram eru umsvifalaust beittir mannorðsdrepandi ofbeldi. Sömu vinnubrögð og maður sér í skólum þar sem sumir eru beittir einelti.

Starfsmaður á Plani hjá Norðurál sem ekki vill birta nafn sitt af framangreindum ástæðum