Er búinn að vera í viðtölum við erlenda blaðamenn undanfarna daga, t.d. franska sjónvarpsmenn fyrr í vikunni og svo útvarpsmenn í dag. Sannmerkt með þeim öllum að þeir hafa mikinn áhuga á ástandi byggingamarkaðsins, atvinnuleysið og þróun þess fyrir og eftir Hrun.
Ég hef farið með þeim um hin hálfköruðu draugahverfi í útköntum höfuðborgarsvæðisins og rætt hvernig ástandið var árin frá 2005 fram að Hruni. Tímann sem bankarnir héldu fjármunum að fólki til þess að selja íbúðina, byggja draumahúsið og kaupa draumabílinn. Fara svo á skíði og á fótboltaleik á raðgreiðslum. „Láttu okkur fá peningana þína og við skulum láta þá vinna fyrir þig. Taktu til viðbótar lán og leggðu allt inn á peningareikningana okkar. Þeir eru 100% öruggir.“
Ekki síður hvernig stjórnmálamenn og þáverandi ráðherrar gengu í lið með bönkunum og hvöttu almenning til fylgis við bankana í Íslenska efnahagsundrinu. Mærðu hina íslensku útrásarvíkinga og gerðu gys af aðvörunarorðum nágrannaþjóða og kölluðu alla innlenda aðila, sem settu upp einhver viðvörunarmerki; öfundar- og niðurtalsmenn.
Rætt var um hvaða afleiðingar þessi afstaða þáverandi stjórnvalda hefði haft fyrir fjölskyldur, sem nú stæðu uppi með hálfbyggð hús. Skulduðu tugi milljóna króna og væru með ókleifa greiðslubyrði, þar sem mánaðarleg greiðsla stæði jafnfætis niðurstöðu rausnarlegs launaseðils.
Ég var spurður að því hvort Icesave væri hið stóra „excuse“ íslenskra stjórnmálamanna, sem vildu komast hjá því að fjalla um eigin gjörðir og fyrri fullyrðingar um velgengni Íslands. Við ræddum þau eftirmenntunarnámskeið sem erlendir menn hefðu átt að sækja ef þeir skildu ekki sérstöðu Íslands, sem hefði verið komið svo langt fram úr öðrum löndum. Væri vitnað til ummæla fyrrverandi íslenskra ráðherra, seðlabankastjórnarmanna og Viðskiptaráðs.
Leikurinn í kringum Icesave virðist hafa vaxið stig af stigi í ofsafenginni og stjórnlausri umræðu, sem hefur einkennst af dramatískum stóryrtum fullyrðingum og gekk svo langt að margir einstaklingar trúa því að lausn vanda Íslands sé falinn í því að kjósa sig frá Icesave og senda AGS heim.
Þar með hyrfi fjárlagagatið stóra og við þyrftum ekki að skera niður í velferðakerfinu. Það væri annarra en íslendinga að greiða þær skuldir, og sjá um að við getum búið hér eins ekkert hafi í skorist, til viðbótar 7 földu umfangi íslenska hagkerfisins sem erlendir aðilar hefðu þegar tapað á íslenska efnahagsundrinu. Það væri sérstaða Íslands sem umheimurinn skyldi ekki nú frekar en fyrri daginn, en myndi skilja eftir kosninguna á laugardag.
Sérstaða Íslands væri að mati stjórnmálamannanna ekki lengur fólgin stórfenglegu Efnahagsundri, heldur í stóru NEI sem myndi valda straumhvörfum um gjörvalla heimsbyggðina. Nú væri Ísland ekki bara komið fram úr öðrum með efnahagsundri, heldur væri stórt íslenskt NEI það sem erlendar ríkisstjórnir ættu eftir að uppgötva og óttuðust.
Hér er á ferð hinn óendanlega mikli fantaskapur íslenskra stjórnmálamanna í garð almennings, sem ekki ætlar að linna. Vitanlega vill íslenskur almenningur trúa því í sínum mikla vanda, að til sé einföld og þægileg lausn. Áður var fantaskapurinn fólgin í hvatningu til almennings að nýta sér sérstöðu Íslenska efnahagsundursins til þess að byggja draumahúsið og skuldsetja sig. Núna er fantaskapurinn fólginn í því að vekja væntingar, sem takmarkaðar líkur eru til þess að standist.
Enda eru stjórnmálamenn komnir í miklar ógöngur með „excusið“. Það væri orðið að sjóðheitri kartöflu í höndum þeirra, svo notað sé þeirra eigin orðbragð og litið til mótsagnarkenndra fullyrðinga í hverjum fréttatíma RÚV á fætur öðrum undanfarna daga. Fyrir dyrum stæðu kosningar sem engin skildi hvaða tilgang hefði, og þaðan af síður hvað NEI þýddi. Nema kannski örfáir íslenskir stjórnmálamenn sem teldu sig vera handhafar hins algilda sannleika. Með öðrum orðum, lifa að hætti meistara Altungu í sögu Voltaires, "í blekkingu og loka augunum fyrir því hversu hörmulegur heimurinn í rauninni er. Núið sé besti mögulegi veruleikinn."
Samskonar viðbrögð einkenna stjórnmálamennina nú og áður. Engin má mótmæla þeirra sannleika. Það væri ekki bara öfundarfólk, heldur Landráðamenn. Hvorki meir eða minna og óvinir alls þess sem íslenskt væri.
En það eru stjórnmálamennirnir sem hafa nú þegar valdið því að það er íslenskur almenningur sem tapar, alveg sama á hvern veg kosningin á laugardaginn fer. Kostnaður Íslands af athöfnum stjórnmálamanna einskorðast ekki bara af athöfnum þeirra fyrir Hrun, heldur fór hann hratt vaxandi eftir Hrun.
Atvinnulífið fær enga fyrirgreiðslu og getur ekki endurfjármagnað sig, nema á afarkjörum, sakir þess að skuldaálag Íslands er komið í ruslakörfuna og hér ríkir fullkominn glundroði.
Ég sagði frökkunum að ástæða væri að óttast viðbrögð almennings þegar ekki væri lengur til fóður í áframhaldandi moldveður. Þau gætu orðið ofsafengin og mun fjölmennari en búsáhaldabyltingin var.
17 ummæli:
Þetta er mjög góð grein
Guðmundur
Sá fáranleiki sem við höfum orðið vitni að fullkomnast á laugardaginn. Múgæsing er þvílík orðin að fólk mun flykkjast á kjörstað fullt af ættjarðarást, fullviss um að nú mun heimurinn sjá hvernig á að mótmæla óréttlæti. Eflaust munu einhverjir skála um kvöldið vímaðir í sinni þjóðernishyggju. Þær milljónir manna sem hafa verið að mótmæla óréttlæti á Spáni, Grikklandi og í öðrum löndum kunna einfaldlega ekki að mótmæla þannig að mark sé á þeim takandi líkt og við. Við sem munum sem einn maður mótmæla markleysu með stóru NEI-i...en bíðið við það er hið táknræna gildi sem skiptir máli. Íslendingar mun breyta heiminum til betri vegar...við erum frelsararnir. Eins gott að það verði enginn þunnur og blúsaður á Sunnudeginum þegar við áttum okkur á því að lífið heldur áfram og vandamálin hafa ekki horfið heldur kannski orðið bara hrannast upp á meðan við vorum í sigurvímu.
Mjög gott. Við eigum þetta bara skilið. Flytjum svo aftur í torfkofa og lifum á fjallagrösum með Birgittu.
Frábær pistill Guðmundur
Lárus
Frábær grein hjá þér Guðmundur
Guðrún
Mjög gott, svipað og ég hugsa, fyllir það bara út! Þetta þyrfti að birtast víðar. Í Mogganum!!!
Þorgrímur
Þetta er fjandi góð grein. Það ættu sem flestir að lesa hana.
Margrét Rún
Framúrskarandi pistill. Margir tala af viti og skynsemi en breytir það einhverju? Menn virðast fremur vilja hlusta á ofdekruðu pabbastrákana á fullu við að reyna að sanna sig á pólitísku framabrautinni. Og því mun skrípaleikurinn halda áfram, a.m.k. þangað til verulega fer að syrta að á þessu vesalings landi.
Maður var nú ekki var við að verkalýðsfélögin væru mikið að passa uppá fólkið sitt og vara það við "hættunum".Þið lékuð með þessum köllum eins og engin væri morgundagurinn. Eruð jafnspilltir og þeir sem komu okkur á kaldan klakan.
Það er greinilegt a þú hefur ekki fylgst vel með athöfnum verkalýðsfélaganna.
Þú ættir m.a. skoða fyrstu greinarnar hér á þessari síðu sem eru skirfaðar fyrir hrun og svo vorið þegar samningarnir voru gerðir, svo gætir þú skoðað t.d. heimasíðu RSÍ og ASÍ frá þessum árum og þá sérð þú að þetta er fjarri öllu sanni sem þú ert að segja.
Virkilega góð grein þetta. Eins og talað úr mínum munni. Bara margfallt betur orðað! Það þarf að birta hans víðar.
Og mikið óskaplega er gott að sjá að ekki allir hafa tapað sér í þessari geðveiki!
Sæll Guðmundur
Rangar eru fullyrðingar þínar varðandi skuldatryggingarálagið. Skuldatryggingarálagið hefur farið stöðugt lækkandi frá því forsetinn synjaði Icesave lögunum staðfestingar. Síðast þegar ég gáði var það dottið niður í 4,8%.
Það er nú einfaldlega svo að því minna sem þú skuldsetur ríkið því meiri líkur eru á að ríkið geti staðið við sínar skudlbindingar.
Því meiri líkur sem eru á að ríkið geti staðið við sínar skuldbindingar, því lægra er þessi tryggingi sem heitir skuldatrygginagálag.
Þess vegna lækkar skuldatryggingarálagið nú þegar allar líkur eru að því að ríkið taki ekki á sig Icesave skudlbindingarnar.
Lagntímahorfur ríkisjóðs eru svo miklu betri án Icesave skuldanna.
Þegar langtímahorfur eru góðar þá er auðveldara að semja um skammtímaskuldir.
Að samþykkja Icesave og ætla síðan að leysa skammtímavanda ríkissins er dauðagildra.
Góð greining hjá Guðmundi, takið eftir niðurlagsorðunum. Ég spáði eftirfarandi framvindu fyrir 18 mánuðum: Fyrst efnahagshrun, svo stjórnmálahrun, loks það ægilegasta af öllu: Samfélagshrun. Ég óttast mjög að verða sannspár.
Stefán Jón.
Það er leiðinlegt þegar menn eru að reyna villa um fyrir saklausu fólki með því að þykjast vita eitthvað.
Ekkert lát hefur verið á hækkunum á skuldatryggingaálagi ríkisins frá því í haust vegna Icesave-óvissunnar, þá fór það lækkandi og var í október 350 punktar en nú komið upp fyrir 1000 punkta.
Skuldatryggingaálag á ríkissjóð í 703 punktum samsvarar því að reiða þurfi fram rúmlega 7 % af nafnverði skuldabréfs til að tryggja eiganda þess gegn greiðslufalli næstu 5 árin.
Gríðarlega sterkur pistill og vel skrifaður.
Takk KÞG
Takk fyrir þennan pistil, og þá elju sem þú hefur sýnt að halda þér við þetta efni um nokkuð skeið.
Næsta spurningin er hverjir verða til þegar kallað er eftir raunverulegri endurnýjun.
The revolution will not be televised.
http://www.gilscottheron.com/lyrevol.html
Góður pistill Guðmundur.
Mikil er ábyrgð lýðskrumaranna þegar feita neiið verður kunngjört.
Skrifa ummæli