þriðjudagur, 4. maí 2010

Lífeyrissjóðirnir þeir einu sem eftir standa

Í áhugaverðri grein Gylfa Arnbjörnssonar á Pressunni um lífeyrissjóðina kemur m.a. fram :

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um ársreikninga lífeyrissjóðanna fyrir árið 2008, en tölur fyrir síðasta ár liggja ekki ennþá fyrir, kemur margt forvitnilegt fram sem vert er að skoða. Þar má sjá nafnávöxtun sjóðanna eftir því hvort um lífeyrissjóði með ábyrgð launagreiðenda (að mestu opinberu lífeyrissjóðirnir), lífeyrissjóðanna á almennum vinnumarkaði og ,,frjálsu‘‘ lífeyrissjóðina.

Opinberir líf.sj. eru með -8.5% , en Alm. líf.sj. eru með -8.5% og hinir svokölluðu ,,Frjálsu líf.sj.‘‘ eru með -15,5%


Áfallið vegna fjármálahrunsins virðist mun minna hjá þeim sjóðum, sem starfa á grundvelli kjarasamninga þar sem stjórnir eru kosnar af hálfu verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda, en þessara svokölluðu ,,frjálsu‘‘ lífeyrissjóða þar sem stjórnir eru kosnar á ársfundum beint. Neikvæð nafnávöxtun þeirra fyrrgreindu var 8,5% á meðan þeir síðarnefndu voru með neikvæða nafnávöxtun um 15,5%.

Rétt er að skoða þessar tölur um neikvæða nafnávöxtun sjóðanna á árinu 2008 í samhengi við það að stór hluti fjármálakerfisins á Íslandi hrundi – hvort heldur um var að ræða banka, sparisjóð, fjárfestingarfélag, eignarhaldsfélag eða aðra fjármálaumsýslu. Öll þessi fyrirtæki fóru ekki bara á hausinn heldur töpuðu þau bróðurparti eigna sinna.

Þannig má ætla m.v. mat skilanefndanna að bankarnir hafi tapað um 65-70% af öllum eignum sínum og Landsbanki Íslanda trúlega nærri 80%! Séð í þessu samhengi er ljóst að lífeyrissjóðirnir eru í raun eini hluti fjármálakerfisins sem ennþá stendur uppi, þrátt fyrir áföll. Það eru þeir sem standa ennþá uppi – nánast öll hin fjármálafyrirtækin eru í gjaldþrotameðferð.

15 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ástæðurnar eru þær að frjálsu sjóðirnir hafa verið neyddir til að segja fólki satt og hafa því afskrifað kröfur í meira mæli, sem kemur auðvitað niður á ávöxtun.

Nafnlaus sagði...

Áhugaverð greining. Hvernig færðu samt út að skv. mati skilanefnda hafi bankarnir taðað 70% allra eigna og Landsbankinn 80% eigna sinna. Mér sýnist heildartapið liggja á bilinu 55 - 60%. Glitnir áætlar að um 30% fáist uppí almennar kröfur þegar búið er að greiða allar forgangskröfur (innlán) en þær námu ca. 30% af efnahag Glitns sem þýðir að heildar endurheimtur eru ca. 40% eða 60& tap. Svipaðar tölur eru hjá Kaupþingi. Hjá Landsbankanum eru forgangskröfur miklu hærri vegna Icesave eða nálægt 50% og mat skilanefndar að 90% fáist uppí það sem þýðir 45% heildar endurheimtur eða 55% tap sem er minna en hjá Glitni og Kaupþingi. Óþarfi að gera ýkja þetta, nógu djöfullegt er þetta samt.

Nafnlaus sagði...

Óskaplega getur maður nú vorkennt þessum aths. mönnum sem aldrei sjá neitt nema eitthvað ljótt og það skal vera ljótt sama á hverju gengur.
Nú eru þeir búnir að úthúða stjórnendum almennu lífeyrissjóðanna og svo er þeim bent á að það standist ekki öll gífuryrðin, en þá er það bara lygi eða eitthvað annað verra.
Litlir kallar

Þetta er góð grein Guðmundur Takk Úlfur

Guðmundur sagði...

Það er hagdeild ASÍ sem vann þessar tölur og ég hef aldrei staðið þá að því öðru en réttum tölum, þannig að ég trúi þeim fullkomlega ekki þínum tölum
Kv GG

Nafnlaus sagði...

Guðmundur nú skaustu yfir markið. Þessar tölur eru einfaldlega alrangar hjá þér. Það kemur fram í skýrslu Alþingis svo dæmi sé tekið að eignir Landsbankans voru þær verðmætustu og heildartapið þar verður það minnsta. Það að stinga svo í hausnum í sandinn og segja að tölurnar frá ASÍ séu heilagar eru þér ekki til framdráttar. Ég skora á þig að leiðrétta þetta ef þú vilt láta taka þig alvarlega hér í bloggheimum svo í almennri umræðu. Læt hér líka fylgja með link sem var í fréttum í gær t.d. hér á eyjunni http://eyjan.is/blog/2010/05/03/nidurfaersla-eigna-bankanna-25-milljonir-a-hvert-mannsbarn-virdi-eigna-landsbankans-mest/. Verður mjög fróðlegt að sjá hvort þú þrjóskast að halda þig áfram við rangar tölur ASÍ.

Nafnlaus sagði...

Góðir punktar,

Fróðlegt væri að skoða þróun þess mikla eignaskaða sem orðið hefur hér á landi í samanburði við skaðann innan landa með stóra gjaldmiðla sem þola utanaðkomandi áföll án þess að allt hrynji eins og hér gerðist.

Hvergi í veröldinni hefur það gerst áður að hlutabréfamarkaðir hrynji svo gersamlega, eins og hér á landi sem að stórum hluta má rekja til hruns krónunnar, sem skoppar eins og korktappi við minnstu breytingar.

Þetta stafar m.a. af því að engar atvinnugreinar þola 100% gengisfall án þess að hrynja með. Í þessu sambandi skal þess getið að hrun atvinnugreina og heimila er ekki lokið fari gengið ekki fljótt til baka.

Það er sérstakt rannsóknarefni og þó fyr hefði verið, hversu mikinn þátt ónýtur gjaldmiðill á í þessu mikla hruni og um leið mestu eignaupptökum sem átt hafa sér stað sem kemur fram í mörgum myndum m.a. hruni fjárfestinga lífeyrissjóða, þar sem hrun fyrirtækja varð miklu meira en í löndum innan evrunnar.

Sama á við um skuldir fyrirtækja og heimilanna sem hækkuðu um tugi eða 100% prosent, en engar slíkar hækkanir áttu sér stað í löndum innan evrunnar, ekki einu sinni innan Grikklands. Ef skaði Íslands hefði orðið í Grikklandi væru þar nú sennilega blóðug átök..

Gríðarleg skuldahækkun margra fyrirtækja varð einnig til þess að þau urðu gjaldþrota eins og mörg heimili og þess vegan töpuðu svo margir lífeyrissjóðir miklu mun meira en almennt innan landa evrunnar.

Er ekki tími til kominn að varpa skýrara heildarljósi á tjón þjóðarinnanr með séerstakri hliðsjón af ónýtum gjaldmiðli og þess tjóns sem krónan hefur orsakað í þessu hruni. Eða er kannski enn bannað að ræða þann vanda eins og fyrir hrun?? Hefur kannski ekkert breyst hvað það varðar. Hverjir eru það nú sem banna slíkar umræður, hvers vegna, og stefna þjóðinni þar með í enn meira tjón.

Ef mögulegt á að vera að fyrirbygggja slíkt skelfilegt eignartjóna aftur sem og að koma okkur upp úr núverandi vanda er eitt brýnasta verkefnið að ræða vanda krónunnar skaðann af henni í hruninu, sem og leiðir til að komast út úr núverandi kreppu sem fyrst á sem bestan hátt, án þess að stefna þjóðinni í frekari voða.

Bragi Jóhannsson sagði...

Þú ert að horfa eitt ár til baka, í stað þess að bera saman söguna frá upphafi frjálsra sjóða.

Það er og verður aldrei eðlilegt að hafa atvinnurekendur að vasast í mínum peningum. Það er ekki heldur eðlilegt að verkalýðsfélög séu í þessu sama hlutverki.

Þið eigið ennþá langt í land með að standa undir sömu ávöxtun og næst í gegnum verðtryggð innlán í bönkum. Samt talar þú fyrir kostum þessa fyrirkomulags.

Nafnlaus sagði...

Ég er ekki að biðja þig að trúa mínum tölum heldur bara því sem er opinbert. Ef þessar tölur um tap eigna sem þú nefnir væru réttar myndi engin bankanna geta greitt uppí almennar kröfur en mat skilanefndanna, og þeirra sem kaupa kröfur á gömlu bankanna, er að 12 - 30% fáist uppí almennar kröfur eftir að forgangskröfur hafa verið greiddar. Varla hefur ASÍ betri upplýsingar en skilanefndirnar, eða hvað?

Nafnlaus sagði...

Hvaða endemis rugl er þetta hjá þér Guðmundur! Hefur þú ekki skoðað upplýsingar frá skilanefndum og efnahagsreikninga nýju bankanna? Finnst þér þetta ábyrgt af manni í þinni stöðu?

Ástandið er nógu slæmt þótt menn eins og þú séuð ekki að bulla tóma vitleysu - nóg er af vitleysunni og vitleysingjum samt.

Nafnlaus sagði...

Mjög góð grein hjá Gylfa um lífeyrismálin
Elva

Guðmundur sagði...

Bendi Barða á hvernig lífeyrisjóður rafiðnaðarmanna hefur staðið sig gagnvart sínum umbjóðendum í pistli hér aðeins neða á síðunni

Finnst niðurstöður Gylfa áhugaverðar og umhugsunarverðar

Guðmundur sagði...

Bendi Barða á hvernig lífeyrisjóður rafiðnaðarmanna hefur staðið sig gagnvart sínum umbjóðendum í pistli hér aðeins neða á síðunni

Finnst niðurstöður Gylfa áhugaverðar og umhugsunarverðar

Nafnlaus sagði...

Takk kæri Guðmundur

Alltaf frábær blog sem þú skrifar. Þessar tölur frá ASÍ klikka aldrei frekar en að sólin komi upp á morgnanna:)

Kær kveðja Sannleikurinn reynist sanna bestur

Guðmundur sagði...

Minni á að þetta er úr grein eftir Gylfa Arnbjörnsson. Skil vel að þeir sem völdu Frjálsu lífeyrissjóðina séu svektir því þeir réttlætu tilfærslu sínar með því að úthúða almennu lífeyrissjóðunum, en nú blasir hið gangstæða við.

Það eru svo margar tölur á sveimi og Seðlabankinn hefur ekki birt sundurliðaðar upplýsingar um efnahagsreikninga bankakerfisins eftir einstaka bönkum.

Að meðaltali voru innlán bankanna 29% af skuldum þeirra (og eignum) í lok september 2008.

Bæði Kaupþing og Glitnir áttu raunverulegar eignir fyrir öllum innistæðum sínum og ekki mun reyna á Tryggingasjóð innistæðueigenda vegna þeirra. Kaupþing hefur gert Edge reikninga sína upp í Hollandi og Þýskalandi skilst mér.

Það sama verður ekki sagt um Landsbankann – ástæða þess að Icesave lendir á Íslensku þjóðinni er að bankinn á svo lítið af eignum upp í innistæður (sem njóta forgangs skv. neyðarlögunum) að ríkið þarf að skrifa upp á sjálfstæða ábyrgð.

Það kann að vera að ályktað sé um of frá þessu meðaltali, að Landsbankinn hafi í reynd verið með miklu hærra hlutfall innlána en aðrir.

Ég fæ ekki séð að þessi tilvitnaða tafla hjálpi mér að skilja málið betur, sé hún rétt getur þjóðin ekki verið í miklum vanda með Icesave, eins og ég svo sem oft bent á.

Aðalatriðið er, að fjármálakerfið hrundi að öllu leyti nema lífeyrissjóðirnir og það var ekki bara eigið fé sem tapaðist (hlutur eigendanna) heldur margfalt meira.

Guðmundur sagði...

Hann er aldeilis fáránlegur málflutningur þessa "Þú skaust yfir markið" hér ofar.

Á heimasíðu skilanefndarinnar er að finna gömlu ársreikninga Landsbankans.

Í lok júní 2008 voru innistæður þar 40% af heildareignum, þannig að ef taflan sem þessi nafnlausi "Þú skaust yfir markið" vitnar til er rétt, ætti þjóðin ekki að vera í neinum vandræðum með Icesave málið því 59% afskrift af 100 þýðir að þær eignir sem eftir eru nema 41% af eignum og 1% væri þá eftir til að greiða öðrum kröfuhöfum.

Skilanefndin taldi hins vegar, og ítrekaði fyrir nokkru óbreytta afstöðu, að líklega myndi eignir bankans duga fyrir 70-90% af Icesave skuldbindingunni – og þá er bara miðað við lágmarkstrygginguna en ekki öll innlánin í UK og Hollandi og ekkert frá fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum.

Ég skil því ekkert í þessari framsetningu!