mánudagur, 17. maí 2010

Hlutverk vinnustaðaskírteina

Það er greinilegt að sumir átta sig aldeilis ekki um hvað Vinnustaðaskírteini snúast. Þetta mál hefur alllengi verið til umræðu og allstaðar fengið jákvæð viðbrögð, bæði meðal fyrirtækja og launamanna. Enn eina ferðina ætla þingmenn að eyðileggja góð mál með bullumræðu byggðri á fullkomnu þekkingarleysi upphrópunum og dylgjum. Það var vitað að einstaklingar sem hafa verið að spila kerfið myndu hafa horn í síðu þessa máls og ljóst að þeir eiga sinn málsvara.

Málið snýst um að verja réttindi þeirra sem minnst mega sín á vinnumarkaði og skipta má því í tvö meginatriði. Það hefur borið á því að kaupendur þjónustu og húsnæðis hafa verið sviknir þegar í ljós hefur komið að einstaklingar eða fyrirtæki hafa selt þeim þjónustu þar sem því var haldið fram að um væri að ræða fagmenn, en síðar kom í ljós að svo hafði ekki verið. Samkeppnisstaða fyrirtækja er skert á grundvelli þess að sum fyrirtæki nýta sér þekkingarleysi starfsmanna til þess að ná af þeim lögbundnum réttindum og niðurbjóða verk á kostnað þeirra lægst launuðu.

Þessi umræða jókst umtalsvert eftir að hingað voru fluttir þúsundir erlendra manna á vegum starfsmannaleiga, sem margar hverjar reyndust ástunda afskaplega óvönduð vinnubrögð. En það hefur einnig komið í ljós að allmargir íslendingar ástunda einnig þessa iðju. Sé mönnum gert að vera með vinnustaðaskýrteini sem er útgefið að opinberum aðila, þá getur verkkaupi einfaldlega farið fram á að viðkomandi framvísi því. Þetta á vitanlega sérstaklega við um verkefni þar sem það skiptir máli að viðkomandi hafi þekkingu á verkefninu, eins og t.d. raflagnir eða byggingu húsa þar sem fólk er að leggja fram ævisparnað sinn eða um er að ræða öryggi fólks.

Hitt atriðið er að allnokkrir hafa ástundað þá iðju að fara illa með launamenn, stela af þeim hluta umsaminna og lögbundinna kjara. Margir átta sig ekki á þessu og ég verð að fara hér yfir nokkur atriði til útskýringar.

Útborguð laun eru ekki öll laun viðkomandi launamanns. Vinnuveitandi heldur eftir um það bil 37% af launum til þess að standa skil á eftirfarandi atriðum. Ástæða er að geta þess sérstaklega að ekkert af neðangreindum gjöldum renna til stéttarfélags frá launamanni. En í bullumræðunni er dylgjað með því að hér sé einvörðungu verið að verja hagsmuni stéttarfélaga, því fer víðsfjarri.

Allir eiga rétt á 24 – 30 daga orlofi á hverju 12 mánaða tímabili á föstum launum, til þess að það geti orðið heldur vinnuveitandi eftir 11 – 13% af launum.

Launamenn eiga rétt að fríi á launum á lögbundum frídögum (rauðir dagar á svörtum) sem eru að meðaltali 11 árlega, þetta samsvara um 5 - 6% af launum.

Launamenn eiga rétt á 30 – 60 dögum í veikindum á föstum launum, þetta samvarar um 6 – 7% af launakostnaði.

Fyrirtækjum er gert að greiða skyldutryggingar og í sjúkrasjóði til þess að verja starfsmenn í slysum og langvarandi veikindum. Í þessu eru einnig tryggingar í atvinnuleysistryggingasjóð.

Fyrirtækjum er gert að greiða 12% í lífeyrissjóð starfsmanns

Launamenn eiga rétt á a.m.k einum mánuði í uppsagnarfresti, kostnaður er ákaflega mismunandi.

Launamenn í eðlilegu ráðningarsambandi eiga rétt á fullum daglaunum.

Launamenn eiga rétt á öruggu vinnuumhverfi og aðbúnaði.

Á undanförnum árum hefur ítrekað komið í ljós að fjölmörg fyriræki hafa ekki staðið skil á ofantöldum atriðum, heldur einungis greitt starfsmanna lágmarksdaglaun og reyndar oft lægri upphæð, þann tíma sem starfsmaður er á vinnustað. Ekki greitt yfirvinnu, ekki greitt laun á lögbundum frídögum ekki greitt orlof, ekki skyldutryggingar og rekið fólk samstundis ef það tilkynnir veikindi.

Algengt er að þessi fólki er bannað að hafa samband við stéttarfélög og það kostar uppsögn ef það er gert. Á undaförnum misserum hefur í vaxandi mæli komið í ljós að þegar launamaður hefur leitað til heilbrigðisstofnana vegna slysa eða langvinnra veikinda að ekkert hefur verið greitt af honum til samfélagsins og hann nýtur þar engra réttinda.

Eftir að atvinnuleysi jókst hefur komið fram að ekki hafði verið skilað tryggingargjöldum og margir eiga engin réttindi í atvinnuleysistryggingasjóð. Á hlutlausum stað sem gefur út Vinnustaðaskírteini getur starfsmaður fengið allar þessar upplýsingar og það er fylgst með því að launamaður hafi lögbundin réttindi í samfélaginu.

Það eru nokkrir sem hafa kosið að gerast sjálfstæðir verktakar og reyndar ekki óalgengt að óprúttin fyrirtæki nýti sér þá leið að bjóða starfsmanni að skrifa upp á að hann fái nokkra hækkun launa gegn því að skrifa upp á að hann muni sjá um framangreind atriði.

Ef við tökum einfalt dæmi, hafi maður haft 1.000 kr. í lágmarkslaun sem ráðinn starfsmaður þá þarf hann að fá 1.400 kr. sem verktaki til þess að hafa eftir sem áður umsaminn lágmarkskjör. Ekki er óalgengt að starfsmenni sé boðin t.d. 15% launahækkun skrifi hann upp á að hann afsali sér öllum framangreindum atriðum. Þá er launamaður að semja í raun um 25% launalækkun. Fyrirtækið stingur þeim peningum í vasann.

Þegar starfsmaður verður síðan fyrir slysi eða langvinnum veikindum lendir það á samfélaginu að bjarga honum, því starfsfólk heilbrigðistofnana hendir ekki sjúku fólki út á götuna.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jafn nauðsynlegt og fjármálaeftirlitið. Fyrir nokkrum árum var krafan: "Minna eftirlit í viðskiptalífinu". Eftirá var sagt: "Eftirlitið brást". Lærum af reynslunni. Svik og prettir einskorðast ekkert bara við bankageirann. Það væri einfeldni að trúa því. Góð grein hjá þér!

Nafnlaus sagði...

Getur einhver útskýrt fyrir mér hvers vegna Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði fyrirkomulagið varðandi vinnustaðaskírteinin vera eins og í Austur-Þýskalandi hér áður og fyrr?

Þræll #83

Nafnlaus sagði...

þessu er svarað í greininni hér að neðan:

"Alþekkt er að þingmenn Framsóknarflokksins eru ekki í neinum samskiptum við samtök launamanna og fram kemur í málflutning þeirra fullkomið þekkingar- og skilningsleysi á samskiptum á vinnumarkaði."

þræll #83

Nafnlaus sagði...

Ihre papieren bitte!

Nafnlaus sagði...

Hver gefur út vinnustaðaskírteinið. Hvað kemur fram í skírteininu. Er hægt að birta formið hér á síðunni. Er þetta allt tilbúið í framkvæmd.

Guðmundur sagði...

Nafnlaus - 02:59. Vanti svona upplýsingar googlar maður og finnur allar upplýsingar á nokkrum sek.
Þetta má er búið að vera í umræðunni á þriðja ár og hefur ítreksða komið fram í umræðunni. Forsendur málsins eru raktar hér pistlinum. Félagsmálaráðneyti mun sjá um þetta, gagnagrunnurinn verður tengdur við skrár menntamálaráðuneytis vegna stafsréttinda og skattstjóra