miðvikudagur, 12. maí 2010

Fækkun ráðuneyta

Það er greinilega í uppsiglingu heilmikill darraðardans í kringum fækkun ráðuneyta, það blasir við í ummælum fyrrv. stjórnarþingmanna á Alþingi þessa dagana, t.d. fyrrv. aðstoðarmanns Geirs Haarde. Þeir eru að undirbúa varnir gagnvart sínum embættismönnum. Við munum líklega fá að heyra fullyrðingar á borð við pólitískar ofsóknir og fleira í þeim dúr eins og okkur var boðið upp á úr þeim ranni þegar bent var á að taka þyrfti til í Seðlabanka. Kerfið mun grípa til varna.

Það hafa ítrekað komið fram kvartanir hjá þeim sem þurfa að eiga samskipti við framkvæmdavaldið, eins og t.d. ASÍ og SA, yfir þeirri óheillavænlegu þróun sem átti sér stað á undanförnum áratug þegar ráðherrar og æðstu embættismenn fóru að virða Alþingi einskis.

Alþingi virðist vera til þess eins að afgreiða ákvarðanir sem nokkrir ráðherrar ásamt tilteknum embættismönnum höfðu þegar tekið án nokkurrar umræðu á Alþingi, samið um það lagafrumvarp og mættu svo með það á Alþingi og rúlluðu því í gegn. Svöruðu allri umræðu með útúrsnúningum og þrætubókarlist. Þar má reyndar vitna til ummæla nokkurra þáverandi stjórnarþingmanna, sem börmuðu sér yfir tilgangsleysi hlutverks sínu.

Velta því fyrir sér hvort sé afleiðing eða orsök. Gáfust ráðherrar og embættismenn upp á því að eiga vitræna umræðu í Alþingi, eða hefur umræðan á Alþingi þróast á þennan veg sakir þess að þingmenn upplifa tilgangsleysi sitt og hafa þá tamið sér tilgangslausa aulabrandara og bullumræðu eins og einkennir alla umræðu á Alþingi til þess að gera eitthvað, bara eitthvað?

Atburðir undanfarinna missera hafa flett ofan af hverri ormagryfjunni á fætur annarri. Hér ríkir klíkuskapur. Kerfið er spillt og snýst um að tryggja völd. Æðstu embættismenn taka hiklaust viljayfirlýsingar ráðherra og umturna þeim. Fjárlög í engu virt. Þessu þarf að breyta og gera "Kerfið" skilvirkara og öflugra. Það blasti við í upphafi Hrunsins hversu getulaust það var í raun.

Þjóðinni hefur margoft ofboðið vinnubrögð „Kerfisins“ og full þörf á að taka þar til. "Það var ríkið sem brást", hefur Páll Skúlason réttilega margoft bent á. „Ríkið á að setja reglur til þess að verja hagsmuni almennings og framfylgja þeim“.

Þar má einnig benda á ábendingu um vinnubrögð frá umboðsmanni Alþingis, þegar hann einnig benti á að lagasetningu Alþingis sé verulega ábótavant, allt að þriðjungur laga sem Alþingi setji stangist á við stjórnarskrá eða gildandi lög.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

lEITT AÐ GETA EKKI LESIÐ BLOGGIÐ ÞITT FYRIR sAGA cAPITAL, SAKNA ÞESS MIKIÐ..
aNNA bJÖRNSDÓTTIR