þriðjudagur, 25. maí 2010

Handónýtt Alþingi

Ríkisstjórnin hefur fengið allan þann meðbyr hún þurfti og engin hefur fengið jafnmikinn stuðning. Allir aðilar vinnumarkaðs komu saman fyrir ári síðan og lýstu sig tilbúna til sameiginlegs átaks með stjórnvöldum til þess að takast á við vandann.

Þessi ríkisstjórn er ónýt og henni á að henda, heyrðist víða í dag á formannafundi aðildarfélaga ASÍ. Við verðum að fá kosningar í haust. Það liggur fyrir að kosningarnar í fyrra voru of snemma. Það staðfestir staðan á vinnumarkaði og í hagkerfinu, en ekki síst það sem Skýrslan segir okkur.

Það er engin samstaða og þar af leiðandi verður forystan óvirk. Órólega deild VG heldur uppteknum hætti við að víkja sér undan því axla ábyrgð á erfiðum málum. Þingmenn þeirrar deildar eru greinilega að hugsa um það eitt að halda þingsæti sínu.

Ólöf Norðdal upplýsti okkur um hvernig þingmenn Flokksins hugsa þegar hún lýsti því yfir að ábyrgð Flokksins á Hruninu komi ekki til greina : „Við vitum það auðvitað, við höfum farið yfir það áður, að þessi Rannsóknarskýrsla og þetta allt saman er að þvælast eitthvað fyrir okkur tímabundið“. Stöðumat Flokksins liggur fyrir í yfirlýsingum Bjarna Ben. og vafningum hans og svo þessari yfirstéttarkonu sem ætlar sér varaformannssæti Flokksins og svo helming þingliðsins sem er margvafið í styrkja og lánaflækjur fjárglæframannanna. Það er nægilegt að hlusta á ÍNN til þess að sjá hina takmarkalausu veruleikafyrringu þingmanna Flokksins.

Engir hafa valdið launamönnum og atvinnulífinu jafnmiklum skaða og órólega deildin. Á þetta hefur stjórnarandstaðan spilað. Skaðinn vegna frestunar afgreiðslu á Icesave hefur þegar kostað nálægt einum milljarði í beinhörðum peningum. Þar til viðbótar á álitshnekkir Íslands orðin ómetanlegur.

Þessi ómerkilegi hráskinnaleikur stjórnarandstöðunnar og órólegu deildarinnar hefur seinkað uppgöngu efnahagslífsins a.m.k. um eitt ár. Það hefur valdið meiri samdrætti í hagkerfinu en þörf var á. Það þýðir að slagkrafturinn verur minni og það mun taka lengri tíma og ná jöfnuði í þjóðarbúskapnum.

Til lengri tíma litið mun þetta lýðskrum og aulabrandarakeppnin valda tapi sem samsvarar tapi sem jafnast á við eina þjóðarframleiðslu. Hann er orðin dýr þessi leikur þingmanna. Var hann þó ærinn skaðinn sem fyrrv. ríkisstjórnir núverandi stjórnarandstöðuflokkanna höfðu valdið.

Nú blasir við hinn mikli múr nýrra fjárlaga og þingmenn hafa ekki getu eða dug í sér til þess að takast á við vandann. Enn á að ganga á eftuispurnarmöguleika með því að hækka skatta og draga fjármuni út úr Hagkerfinu. Fólk er uppgefið á Alþingi. Þingmenn verja öllum sínum tíma við að setja fingraför sín á mál og ef það tekst ekki þá fara þau ekki í gegn.

Verkalýðshreyfingin verður að hefja undirbúning næstu samninga. Undanfarin misseri hafa verkalýðsfélögin á almennum markaði krafist þess að lífeyrisréttindi verið jöfnuð. En ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún ætli að slá skjaldborg um lífeyrisréttindi útvalins hóps opinberra starfsmanna, ekki verður friður fyrr en hún lýsir því yfir að hún muni slá skjaldborg um lífeyrisréttindi allra launamanna.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Segðu mér eitt. Neyðarlögin tryggðu íslenskar innistæður í topp í bönkunum. Hvaðan kemur sá peningur? Við erum að tala um allt sem er umfram þetta lögboðna ca 20000 evrur ? Er það peningurinn sem skattgreiðandinn er núna að borga með niðurskurði LSH og væntanlega 40 milljarða viðbótarniðurskurð í haust? Einhverjar tölur hefur maður séð um hvað neyðarlögin tryggja umfram það lögboðna. Spurningin er þessi; Hversvegna er í lagi að skattborgarinn borgi þetta (fyrir einkafyrirtæki úti í bæ) en má alls ekki borga 20% niðurfellingu á skuldum skuldara við sömu einkafyrirtækin úti í bæ?

Nafnlaus sagði...

Hvort hefur kostað okkur meira, órólega deild VG eða "rólega deild" VG sem beygir sig fyrir Samfylkingunni í einu og öllu?

Ég veit að margir sem kusu VG vegna prinsipp mála sem VG hefur staðið fyrir í langan tíma eru ekki ánægðir og sjá mikið eftir atkvæðum sínum.

Ögmundur og Lilja leiða þá "deild" sem stendur enn á sínu og lætur ekki kúga sig - þá deild vildu þeir sem kusu VG.

Nafnlaus sagði...

"Þessi ríkisstjórn er ónýt og henni á að henda..."

Gott og vel, en hvað á að koma í staðinn? Það vantar í málflutning verkalýðsforkólafanna. Vilja menn Sjálfstæðisflokk og Framsókn enn og aftur?

BadBank sagði...

Hvaða vitleysa er þetta, ef menn ætla að hrækja hérna yfir alla flokkana er þá ekki best að þeir komi líka með lausn?

Eins og nafnlaus fyrsti segir.

Hvað kostaði að tryggja allar innistæður yfir 20.000 evrum????

Mér finnst það hundósanngjarnt, ég átti 2000 evrur inn á reikningnum mínum þegar bankarnir fóru á hausinn en skuldaði 18þ evrur....

Út af hverju fellir ríkið það ekki niður af mér, svo ég standi á sama stalli og þeir sem áttu 20þ evrur?