Það vefst örugglega fyrir mörgum hversu langt við vorum í raun kominn frá því þjóðfélagi sem almenningur lagði allt í sölurnar við að byggja upp fyrri hluta síðustu aldar. Skýrslan opinberar þessar staðreyndir fyrir öllum.
Reyndar ekki öllum, ekki þeim sem stóðu fremst í að móta þessa stefnu og dásömuðu hana langt fram yfir Hrun og réttlæta enn í dag gjörðir sínar með fáránlegum málflutning. Það er á vissan hátt skiljanlegt, sé málið skoðað frá því sjónarhorni að þeim er um megn að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna. Þúsundir heimila í rústum.
Málflutningur þessarar aðila opinberar fyrir manni hverskonar fólk var komið hér í efstu þrep. Fólk sem opinberar í hverju viðtalinu á fætur öðru þekkingarleysi sitt á grunngildum þess samfélags sem við vildum byggja upp. Vandaða efnahagsstjórn og samtryggingu.
Það er skiljanlegt að 40% íslendinga neiti í dag að svara þegar það er spurt um stjórnmálaskoðanir sínar í skoðanakönnunum og stór hópur segist ætla frekar að kjósa grínhóp. Agaleysi, frekja, tillitsleysi var að verða viðtekinn venja sem afleiðing þeirra stjórnarhátta sem endurkosnir voru.
Áberandi er í málatilbúnaði þeirra sem leiddu yfir þjóðina hið efnahagslega hin stórfurðulega „skuldajöfnun“. Ef einhver gerði meira rangt en ég, þá er ég með mitt á hreinu. Ef það var ekki bannað, þá var það í lagi. Öllu siðferðislegi mati, heiðarleika og tillitsemi til náungans var kastað á glæ.
Hér má t.d. vitna til orða eins af fyrrverandi ráðherrum og svokölluðum styrkjakonungi „Þetta voru þær leikreglur sem voru í gildi á þeim tíma og það er ekkert hægt að fullyrða um hver hafi verið með mestu styrkina eða stærsta prófkjörið. Það bara vitum við ekki.“ Hvers lags málflutningur er þetta? Það er semsagt í lagi í huga manns sem var hér einn af þeim valdamestu í því samfélagi sem verið var að setja saman. Það er örugglega til eitthvað verra og þess vegna er í lagi að hann hagi sér með þessum hætti.
Minna má á að hann hefur gjarnan tekið þannig til orða að þeir sem ekki séu honum sammála "séu á móti öllu sem íslenskt er." Annað algegnt orðatiltæki úr sömu átt, þeir sem ekki eru sammála hans málflutning eru vinstri menn, thalibanar. Aldrei komu málefnaleg svör.
Og nú segir hann „Á sama hátt er lífsnauðsynlegt fyrir þessa þjóð að horfa fram á veginn og fara að taka á þeim verkefnum sem fram undan eru.“ Á mannamáli þýðir þetta svar ;“Ég get ekki svarað málefnalega fyrir gjörðir mínar, ég hef ekki getu til þess, svo við skulum bara tala um eitthvað sem er í framtíðinni. Flóttinn frá sannleikanum og vörnin við að upplýsa eigið getuleysi.
Var Hrunið virkilega nauðsynlegt íslensku samfélagi?
2 ummæli:
Fín hugvekja. Held að væri gott að skipta út orði þar sem er verið að tala um gildi samfélagsins. Ætti að vera samstaða eða samhjálp, en ekki samtrygging...?
Takk fyrir, Guðmundur. Þörf hugleiðing. Svari hver fyrir sig. Ég hef sagt á þessari síðu áður að endahnikkurinn í þolinmæðinni gagnvart stjórnmálastéttinni átti að vera síðasti áratugur síðustu aldar. Það átti alveg að duga þeim. Það voru einhverjir sem framlengdu þetta aðlögunartímabil.
Hervar
Skrifa ummæli