Undnafarið ár hefur staðið yfir undirbúningsvinna vegna væntanlegra aðildarviðræðna Íslands. Eftir því hefur verið tekið hvernig fulltrúar bænda hafa nálgast þessa vinnu, með einstrengislegum viðhorfum þar sem reynt hefur verið að koma í veg fyrir almenna og víðtæka upplýsingaöflun.
Sindri Sigurgeirsson formaður sauðfjárbænda hefur sakað Evrópusambandið um heilaþvott á félagsmönnum sínum sem hafa farið í kynnisferðir til Brussel. Þetta er gott dæmi um hinn fáránlega raunveruleika sem við blasir í Evrópuumræðunni, þar sem bull sem þetta ræður ríkjum. Í ferðum til Brussel er markvist reynt að sýna innviði ESB. Sindri og aðrir gestir geta vitanlega spurt eða ganga þeir hljóðir um sali?
Spyrja má forsvarsmenn samtaka bænda hvort þeir byrji fundi innan samtakanna á því að segja ,,Við erum ríkisrekin samtök og þiggjum um 10 milljarða kr. á ári frá íslenskum skattgreiðendum.“ Nei þeir draga upp þá mynd að íslenskur landbúnaður sé umhverfisvænn og þekktur fyrir gæðaframleiðslu og að Íslendingar elskuðu lambakjöt, rjóma, smjör og skyr og fái matareitrun ef þeir borði erlendan mat!"
Forsvarsmenn bænda eru miklir andstæðingur aðildar Íslands að ESB, og þeir hafa miklar áhyggjur af því að einhverjum kunni að hugnast sá selskapur, og jafnvel að núverandi andstæðingar aðildar gætu skipt um skoðun eftir að kynna sér málið. Þeir tala um heilaþvottaferðir til Brussel á vegum ESB. Þessi málflutningur einkennist af skilaboðum að dirfist einhver að hafa aðra skoðun en forsvarsmenn bændasamtakanna þ.e. að vera á móti, þá er verið að rjúfa samstöðu bænda. Menn eiga ekki að kynna sér málið eða mynda sér sjálfstæða skoðun.
Samtök bænda hafa komist að þeirri niðurstöðu að ESB sé ekkert fyrir íslenska bændur. Þau hafa einnig ákveðið að taka ekki þátt í umræðunni á meðan umsóknarferli stendur. Bændasamtökin vilja því ekki einu sinni ræða ESB. Samtökin nota Bændablaðið til þess að koma boðskap sínum á framfæri.
Íslenskur landbúnaður er sá landbúnaður sem nýtur hvað mestra styrkja á byggðu bóli, samkvæmt OECD og tölum landbúnaðarsamtakanna. Árið 2005 var þetta um 10 milljarðar króna. Framlag landbúnaðar til landsframleiðslunnar var 1.1% árið 2006 og í greininni starfaði 3,8% vinnuafls í landinu (var 38% árið 1940). Til samanburðar má geta þess að rekstrargjöld Hafnarfjarðarbæjar árið 2007 námu svipaðri upphæð. Þetta er því eins og að íslenskur almenningur myndi greiða fyrir allan rekstur Hafnarfjarðarbæjar.
Hagfræðingar eru sammála um að Íslendingar gætu framfleytt sér á fiski ef við værum ekki fleiri en um 80 þúsund miðað við þau lífsskilyrði sem við teljum ásættanleg. Ekki eru miklir möguleikar að auka sókn í núverandi stofna, augljóst er að ekki mun landbúnaður taka við fleirum, þar þarf aukna hagræðingu svo hægt sé að greiða mannsæmandi laun. Þá spyr maður; "Hvar vilja samtök bænda og útvegsmanna að hinir 200 þúsund Íslendingarnir eigi að starfa?" Einnig væri ágætt að fá svör við þeirri spurningu hvar vilja forsvarsmenn þessara samtaka að þeirra eigin börn fái vinnu?
Ég hef bent á það með stuðning úr félagaskýrslum samtaka rafiðnaðarmanna að öll fjölgun starfa undanfarin 20 ár er í sprota og tæknigreinum, engin í störfum tengdum útvegi og landbúnaði. Í nágrannalöndum okkar sem eru innan ESB er verðlag lægra, verðbólga 2 – 4%, vextir 4 – 6%. Þar ríkir stöðugleiki og þar er getur fólk gert langtímaáætlanir um uppbyggingu heimila sinna sem standast.
Fram hefur komið hjá öllum forsvarsmönnum sprotafyrirtækja að þau sjá ekki framtíð sína hér á Íslandi vegna krónunnar. Vaxandi fjöldi starfsmanna Össur, Marel, CCP og fleiri íslenskra fyrirtækja er erlendis. Forsvarsmennirnir segja að þeir gætu flutt þessa starfsemi hingað heim ef við værum innan ESB og með Evru.
Með aðild að ESB verður Ísland aðili að tollabandalagi ESB og tollar sem enn eru milli Íslands og ESB landanna falla niður og það mun leiða til töluvert lægra vöruverðs. Matvælaverð mun lækka um allt að 25% með inngöngu Íslands í ESB.
Kostnaður vegna viðskipta milli fyrirtækja innan ESB verða ódýrari og einfaldari. Slíkt myndi auka samkeppni gagnvart ýmsum innlendum fyrirtækjum og mun leiða til lægra vöruverðs.
Allmörg íslensk fyrirtæki hafa þegar skipt yfir í Evru. Það er nánast sama hvar borið er niður í ferðaþjónustu hér á landi öll verð eru tengd við Evru.
Vextir á íbúðarlánum myndu lækka töluvert og hin alræmda verðtrygging hverfa. Talið er að tilvist krónunnar kalli á 3 – 4% hærri vaxta hér á landi en þeir þyrftu annars að vera. Fyrir venjulega launamann þýðir þetta að um ein mánaðarlaun fara í þennan aukakostnað á hverju ári.
Hvað varðar styrki er það athyglisverð staðreynd að íslenskir bændur fá tvöfalt meiri styrk en bændur innan ESB, sem hlutfall af verðmæti framleiðslunnar. Um er að ræða 30% innan ESB, en yfir 60% hér á landi. Þetta má lesa í Hagtölum bænda árið 2007.
Allir íslenskir neytendur vilja jú íslenskar landbúnaðarafurðir og bera traust til landbúnaðarins. Það hafa kannanir sýnt. En hún kostar, svo um munar að auki eru laun meðal bænda með þeim lægstu sem þekkjast og mörg búa kominn að fótum fram í skuldum. Staða greinarinnar vekur þá spurningu hvort bændur hljóti ekki að velta fyrir nýjum kostum, eða mega þeir það ekki?
Það er verið að hræða Íslendinga með ESB. Andstæðingar ESB-aðildar sjá rautt þegar þeir heyra ESB að það sé einskonar hrægammur, sem bíði þess eins að ræna okkur. Ekkert er hinsvegar sem styður þessa skoðun: Hefur ESB tekið yfir olíulindir Breta? Gaslindir Dana, skóga Finnlands eða járngrýti Svíþjóðar? Nei. Sjávarútveg Möltu. Nei. Og Ísland verður aldrei ,,fylki í öðru ríki,” einfaldlega vegna þess að ESB er ekki ríki, heldur samband sjálfstæðra og fullvalda aðildarríkja.
3 ummæli:
Bændur eru mikið afturhald og með þrönga sýn á umhverfið. Þeirra eigin þúfur eru besta land í heimi. Hitti konu í gærkvöld sem er enn, eftir 10 ár, ósatt við sameininguna hér í Húnaþingi vestra. Hún sagði, ég hefði viljað sveitirnar sér og Hvammstnga sér. Brussel er bara í öðru sólkerfi og það er dauðadómur að sameinast þangað.
Þegar ég las þessa grein þína Guðmundur, fékk ég fyrst gæsahúð, síðan varð ég reiður. Ég er reiður, öskureiður vegna þess efnahagslega fangelsis sem sérhagsmunasamtök á borð við bændur og LÍÚ hafa haldið íslensku þjóðinni í.
Þræll #83
Mjög góð grein!
Skrifa ummæli