þriðjudagur, 18. maí 2010

Vinnustaðaskilríki

Ég hef undrast hversu margir hafa spurt hvað standi til með þessi vinnustaðaskilríki og virðast ekki kannast við málið, þó svo það hafi verið áberandi í umræðu tengdri vinnumarkaðsmálum í nokkur ár. En aftur á móti koma mér ekki á óvart viðbrögð þingmanna Framsóknarmanna og fulltrúa últra hægri manna Sjálfstæðisflokksins, sem tala um Gyðingastjörnur saumaðar í barm launamanna og fleira í þeim dúr. Sagan segir okkur að réttindi launamanna og varnir fyrir þá eru eitur í beinum þessa fólks og þarna fer fólkið sem hefur gjörsamlega eyðilagt álit Alþings með lýðskrumi, aulabröndurum og útúrsnúningaumræðum.

Síst af öllu er ég undrandi á viðbrögðum gífuryrðum íslenskra „verktaka!!“ sem vilja geta vaðið um á vinnumarkaði og brotið allar reglur og aðbúnað og starfsréttindi og í raun keyrt niður laun og eyðilagt margra ára baráttu launamanna fyrir réttindum sínum og mannsæmandi vinnustöðum. Þetta fólk á samleið með þingmönnum Framsóknar og hægri arms Sjálfstæðismanna í baráttu gegn lágmarksréttindum launamanna, þá ekki síst þeirra sem minnst mega sín á vinnumarkaði.

Ef við rifjum aðeins rifjum aðdraganda þessa. Í kjölfar þess að múrarnir hrundu og fólk úr Austur Evrópu kom í stórum flokkum vestur á bóginn skapaðist miði óáran á vinnumarkaði. Margir urðu til þess að nýta sér þessa stöðu og starfsmanaleigur urðu til sem brutu nánast allar reglur á vinnumarkaði og misnotuðu bláfátæka fjölskyldufeður til þess að hafa af þeim lögbundin réttindi og hluta launa þeirra.

Þetta varð til þess að mörg lönd urðu að grípa til margskonar viðbúnaðar til þess að bregðast við þessu. Holland og Belgía urðu fyrst til þess að krefjast skráningar og greiðslu tryggingar frá fyrirtækjum sem réðu erlenda farandverkamenn og síðar hafa verið tekin upp Vinnustaðaskilríki eins t.d. í Noregi.

Allan þennan feril þekkja íslendingar mjög vel, þessi mál hafa verið ofarlega í umræðunni og mörg ógeðfelld mál komu upp á yfirborðið. Þar kom einnig í ljós hversu illa undirbúin íslensk stjórnvöld voru til þess að taka á þessum málum. Reyndar var það svo undir stjórn ríkisstjórna Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna að eftirlitsstofnanir voru nánast teknar úr sambandi og markaðurinn átti að taka á þessum málum.

Við upplifðum það að íslensk fyrirtæki voru sektuð og jafnvel lokað, færu þau ekki eftir reglum um starfsréttindi eins og þungavinnuvélaréttindi eða iðnlöggjöf. Á meðan voru hér fyrirtæki sem nýttu starfsmannaleigur, brutu allar reglur og sluppu. T.d. fræga dæmið þegar mörg hundruð erlendir starfsmenn voru réttindalausir á vinnuvélum uppi við Kárahnjúka og það þurfti átak stéttarfélaganna til þess að fá það leiðrétt. Á meðan sátum við starfsmenn og trúnaðarmenn stéttarfélaganna undir háðsglósum ráðherra Framsóknarflokksins og þáverandi stjórnarþingmanna.






Blokkmynd af vinnustaðaskilríkjakerfinu.

Í kjölfar þessa var í kjarasamningum milli ASÍ og SA rætt um að koma á samskonar kerfi og nágrannalönd okkar höfðu gert. Vinna við þetta hófst fyrir alvöru 2008 og henni er að ljúka nú með lagafrumvarpi um málið. Þar kemur m.a. fram að lögin muni gilda um atvinnurekendur, og starfsmenn þeirra, sem reka starfsemi á innlendum vinnumarkaði, hvort sem hún er ótímabundin eða tímabundin, eða senda starfsmenn hingað til lands í tengslum við veitingu þjónustu innan tiltekinna atvinnugreina.

Markmið laganna er að tryggja að atvinnurekendur á innlendum vinnumarkaði og starfsmenn þeirra fari að gildandi lögum, reglugerðum og kjarasamningum. Atvinnurekandi skal sjá til þess að hann sjálfur og starfsmenn hans, hvort sem starfsmennirnir eru ráðnir beint til atvinnurekanda á grundvelli ráðningarsamnings eða koma til starfa með milligöngu starfsmannaleigu, fái vinnustaðaskírteini er þeir hefja störf.

Viðurkenndir aðilar sem koma á vinnustaði til eftirlits þurfa að hafa opinn og sjálfvirkan aðgang að opinberum gagnabönkum. Mikilvægustu gagnabankarnir eru hjá Þjóðskrá til að sannreyna kennitölu, hjá Menntamálaráðuneytinu og sýslumönnum til þess að sannreyna viðurkennd starfsréttindi, hjá Ríkisskattstjóra til þess að sannreyna hvort skattkort hafi verið gefið út og skattgreiðslur hafi borist, hjá Vinnumálastofnun til að sannreyna hvort tilkynningum hafi verið skilað inn og hjá lífeyrissjóðum til þess að sannreyna hvort iðgjöld hafi verið greidd.

Í augum þingmanna Framsóknar og hægri arms Sjálfstæðismanna virðist það vera glæpur að krefjast þess að ekki sé hægt að fara með láglaunafólk eins og skynlausar skepnur.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hver er þessi viðurkenndi aðili?

Nafnlaus sagði...

Þeir gerðu þetta samfélag að ógeðslegum samastað og hafa ekkert lært

Nafnlaus sagði...

Þeir sem hafa áhyggjur af því að þessi vinnustaðaskilríki bjóði upp á persónunjósnir ættu kannski að byrja á því að losa sig við krítarkortin sín og farsímana.

Nafnlaus sagði...

Nafnlaus @ 13:45,

Þeir geta a.m.k. losað sig við þessa hluti sem þú nefnir, ef þeir vilja.