fimmtudagur, 13. maí 2010

Svarta-Péturskeppnin er að hefjast

Í viðræðum milli aðila vinnumarkaðs og hins opinbera í fyrra við gerð Stöðugleikasáttmála kom skýrt fram að hækkun skatta myndi draga úr framkvæmdum og umsvifum, sem svaraði til þess fjármagns sem ríkið drægi til sín. (Sama krónan er ekki notuð mörgum sinnum.)

Einnig var bent á það af hálfu ASÍ og SA að fyrirtæki og einstaklingar myndu ekki fara í neinar framkvæmdir fyrr en lánamarkaður væri orðin eðlilegur. Þar skipti mestu um að ljúka Icesave deilunni, Ísland myndi ekki líðast að standa ekki undir sínum skuldbindingum.

Afleiðingar þessa myndu bitna harðast á almenna vinnumarkaðnum í enn meiri samdrætti. Fyrir lægi að draga þyrfti umtalsvert úr útgjöldum ríkisins þegar vinna við fjárlög hæfist árið 2010 og það eina sem kæmi Íslandi til hjálpar í þessari stöðu væri að auka umsvifin í atvinnulífinu, auka verðmætasköpun og útflutningstekjur.

Ef það yrði ekki gert myndi hagkerfið dragast enn meira saman og við yrðum lengri tíma á dalbotninum og það yrði mun erfiðara að ná sér upp. Niðursveiflan yrði langvinnari.

Það er eins og stjórnmálamenn hafi ekki meðtekið þennan boðskap. Allt það versta hefur komið fram þetta, atvinnuleysi hefur aukist og er að aukast. Í spám hagdeilda ASÍ kemur fram að í stað þess að við myndum hefja uppgöngu úr dalbotni niðursveiflunnar næsta vetur, verður það í fyrsta lagi árið 2012.

Ríkisstjórnin hagar sér eins og fyrri ríkisstjórnir, hún vinnur ekki saman. Ráðherrar virðast álíta að þeir geti hver um höndlað með sín mál án samskipta eða samráðs við aðra og þeir beri svo sannarlega ekki ábyrgð á gerðum hvors annars. Þar fer hin stórfurðulegi sjávarútvegsráðherra fremstur í flokki.

Jóhanna lýsir vandræðum sínum prýðilega með kattasmölunar samlíkingunni, hún vill viðhafa eðlileg vinnubrögð en ráðherrar virða það ekki.

Í venjulegum löndum er það forsætisráðherra sem ber ábyrgð á þeim verkum sem ráðherrar taka sér fyrir hendur, sem leiðir til þess að ríkisstjórnin verður að vinna saman og bera sameiginlega ábyrgð á öllum verkum ráðherra. Gallar hins séríslenska fyrirkomulags blasa t.d. við okkur í dag í viðbrögðum (aðgerðarleysi) Geirs Haarde í aðdraganda Hrunsins.

Það er skelfilegt að horfa upp á ráðherra verða staðna að því að rjúka út með yfirlýsingar sem eru vanhugsaðar og valda enn meiri vandræðum. Þar má benda á inngrip umhverfisráðherra, sjávarútvegsráðherra og félagsmálaráðherra. Nærtækast er að benda á loforð um aðgerðir í erlendum lánamálum.

Vitanlega vill fólk trúa því að hægt sé að þurrka út skuldir og ráðherra lofar því, en svo kemur í ljós að það er líklega ekki framkvæmanlegt, það sem hann er búinn að lofa flyst einfaldlega yfir á ríkissjóð og lánafyrirtækin eru bara ánægð með það. En eftir yfirlýsingar félagsmálaráðherra er allt stopp, allir að bíða eftir töfrabrögðunum.

Engin ríkisstjórn hefur fengið jafnmikinn meðbyr og þessi. Allir aðilar vinnumarkaðs komu saman fyrir ári síðan og lýstu sig tilbúna til sameiginlegs átaks með stjórnvöldum til þess að takast á við vandann.

En ekkert gerist, hluti stjórnarþingmanna hefur varið síðasta ári í leik með stjórnarandstöðunni í mesta lýðskrumsflipp í aulabrandarakeppni og Morfísútúrsnúningum sem þessi þjóð hefur orðið vitni af og er þá seilst ansi langt í samlíkingu.

Nú blasir við hinn mikli múr nýrra fjárlaga. Mér virðist að það eina sem þingmönnum komi til hugar sé að leggja enn eina ferðina til atlögu við almenna vinnumarkaðinn. Þingmenn leggja ekki í niðurskurðinn. Þeir hafa ekki manndóm í sér til slíkra verka. Það kostar atkvæði. Í þessu sambandi má benda á að næsta vetur verður verkalýðshreyfinginn í fyrsta skipti frá Hruni í algjörri lykilstöðu til þess að ganga milli bols og höfuðs á stjórnmálamönnum, því þá standa Pálslögin ekki í veginum.

Nú liggur fyrir venjubundin Svarta-Péturskeppni þingmanna um hver sitji uppi með niðurskurðatillögurnar. Og þjóðinni mun blæða enn meir. Í skoðanakönnunum kemur fram að um helmingur þjóðarinnar hefur lýst fullkomnu vantrausti á íslenska stjórnmálamenn. Skrílslátum þeirra á Alþingi verður að linna.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góð greining á stöðunni.

Það er eins og ýmsir aðilar vilji ekki horfast í augu við raunveruleikann, eins og strútar sem stinga höfðinu í sandinn.

Ísland stefnir því hratt í að verða Kúba norðursins, einangrað á allan hátt. Er það sem aðilar stefna að?? Er það helsta stefnumið stjórnmálanna.

Það er hinsvegar til leið, sem ekki má ræða frekar en fyrir hrun.

Ísland hefur stórkostleg tækifæri til endurreisnar.

Skýr stefnumörkun á upptöku evru og aðild að ESB.

Þá myndi gengi krónunnar skyrkjast, aðild að ERM2 væri möguleg við samþykkt samninga, eftir 2-3 ár. Þá væri gegnið búið að styrkjast um 25-30%, erlendar skuldir fyrirtækja og heimila myndu lækka, vextir myndu lækka mikið, matvara myndi lækka, og hægt yrði að afnema lánskjaravísitöluna.

Þetta stórkostlega tækifæri til endurreisnar stendur Íslandi til boða. Þetta er öruggusta og árnagursríkasta leið til endurreisnar.

Ef þessi leið verður ekki farin, verður hér annað hrun, mun verra en það fyrra.

Nafnlaus sagði...

Heyr - Heyr
Karl