þriðjudagur, 30. september 2008

Sumir jafnari en aðrir

Það er sama hvert maður kemur, allstaðar er fjallað um hina áhættuhvetjandi ofurbónusa og premíur sem bankaguttarnir hafa tekið sér. Bónuskerfið sem þeir hafa búið sér miðast við viðskipti dagsins, en það kerfi er vitanlega kolrangt því endanlega hagkvæmni af viðskiptum liggja aldrei fyrir strax. Þekkt regla segir að það sé ekki ljóst fyrr en eftir 4 ár. Hér er því um klára eignaupptöku að ræða og ekki neinar reglur frá Alþingi sem hindra það.

Einnig er það ekki ásættanlegt að fjármálaguttarnir skuli hiklaust geta boðið til sölu verðbréf og hlutabréf. En að lokinni sölu til fjárfesta eins og t.d. lífeyrissjóðanna, fara þeir og skuldsetja viðkomandi fyrirtæki í botn. Varan sem seld var í gær er í raun svikin og ekki eru neinar reglur frá Alþingi sem taka á þessu.

Ein aðferðin sem oft er notuð, svokölluð Hannesarleið eins og hún er nefnd á kaffistofunum. Það er að skuldsetja fyrirtækið í botn og kippa svo einhverjum hluta þess út fyrir sviga og stofna nýtt félag, en skilja eftir allar skuldirnar í hina eldra félagi. Ekki eru til neinar reglur frá Alþingi sem taka á þessu.

Fram hefur komið að ekki standi til að skipta um stjórnendur í Glitni, það er klárlega óásættanlegt. Þeir eru rúnir trausti meðal almennings, núverandi eiganda Glitni.

Í fréttum í gær var sett fram sú fullyrðing að þeir milljarðar sem stjórnvöld tóku af almannafé og settu í Glitni samsvari líklega þeim bónusum og ofurlaunum sem fjármálaguttarnir eru búnir að hrifsa til sín á undanförnum. Þessir milljarðar áttu að koma til skipta sem aukin arður til fjármagns- og sparfjáreigenda, en guttarnir kipptu þeim til sín. Og nú eru stjórnmálamenn að greiða út eignir sama almennings til þess að bjarga óförum guttanna.

En það er ekki nóg óréttlætið. Því nú er það svo að sá lífeyrissjóður sem geymir lífeyri opinberra starfsmanna tapaði í gær eitthvað á fimmta milljarð í hlutafé Glitnis. Nokkrir almennir lífeyrissjóðir töpuðu líka. Stjórnmálamenn hafa sett, eins og margoft hefur komið fram og landsmenn þekkja, sér lög um sína lífeyrissjóði og tiltekinna opinberra starfsmanna. Það er að ef þeir eiga ekki fyrir skuldbindingum þá á að sækja það sem upp á vantar í ríkissjóð. Það skiptir semsagt engu þótt LSR hafi tapað öllum þessum milljörðum á efnahagsóförum undanfarinna daga það er greitt inn í sjóðinn úr ríkissjóð. Á sama tíma settu stjórnmálamenn lög um almenna lífeyrissjóði sem kveða á um að ef þeir eigi ekki fyrir skuldbindingum þá verða þeir að lækka elli- og örorkulífeyri.

Sumir eru jafnari en aðrir menn og jafnastir allra eru þingmenn, ráðherrar og æðstu embættismenn með framangreinda tryggingu tekna milliliðalaust úr ríkissjóð og til viðbótar settu þeir sértæk lög um auka eftirlaunasjóð sem kostar ríkissjóða að auki um 600 millj kr. Þessi lög ætla frjálslyndir hægri menn að verja hvað sem það kostar.

Í þessu sambandi velta margir launamenn því fyrir sér í dag hvort forsætisráðherra átti ekki örugglega við að tryggja sparifé alls fólks. Eða átti hann bara við nokkra tiltekna opinbera starfsmenn?

mánudagur, 29. september 2008

Ofurseld þjóð

Eins og ég hef margítrekað komið að í pistlum þessarar síðu þá hefur græðgi og veruleikafirring einkennt svo kallaða útrásarvíkinga. Þeir spilað með lánsfé frá lífeyrissjóðum og áður en arði er skilað til hinna raunverulegu eigenda fjármagnsins hafa þeir hrifsað til sín ofurbónusa og margföld árslaun venjulegra launamanna. Nú er bætt í með því að skattgreiðendur þurfa að axla ábyrgð.

Undanfarna viku hefur okkur verið gert að hlusta á yfirlýsingar 800 millj.kr. mætingabónusmannsins um ágæti aðgerða hans. Ítrekaðar yfirlýsingar forsætisráðherra og viðskiptaráðherra um gríðarlegan styrk og sveigjanleika íslenska kerfisins. Í Silfrinu í gær fóru tveir stjórnarþingmenn mikinn í að gera lítið úr aðvörunarorðum aðila vinnumarkaðs. Sé litið til ummæla þessara stjórnarþingmanna og eins viðskiptaráðherra undanfarna daga þá er ljóst að þeir hafa ekki hugmynd um hvað er í gangi. Sama má segja um viðtal við forsætisráðherra í Mannamáli í gær. Það er Seðlabankastjóri sem ræður og þeir sem gagnrýna stefnuna og stöðuna eru með lýðskrum.

Hluti lausna fjármálasnillinganna er að fá lífeyrissjóðina til þess að taka stöðu með krónunni og flytja heim þá miklu fjámuni sem voru erlendis til þess að setja inn í íslenska hagkerfið. Þetta hefur verið gert að nokkru. En nú blasir við að þeir fjármunir eru að hverfa. Hvert félagið á fætur öðru er að fara á hausin. FL group, Baugur og fleiri eins og t.d. Eimskip í gríðarlegum vandræðum og í dag eru reiddir fram hundruð milljarða af almannafé til að bjarga banka. Hvað með ofurlaunin, premíurunar og bónusana?

Er ekki nóg komið fyrir löngu? Hef reyndar tekið svona til orða allmörgum sinnum áður. Við almenningur í landinu, skattgreiðendur og eigendur lífeyrissjóðanna, ætlum ekki að axla endalaust afglöp óagarðra ákvarðana stjórnmálamanna og græðgi fjárglæframanna. Við viljum losna við þessa ríkisstjórn og þann sem henni stjórnar og fá lýðræðislega og faglega stjórn og ákvarðanatöku.

sunnudagur, 28. september 2008

Er loks eitthvað að gerast?

Lenti í Silfrinu í dag og sat þar á milli tveggja stjórnarþingmanna sem báðir voru í kappræðum um hvað allt væri nú gott sem ríkistjórnin og Seðlabankinn væri að gera, aðrir komust vart að í langhundum þeirra. En samt blasir við að krónan er sífellt að veikjast, verðbólgan vex og fyrirtækin eru að gefast upp þau fá ekki rekstrarfé, sífellt fleiri heimili verða eingarlaus.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur beitt öllum brögðum til þess að bregða fæti fyrir málefnanlega umræðu. T.d. útspil þeirra um að taka einhliða upp Evru og senda Evrópunefndina til Brussel. Það var sneypuför og nefndin send heim með þau skilaboð að tími væri tilkominn að íslensk stjórnvöld færu að vinna heimavinnuna sína og taka til við agaða efnahagsstjórn.

Vitanlega eiga stjórnarþingmenn erfitt með að kingja svona og það kom svo vel fram í Silfrinu, eins og þeir sögðu að nú sé loks búið að koma ríkisstjórninni í skilning um að þörf sé á því að gera eitthvað. Það þurfti aðila vinnumarkaðs til þess að reka af þeim sliðruorðið og rasskelling í Brussel til þess að fá þá til þess að grípa inn með einhverjar aðgerðir, það er vitanlega gott, en það hefði mátt vera fyrr.

Stærsta vandamálið er að engin hefur lengur trú á stjórn Seðlabankans og stefna hans gengur þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin hefur líka glatað trausti og ekki bættir nú úr að heyra stjórnarþingmenn tala um kjarasamninga af slíku þekkingarleysi og Helgi gerði í Silfrinu í dag.

laugardagur, 27. september 2008

Veruleikafirring stjórnvalda


Eitt siðferðislögmálanna segir að áhrifum fylgi ábyrgð. Fjárfestingaráðgjafar bankanna hafa bein árhif á ákvörðunartöku viðskiptavina sinna og eru siðferðislega ábyrgir fyrir því hvernig komið er fyrir mörgu fólki. Grundvöllur siðferðislegrar varnar frjálshyggjunnar er fólgin í því að einstaklingurinn beri ábyrgð á gjörðum sínum á grundvelli valfrelsis.

Til þess að vörnin sé gild, þá þarf að vera um að ræða raunverulegt valfrelsi – þ.e.a.s. að skilyrðin um ”fullnægjandi upplýsingar” og ”fullnægjandi samkeppni” ( nægjanlegt framboð valkosta) þurfa að vera uppfyllt.Það eru þau svo sannarlega ekki á hinum Íslenska fákeppnismarkaði. Þennan ágalla einokunarumhverfis okkar á Íslandi upplýsa þeir sem telja sig vera boðberar aukins frelsis ekki almenning um.

Stjórnvöld hafa komið í veg fyrir að íslendingum standi boða valfrelsi með peningastefnu sinni og hafa beitt öllum ráðum til þess að komast hjá málefnanlegri umræðu um lausnir. Skoðun á einhliða upptöku Evru átti að taka 5 ár samkvæmt ummælum forsætisráðherra fyrir nokkru. Þar var formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins enn einu sinni að víkja sér undan að taka á þeim gríðarlega vanda sem ríkir innan flokks hans. En það bitnar illilega á kjörum almennings.

Ráðamenn í Brussel tóku Evrópunefnd ríkisstjórninnar á hné sér í síðustu viku og settu niður í við nefndarmenn og bentu þeim á að nálgun ráðherra Íslands væru ekki boðleg. Á fundunum kom það íslendingunum á óvart hversu mikla þekkingu ESB menn höfðu á íslensku efnahagslífi og þeirri þróun sem átt hefði sér stað.

ESB menn sögðu að íslensk stjórnvöld hefðu átt að nýta þennsluskeiðið til þess að byggja upp varasjóði frekar en að fara út í skattalækkanir og undirbúa efnahagslífið undir þær breytingar sem hefðu átt sér stað með gjaldmiðil þjóðarinnar. Aðgerða- og ráðaleysi íslenskra stjórnvalda á undanförnum árum væru ástæða vandans, á meðan það væri ekki gert gætu stjórnvöld annarra landa gætu ekki annað en hafnað þátttöku Íslands í ábyrgum aðgerðum.

Útspil borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna með staðfestingu ríkisstjórnarinnar um hækkun afnotagjalda OR hefur vitanlega hleypt öllum undirbúningi kjarasamninga í uppnám. Enn einu sinni sýna hérlendir valdamenn hversu fjarri öllum veruleika þeir starfa í. Verði það dregið lengur að sett verði langtímamarkmið og ákvarðanir teknar í efnahags- og gjaldmiðilsmálum mun það muni leiða enn alvarlegri og langvinnari efnhagsófarir yfir Ísland.

föstudagur, 26. september 2008

Eignalaust fólk

Hér er bréf sem barst til síðunnar

Ung hjón keyptu sér íbúð á 24 miljónir í upphafi árs 2007. Þau áttu 4 milljónir og tóku 20 milljónir að láni, verðtryggt lán til 40 ára. Nú um næstu áramót stefnir í að staða þessara hjóna verði sú að þó svo íbúðin hafi hækkað í upphafi tímabilsins og var um mitt þetta ár kominn niður í kaupverðið, en verður kominn neðar um næstu áramót. Miðað við 6% verðbólgu á síðasta ári og 15% á þessu ári er skuld hjónanna orðin rúmar 24 miljónir. Fjóru milljónirnar þeirra eru horfnar til eigenda skuldarinnar og þau eru orðin eignalaus. Þó verðbólgan lækki um helming á næsta ári, eiga þessi hjón minna en ekki neitt næstu ár og jafnvel áratugi.

Líklegt er að mörg þúsund jafnvel tugþúsund einstaklinga lendi í þessari stöðu. Þetta ástand er og mun valda upplausn í þjóðfélaginu og líklegt að fjölmargir gangi út úr íbúðunum og flyti til annarra landa, þar sem ekki er komið fram við fólk með þessum hætti. Mitt álit er að ríkisstjórnin verði nú þegar að afnema lögin um seðlabankann og taka upp fastgengi, festa gengisvísitöluna í 140 til 145 stigum.

Nú á öllum að vera ljóst að tilraunin með markaðsgengi krónunnar mistókst algjörlega. Þegar búið er að festa gengi krónunnar þarf strax að hefja vinnu við framtíðarskipulag peningamála þar sem væntanlega eru ekki aðrir kostir en upptaka Evru með einhverjum hætti eða binding krónunnar við aðra gjaldmiðla líkt og Danska krónann er bundinn við Evruna. Fastgengi í 140 - 145 stigum ætti að lækka vöruverð mjög hratt og stöðva verðbólguna nú þegar.

Í umræðum hagfræðinga og annara sérfræðinga um þessi mál er stöðugt klifað á stöðu banka og stórfyrirtækja, en þetta eru lang stærstu gerendurnir í þessum óförum.

Ég verð ekki var við að þessir menn ræði stöðu Jóns og Gunnu sem hafa fjárfest aleigunni og stórum hluta tekna sinna næstu 40 árin í að koma sér þaki yfir höfuðið.

Seðlabankastjóri sagði á fundi í vor að hann ætlaði að láta rannsaka hvort gerð hefði verið atlaga að krónunni. Nú er margt sem bendir til þess að þeir sem gert hafa atlögu að krónunni séu ekki Jón Ásgeir og félagar, heldur sá stærsti af góðu gæjunum. Það virðis ekkert bóla á rannsókn Davíðs.

Kveðja H

fimmtudagur, 25. september 2008

Óþarfi að tæma hlöðuna

Miklar framkvæmdir á Austurlandi hafa leitt til fjölmargra ferða minna þangað. Bæði vegna starfsins, það er gaman að koma þangað, landið fallegt, býður upp á fjölbreytileika. Þröngir firðir, sviprík fjöll, stutt inn á hálendið, margar góðar og gríðarlega fallegar gönguleiðir. Fyrir nokkru voru reistar þar alræmdustu vinnubúðir í Evrópu. Margir höfðu af því miklar áhyggjur að þær myndu verða skildar eftir. Fjölmiðlafulltrúi sem á stuttum tíma varð allþekktur innan verkalýðshreyfingarinnar fyrir kaldranaleg viðhorf til launamanna, setti fram þá hugmynd að breyta búðunum í hálendishótel og leitaði eftir kaupendum ókeypis í fréttatímum og spjallþáttum RÚV.

RÚV útvarpaði þessu ítrekað athugasemdalaust, þrátt fyrir þekkta sögu búðanna. Þær væru langt fyrir utan allar reglugerðir og það væri ljóst að tilgangur væri sá einn að losna undan umtalsverðum kostnaði við að fjarlægja búðirnar. Allir sem til þekktu óttuðust það að einhver myndi falla fyrir þessu, búðirnar væru óhæfar til þessa hlutverks og það myndi svo lenda á skattgreiðendum að fjarlægja allt draslið. En nú eru búðirnar komnar í fjölmarga gáma niður á Reyðarfirði og er ætlað hlutverk niður í Afríku. Eftir standa holtin við Kárahnjúkana hrein og fín. Lónið stóra og tilkomumikill foss af yfirfallinu niður í gljúfrin.

Þessa dagana er verið að ganga frá Eyjabakkavirkjun og ljúka greftri ganga og stíflna á svæðinu austan við Snæfellið. Hún heitir reyndar öðru nafni í dag og er aðeins neðar en fyrirhugað var þegar allt varð vitlaust hér um árið. Fljótdalsvirkjun er glæsileg, Landsvirkjun hefur alla tíð lagt mikið upp úr góðum og snyrtilegum frágang við sín mannvirki og er til mikillar fyrirmyndar í þeim efnum. Allstaðar er verið að snyrta og laga til og komið er listaverk í affalsskurð virkjunarinnar. Áttaði mig ekki á því í fyrstu, en það er eitthvert skip sem er svo skemmtilega byggt að það lítur út eins og það hafi verið búið til í leikskóla og síðan hent út í skurðinn.

Nokkru neðar er Hallormsstaður í töfrandi haustlitum með sína Atlavík, þangað sem Stuðmenn fluttu Ringo Starr á sínum tíma og létu hann ráfa um mannfjöldann með mikið pottlok. Engin þekkti karl, þangað til einn miðaldra austfirðingur vel við skál sveif á Ringo og smellti á hann mörgum velblautum kossum. Taldi sig þekkja þar gamlan og góðan smíðakennara sinn út á Eiðum 20 árum áður. Þegar hann gerði svo nokkrar tilraunir til þess að heiðra þennan fyrrum kennara sinn með því að troða pitlu með góðum gambra ættuðum innan úr Jökuldal upp í Ringo, var snarlega gripið til þess ráðs að bjarga trommaraunum þekkta og honum komið upp á svið. Enda hafði Ringo þá nýverið tekist að kveðja Bakkus konung.

Á leið frá Hallormstað er ekið fram hjá kirkjustaðnum Vallanesi þar sem nú er lífrænt ræktað korn með góðum árangri með aðstoð erlendra gesta fullum af hugsjónum og þiggja þau laun ein að fá svefnpláss og hafragraut. Hótelstjóri niður á fjörðum hinum megin heiðar hefur verið tekin í Karphúsið nýlega fyrir að greiða sínu erlenda starfsfólki einungis helming launa eða þar um bil. Hann svaraði fyrir sig með snarpri tiltekt á skrifstofum verkalýðsfélagsins, og reyndar þarfri að mér skillst á framkvæmdastjóra þess.

En í Vallanesi er einnig kirkjusetur sem á sína klerka sem eiga sína sögu. Einum þeirra andstætt við Ringo þótti gambrin í Jökuldalnum góður og sótti þangað. Átti að syngja messur en sleppti því gjarnan og vildi heldur sitja að spilum með bændum. Einhverju sinni mætti þó einn bóndi til messu. Klerkur vilda hafa messufall. Ekki fært að messa yfir einum manni. Bónda krafðist réttar síns og benti klerki á að hann henti út smá tuggu þó svo einungis ein skjáta kæmi heim að hlöðu. Klerkur gat ekki annað fallist á rök bónda og söng fulla messu með miklum tilþrifum yfir honum.

„Og hvernig fannst þér nú?“ spurði hann bónda er þeir gengu út úr kirkju.

„Þó ein skjáta leiti heim, þá tæmi ég nú ekki hlöðuna“; tuldraði bóndi um gekk að hesti sínum.

miðvikudagur, 24. september 2008

Kosningar strax - takk fyrir

Borgarstjórn Reykjavíkur spilaði í dag út innleggi í væntanlega kjarasamninga. Hún leggur til að laun hækki strax um 9.7%. Stjórnmálamenn verða að skilja að launamenn ætla ekki einir að axla ábyrgð á því að reyna að ná niður verðbólgu. Það er ekki hægt að hækka þjónustu- og afnotagjöld án tengsla við launaþróun.

Samtök launamanna stigu síðastliðinn vetur til jarðar af mikilli ábyrgð. Þau hafa ásamt samtökum fyrirtækja ítrekað gert tilraunir til þess að ná sambandi við ríkisstjórnina og lagt til að sest verði að langtímamótun efnahags- og peningastefnu. Það getur ekki nokkur búið lengur við það ástand sem ríki hér á landi. Nema þá kannski bankarnir sem fitna eins og púkinn á fjósbitanum og krónan fellur. Skila milljarða hagnaði og vextir hækka enn frekar. Almenningur og fyrirtæki eru að kikna undan vaxandi greiðslubyrði og gjaldþrotum fer fjölgandi.

Fjármálaráðherra samdi um 21% launahækkun í síðustu viku og samningamenn hans skála í kampavíni í beinni útsendingu. Dettur nokkrum einasta manni sem minnsta vit hefur á launaþróun og samskiptum á vinnumarkaði, horfandi framan í 16% verðbólgu og allir kjarasamningar losni á næstu 4 mánuðum, að launamenn horfi ekki til þessa fordæmis.

Helsti efnahagsráðgjafi Sjálfstæðisflokksins sagði nýverið að það verði að halda í krónuna svo hægt sé að fella hana frjálst og óháð öðrum gjaldmiðlum, þá sé hægt að halda launum í landinu innan tiltekinna marka. Forsætisráðherra og hans flokkur beitir öllum brögðum í bókinni til þess að komast hjá því að ræða efnahags – og peningamál af einhverju viti með innihaldslausum og rakalausum upphrópunum.

Háttalag ríkisstjórnarinnar stefnir öllu í bál og brand. Stefna hennar ásamt borgarstjórnar Reykjavíkur mun að öllu óbreyttu leiða til mjög harkalegra átaka á vinnumarkaði í vetur. Hún mun tryggja vaxandi verðbólgu og að hún muni staldra við hér til langs tíma. Sé litið til þróunnar og framkomu ráðherra undanfarnar vikur, þá væri það klár ósvífni af þeirra hálfu ef einhver ráðherra eða stjórnarþingmaður vogar sér að minnast á að launamenn axli nú einhverja ábyrgð.

Það virðist einungis vera ein leið út þessum vanda, að losna við þessa ríkisstjórn og fá fram kosningar strax í vetur.

þriðjudagur, 23. september 2008

Hver er sinnar gæfu smiður

Hver er sinnar gæfu smiður, segir Halldór Landsbankastjóri. Hafi menn skuldsett sig of mikið beri þeir vitanlega ábyrgð á því. Margir spyrja aftur á móti hvað með þá efnahagsráðgjöf og eignaumsýslu sem bankarnir hafa boðið upp á. Hún hefur í sumu ekki verið beisin og oft snúist um að fá fólk til þess að afhenda guttunum í bönkunum alla sína fjármuni til umsýslu. Mönnum hefur verið ráðlagt að selja fjölskyldufyrirtæki sem þeir hafa varið allmörgum árum í að byggja upp og fá í staðinn hlutabréf. Þeir hinir sömu standa núna uppi eignalausir. Á sama tíma hafa aðrir fengið þá ráðgjöf að taka mikil lán og kaupa umrædd fyrirtæki, nú er allt hrunið og menn sitja upp með skuldina miklu.

Fólk fékk þá ráðgjöf að selja hús sín, sem það átti kannski um helming í, taka 90-100% lán til kaupa á nýju húsnæði og setja fjármuni í hendur eignaumsýsluguttanna. Við þessu fólki blasir nú 25% hækkun greiðslubyrði og situr nú í skuldafangelsi í sinni eign með skuld upp í topp og sér fram á þurfa að greiða bankanum sínum mjög ríflega afborganir/húsleigu næstu 40 ár.
Þannig má rekja mörg dæmi. Bankar sem vilja vera vandir virðingar sinnar eru með á sínum sínum snærum „efnahagssérfræðinga“ sem eru ungir og algjörlega reynslulausir. Þekkja ekki niðursveiflu. Þeir tóku sín laun út í bónusum vegna færslna fram og tilbaka á lánum, verð- og hlutabréfum og sást ekki fyrir í hvaða stöðu þeir hafa komið mörgum sem treystu á ráðgjöf bankanna.

Hver er sinnar gæfu smiður segir Halldór og yptir öxlum framan í landsmenn.

mánudagur, 22. september 2008

Einokun

Íslenskir bankar búa í vernduðu umhverfi sem stjórnvöld hafa búið þeim og vilja viðhalda með því hafna því að breyta peningastefnunni og ganga til viðræðna við aðila vinnumarkaðs um langtíma stefnumörkum um tiltekt á efnahagsstjórn og stefnu á meiri stöðugleika. Í stað þess er okkur boðið upp á endalausar upphrópanir og útúrsnúninga.

Íslenskum almenning er gert að greiða hæstu vexti í heimi og mikinn vaxtamun. Við búum við mikla verðbólgu og hátt verðlag. Þessar tekjur duga þeim ekki, auk þess dynja á okkur endalausar kröfur um allskonar þjónustugjöld. Þessar sértekjur íslensku bankanna duga fyrir öllum launakostnaði þeirra. Í gegnum kortakerfið hafa búið sér einstæða hlutdeild öllum fjármunahreyfingum. Í þessu sambandi má t.d. benda á að í mörgum löndum er manni gert að greiða sérstakt álag vilji maður greiða með korti, t.d. í Danmörk er það um 5%. Hér hafa þeir komið því fyrir að þetta renni til þeirra.

Til þess að bæta kolsvörtu ofan á þetta allt saman segja þingmenn frjálshyggjunnar að þeir vilji viðhalda sértækum íslenskum gjaldmiðli svo þeir geti séð til þess að íslenskir launamenn fái nú ekki of miklar launahækkanir. Hér er ég að vísa til endurtekinna ummæla forsætisráðherra og hins dáða efnahagsráðgjafa Péturs Blöndal.

Það er kostulegt að hlusta á þá stjórnmálamenn sem standa fremstir í því að viðhalda þessari einokunarstarfsemi skuli kalla sig frjálshyggjumenn. Þeir eru vitanlega sérhyggjumenn sem berjast fyrir því að gæta eigin hags og velta öllum kostnaði af því yfir á almenning. Forystumenn verklýðshreyfingarinnar eru meiri frjálshyggjumenn en þessir menn.

Hinir íslensku „frjálshyggjumenn??“ koma vísvitandi í veg fyrir að hér ríki venjuleg bankastarfsemi í samkeppnisumhverfi. Það gengur hreinlega fram af manni að vera gert að hlusta á forsætisráðherra og seðlabankastjóra hrósa sér af því að bankar fari á hausinn annarsstaðar í veröldinni, en ekki hér. Séríslensk kímni. Bankar sem búa við eðlilega samkeppni fara á hausinn. Það gera aftur á móti ekki bankar sem búa í þeirri einokunnarveröld sem íslenskir „frjálshyggjumenn“ hafa búið sér.

sunnudagur, 21. september 2008

Hver er ábyrgð bankanna?

Það verður sífellt dýrara að vera Íslendingur og spurning hvar sársaukamörkin eru. Hvað þarf mikið til þess að launamenn, sem skyndilega eru orðnir eignalausir og eru að kikna undan hratt vaxandi greiðslubyrði, segi hingað og ekki lengra og flytji af landi brott. Sjálfsagt er ekkert einhlítt svar við slíkum spurningum. En það er ljóst að ráðstafanir Seðlabankastjórnarinnar virka öfugt, verðabólgan er farinn að næra sjálfa sig.

Líking krónu við fljótandi korktappa á úthafi hefur aldrei átt jafn vel við og nú. En það er lýðskrum, segir Seðlabankastjórinn og vill að við hættum þessum mótmælum. Enn ein upphrópunin. Og svo er bætt við að Evra sé engin skyndilausn. Var einhver að tala um það. Það er eins og sumir séu að fara á taugum. Þeir ráða ekki lengur umræðunni, ekki frekar en efnahagslífinu. En þessir menn kunna lítið annað en þrætubókarlistina og eyðileggja uppbyggilega umræðu.

Það voru ungir áhættusamir karlmenn á prósentum við að koma út lánum sem stútuðu nýfrjálshyggjunni. Græðgin gleypti allt, nákvæmlega sama og gerðist í Sovétinu. Byltingin étur börnin sín. Spyrja má um ábyrgð bankanna, að siga svona illa upplýstu starfsfólki á saklausan almenning. Fólk leitar til bankanna um fjármálaráðleggingar. Afturgreiddir guttar háskólamenntaðir í Armanifötum eru til staðar á bónusgreiðslum frá bönkunum fái þeir fólk til þess að taka lán, bara nógu andskoti mikil lán. Guttar sem nýskriðnir úr háskóla uppfullir af réttmæti þess að hafa mikla aura handa á milli um það snýst lífið að þeirra mati. Hafandi aldrei lent í niðursveiflu, atvinnuleysi, hvað þá langvinnum veikindum berandi ábyrgð á framfærslu fjölskyldu.

Greiðsluáætlunum er hnikað til og miðast við endalausan uppgang, endalausar launahækkanir, ekki einn veikindadag og að fasteignaverð geti ekki gert annað en hækkað endalaust. Hvar stendur það fólk sem leitaði ráðlegginga frá bönkunum í dag og hverjir eru það sem halda bónusunum sínum? Frjálshyggjumenn segja að fólk beri sjálft ábyrgðina. Það hafi tekið lánin. Jú það er satt, en hvert leitaði það eftir ráðgjöf? Við eigum semsagt miðað við þetta að taka ekki mark á ráðleggingum bankanna og “fagfólki!!” þeirra.

Reyndar er til annað dæmi um ráðleggingar fjármálaguttanna á Bensunum og sveru Bimmunum sem fljúga um á þyrlum til þess að fá sér SSpylsu í hléum frá laxveiðunum. Hver var ráðgjöf þeirra þegar DeCode hlutabréfin voru seld. Hverjir fengu sölubónusa og hverjir voru það sem sátu eftir með tóma buddu og þurftu jafnvel að selja húsins sín. Og hverjir voru veiðifélagar þeirra?

En það er almenningur sem stendur straum af kostnaðinum. Þrjátíu prósenta gengisfall og hækkandi vextir leiða til hækkunar dagvöru, þjónustu og hvaðeina sem við þurfum í okkar daglega lífi. Það mun aftur skila sér í hækkandi verðbólgu, sem aftur hlýtur að leiða til vaxtahækkunar Seðlabankans, sé litið til fyrri ákvarðana stjórnenda.

Langt er komið þegar forsvarsmenn efnahagsstefnunnar kalla það lýðskrum og landráð að ræða hratt vaxandi vanda, er ekki komið nóg af þessum mönnum. Eru það ekki þeir sem eru með lýðskrum og landráð? Höfuðstóll lána hækkar og greiðslubyrði vex. Reglubundnar upphrópanir og reyksprengjur forsvarsmanna stjórnvalda duga ekki og þaðan af síður einhverjar samsæriskenningar. Svo taka sumir sig til að hrósa þáttargerðarmönnum að varpa þessum "sannleika!!" yfir landsmenn.

Hvers vegna tóku Danir Svíar og Finnar þá ákvörðun að ganga til samstarfs við önnur Evrópulönd og byggja upp öflugt viðskiptasamband og tengja saman gjaldmiðla sína? Af hverju vilja forsvarsmenn stærsta flokksins ekki ræða þessi mál? Hagsmuni hverja er verið að gæta?

Fórnarkostnaðurinn við núverandi ástand er orðin hrikalegur og hann vex. Fram kom í vor að gera ætti úttekt á peningastefnunni, auk þess að skoða Evrópumálin? Voru þær yfirlýsingar bara enn ein reyksprengjan? Skítt með kerfið og almenning, við Georgarnir þurfum okkar hlut til þess að halda stöðu og völdum. Hefur ekkert breyst. Hvar er Salka Valka, Baden Powel og Svavar Gests eins og hinn óendanlega grátlegi sannleikur Dagvaktarinnar benti okkur á í kvöld? En Georg Bjarnfreðarson er svo lítill kall, svo lítill kall grenjandi undan því fái hann ekki að vera aðalkallinn og afturgreiddu guttarnir segja; "JÁ við viljum meira."