miðvikudagur, 24. september 2008

Kosningar strax - takk fyrir

Borgarstjórn Reykjavíkur spilaði í dag út innleggi í væntanlega kjarasamninga. Hún leggur til að laun hækki strax um 9.7%. Stjórnmálamenn verða að skilja að launamenn ætla ekki einir að axla ábyrgð á því að reyna að ná niður verðbólgu. Það er ekki hægt að hækka þjónustu- og afnotagjöld án tengsla við launaþróun.

Samtök launamanna stigu síðastliðinn vetur til jarðar af mikilli ábyrgð. Þau hafa ásamt samtökum fyrirtækja ítrekað gert tilraunir til þess að ná sambandi við ríkisstjórnina og lagt til að sest verði að langtímamótun efnahags- og peningastefnu. Það getur ekki nokkur búið lengur við það ástand sem ríki hér á landi. Nema þá kannski bankarnir sem fitna eins og púkinn á fjósbitanum og krónan fellur. Skila milljarða hagnaði og vextir hækka enn frekar. Almenningur og fyrirtæki eru að kikna undan vaxandi greiðslubyrði og gjaldþrotum fer fjölgandi.

Fjármálaráðherra samdi um 21% launahækkun í síðustu viku og samningamenn hans skála í kampavíni í beinni útsendingu. Dettur nokkrum einasta manni sem minnsta vit hefur á launaþróun og samskiptum á vinnumarkaði, horfandi framan í 16% verðbólgu og allir kjarasamningar losni á næstu 4 mánuðum, að launamenn horfi ekki til þessa fordæmis.

Helsti efnahagsráðgjafi Sjálfstæðisflokksins sagði nýverið að það verði að halda í krónuna svo hægt sé að fella hana frjálst og óháð öðrum gjaldmiðlum, þá sé hægt að halda launum í landinu innan tiltekinna marka. Forsætisráðherra og hans flokkur beitir öllum brögðum í bókinni til þess að komast hjá því að ræða efnahags – og peningamál af einhverju viti með innihaldslausum og rakalausum upphrópunum.

Háttalag ríkisstjórnarinnar stefnir öllu í bál og brand. Stefna hennar ásamt borgarstjórnar Reykjavíkur mun að öllu óbreyttu leiða til mjög harkalegra átaka á vinnumarkaði í vetur. Hún mun tryggja vaxandi verðbólgu og að hún muni staldra við hér til langs tíma. Sé litið til þróunnar og framkomu ráðherra undanfarnar vikur, þá væri það klár ósvífni af þeirra hálfu ef einhver ráðherra eða stjórnarþingmaður vogar sér að minnast á að launamenn axli nú einhverja ábyrgð.

Það virðist einungis vera ein leið út þessum vanda, að losna við þessa ríkisstjórn og fá fram kosningar strax í vetur.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll guðmundur.
Það er enginn hætta að það verði kosningar, það lýður öllum svo vel í rísstjórni. Samfylinginn sleppur ekki þessu tækifæri í að halda í völdin og lætur Flokkin svín begja sig. Ekki gleyma því að við kusum þettað lið yfir okkur. Kveðja Simmi

Nafnlaus sagði...

Það væri auðvitað stórkostleg að losna við þessa óstjórn. Hinsvegar er pólitíska landslagið þannig og vantraust manns á alþingi svo algjört að kosningar eru kannski tilgangslausar? Forgangsatriði fyrir almenning er klárlega framsal valds úr landi. Kannski væri nær að tala við dani eða norðmenn um að taka upp gamla sáttmála frekar en að senda betlandi nefndir til evrópu ?

Nafnlaus sagði...

hvað ætli verði síðasta útspilið - áður en við horfumst í augu við massagjaldþrot hins almenna borgara?

Það sem ríkisstjórn og stjórnir svietafélagana ættu að vera að gera núna, er að lækka gjaldskrár, eða halda þeim kyrrum. Lán o.þ.h. eru bara á uppleið, og það síðasta sem barnafjölskyldur með há lán þurfa eru hækkandi dagvistunargjöld (sem sum sveitafélög eru að skella fram) og hækkandi afborganir af rafmagni, hita og svoleiðis óþarfa.


Já, og svo gæti ríkið borgað til baka ólögleg stimpilgjöld - þau kæmu sér vel núna hjá ca. 80 % af öllum undir 35 (og fleirum, sbr. póstinn í gær). Af hverju er enginn hávaði í þjóðfélaginu út af þeim ?

kv. Nafnlaus