fimmtudagur, 25. september 2008

Óþarfi að tæma hlöðuna

Miklar framkvæmdir á Austurlandi hafa leitt til fjölmargra ferða minna þangað. Bæði vegna starfsins, það er gaman að koma þangað, landið fallegt, býður upp á fjölbreytileika. Þröngir firðir, sviprík fjöll, stutt inn á hálendið, margar góðar og gríðarlega fallegar gönguleiðir. Fyrir nokkru voru reistar þar alræmdustu vinnubúðir í Evrópu. Margir höfðu af því miklar áhyggjur að þær myndu verða skildar eftir. Fjölmiðlafulltrúi sem á stuttum tíma varð allþekktur innan verkalýðshreyfingarinnar fyrir kaldranaleg viðhorf til launamanna, setti fram þá hugmynd að breyta búðunum í hálendishótel og leitaði eftir kaupendum ókeypis í fréttatímum og spjallþáttum RÚV.

RÚV útvarpaði þessu ítrekað athugasemdalaust, þrátt fyrir þekkta sögu búðanna. Þær væru langt fyrir utan allar reglugerðir og það væri ljóst að tilgangur væri sá einn að losna undan umtalsverðum kostnaði við að fjarlægja búðirnar. Allir sem til þekktu óttuðust það að einhver myndi falla fyrir þessu, búðirnar væru óhæfar til þessa hlutverks og það myndi svo lenda á skattgreiðendum að fjarlægja allt draslið. En nú eru búðirnar komnar í fjölmarga gáma niður á Reyðarfirði og er ætlað hlutverk niður í Afríku. Eftir standa holtin við Kárahnjúkana hrein og fín. Lónið stóra og tilkomumikill foss af yfirfallinu niður í gljúfrin.

Þessa dagana er verið að ganga frá Eyjabakkavirkjun og ljúka greftri ganga og stíflna á svæðinu austan við Snæfellið. Hún heitir reyndar öðru nafni í dag og er aðeins neðar en fyrirhugað var þegar allt varð vitlaust hér um árið. Fljótdalsvirkjun er glæsileg, Landsvirkjun hefur alla tíð lagt mikið upp úr góðum og snyrtilegum frágang við sín mannvirki og er til mikillar fyrirmyndar í þeim efnum. Allstaðar er verið að snyrta og laga til og komið er listaverk í affalsskurð virkjunarinnar. Áttaði mig ekki á því í fyrstu, en það er eitthvert skip sem er svo skemmtilega byggt að það lítur út eins og það hafi verið búið til í leikskóla og síðan hent út í skurðinn.

Nokkru neðar er Hallormsstaður í töfrandi haustlitum með sína Atlavík, þangað sem Stuðmenn fluttu Ringo Starr á sínum tíma og létu hann ráfa um mannfjöldann með mikið pottlok. Engin þekkti karl, þangað til einn miðaldra austfirðingur vel við skál sveif á Ringo og smellti á hann mörgum velblautum kossum. Taldi sig þekkja þar gamlan og góðan smíðakennara sinn út á Eiðum 20 árum áður. Þegar hann gerði svo nokkrar tilraunir til þess að heiðra þennan fyrrum kennara sinn með því að troða pitlu með góðum gambra ættuðum innan úr Jökuldal upp í Ringo, var snarlega gripið til þess ráðs að bjarga trommaraunum þekkta og honum komið upp á svið. Enda hafði Ringo þá nýverið tekist að kveðja Bakkus konung.

Á leið frá Hallormstað er ekið fram hjá kirkjustaðnum Vallanesi þar sem nú er lífrænt ræktað korn með góðum árangri með aðstoð erlendra gesta fullum af hugsjónum og þiggja þau laun ein að fá svefnpláss og hafragraut. Hótelstjóri niður á fjörðum hinum megin heiðar hefur verið tekin í Karphúsið nýlega fyrir að greiða sínu erlenda starfsfólki einungis helming launa eða þar um bil. Hann svaraði fyrir sig með snarpri tiltekt á skrifstofum verkalýðsfélagsins, og reyndar þarfri að mér skillst á framkvæmdastjóra þess.

En í Vallanesi er einnig kirkjusetur sem á sína klerka sem eiga sína sögu. Einum þeirra andstætt við Ringo þótti gambrin í Jökuldalnum góður og sótti þangað. Átti að syngja messur en sleppti því gjarnan og vildi heldur sitja að spilum með bændum. Einhverju sinni mætti þó einn bóndi til messu. Klerkur vilda hafa messufall. Ekki fært að messa yfir einum manni. Bónda krafðist réttar síns og benti klerki á að hann henti út smá tuggu þó svo einungis ein skjáta kæmi heim að hlöðu. Klerkur gat ekki annað fallist á rök bónda og söng fulla messu með miklum tilþrifum yfir honum.

„Og hvernig fannst þér nú?“ spurði hann bónda er þeir gengu út úr kirkju.

„Þó ein skjáta leiti heim, þá tæmi ég nú ekki hlöðuna“; tuldraði bóndi um gekk að hesti sínum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hallormsstaður og Vallanes,
annars takk fyrir skemmtilegan pistil, kveðja að austan