þriðjudagur, 30. september 2008

Sumir jafnari en aðrir

Það er sama hvert maður kemur, allstaðar er fjallað um hina áhættuhvetjandi ofurbónusa og premíur sem bankaguttarnir hafa tekið sér. Bónuskerfið sem þeir hafa búið sér miðast við viðskipti dagsins, en það kerfi er vitanlega kolrangt því endanlega hagkvæmni af viðskiptum liggja aldrei fyrir strax. Þekkt regla segir að það sé ekki ljóst fyrr en eftir 4 ár. Hér er því um klára eignaupptöku að ræða og ekki neinar reglur frá Alþingi sem hindra það.

Einnig er það ekki ásættanlegt að fjármálaguttarnir skuli hiklaust geta boðið til sölu verðbréf og hlutabréf. En að lokinni sölu til fjárfesta eins og t.d. lífeyrissjóðanna, fara þeir og skuldsetja viðkomandi fyrirtæki í botn. Varan sem seld var í gær er í raun svikin og ekki eru neinar reglur frá Alþingi sem taka á þessu.

Ein aðferðin sem oft er notuð, svokölluð Hannesarleið eins og hún er nefnd á kaffistofunum. Það er að skuldsetja fyrirtækið í botn og kippa svo einhverjum hluta þess út fyrir sviga og stofna nýtt félag, en skilja eftir allar skuldirnar í hina eldra félagi. Ekki eru til neinar reglur frá Alþingi sem taka á þessu.

Fram hefur komið að ekki standi til að skipta um stjórnendur í Glitni, það er klárlega óásættanlegt. Þeir eru rúnir trausti meðal almennings, núverandi eiganda Glitni.

Í fréttum í gær var sett fram sú fullyrðing að þeir milljarðar sem stjórnvöld tóku af almannafé og settu í Glitni samsvari líklega þeim bónusum og ofurlaunum sem fjármálaguttarnir eru búnir að hrifsa til sín á undanförnum. Þessir milljarðar áttu að koma til skipta sem aukin arður til fjármagns- og sparfjáreigenda, en guttarnir kipptu þeim til sín. Og nú eru stjórnmálamenn að greiða út eignir sama almennings til þess að bjarga óförum guttanna.

En það er ekki nóg óréttlætið. Því nú er það svo að sá lífeyrissjóður sem geymir lífeyri opinberra starfsmanna tapaði í gær eitthvað á fimmta milljarð í hlutafé Glitnis. Nokkrir almennir lífeyrissjóðir töpuðu líka. Stjórnmálamenn hafa sett, eins og margoft hefur komið fram og landsmenn þekkja, sér lög um sína lífeyrissjóði og tiltekinna opinberra starfsmanna. Það er að ef þeir eiga ekki fyrir skuldbindingum þá á að sækja það sem upp á vantar í ríkissjóð. Það skiptir semsagt engu þótt LSR hafi tapað öllum þessum milljörðum á efnahagsóförum undanfarinna daga það er greitt inn í sjóðinn úr ríkissjóð. Á sama tíma settu stjórnmálamenn lög um almenna lífeyrissjóði sem kveða á um að ef þeir eigi ekki fyrir skuldbindingum þá verða þeir að lækka elli- og örorkulífeyri.

Sumir eru jafnari en aðrir menn og jafnastir allra eru þingmenn, ráðherrar og æðstu embættismenn með framangreinda tryggingu tekna milliliðalaust úr ríkissjóð og til viðbótar settu þeir sértæk lög um auka eftirlaunasjóð sem kostar ríkissjóða að auki um 600 millj kr. Þessi lög ætla frjálslyndir hægri menn að verja hvað sem það kostar.

Í þessu sambandi velta margir launamenn því fyrir sér í dag hvort forsætisráðherra átti ekki örugglega við að tryggja sparifé alls fólks. Eða átti hann bara við nokkra tiltekna opinbera starfsmenn?

Engin ummæli: