Formaður Sjálfstæðisflokksins gekk fullkomlega fram af manni með ræðu sinni í gær. Þar endurspeglast hin yfirgengilega afneitun flokksins. Það liggur fyrir og hefur verið að koma fram í fréttum undanfarna daga að það voru sjálfstæðismenn sem hnepptu þjóðina í Icesave treyjuna, þar má t.d. vitna til ummæla Tryggva Þórs frá október í fyrra. Eins liggja fyrir athafnir Kjartans framkvæmdastjóra Flokksins og bankastjórnarmanns Icesave bankans.
Þessa dagana fer um embættismannagengið sem Flokkurinn kom á jötuna í valdatíð sinni. Ekkert fer eins illa í Valhöll og að nú standi til að „hreinsa til eftir valdatíð íhaldsins“ svo vitnað sé til ummæla núverandi fjármálaráðherra. Í haust þegar hrunið skall á blasti við okkur fullkomlega vanhæft og ákvarðanafælið embættismannagengi. Þetta endurspeglast í ummælum hvers ráðgjafans á fætur öðrum sem hingað hefur komið, þar sem lagt er margendurtekið til að hingað þurfi að koma erlendir sérfræðingar vegna getulausra og ráðvilltra stjórnunarhátta sem tíðkast hafi hér á landi.
Og í hvert skipti heyrast vandræðaleg andmæli úr Valhöll um pólitískar ofsóknir. Þessi vinnubrögð Flokksins opinberuðust svo kyrfilega þegar stjórn Seðlabankans var skipuð, þegar ekið var fram hjá öllum reglum við ráðningu þekkts háskólaprófessors, hæstaréttar- og héraðsdómara og svo maður tali nú ekki um hina eftirminnilegu ráðningu hinna 9 sendiherra korter áður en Davíð gekk úr ráðuneytinu.
Út yfir allan bálk tekur að heyra þingmenn sjálfstæðismanna og framsóknar tala um föðurlandssvikara og óvinveittar þjóðir. Hvar í veruleikanum er þetta fólk statt? Hvernig í ósköpunum komst svona fólk inn á þing? Umræðulist þessa fólks virðist ráðast af því einu að koma sér upp að minnsta kosti einum ógöngum sem síðan bornar eru á andstæðinginn í endurteknu rakalausu stagli.
Rúið sjálfstæðri hugsun. Ég varð fyrir því í gær að því vera bent á hversu gott allir hefðu haft undir stjórn Sjálfstæðismanna. Mér varð það á að svara; "En það var allt á yfirdrætti þess fjármagns sem pumpað var inn í hagkerfið og við verðum næstu 40 ár að endurgreiða með vöxtum, kaupmáttafalli, glötun eigna og falls á lífeyris- og örorkúbótum."
"Þú ert greinilega Vinstri grænn eða samfylkingarmaður" var eina svarið.
Ég hef undanfarna daga verið í Stokkhólmi í erindagjörðum vegna norræna rafiðnaðarsambandsins. Ég hef áður vitnað nokkrum sinnum til ummæla hinna norrænu vina okkar frá því í fyrra (hér) og (hér) og (hér) Þar í umræðunni allnokkru fyrir hrun að endaleysan á Íslandi gengi ekki lengur og íslendingar yrðu að fara að taka til hjá sér í efnahagsstjórninni. Í ummælum félaga minna og í fjölmiðlum nú fyrir helgina þar sem rætt var við efnahagssérfræðinga um Icesave málið og niðurstöðu Alþingis, kom fram að íslenskir stjórnmálamenn hefðu fullkomlega misst sig í umræðum um málið og sú dramatík sem þeir hefðu dregið upp væri eitthvað svo íslensk og út í hött.
Hinir sænsku viðmælendur voru sammála um að niðurstæðan gæfi þó vonir um að íslendingar væru að átta sig á sinni stöðu og að byrja að horfast í augu við hana. Það væri grundvöllur þess að hægt væri að hefja enduruppbyggingu á Íslandi. Þar talar fólk sem hefur áhyggjur af þróuninni á Íslandi og er okkur afskaplega vinveitt, en veit þó að íslendingar verði að átta sig á sinni stöðu og séu þeir einu sem verði að ráða fram úr þeim vanda sem þeir komu sér í.
Þegar sjálfstæðismenn og og framsóknarmenn létu í ræðum sínum á þingi og í blaðagreinum eins og hrunið sé núverandi stjórnarflokkum að kenna og þeir hafi sjálfir hvergi komið nærri, kom aftur og aftur fram í huga mér eftirfarandi atvik úr lífi nokkurra rafiðnaðarmanna félaga minna: Hópur vinnufélaga fór í afmælisveislu, þar sem vel var veitt og menn urðu alldrukknir. Þegar afmælisveislunni lauk hugðust nokkrir úr hópnum halda gleðinni áfram og tóku leigubíl og stefndu á öldurhús borgarinnar.
Á miðri leið varð einum gleðimanninum bumbult af veitingunum og ældi allt út, yfir félagana í aftursætinu og út um allan bílinn. Leigubílstjórinn brást hin versti við og henti þeim öllum út og þarna stóðu þeir út í ausandi rigningu. Félagarnir verkuðu æluna af vininum eins vel þeim var unnt og sendu hann síðan heim í öðrum leigubíl, en héldu sjálfir á vit áframhaldandi gleði. Þegar þeir mættu til vinnu á mánudeginum spurði vinurinn félaga sína „Hver ældi á fötin mín?“
Þeir sem verið hafa á frjálshyggjufylliríi undanfarin ár, þurfa að fara að átta sig á því að það voru þeir sem ældu allt út. Það fer ekki fram hjá neinum, utan sögusmiðjumönnum Valhallar (þar sem veruleikinn er alltaf gefinn út í endursögn að hætti húsins), að upp úr stendur hvernig Guðbjartur Hannesson formaður fjárlaganefndar leiddi sjálfstæðismenn og aðra þingmenn inn í lausn Icesave málsins.
Hvernig hann opinberaði fyrir alþjóð og ekki síst nokkrum þingmönnum sjálfum hvernig tilteknir þingmenn beittu endurteknum innantómum og rakalausum upphrópunum sem höfðu þann tilgang einn að vekja tortryggni og ala á sundurlyndi.
Það eru þessi vinnubrögð íslenskra stjórnmálamanna sem hafa dregið orðspor Íslands langt niður hjá vinaþjóðum okkar og ekki síður í viðhorfum íslendinga sjálfra til þingmanna og starfa Alþingis. Þar hefur Guðbjartur unnið stórvirki og eftir standa sjálfstæðismenn og ekki síður framsóknarmenn með allt niðrum sig í illa lyktandi fötum.
6 ummæli:
Æi þetta er svo satt - svo satt - en svo sárt - er borin von að við fáum alvörufólk í stjórnmálin
KÞG
Góður pistill hjá þér Guðmundur, en svo sannur að það er eiginlega óþægilegt að lesa hann.
Heyr - alltof satt.
Kveðja að austan
Sverrir Albertsson
fantagóð greining - að venju
Svo kusu 44.000 manns Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum og verða sennilega enn fleiri í næstu kosningum. Siðblindan er landlæg á Íslandi!
Fanta góð skrif að venju.
En ég vill ganga alla leið og það verði rætt í alvöru að sett verði lög sem banni starfsemi Sjálfstæðisflokksins í nokkuð mörg ár eða þar til öll kurl verða komin til grafar !
Skrifa ummæli