sunnudagur, 8. nóvember 2009

Agaleysi

Það er sammerkt með mörgum þeirra sem hingað koma, hvort sem um er að ræða erlenda gesti eða íslendinga, sem hafa verið búsettir um nokkurt skeið erlendis, þessu fólki er tíðrætt um hversu óöguð hin íslenska þjóð er. Margar af helstu orsökum kerfishruns íslenska fjármálakerfisins umfram nágrannalönd okkar má leita í agaleysi. Samskipti á vinnumarkaði bera einkenni af tillits- og agaleysi. Samskipti kynslóðanna einkennast af frekju og tillitsleysi. Sama á við um hegðan í skólum, biðraðamenningu og svo ekki sé talað um íslenska umferðarmenningu. Niðurstaðan verður einatt sú sama; þjóðin er agalítil.

Það er skammt á milli aga og bælingar, sama á við hömluleysi og agaleysi. Íslensk ungmenni búa við óagað umhverfi og eiga jafnvel stundum erfitt með að gera sér grein fyrir því til hvers er ætlast af þeim. Miklar breytingar sem orðið hafa á högum fjölskyldunnar, þar sem langur vinnutími beggja foreldra utan heimilis veldur því að börn og ungmenni eru skilin eftir á eigin ábyrgð, á meðan yfir stendur hömlulítið lífsgæðakapphlaup.

Skólar og aðrar stofnanir hafi tekið við hluta af uppeldishlutverki heimila. Samstarf heimila, skóla, íþróttafélaga og ýmissa samtaka er mjög takmarkað og skilaboð til barna um hegðan og ábyrgð eru misvísandi og óljós. Þetta er það sem kallað hefur verið óagað umhverfi og leiðir m.a. til þess að ungmenni eiga örðugt með að þroska með sér sjálfsaga. Skýrar leikreglur og agað umhverfi er með öðrum orðum forsenda þess að einstaklingur geti náð að þroska með sér.

"Ríkidæmi sem byggt hefur á lánum og skuldsetning undangenginna ára getur ekki talist auðlegð,“ sagði Karl Sigurbjörnsson biskup við setningu kirkjuþings." Eitt mikilvægasta verkefnið nú sé að stuðla að nýjum lífsstíl. Lífsstíll sem virðir takmörk auðlinda og uppörva kristið siðgæði, virðingu og hófsemi, samstöðu, náungakærleika."

"Við ein ríkasta þjóð heims stöndum langt að baki þeim þjóðum sem við vildum mæla okkur við í framlögum til þróunaraðstoðar. Og nú þegar þrengir að hjá okkur er illt til að vita að við hlaupum frá skuldbindingum okkar og vörpum frá okkur ábyrgð. Það er ekki gæfumerki,“ sagði biskup.

Þetta samsamar sig í ummælum okkar um nágrannaþjóðir okkar þegar við sökum þær um óvild í okkar garð þegar þær hafna því að halda áfram að moka fjármagni inn í laskað hagkerfi okkar, svo við getum haldið áfram skefjalausu uppteknu líferni, sem við þróuðum með okkur frá 2000 - 2008 þar sem sjálfumglaðir og agalausir stjórnmálamenn lögðu línuna.

Sé litið til vinnumarkaðs hafa á þessum tíma sprottið upp fyrirtæki þar sem allir hugsanlegir möguleika eru notaðir til þess að hagnast á bágri stöðu bláfátæks verkafólks. Sérhyggjumenn setja athugasemdalaust upp fyrirtæki þar sem fólk er í framleigu til hverskonar starfa á niðursettu verði. Fyrirtæki sem eru í raun ekkert annað en röð kennitalna. Lánlausu fólki eru settir afarkostir, ef það fer ekki í einu og öllu eftir því sem leigudólgarnir vilja, annars glatar það tilverurétt og er komið í óviðráðanlegar fjárhagslegar skuldbindingar við dólgana.

Nú höfum við tækifæri til þess að taka til í þessum efnum og verður spennandi að sjá niðurstöður Þjóðfundar.

4 ummæli:

Gísli Baldvinsson sagði...

Þær eru stórar spurningarnar sem lagðar eru fyrir Þjóðfundinn

Nafnlaus sagði...

Sjálfstætt fólk
Sjálfstæðisfólk
SjálfstæðisFLokkur
SjálfgræðgisFLokkur

Nafnlaus sagði...

svo satt - svo sárt - hvað svo?

Arnþór sagði...

Við erum komnir á sporið þegar menn verða tilbúnir að fórna eigin hagsmunum fyrir hagsmuni heildarinnar. Þetta vitum við allir innst inni en skortir kjark til að taka forystu. Þjóðfundurinn verður líklegast bara konsept-listaverk sem einhver kvikmyndagerðarmaðurinn notar sem efnivið í heimildarmynd sem sjónvarpið sýnir svo á milli auglýsinga. Geir Haarde sagði nefnilega allt sem þarf að segja um hrunið hingað til, s.s.; „Ég hefði kannski átt að gera það?“