Sigurjón Örn Þórsson, stjórnmálafræðingur og framkvæmdastjóri Kringlunnar og fyrrv. aðstoðarmaður ráðherra, heldur því fram að með að flytja húsnæðislán úr gömlu bönkunum yfir í Íbúðalánasjóð verði til nýtt eigið fé sem nýtist til að leiðrétta öll lán, einnig þau sem fyrir voru í sjóðnum. Rangt sé að slík aðgerð sé of dýr fyrir skattgreiðendur því kröfuhafar gömlu bankanna greiði fyrir hana. Hann segist hafa kynnt tillöguna fyrir endurskoðendum, sem telji alls ekki erfitt að selja kröfuhöfunum hana??!!
Sigurjón mat lánasafn sjóðsins á 550 milljarða króna en bankanna á 700 milljarða. Þar sem sjóðurinn hafi ekki orðið fyrir kerfishruni, líkt og bankarnir, hafi hann ekki svigrúm til að lækka höfuðstól lána um 20%. Með samræmdum aðgerðum væri tryggt jafnræði milli lántakenda.
Þessi hugmynd Sigurjóns er ein af þessum töfralausnum sem hafa allt til að bera nema það að ganga upp. Það er auðvitað ekki þannig að hægt sé að búa til eigið fé hjá Íbúðalánasjóði með því að færa kröfur úr bönkunum til sjóðsins.
Það sem einfaldlega gerist í efnahagsreikningi ÍLS er að eignir aukast sem nemur fjárhæðinni sem færð var yfir til sjóðsins þar sem sjóðurinn á þá kröfu á að þeir sem skulduðu bönkunum greiði nú til ÍLS. Á móti hækka skuldir ÍLS þar sem sjóðurinn þarf að greiða bönkunum fyrir þær eignir sem sjóðurinn fékk. Við þessa aðgerð breytist eigið fé ekki neitt.
Það sem síðan gerist í framhaldinu er að ríkissjóður þarf líklega að leggja sjóðnum til meira eigið fé þar sem efnahagsreikningur sjóðsins var að stækka og sjóðurinn verður að hafa a.m.k. 8% eigið fé. Það er alveg ótrúlegt hvað margir halda að við það að bankarnir tapa miklum fjármunum vegna lána sem ekki er hægt að innheimta gefi þeim aukið svigrúm til að færa niður kröfur.
Það er einfaldlega þannig að ef við skuldum bankanum sína milljónina hvor og ég er gjaldþrota en þú ert í góðum málum þá afskrifar bankinn 50% af samanlögðum kröfunum. Bankinn nær því inn með því að rukka þig um 100%, en fær ekkert frá mér. Ákveði bankinn að færa skuldir okkar beggja niður um 50% þá fær bankinn 500.000 frá þér en áfram ekkert frá mér því að ég er jafn gjaldþrota. Afskrift bankans verður því ekki 50% heldur 75%!
Kerfishrun er engin forsenda þess að hægt sé að færa niður höfuðstól vegna verðbólgu. Til þess að það sé hægt þarf að fjármagna það. Það að bankar eigi mikið af kröfum sem ekki eru innheimtanlegar að fullu hjálpa ekki til við að færa niður innheimtanlegar kröfur. Ef það á að gera það verður það ekki gert nema annað tveggja:
a. Að í ljós komi að dómstólar telji að lánasamningur haldi ekki t.d. vegna ólögmætra skilmála eins og margir halda fram með gengistryggðu lánin eða að dómstólar telji að um forsendubrest sé að ræða eins og oft er haldi fram í umræðunni. Að mínu viti geta engir aðrir en dómstólar skorið úr um það.
b. Einhver fjármagni niðurfærsluna og þá eru ekki margir sem koma til greina. Það yrði þá ríkissjóður og mögulega lífeyrissjóðirnir.
Eigið fé er mismunur á eignum og skuldum. Við yfirflutning á lánasafni til ÍLS yrði þá stuðst við verðmat ásafninu. Eigna og skuldahlið efnahagsreiknings ÍLS myndi síðan hækka um sömu upphæð og ekkert nýtt eigið fé myndaðist. Í framhaldinu yrði ríkissjóður mögulega að greiða inn í ÍLS aukið eigið fé þar sem það verður að vera a.m.k. 8% af efnahagsreikningnum.
Það verður einfaldlega ekki til neitt eigið fé við það að breyta um eiganda lána. Eina leiðin til að fá kröfuhöfum gömlu bankanna til að greiða fyrir „leiðréttingu lána“ er að greiða þeim minna fyrir kröfurnar en áætlað er að innheimtist af þeim. Þannig skapa menn svigrúm til að hægt sé að gefa eftir innheimtanleg lán.
Til þess að það sé hægt verður annað hvort að fá kröfuhafana til þess að gefa eftir hluta eigna sinna í frjálsum samningum eða stela frá þeim. Líklega frýs fyrr í helvíti en að kröfuhafarnir gefi eftir eignir sínar.
Og maður spyr sig er þetta enn ein ástæðan fyrir því að Ísland féll. Menn í áhrifastöðum með svona dæmalausar hugmyndir og setja þær fram í fullri alvöru??!! Eða þá þetta (hér)
Einnig má líta til kúlulána bankanna sem þjóna þeim tilgangi einum að veita eigendum bankanna og vinum þeirra hlutdeild í arði af eignamyndum sem kynnt var undir með sífelldu innstreymi erlends lánsfjármagns. Svo er arðurinn innleistur og 10% fjármagnstekjuskattur greiddur.
Þetta hefur gert nokkra íslendinga vellauðuga. Kúlulánin eru svikamylla þar sem þátttakendur njóta arðsins ef innlausn er framkvæmd á réttum tíma, en almenningur þarf að greiða ef það tekst ekki, sé litið til nýrra laga sem rennt var í gegnum alþingi fyrir nokkru.
5 ummæli:
ég held að það sé full ástæða til að taka þetta lengra.
ef við flytjum lánin fram og til baka milli bankana og íbúðalánasjóðs þá endum við skuldlaus því það verður svo mikið fé til við flutninginn.
við þurfum ekki nema að horfa á pálma gúrku og sterling til að sjá hvað svona viðskipti eru einfölg og hagkvæm.
Takk fyrir þetta Guðmundur og ég held að það sé ekki spurning að þetta var að gerast í bólunni. Stefán Benediktsson
Það er ekkert til sem heitir ókeypis hádegisverður, segir frjálshyggja og það er svo rétt - svo rétt
Úlfur
Fólk er orðið þreytt á þeim sem ætla að vera með hókus pókus lausnir. Við vitum að þessar skudlir hverfa ekki, sama er með skuldir okkar. Kv Simmi
Sæll Guðmundur,
Vildi benda þér á eina einfalda staðreynd við yfirfærslu eigna úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju. Lagt er mat á hvað mikið innheimtist af lánunum, þetta mat er byggt á líkani en ekki staðreyndum. Við þetta myndast ákveðin áhætta á að ekki fáist eins mikið upp í útistandandi kröfur og lagt var upp með í líkaninu. Einnig eru einhverjar líkur á að það komi meira inn en áður var talið sem við vonum að verði raunin.
Ef þú horfir á þetta út frá þeirri staðreynd að mjög margir eru í vandræðum með að standa í skilum og hafa í raun ekki vilja til að greiða þar sem þeim finnst eins og búið sé að brjóta á þeim án þess að það hafi verið leiðrétt... þá myndast ákveðið andrúmsloft sem getur leitt til þess að menn ákveða að fara í þrot frekar en að borga af skuldum þar sem fólk er ekki tilbúið til að greiða án þess að fá réttláta leiðréttingu. Verði það reyndin þá tapast mun meira en ef farið hefði verið í réttláta leiðréttingu með lagasetningu.
Skrifa ummæli