miðvikudagur, 18. nóvember 2009

Félagsmálaráðherra gegn þeim sem minnst mega sín

Það eru greiddir fullir skattar af öllum sem eru á vinnumarkaði auk tryggingargjalda. Allir eiga að hafa jafnan rétt til tryggingarbóta, og atvinnuleysisbóta. Sama á hvað aldri þeir eru, annað er mismunun. Samt ætlar Félagsmálaráðherra að veitast að ungu fólki á aldrinum 18 - 24 ára sem býr heima hjá foreldrum sínum og taka helming atvinnuleysisbóta af því. Það á rétt á 150 þús. kr. í bætur á mánuði, en á einungis að fá 75 þús. kr.

Því er haldið fram að þetta eigi að fara í uppbyggingu námstækifæra. Þetta unga fólk sem er svo ólánsamt að hafa misst atvinnu sína og þarf að flytja heim til foreldra sinna, er gert á það greiða 75 þús. kr. aukaskatt á mánuði (skólagjöld). Af hverju á þetta fólk að greiða svona háa aukasktatta? Af hverju á það að standa undir uppbyggingu skólastarfs?

Hvaða sjónarmið eru þarna að verki? Hverjir eru ráðgjafar ráðherra í þessu efni? Setja þeir einhver önnur markmið ofar en hagsmuni þessa fólks? Hver á að stjórna því hvert þessir fjármunir fara? Af hverju má þetta fólk ekki ráða sjálft hvert það fer til náms? Flest af þessa fólks hröklaðist úr námi og út vinnumarkað vegna eineltis í skóla, lesblindu og annara atriða.

Því stendur til boða margskonar aðstoð ef það kemst í færi við sín stéttarfélög og eins er það skylda samfélagsins að aðstoða þetta fólk eins og aðra án þess að lagðir séu á það aukaskattar. Það er búið að greiða sína skatta og tryggingargjöld og á sama rétt og annað fólk.

Minna má umræðu um skólagjöld á undanförnum árum. Einnig blasir það við að það er verið að leggja aukaskatt á foreldra. Hverjir aðrir munu sjá um framfærslu þessa fólks? Hvernig á það að greiða af sínum lánum? Einnig má velta fyrir sér hvort ekki sé verið að færa hluta þessarar framfærslu yfir á sveitarfélög því þau verða að greiða framfærslustyrk, ef tekjur fólks fara niður í 75 þús. kr.

Við lögðum til að auðlegðarskattur yrði hækkaður í 2% úr 1.25%, það myndi duga til að afla sömu heildarfjárhæðar og nú á að taka af þeim sem minnst mega sín á vinnumarkaði.

Slíkt myndi þýða 800 þúsund krónu skatt á ári fyrir einstakling sem á 200 milljón króna hreina eign og 600 þúsund króna skatt á ári fyrir hjón sem eiga 200 milljón króna hreina eign

Skerðing bótaréttar hjá þessum einstaklingum sem Félagsmálaráðherra sækir að og foreldrum þeirra er hins vegar 900 þúsund krónur á ári!

Hvað er næst á baugi hjá Félagsmálráðherra og ráðgjöfum hans? Skerðing á fæðingarorlofi hjá þeim sem minnst hafa á milli handanna? Eða örorkubótum? Eða umönnunarbætur langveikra barna?

Jafnframt er ráðist að stéttarfélögum innan ASÍ sem eru að mótmæla þessu og bornar allskonar dylgjur á forsvarsmenn ASÍ. Ástæða er að minna á að samkvæmt lögum á Vinnumálastofnun að bjóða atvinnulausu fólki virk úrræði í upphafi atvinnuleysis. Vinnumálastofnun hefur algjörlega brugðist í þeim efnum. Það er fyrst eftir 4 – 6 mánuði sem Vinnumálastofnun er að hafa samband við atvinnulaust fólk vegna úrræða og nú er reiknað með að minnka þessa þjónustu en um 10%.

Verkalýðshreyfingin hefur boðist til þess að taka þennan þátt að sér. Því er svarað með því að veitast með einstaklega ómerkilegum hætti að starfsmönnum verkalýðshreyfingarinnar með dylgjum um að til standi að mismuna atvinnulausu fólki?? Við hvað er átt?

Starfsfólk verkalýðsfélaganna fær ekki upplýsingar frá Vinnumálastofnun um hvaða einstaklingar eru atvinnulausir fyrr en eftir dúk og disk og geta því ekki gengið markvisst í að bjóða aðstoð. Þó er verkalýðshreyfingin að setja umtalsverða fjármuni til aðstoðar við atvinnulaut fólk kosta nám þess og fleira. Það er verið að bjóðast til þess að létta á Vinnumáalstofnun.

Í mínum huga þá ræður Félagsmálaráðherra ekki við verkefni sitt. Hann er með fullkomlega óhæfa aðstoðarmenn sem þekkja ekkert til vinnumarkaðar og hvernig starfsmenntakerfi atvinnulífsins virkar og hefur nákvæmlega engin tengsl við atvinnulífið. Það eru annarleg sjónarmið sem ráða þarna för.

Ágætt væri að þeir sem eru að veitast að verkalýðshreyfingunni vegna þessa máls kynntu sér aðeins betur hvað þeir eru að fjalla um. Svo einkennilegt sem það nú er þá er sama fólk að veitast að verkalýðshreyfingunni að hún geri ekkert??!!

12 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er forræðishyggja í sinni grófustu mynd. Þessi fólki vantar sæmilega launaða vinnu og svo sér það um sig sjálft.

Væri ekki nær að ríkisstjórnin færi að greiða götu fjárfestingar og atvinnusköpunar í staðinn fyrir að standa í eilífum afskiptum af einkalífi fólks.

Jón Ottesen

Nafnlaus sagði...

Svona er þetta hér í Danmörku. Það er enginn að tala um að þetta sé óréttlátt eða mannréttindabrot hér.

Bætur eiga að taka mið að aðstæðum og fjárþörf fólks.

Það ætti líka að innleiða vinnuskyldu fyrir bótum eins og hér.

Það hjálpar fólkinu sjálfu, kemur í veg fyrir svarta vinnu og hjálpar til við að fylla í láglaunastöður (því fólk vill frekar vinna en að þurfa að sitja námskeið eða slá garða gjá öldruðum).

Svona er þetta hér:

Under 25 år
- Hjemmeboende - 2.956 kr.
- Udeboende - 6.124 kr.
- Gravid og er mindst 12 uger henne i graviditeten - 9.505 kr.
- Med egne børn i hjemmet - 12.629 kr.

Over 25 år
- Udeboende - 9.505 kr.
- Med forsørgelsespligt - 12.629 kr.

Svo máttu heldur ekki eiga neinn sparnað - því þá áttu að ganga á hann fyrst.

Þetta er stórgóð hugmynd hjá Árna Pál. Það mætti ganga ennþá lengra og horfa hingað til Danmerkur hvað þetta varðar. Danin kann á atvinnuleysinu tökin.

Nafnlaus sagði...

Já, það er alveg eins og það sé engin ígrunduð hugsun á bak við þessar tillögur. Enda var Árni Páll með böggum hildar að reyna að útskýra þær í Kastljósinu í gær.

Maður fékk á tilfinninguna að hann vissi eiginlega ekki hvað hann var að tala um. Fór alltaf út í frasana í stað þess að svara. Nú eða að hann sé ekki beittasti hnífurinn í skúffunni. Og það værri virkilega slæmt.

ÞÚB

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir góðan pistil.
Að mínu mati eiga atvinnuleysisisbætur að vera tímabundið öryggisnet fyrir einstaklinga og fjölskyldur. Þær eiga að vera skammtímalausn og sem slíkar þurfa þær að taka mið af aðstæðum hvers og eins. Þær þurfa að vera svo lágar að þær séu á engann hátt betri kostur en að stunda vinnu en samt nægilega háar til framfærslu meðan endurskipulagning fer fram í lífi þess sem tapar vinnunni

mbk
Ólafur Adolfsson

iris sagði...

Félagsmálaráðherra hefur unnið að því undanfarna mánuði að reyna finna úrræði fyrir ungt fólk sem hættir í námi og dettur úr út vinnumarkaðnum.

Að segja aðstoðarmenn (konur í þessu tilfelil) óhæfa og saka ráðherra um annarlegar hvatir eru sleggjudómar gagnvart fólki sem er að reyna að vinna vinnuna sína á sem faglegastan hátt og til þess eins fallinn að drepa niður samræður.

Ég er orðin hundþreytt á svona sandkassaleik fullorðinna karla að skjóta á hvorn annan.

Ráðuneytið er að reyna að finna leiðir til að hvetja ungt fólk til náms eða vinnu. Hvort þessi leið sé líkleg til árangus eða ekki má ræða á málefnalegan hátt. Allavega virðist hún hafa gengið ágætlega í Danmörku og ég þekki Íslendinga sem hafa nýtt sér þau úrræði þar, þar sem þau voru ekki í boði á Íslandi.

Ég fordæmi það hvernig þú talar um aðstoðarfólkið og fullyrðir um annarlegan ásetning ráðherra.

Nafnlaus sagði...

Einn daginn kemst fólk að því að ráðherrann veit meira en lítið um hvað hann er að tala í þessum efnum.

... af persónulegri reynslu tengdri einhverjum honum nákomnum.

Nafnlaus sagði...

Nafnlaus í Danmörku er að rugla saman félagslegri aðstoð sveitarfélaga og A kassa stéttarfélaga. A kassinn samsvarar atvinnuleysistryggingum okkar en þar greiðir hver launþegi iðgjald af tryggingu svo sem hér með tryggingargjaldi.
Dagpeningar A kassa fara ekki eftir aldri né því hvort viðkomandi búi heima hjá foreldrum - réttur fer einungis eftir atvinnuþátttöku og tekjum. Ennfremur eru dagpeningar mun hærri en fram kom í pistli Nafnlauss.
Sjá nánar dagpeningareglur 3F - stærsta stéttarfélagi í Danmörk.
http://www.3f.dk/3F,-d-,dk/Akasseh%C3%A5ndbog/Dagpenge.aspx

Sverrir Albertsson
AFL Starfsgreinafélag

Guðmundur sagði...

Atvinnuleysiskerfið í Danmörku er tvískipt. Grunnkerfi eins og hér og þar til viðbótar eru stéttarfélögin með í gegnum félagsgjaldakerfi sitt tekjutengt kerfi sem kemur ofan á grunnkerfið.
Eins og svo oft áður þegar fólk án þekkingar fer að fikta við hluti koma úr því mótsagnakenndir bastarðar

Nafnlaus sagði...

Þegar þú verður atvinnulaus í Danmörku þá ferðu annaðhvort á dagpenge, kontanthjælp eða starthjælp.

Starthjælp er lægsta upphæðin og er fyrir útlendinga sem hafa ekki unnið sér inn réttindi í Danmörku og eiga ekki rétt á neinu frá heimalandinu.

Kontanthjælp er lægsta öryggisnet fólks em njóta fullra réttinda í Danmörku.

Dagpenge fær maður aðeins ef maður er meðlimur a-kasse. Til þess að verða meðlimur a-kasse þá þarf maður að vinna í heilt ár og borga "tryggingargjald" sjálfur. Þessi upphæð er föst og ekki háð launaupphæð. Einnig eru a-kassar ekki á neinn hátt innan stéttafélaga. T.d. er ég meðlimur IAK en ekki meðlimur af IDA.

Það er einnig hægt að komast inn í a-kassa ef maður var að útskrifast (2 vikna gluggi eftir útskrift) . En þá fær maður líka lægri taxta en fullgildur meðlimur (gargandi mannréttindarbrot?).

Taxtar hjá a-kassa eru 90% af laununum sem þú hafðir en þó aldrei hærra en eftirfarandi:

Fuldtidsforsikrede 725 kr. pr. dag
Dimittender, fuldtid 595 kr. pr. dag

Þetta þýðir í prakis að það er engin tekjutenging. Verkfræðingar eru með um 35.000 kr. á mánuði en væru að fá ca. 15.225 sem atvinnuleysisbætur.

Svo er spurning. Hvoru kerfinu líkist meira hinu Íslenska kerfi?

Er hinn valkvæði a-kasse með sínar ströngu inngagskröfur eins og á íslandi? Eða er íslenska kerfið meira eins og kontanthjælp?

Hvernig myndi það koma út ef það yrðu gerðar sömu kröfur til atvinnulausra á Íslandi og a-kassar gera hér í Danmörku?

Þá held ég að eitthvað yrði sagt.

Hvað sem niðurstaðan verður hjá félagsmálaráðherra þá held ég að það ætti sem fyrst að taka upp "aktivering" sem er í gildi hér. Það á einnig við um þá sem eru í a-kassa. Þá koma inn aldurstakmörkin 30 ára. Þeir sem eru yngri þurfa á fyrstu 3 mánuðum að aktiveres. Hinir fá 6 mánaða olnbogarými.

Annars ber skotið frá þér um "fólk án þekkingar" merki um hroka sem gefur sjálfstæðismönnum ekkert eftir.

Guðmundur sagði...

Stundum verða menn svo breiðir þegar þeir eru nafnlausir og þá er hægt að persónugera án þess að þurfa að standa við eitt eða neitt.

Í pistlinum er sett fram skoðun undirritaðs á þessari breytingu. Hún er ósanngjörn aðför að ákveðnum hópi fólks. Það er verið að mismuna þessu fólki og taka af því réttindi sem það á.

Um það snýst málið. Hinir nafnlausu treysta sér ekki til þess að hrekja þá skoðun og benda hluta af kerfi í Danmörku. Takið eftir = Ekki allt kerfið.

En sama hvernig það er nú þá eru nafnlausir að mæla með því að ríkisstjórnin fái að ganga að þeim sem minnst mega sín og eru að fagna því

Svei ykkur

Nafnlaus sagði...

Þetta sem Nafnlaus segir um stöðuna í Danmörku er ekki allur sannleikurinn. Hluti af því sem kemur frá A kassi kemur frá ríki og hluti kemur frá extra félagsgjaldi sem rennur í A kassann. Við erum hér að borga um helmingi lægra félagsjald en heima á Íslandi. Það er vegna gjalds okkar í A kassan enda fáum við fína tekjutryggingu í okkar A kassa, allavega rafiðnaðarmenn.

Haltu áfram Guðmundur þú ert á réttri braut og hefur stuðning okkar héðan.

Guðmundur sagði...

Við í ASÍ lögðum til að auðlegðarskattur yrði hækkaður í 2% úr 1.25%, það myndi duga til að afla sömu heildarfjárhæðar og nú á að taka af þeim sem minnst mega sín á vinnumarkaði.

Slíkt myndi þýða 800 þúsund krónu skatt á ári fyrir einstakling sem á 200 milljón króna hreina eign og 600 þúsund króna skatt á ári fyrir hjón sem eiga 200 milljón króna hreina eign

Skerðing bótaréttar hjá þessum einstaklingum sem Félagsmálaráðherra sækir að og foreldrum þeirra er hins vegar 900 þúsund krónur á ári!