sunnudagur, 1. nóvember 2009

Í Bítið

Var fyrir austan fjall á föstudagsmorgun að hlaupa í störf eins starfsmanna RSÍ sem sér um orlofssvæði okkar við Apavatn, vegna veikinda hans. Þá hringdi í mig Heimir í Bítinu á Bylgjunni og spurði hvort ég ætlaði ekki að koma í þátt hans á mánudagsmorgun. Hann hefði verið með Ragnar Ingólfsson stjórnarmann hjá VR í þættinum um morguninn, sem hefði sagt ýmislegt ekki par fínt um mig og mín störf fyrir launamenn. „Ég hlustaði ekki á þáttinn, en er það ekki bara fínt“, svaraði ég „Þú ert búinn að senda ummæli hans út, en það skapar þér ekki stöðu til þess að krefjast þess að ég verði þátttakandi í þessu leikriti.“

„Boltinn er hjá þér“ sagði Heimir. „Nei“ svaraði ég „hann er hjá þér. Þú stillir fólki ekki upp með þessum hætti“ Ég hlustaði á þáttinn þegar ég kom heim. Heimir og Ragnar í hörkustuði. Heimir hélt þar því fram sem ég hlustaði á síðar að ég hefði haldið því fram í pistli hér að hann mætti ekki ræða við Ragnar. Það er fortakslaus og ómerkileg lygi. Ég hef sérstaklega tekið fram að gagnrýnendur framsettra sjónarmiða eigi að fá rými, en það sé áberandi að sumir spjallþáttastjórnendur tala aldrei við þá sem verða fyrir því óláni að vera í meirihlutanum (sé vitnað til ummæla þeirra félaga) og hvers vegna meirihlutinn komst að viðkomandi niðurstöðu og á hvaða forsendum.

Ragnar jós athugasemdalaust órökstuddum svívirðingum yfir alla þá sem ekki eru honum sammála, þ.á.m. mig. Gerði mér upp skoðanir. Þessi þáttur er dæmigerður fyrir það sem gagnrýnt er í vaxandi mæli, hina löskuðu umræðu á Íslandi, sem renni út í sandinn því hlutirnir eru persónugerðir.

Ragnar hélt því fram að ég væri pólitískur taglhnýtingur og vinni að því að heilaþvo fólk og ætli m.a. að troða því í ESB. Ragnari kemur ekkert við hvaða pólitískar skoðanir ég hef. Ég var einu sinni í Sjálfstæðisflokknum, sagði mig úr honum þegar hann hallaðist yfir í frjálshyggjuna og hef ekki verið virkur í flokkspólitík síðan.

Ég játa mig sekan um að hafa haldið því fram að við verðum að losa okkur við óvandaða stjórnarhætti, sem hafa valdið miklum sveiflum á krónunni, kalli yfir okkur verðbólgu, háa vexti, sem kalli á greiðsludreifingu eins og verðtryggingu og kaupmáttarskerðingu. Hátt verðlag og fákeppni. Sprotafyrirtæki þrífist ekki í þessu óstöðuga umhverfi. Stjórnvöld leiðrétti endurtekið efnahagsleg mistök með því að fella krónuna, og leiðrétti blóðsúthellingalaust ef verkalýðsfélög geri of góða kjarasamninga, svo vitnað sé í algeng orð forystumanna Sjálfstæðismanna.

Mikil meirihluti ASÍ hefur samþykkt að skoða þá möguleika sem við höfum til þess að losna út úr þessu. Þar á meðal hvort aðild að ESB gæti orðið til þess. Ragnar virðist vera á móti því að þetta verði skoðað. Meirihlutinn þarf ekki að sitja undir svívirðingum Ragnars.

Ég kem frá 6.000 manna sambandi á meðan Ragnar er stjórnarmaður í 30.000 manna sambandi. Hvernig í veröldinni á ég að geta valtað yfir Ragnar? Það eru 19 rafiðnaðarmenn á 290 manna ársfundi, en þeir eru 80 frá VR og 100 frá SGS. Við eigum einn miðstjórnarmann af 18 í ASÍ, þar eru 5 frá VR (báðir forsetar eru frá VR) og 7 frá SGS.

Við í RSÍ mótum okkur sameiginlega stefnu og erum virkir þátttakendur í starfi innan ASÍ og reyndar víðar. Rafiðnaðarmenn eru ekki alltaf sammála og oft hef ég orðið að láta í minni pokann. En það er mitt hlutskipti að kynna og vinna að því að því sem afgreitt er af meirihluta. Jafnvel þó um sé að ræða mál sem ég hafi verið andsnúinn. Það er nefnilega þannig sem félagstarf fúnkerar innan RSÍ og reyndar ASÍ líka.

Nokkrir einstaklingar halda því blákalt fram í spjallþáttum að 110 þús. manns séu viljalaus verkfæri í höndum fárra valdhafa í ASÍ. Með því er verið að lítilsvirða þá fjölmörgu sem koma að mótun stefnu ASÍ. Fullyrt er að ég sé ekki í sambandi við mína félagsmenn og sé í fílabeinsturni. Síðustu kjarasamningar voru gerðir í ársbyrjun 2008 og voru ítarlega kynntir á fjölmörgum fundum og samþykktir með afgerandi hætti í póstkosningu. Við endurskoðun kjarasamninga hélt RSÍ allmarga félagsfundi, rúmlega 500 manns sóttu þá fundi. Auk þess héldu stjórnir og trúnaðarráð 10 aðildarfélaga RSÍ fundi um málið auk 45 manna sambandsstjórnar, 18 manna miðstjórnar og 130 manna trúnaðarráðstefnu. Þar var samþykkt að við myndum ekki standa að uppsögn samninga.

Ef einhver vill segja á upp kjarasamningum hlýtur sá hinn sami hafa borið það upp í sínu félagi. Hann á ekkert með að leyfa sér að skamma önnur stéttarfélög fyrir að fara eftir samþykktum eigin félagsmanna. Það hefur komið fram í fréttum kvölds og morgna í heilan mánuð að málið snúist um hvort SA ætli að segja upp samningum, en Heimir og Ragnar ræða eins og yfir standi viðræður um kaup og kjör og verðtryggingu!? Samningar eru ekki opnir.

Við rafiðnaðarmenn erum langþreyttir á því að vera gert að sitja undir ásökunum um að við förum ekki eftir því sem einhverjir einstaklingar í öðrum stéttarfélögum vilja, eða tökum umræðulaust upp á arma okkar óskalista frá baráttuhópum út í bæ. Með þessu er verið að lítilsvirða félagslegt starf og krefjast þess að gengið sé gegn samþykktum sem teknar eru af meirihluta félagsmanna.

Á ársfund ASÍ fara fram miklar umræður bæði í sal og eins inn í vinnuhópum. Ragnar kom aldrei í ræðustól salsins og lýsti sínum skoðunum. Ég fór tvisvar í ræðustól, fyrri daginn til þess að lýsa niðurstöðu umhverfisnefndar og seinni daginn til þess að mótmæla vinnubrögðum og dylgjum í okkar garð. Ég var ekki í sama vinnuhóp og Ragnar, en mér skilst að þar hafi hann orðið uppvís að fádæma þekkingar- og skilningsleysi á starfsemi stéttarfélaga og lífeyrissjóða.

Stefna RSÍ er mótuð í félagslegu starfi innan RSÍ og komið á framfæri þar sem við á; í opinberum nefndum eða innan ASÍ. Sú stefnumótum fer ekki fram í Bítinu hjá Heimi. Þrátt fyrir það gengur okkur bara prýðilega í RSÍ og rekum gríðarlega sterkt samband. Höfum ráðstafað vel á annað hundrað milljóna til þess að styðja við bakið á atvinnulausa fólkinu okkar það sem af er þessu ári. Rekum lífeyrissjóð þar sem allir stjórnarmenn úr rafiðnaðargeiranum og eru sjóðsfélagar og kosnir. Sjóð sem hefur hækkað réttindi um 47% á síðustu árum og er með mun verðmætari réttindi en aðrir sjóðir eins og t.d. hærri makalífeyri. Þurftum að lækka réttindi í fyrsta skipti á síðasta ársfundi um 6%.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heimir hefur nú aldrei verið nein mannvitsbrekka eins og heyrist í þessum morgunþáttum. Kjánalegt hvernig hann reynir að æsa upp fólk í neikvæðni og heldur að það sé góð umræða. Ég er löngu hætt að hlusta á þennan leiðindaþátt. Auðvitað er "boltinn" ekki hjá þér.
Kv. GH

Nafnlaus sagði...

En ertu í alvörunni ekki að hugsa um að hætta og leyfa öðrum að taka við , einhverjum með nýjar áherzlur?
Þessi þaulsætni verkalýðsrekanda er áberandi. hvað eruð þið að passa uppá,,Lífeyrissjóðina? Hvað ertu með í laun fyrir þetta stúss?

Guðmundur sagði...

Veistu að það er rætt á fundum innan RSÍ, ekki á þessum stað hverjir eru við forystu RSÍ.

Jú ég hef alla tíð greitt í lífeyrissjóð og var einmitt að koma út á vinnumarkað þegar þeir voru stofnaðir og á því mikið af fjármunum í okkar sjóð, auk þess að hafa greitt mjög mikið í séreignarsjóð. Ég á því mikið undir því að sjóðurinn gangi vel og fylgist með því ásamt öðrum rafiðnaðarmönnum.

Mitt aðverk er að passa upp að félagsstarf innan RSÍ sé virkt. Mikill tími fer í vinnustaðadeilur og viðhald kjarasamninga. Umsjón og afgreiðslur úr sjúkrasjóð.

Rekstur stærsta starfsmenntakerfis sem rekið er á vinnumarkaði. Rekstur umfangsmikils orlofskerfis.

Undir minni stjórn starfa um 20 manns og velta RSÍ er um 300 millj. kr. á ári.

Vænti þess að þú hafir sé fréttir nú um helgina um árangur okkar í kjaramálum, en það var í fréttum allra fjölmiðla.

Ég er búinn að vera varamaður í stjórn okkar lífeyrissjóðs í 3 ár og hef fyrir það 5.000 kr. á mán. En það er mikil vinna við að fara yfir allar skýrslur.

Nafnlaus sagði...

Mér finnst alltaf frábært þegar er verið að tala um laun þeirra sem vinna fyrir okkur hvort sem er í verkalýðsfélögum eða lífeyrissjóðum. Auðvitað á að borga góð laun og þeir sem ekki standa sig eiga að fara. Þettað er svipað og þegar fólk fer með bílinn til fúskara og borgar lítið fyrir og er svo hundfúlt, og fær enga leiðréttingu. Nei ég vil borga þeim sem vinna í þessum málum fyrir okkur vel og við getum verið stolt að þeim greiðslum. Eins á að vera með þá sem vinna fyrir okkur að þeir séu stoltir af launum sínum og sinna umbjóðenda Kv Simmi

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur!

Ég les reglulega skrif þín og þakka þér hugleiðingar sem mér finnst oft hitta beint í mark. Að undanförnu hefur þú gagnrýnt harðlega brenglaða umræðuhefð og spjallþætti í fjölmiðlum. Og það veit sá sem allt veit að sannarlega má gagnrýna þessi fyrirbæri. En þó velti ég fyrir mér ákveðinni mótsögn sem mér sýnist augljós og varðar stöðu bloggarans - sem oftar en ekki beinir spjótum sínum að fjölmiðlum. Blogg er opinber vettvangur og deilir því með fjölmiðlum ásamt ýmsu öðru sem menn nota til að skilgreina þá. Ég les þig til dæmis miklu oftar en ég heyri "Í bítið". Mér finnst einkennilegt í því ljósi sjá þig hér hella þér yfir Heimi - og þá í hlutverki fórnarlambs. Ég sé þessi skrif en ekki heyrði ég spjall Heimis og þessa Ragnars. Ætli þú náir ekki til fleiri hér á bloggi þínu en sem nemur hlustendum Í bítið? Þá geri ég ráð fyrir því að þetta samtal ykkar Heimis hafi verið "off rec". Það væri dauðasynd fyrir Heimi sem blaðamann að vitna beint í það en þú hins vegar virðist hafa frítt spil í því sambandi. Er ekki eitthvað bogið við það?

Nei, bara svona til umhugsunar.

Bestu kveðjur,
Jakob Bjarnar

Jóhannes Laxdal sagði...

Takk fyrir svarið Guðmundur, ég setti inn þessa nafnlausu athugasemd hér að ofan en hef nú fundið út hvernig á koma fram undir nafni því ekki hugnast mér nafnleysið :)
Ég hef ásamt fjölmörgum öðrum velt vöngum yfir stöðu verkalýðshreyfingarinnar og hvort ekki sé tími á uppstokkun í forystuliðinu. Þú hefur til dæmis verið í forustu fyrir RSÍ æði lengi og kann það að skýra geðvonsku þína gagnvart þeirri gagnrýni sem hefur komið fram og kastljósi fjölmiðlanna sem þú vilt helst forðast. Þeir sem sitja of lengi á sömu valdapóstunum fara smám saman að finnast þeir eiga viðkomandi stöður og sérhver gagnrýni er þá skilgreind sem persónulegt skítkast og alls ómaklegt. Ég ætla ekki að ræða ASÍ og forsetann ykkar hér, en bendi bara á að Gylfi situr ekki í umboði 110 þús félagsmanna aðildarfélaganna heldur þeirra fulltrúa sem kusu hann og ég veit að þú veist að í hverju verkalýðsfélagi ræður lítil klíka öllu en ekki samnefnari hins almenna félagsmanns, Svona er það bara. En nú virðist vera að myndast vakning fyrir því að þessu kerfi verði að breyta.
Í þessari athugasemd fellst engin gagnrýni á störf þín fyrir RSÍ

Gangi þér vel

Guðmundur sagði...

Já Jóhannes.
Var með 100 manna félagsfund í dag. Þriðji félagsfundurinn á stuttum tíma. alltaf jafn mikil aðsókn.

Ótrúlegt hversu mikill munur á þeim jákvæðu og málefnanlegu viðhorfum sem maður mætir á félagsfundum eða svo hinni neikvæðu niðurrifsumræðu sem fram fer í fjölmiðlum og víðar.

Mínir menn alltaf jafnundrandi á því að fólk utan úr bæ sem ekki er félagsmenn, sé að skipta sér að starfsemi RSÍ, sem gengur ákaflega vel og mikil eindrægni er um.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur

Þetta er með betri yfirhalningum sem ég hef séð um þessi mál og kverúlantasækni ljósvakavíkinganna.

Takk fyrir - óþolandi að einhverjir stjórnarmenn í stóru félögunum í einhverri mikilmennsku séu að skipta sér af okkar innri málum.

Þú hefur okkar stuðning
Kv. félagsmaður

Nafnlaus sagði...

Heyrðu nú Jóhannes

Guðmundur reif upp starfmenntakerfi rafiðnaðarmanna og gerði það að öflugasta menntakerfi atvinnulífsins

Hann tók svo við RSÍ fyrir rúmlega 14 árum síðan og hefur á þeim tíma gert að sambandið að öflugasta sambandi verkalýðshreyfingarinnar og leitt það öruggri hendi í gegnum mikla erfiðleika og ekki bara stýrt hér heima heldur að auki verið um í 6 ár formaður norræna rafiðnaðarsambandsins, 160 þús. manna sambands.

Þrátt fyrir að RSÍ sé lítið í samnburði við þau stóru hefur RSÍ gríðarleg áhrif vegna öflugrar málefnanlegrar vinnu.

Guðmundur var kosinn með fullum stuðning á síðasta sambandsþingi RSÍ 130 manna þingi til 4 ára eða til 2011.

Hann verður vonandi endurkjörinn og hefur mikinn stuðning enn og við þurfum enga utanaðkomandi aðstoð við að kjósa okkur forystumann

Kv annar félagsmaður