mánudagur, 2. nóvember 2009

Jákvætt hugarfar

Það kemur mér alltaf jafnskemmtilega í opna skjöldu þegar ég hitti félagsmenn mína og mæti þeirri málefnalegu umræðu sem þar fer fram og jákvæðninni í stað neikvæðrar niðurrifsumræðu hinna kverúlantasæknu ljósvakavíkinga og illskiljanlegrar stefnulausrar umræðu stjórnmálamanna. Eins og einn félagsmanna orðaði það svo ágætlega í dag.

Er búinn að halda þrjá félagsfundi síðustu viku. Sauðárkrók, Akureyri og svo í Reykjavík í dag. tæplega 100 manns sóttu fundinn í dag og um 50 sóttu hina fundina. Ný skoðanakönnun Capacent sýnir mun sterkari stöðu rafiðnaðarmanna á vinnumarkað en spáð hafði verið.

Meðalheildarlaun eru um 470 þús. kr. á mán. Vinnuvikan er 42 klst. og daglaun eru 370 þús. kr. Atvinnuleysi er um 4%, þrátt fyrir metfjölgun í sveinsprófum í rafiðnaðargreinum. Um 400 nemar hafa lokið sveinsprófum í rafiðnaðargreinum á síðustu 2 árum og um 600 eru í rafiðnaðarnámi.

Rafiðnaðarmenn hafa á undanförnum árum ítrekað bent á að loforð stjórnmálamanna um stóriðju í hverjum firði kosti gríðarlegar virkjanir mun meiri en raunhæft er að ráðast í sé litið til núverandi tæknilegrar getu við byggingu jarðvarmavirkjana.

Síðasta áratug hefur fjöldi rafiðnaðarmanna tvöfaldast frá 3.000 í 6.000. Sé skoðað hvert rafiðnaðarmenn hafa sótt ný störf á undanförnum árum, blasir við að engin fjölgun hefur verið í byggingariðnaði, landbúnaði og sjávarútvegi. Öll fjölgun starfa rafiðnaðarmanna er að finna í hátæknistörfum, hjá sprotafyrirtækjum.

Við blasir að íslendingar geta byggt upp enn öflugri hátækniiðnað. Iðnað sem flytur lítið inn en mikið út.Verðmætasköpun hins velmenntaða íslenska vinnumarkaðar og hæfilegrar nýtingar orkunnar. Uppbyggingu rafbílaframleiðslu og minnkun jarðefnanotkunar.

Til lengri tíma verður að líta til þess að hér verði gjaldmiðill sem bíður upp á stöðugleika. Verðbólga verði það lág að vextir verði innan við 4,5% og verðtrygging afnuminn. Það þarf að skapa 20 þús. störf á næstu fjórum árum svo meðalatvinnuleysi íslensks vinnumarkaðar fari niður fyrir 5%. Ef það tekst munum við á árinu 2013 hafa endurheimt þau lífskjör sem við bjuggum við á síðasta ári.

Krónan hefur reynst okkur ákaflega dýrkeypt. Hún hefur stuðlað að miklum sveiflum vegna agalausrar hagstjórnar. Sveiflurnar hafa kallað á að meðaltali 3,5% hærri vexti en þeir þyrftu að vera og verðtryggingu. Nærtækasti kosturinn er að sækja um aðild að Evrópusambandinu og láta reyna á hvert við komumst í slíkum viðræðum um forræði í auðlindamálum. Það eru nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort við eigum kost á ásættanlegri lausn.

Gildismat hefur breyst á undangengnum áratugum. Hógværð hefur vikið fyrir öðrum gildum. Græðgi hefur markað för og krafan hefur verið endalaus velgengni. Alvarlegasta ógnunin við framtíð Íslands er skuldsetning hugarfarsins þar sem vantrú ríkir á öllu sem viðkemur einkaframtaki. Hugarfarsbreytingu þarf ef atvinnulífið á að skapa 20 þúsund störf fyrir árið 2013. Það gerist ekki með því að fjölga störfum hjá ríkinu, það gerist í atvinnulífinu. Við eigum að leggja áherslu á að laða fram jákvæðni, áræðni og frumkvæði.

Þýðingarmesta verkefni okkar er að stuðla að víðtækri sátt um stöðugleika. Styrkleiki okkar liggur meðal annars í miklum náttúruauðlindum, sterkum lífeyrissjóðum, hlutfallslega meira af ungu fólki en hjá öðrum Evrópuþjóðum. Helsti styrkleiki þjóðarinnar liggur í hugarfari; þrautseigju og mestu atvinnuþátttöku sem þekkist í vestrænu landi. Við megum ekki missa þennan styrkleika niður.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góð grein hjá þér Guðmundur.

Þræll #83

Nafnlaus sagði...

Heir Heir - frábær færsla

Nafnlaus sagði...

Þakka góðan fund, það eru svona fundir sem ég held að fólk hafi áhuga á enn fjölmiðlar ekki. Þarna voru menn upplýstir um stöðuna og hvað væri forsaga margara mála. Það mættu vera fleirri svona fundir og mæli með að þeir væru á tveggja mánaða fresti, t.d næsti fundur um miðjan janúar. Kv Simmi