miðvikudagur, 25. nóvember 2009

Klisjurnar

Eitt af því sem einkennir íslenska umræðulist eru rakalausar fullyrðingar, klisjur sem menn hafa einhvertímann búið til í pólitísku karpi og hafa síðan orðið að að einhverjum staðreyndum sem menn byggja síðan framsögn sína á. Þetta leiðir til þess að okkur miðar ekkert í umræðu því hún er einfaldlega innihaldslaust bull.

Lítum t.d. á bullið sem birt var á besta stað í Mogganum í gær frá lögmanni Baldurs; honum finnst það vera pólitísk ofsókn að Baldur sé rannsakaður, þrátt fyrir að fyrir liggur grunur um stórfelld innherjaviðskipti. Baldur hefur verið einn áhrifaríkasti embættismaður Íslands í tvo áratugi. Það er ekki verið að sakfella hann fyrir pólitískar skoðanir. Í raun er lögmaðurinn að segja að þetta hafi verið pólitíska stefna Sjálfstæðisflokksins að hafa hlutabréfamarkaðinn jafngeggjaðan og hann var og þess vegna séu þetta í fínu lagi.

Eða leiðara Fréttablaðsins í dag: „Ríkisstjórnin er ekki vinstristjórn, eins og það heiti hefur verið skilið hingað til, heldur fyrsta sósíalistastjórn á Íslandi. Allir vita að sósíalistum fellur vel að eyða arði sem frjálst atvinnulíf hefur skapað, en sósíalistum er fátt verr gefið en að blása lífi í frjálst athafnalíf eða örva það til verðmætasköpunar með arðbærum rekstri til kjarabóta fyrir almenning.”

Allir vita að Norðurlöndum eru eitt stærsta hagkerfi heimsins, það sem gengur best og þar sem lýðræði virkar best og þar sem mestur friður og öryggi borgaranna ríkir.

Getum við ekki losnað við þessa gömlu innihaldslausu frasa og farið að tala saman eins og alvöru fólk?

Þessi bjálfalegi frasi gengur upp í íslenskri umræðu og virðast reyndar munu treysta ofurveldi sjálfstæðismanna á ný eins og skoðanakannanir sýna. Sjálfstæðismenn hræða fólk með brjálæðislegum sköttum sem með upphrópunum sem eru rakalaust bull í himinblámann.

Þeir eru að berjast gegn því að ríka fólkið verði skattlagt og þeir sem minna megi sín losni undan þeirri skattpíningu sem þeir sjálfir komu á. Þessa leið styðja núverandi forystumenn Framsóknar og ætla sér að komast með Sjálfstæðismönnum aftur í ríkisstjórn hinna ríku.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Guðmundur, þetta eru engir frasar heldur staðan eins og hún er.

Það kætir vissulega vinstrimenn að sá eini sem verulega hefur veri þjarmað að vegna hrunsins, er Sjálfstæðismaðurinn Baldur Guðlaugsson sem jafnframt er einn nánasti vinur Davíðs.
Fátt eitt gleður vinstrimenn meira, nema ef vera skyldu skattahækkanir núverandi stjórnar, því þeir vita að allir aðrir en þeir koma til með að greiða þessa auknu skatta.

Þannig er nefnilega mál með vöxtum að allar skatthækkanir koma ekkert sérlega illa við flesta vinstrimenn
Ástæður þess er margar og er hægt að nefna eftirfarandi:

- Flestir vinstrimenn eru í láglaunastörfum.

- þar að auki eru margir vinstrimenn oft ekki í reglulegri vinnu, heldur í einhverju óskilgreindum verkefnum, sem gefa möguleika á skattaundanskotum, eða þá eru atvinnumótmælendur, sem sjaldan gefur nokkuð í kassann fyrir þá.

- Margir vinstrimenn eiga sjaldan verulegar eignir t.d. húsnæði eða bíla, en allt eru þetta hlutir sem hægt er skattleggja verulega t.d notkun þeirra.

Tilraun með sósíalisma var hætt í A-Evrópu árið 1989, enda leiddi þessi tilraun einungis hörmungar og eymd fyrir þegna þessara ríkja og einna þó verst í Rúmeníu.
En hvers vegna á að taka þessa tilraun upp hér á landi 20 árum síðar?

Kveðja:

Vilhjálmur St.

Agnar Kr. Þorsteinsson sagði...

Þetta er fáránleg orðræða hjá þeim, sérstaklega með tilliti til þess að eftir hermdarverk Sjálfstæðisflokksins gegn þjóðinni, þá var ekki til króna í kassanum.

Nada, ekkert og svo dirfast þeir að koma fram þessi iðrunarlausu og samviskulausu fól og garga um að allt sé öðrum að kenna og að það megi ekki grípa til aðgerða til að halda samfélaginu gangandi.

Svo koma stjórnmálamenn og viðskiptalífið sem hefur sett þjóðina á hausinn sér til gróða og heimta að hér eigi að ríkja sátt á meðan þeir keppast við að ala á sundrung sjálfir...gleymið því, það verður ekki friður né sátt á meðan Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínu striki í herferð sinni í þágu yfirstéttar afætna kvótagreifa og auðmanna, með vikadrengum sínum í Framsókn.

Nafnlaus sagði...

Já það er stór furðulegt hvað fólk hleypur eftir svona klisjum eða upphrópunum. Og fólkið sem helst styður þessa flokka er fólk sem hefur tæplega meðallaun. Allt sem þessir flokkar hafa verið að gera hefur ekki stutt við bakið á þessu fólki (kanski flest) Þess vegna segi ég oft að við getum ekki kallað okkur vel mentaða og upplýsta þjóð. Svona álíka mikið rugl þegar fólk segir að það sé ekki stétta skifting á Íslandi. Kv Simmi

Nafnlaus sagði...

Norðurlöndin eru ekki eitt stærsta hagkerfi heimsins. Þau komast ekki einu sinni á topp 10 listann yfir stærstu hagkerfi heimsin. Sjá: http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_countries_by_GDP_(nominal)

Auk þess eru þetta bara ekki góð rök. Kína er þriðja stærsta hagkerfi heimsins en ekki viljum við stjórnarhætti eins og þar tíðkast.

Nafnlaus sagði...

Kolkrabbinn sér um sína. Minni t.d. á grein sem Hermann Guðmundsson, forstjóri Kolkrabbafélagsins N1 skrifaði um mál Baldurs Guðlaugssonar og innherjaviðskipti hans:

„Í mínum huga þá er það grundvallarréttur og skylda hvers manns að verja sig og sína fjölskyldu fyrir áföllum og forða tjóni þar sem það er hægt. Hvað er til ráða þegar svona aðstæður koma upp?”
Sjá: http://pressan.is/pressupennar/LesaHermann/baldur-gudlaugsson-og-hlutabrefin


Ég minni ennfremur á að Baldur Guðlaugsson sat á sínum tíma í einkavæðingarnefnd, var settur þangað inn eftir að Steingrímur Ari Arason sagði sig úr nefndinni með þeim orðum að hann hefði aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum, en í þeim glæpaverkum er að finna upphafið að þeirri ógæfu sem íslenska þjóðin er föst í.

Kveðja, þræll #83

Nafnlaus sagði...

Nafnlaus 25. nóv. 12.34.

Sósíaldemókratísku Norðurlöndin fjögur, Sv, No, Dk og Fi eru skv. þessum lista sem þú vísar í 8.-9. stærsta hagkerfi heims með 1.654.488.000.000 usd GDP.

Dr. No