laugardagur, 7. nóvember 2009

Neðanjarðarhagkerfið

Sé litið þróunar undanfarinna ára eftir að frjáls för verkafólks varð almennari á evrópskum vinnumarkaði, þá hefur neðanjarðarhagkerfið vaxið hratt og tugir milljarða eru ekki að skila sér til samfélagsins. Auk þess þurfa stofnanir samfélagsins að þjónusta einstaklinga, sem ekki hefur greitt af nein tryggingargjöld og hafa engin réttindi. Slösuðu fólki er ekki varpað á dyr, en kostnaður vegna þessa hefur vaxið gríðarlega og sumum svæðum þar sem mikið er um erlendra farandverkamenn, þá ráða heilsugæslustöðvar ekki við vaxandi verkefni og ekki nein leið að leita eftir auknu fjármagni vegna þess að svo stór hluti fólksins er ekki til í opinberum gögnum.

Svört atvinnustarfsemi þrífst í skjóli undirverktöku og ólögleg starfsemi þrífst í þessu umhverfi, jafnvel harðsnúin glæpastarfsemi eins og t.d. mansal. Verkafólk er flutt á milli landa og nýtur ekki lágmarksréttinda og er gert að búa við óviðunandi aðstæður, fær takmarkaðan hluta launa og nýtur ekki tryggingarverndar, lögbundins frítíma og veikindaréttar.

Noregur er það norrænu landanna sem er komið lengst í að taka á þessu vandamáli með því að setja skýrar reglur um ábyrgð aðalverktaka. Þessar reglur nefndar „Samábyrgð“ og verða innleiddar 1. janúar 2010. Þar er kveðið á um að kjarasamningar ákvarði laun og kjör allra sem eru á norskum vinnumarkaði, og það sé á ábyrgð aðalverkataka. Það sé við hann sem sé samið um viðkomandi verkefni.

Reynsla norðmanna er sú að röð undirverktaka hver undir öðrum í skjóli þess að einungis sé hægt að sækja að aðalverktaka, sem síðan víkur sér undan allri ábyrgð á undirverktökum sínum. Þetta er ekki óþekkt hér á landi. Þannig hefur þessi starfsemi þróast án þess að hægt sé að taka efnislega á henni, sem hefur leitt til margskonar undanskota frá ábyrgð, sem hefur leitt til þess að samfélagið og launamenn hafa beðið umtalsverðan skaða. Hér einnig bent á að oft er ekki hægt að ná fram lagfæringum á verksvikum og efnislegum frágangi. Undirverktakasamfélagið er röð kennitalna, sem sumar hverjar verða nánast gjaldþrota í lok hvers vinnudags.

Gengið er frá verksamningum við aðalverktaka sem uppfylla öllu sett skilyrði samfélagsins, en síðan komast undirverktakar upp með að stinga undan umtalsverðum hluta af réttindum og kjörum starfsmanna sinna. Hér er ekki einungis átt við laun, heldur er vinnutíma oft óhóflega langur, launamenn njóti ekki veikindaréttar, lögbundinna frídaga, lágmarkstrygginga og orlofs og þannig mætti lengi telja. Auk þess er ekki skilað tilskildum gjöldum til samfélagsins og viðkomandi starfsmaður réttindalaus í samfélaginu.

Samkvæmt nýju lögunum á hvaða starfsmaður sem er sem vinnur við tiltekið verk að geta leitað til aðalverktaka og krafist þess að hann njóti réttra launa og allra lögbundinna kjara og aðbúnaðar. Aðalverktaka eru gefnir 3 mán til þess hafa samband við þann undirverktaka sem starfsmaðurinn vinnur hjá og koma máli viðkomandi starfsmanna í réttan farveg.

Á hinum norðurlandanna eru lög og reglur um þessi mál óskýrari. Í Danmörku voru 1. janúar 2009 sett lög um ábyrgð aðalverktaka á virðisaukasköttum í öllu verkinu og gegnum það kerfi hafa Danir getað fylgst að nokkru með starfsemi undirverktaka. Á norðurlöndunum öllum eru skýr ákvæði um öryggismál á vinnustöðum, en töluverður brestur á að því sé fylgt eftir.

Slys á byggingastöðum eru langflest slysa á vinnumarkaði. Mörg dæmi eru þekkt, t.d. vakti það gríðarlega reiði í Noregi fyrir 2 árum þegar verkamaður fannst stórslasaður á fáförnum vegi upp í sveit. Hann talaði ekki norsku. Vinnuveitandi hans hafði farið með hann á þennan stað og skilið hann þar eftir til þess að komast hjá því að þurfa að fara með hann á slysavarðstofu, en þar hefði komist upp að vinnuveitandinn hafði svikist um að greiða öll tryggingargjöld og skatta af fjölmörgum erlendum starfsmönnum sínum.

Deilur hafa snúist um að tryggja lágmarkslaun og félagsleg undirboð. En reynslan hefur þó sýnt og það á m.a. við um reynslu Rafiðnaðarsambandsins að þó svo takist að fá verktaka til þess að fara að kjarasamningum um kaup og kjör, þá er ekki tryggt að viðkomandi starfsmaður haldi þeim launum þegar heim er komið. Hér er vísað til til rússnesku línumannanna sem settu upp Búrfellslínu 2. Þegar línumennirnir komu til síns heima í Úkraníu að loknu verki komu handrukkarar komu heim til þeirra og sóttu þær leiðréttingar á launum sem RSÍ hafði náð fram er þeir fóru heim í verklok. Einnig má benda á þau slagsmál sem stéttarfélögin og eftirlitsstofnanir á vinnumarkaði þurftu ítrekað að taka við undirverktaka á Kárahnjúkasvæðinu.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábær pistill og tímabær.
Ég sá fyrir nokkrum vikum þátt í sænska sjónvarpinu um berjatínslu í Svíþjóð. Fyrirtæki flytur inn hundruð Tælendinga með gylliboðum um miklar tekjur. Þetta gera þeir í gegnum önnur fyrirtæki (í Tælandi). Í Svíþjóð þurfa Tælendingarnir að sjá um að koma sér í berjalöndin þannig að Svíarnir selja þeim gamlar druslur á okurverði.
Það var sama hve mikið Tælendingarnir þræluðu, það náði enginn að þéna það sem þeim var sagt að væri normið. Þá þurftu þeir að borga fargjaldið, bílinn (sem náttúrulega var óseljanlegur í Svíþjóð) Það fóru allir stórskuldugir heim og þar tók við að þeir misstu jörðina sína osfrv.
Það sem truflaði mig mest var að þetta skuli gerast í Svíþjóð. Sjónvarpsmennirnir töluðu við öll yfirvöld sem ættu að sinna þessu: verkalýðsfélag, Vinnumálastofnun, félagsmálayfirvöld.
Það gat enginn hreyft við þessu. Það kom stór blettur á ímynd Svíþjóðar í mínum huga við að sjá þetta.
Þakka þér fyrir að standa vaktina.

Nafnlaus sagði...

Vel skrifað að venju og bent á verðug viðfangsefni

Nafnlaus sagði...

Fínn pistill. Réttmætar ábendingar. Ekki horfa fram hjá öllum þeim peningum sem stolið er frá gömlum og veikum með undandrætti frá sköttum.
Magnús

Nafnlaus sagði...

Eins og þú bendir á Guðmundur þekkjum við þessa baráttu við undirverktaka af Kárahnjúkasvæðinu. Og það var ekki bara að það vandaði löggjöf á borð við þá sem þú nefnir í Noregi, heldur virtist manni að opinberar stofnanir væru hreinlega í liði með gerviverktökunni - sbr. syndaaflausn Gissurar Péturssonar á GT verktökum. Lettnesku verkamennirnir sitja nú eftir með sárt ennið því það voru allir stikkfrí hér á landi.

sjá umfjöllun hér:http://asa.is/index.php?option=com_content&task=view&id=578&Itemid=278

Sverrir Albertsson, AFL Starfsgreinafélag

Guðmundur sagði...

En svo eru þeir að gefa út á kostnað skattborgar skýrlsur þar sem því er ákaft haldið fram að framkvæmdir hafi gengið snurðulaust fyrir sig og athugasemdir verkalýðshreyfingarinnar ætíð reynst tilhæfulausar.
Þrátt fyrir að fyrir liggi bunkar af skýrslum um einhverja sóðalegustu framkvæmd íslandssögunnar.
Og littlu voffarnir segja að verkalýðshreyginin hafi ekkert gert