mánudagur, 23. nóvember 2009

Virkjanakostir

Nokkuð hefur verið spurt um hvaða virkjanakostir séu í boði. Hér er upptalning þeirra sem oftast hafa verið nefndir. Auk þessa eru allmargar bændavirkjanir sem búið er að reisa nýverið eða eru í undirbúningi. Litlar en gætu orðið nokkuð drjúgar í heildina séð (100 MW).

Þjórsársvæðið
Í Þjórsá er Búðarhálsvirkjun 110 MW frágengin og búið gera klárt til þess að grafa jarðgöngin frá Hrauneyjum í gegnum hálsinn að Þjórsá. Í neðri hluta Þjórsár eru áform um 3 virkjanir fyrir neðan Búrfellsvirkjun.

Uppsett afl Hvammsvirkjunar verður 80 MW. Inntakslón verður myndað með stíflu í Þjórsá ofan við Minnanúpshólma og stíflugörðum á austurbakka árinnar. Stöðvarhús verður staðsett nærri norðurenda Skarðsfjalls í Landsveit og verður það að mestu leyti neðanjarðar.

Holtavirkjun verður 50 MW að afli. Inntakslón verður myndað með stíflu í Árneskvísl við bæinn Akbraut í Holtum og stíflugörðum í Árnesi. Veitumannvirki verða byggð við Búðafoss ofan við Árnes og þar verður stærstum hluta Þjórsár veitt í Árneskvísl. Stöðvarhúsið verður staðsett við enda stíflunnar við Akbrautarholt.

Virkjun við Urriðafoss verður 120 MW að afli. Inntakslón verður myndað með stíflu í Þjórsá við Heiðartanga og stíflugörðum upp eftir vesturbakka árinnar. Inntaksmannvirki verða í Heiðartanga og stöðvarhús neðanjarðar nærri Þjórsártúni. Frá stöðvarhúsinu munu liggja frárennslisgöng sem opnast út í Þjórsá nokkru neðan við Urriðafoss.

Þessar neðri virkjanir eru rennslisvirkjanir og lón þeirra eru lítil og ná um 10% út fyrir árfarveginn. Þær nýta enn betur alla vatnsmiðlunina í lónunum fyrir ofan Búrfellsvirkjun.

Skaftárveita
Með Skaftárveitu er fyrirhugað að veita vesturkvíslum Skaftár sem koma undan Tungnaárjökli í Tungnaá, með stíflum milli Fögrufjalla og Skaftárfells. Þar myndi koma 4 ferkm. lón sem nefnt hefur verið Norðursjór. Hætt er við að veita ánni um Langasjó sem miðlunarlón. Með þessu fyrirkomulagi myndi jökulvatn hverfa að mestu úr Skaftá í byggð. Skaftárveita skilar langmestum hagnaði af þeim virkjanakostum sem í boði eru. Hún mun auka vinnslugetu Sigölduvirkjunar, Hrauneyjarfossvirkjunar og allra virkjananna í Þjórsá. Einnig hefur verið bent á möguleika á að veita Hvítá í gegnum jarðgöng fyrir ofan Flúðir yfir í Þjórsá fyrir ofan Hvammsvirkjun. Hér væri um að ræða umtalsverða aukningu í framleiðslugetu þessara virkjana.

Markarfljótsvirkjanir
Í Markarfljótinu eru til skoðunar Sátuvirkjun 120 MW og Emstruvirkjun 100 MW. Þá yrði Markarfljót stíflað með 250 m löngum og háum garði í Fljótsgili ofan við Krók og myndað 11 ferkm. lón á Launfitarsandi, ekki langt frá Álftavatni sem margir þekkja er gengið hafa Laugaveginn. Það næði frá Laufafelli niður Launfitarsandinn í Krók. Vatnið yrði leitt í 0.5 km. göngum í gegnum Sátuhrygginn að orkuverinu og þaðan færi það í árfarveginn aftur.

Aðeins neðar yrði svo Emstrulón sem væri svipað að stærð, það væri myndað með 1.700 m langri stíflu neðst í Markarfljótsgljúfri ofan við Hattfellsgil. Lónið væri á milli Torfatinds og Stóra Grænafjalls að norðan og Stórusúlu og Hattfells að sunnan og næði vestur a Lifrarfjöllum. Vatnið færi um 4.1 km göng að stöðvarhúsi sem yrði neðanjarðar austur undir Einhyrningi og vatnið færi svo í Gilsárfarveg í Markafljótið á aurunum norðan við Þórsmörk.

Hólmsárvirkjun
Hólmsá yrði stífluð efst í gljúfrinu við Einhyrningshamra austan við Einhyrning. Stíflan er 340 m. löng og mesta hæð yrði 42 m. Lón yrði lítið eða um hálfur ferkm. og aðeins miðað við dægurmiðlun, því þessi virkjun 70 MW byggist alfarið á stöðugu grunnvatnsrennsli. Úr lóninu er vatninu veitt um 4 km löng göng að stöðvarhúsi neðanjarðar. Það yrði sunnan við Hattsker á móts við bæinn Snæbýli. Frá virkjun eru 7,6 km frárennslisgöng út í Tungufljóti skammt neðan við Bjarnarfoss.

Vestfirðir
Vestur á fjörðum hefur verið rætt um tvær virkjanir Glámuvirkjun 70 MW. Gert er ráð fyrir að sækja vatn um Glámuhálendið með liðlega 30 km jarðgöngum, með því væri safnað saman 6 ám og þeim veitt niður í Hestfjörð.

Hinn kosturinn er að virkja Hvalá, Rjúkandi og Eyvindarfjarðará á Ströndum í tveimur áföngum. Sá fyrri 30 MW. Í honum eru Rjúkandi og Hvalá teknar saman með miðlunum í Vatnalautum og Efra-Hvalárvatni. Þá hverfa myndarlegir fossar í báðum ám. Með seinni áfanga, svonefndri Eyvindarfjarðarveitu, yrði hún 40 MW.

Skagafjörður
Skatastaðavirkjun 180 MW í Austurdal við Austari Jökulsá í Skagafirði. Nokkru neðar fyrir neðan ármót Vestari og Austari Jökulsánna í Héraðsvötnum ekki fjarri þjóðveg 1 þar sem hann sveigir inn í Norðurárdal, er áformað að reisa Villinganesvirkjun 70 MW.

Rekstraröryggi Villinganesvirkjunar myndi aukast verulega með tilkomu Skatastaðavirkjunar. Þessar virkjanir hafa verið gagnrýndar einkum fyrir það að þær eyðileggja alla möguleika til fljótareiðar í þessum ám. Jökulsárnar í Skagafirði eru taldar sakir sérstaklega góðrar aðkomu og með sínum skemmtilegu gljúfrum gefa bestu möguleika í heimi til uppbyggingar á þessum vinsæla og hratt vaxandi útvistarleik og skapað mikil verðmæti í ferðaþjónustu.

Skjálfandafljót og Arnardalur
Til eru drög að virkjunum í Skjálfandafljóti. Önnur er 70 MW, hún er ofarlega í Bárðardal og kennd við Fljótshnjúk og yrði við Aldeyjarfoss.

Neðar eru Hrafnbjargavirkjanir 100 MW við samnefnda fossa.

Einnig eru til áform um risavirkjun í Jökulsá á Fjöllum með því að veita henni til Kreppu þar sem styst er á milli ánna sunnan Þorlákslindahryggjar. Þeim yrði síðan veitt austur fyrir hrygginn þar sem miðlunarlón yrði myndað með stíflu í Arnadalsá. Vatnið yrði síðan veitt um göng að stöðvarhúsi neðanjarðar og þaðan með frárennslisgöngum út í Jökulsá á Brú. Þar yrði lón og svo önnur göng undir Fljótsdalsheiði og stöðvarhús neðanjarðar með frárennsli í Lagarfljótið. Þetta yrðu stórvirkjanir sem ekki yrðu mikið minni en Þjórsárvirkjanirnar (600MW). En það mun sjálfsagt vefjast fyrir mörgum að Dettifoss myndi minnka allverulega. Þessi virkjun hefur verið nefnd í sambandi við útflutning á orku um streng.

Gufuafl
Þessu til viðbótar eru áform um allmargar gufuaflsvirkjanir þar helst; 50 MW á Reykjanesi, 100 MW í Trölladyngju, 300 MW á Hellisheiði, Hágöngu er 120 MW, Krafla 160 MW, Bjarnaflag 80 MW, Þeistareykir 120 MW, Gjástykki 40 MW. Einnig eru til frumdrög af gríðarlega miklum gufuaflsvirkjunum á Torfajökulssvæðinu með um 500 MW orku.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Varðandi Skjálfandafljót og Eystri-Jökulsá hefur líka komið til tals að veita þeim eða a.m.k. stórum hluta þeirra, suður af í Þjórsá. Það hefur þann kost, að auka mjög afl virkjana í Þjórsá/Tungnaá, en spara á móti í hagstæðar línulagnir til notenda, sem eðli málsins samkvæmt yrðu líklega að mestu leyti á Suður- og Suðvesturlandi, t.d. áformuð gagnaver ofl.

Unknown sagði...

Mátt ekki gleyma miðlunarlóninu í eldhúsvaskinum heima. Örugglega hægt að fá einhver wött út úr því.
Annars legg ég til að suðurnesjamenn taki nú höndum saman og safni eigin skólpi og búi til myndarlegt miðlunarlón á miðnesheiðinni til að skapa þá orku sem þarf fyrir álbræðsluna þeirra og hætti þessu kvabbi og aumingjaskap!

Nafnlaus sagði...

Ja hérna ´þetta er með ólíkyndum þakka lokaorðin
Kv SI

Nafnlaus sagði...

engin er eins blindur og sá sem ekki vill sjá

PHP